Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 15. nóv. 2017

505/1998

Reglugerð um áfengisgjald.

I. KAFLI Gjaldskylda, gjaldskyldir aðilar, gjaldflokkar.

1. gr. Gjaldskylda.

Greiða skal í ríkissjóð sérstakt gjald, áfengisgjald, af áfengi samkvæmt reglugerð þessari.

Áfengi telst vera hver sá vökvi sem í er meira en 2,25% af vínanda að rúmmáli. Áfengismagn og áfengisinnihald skal ákveða við 20°C.

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skulu vörur sem innihalda meira en 2,25% af vínanda, en eru óhæfar til neyslu og ekki er hægt að gera neysluhæfar, undanþegnar áfengisgjaldi.

2. gr. Gjaldskyldir aðilar og skráning.

Gjaldskyldir eru allir þeir sem flytja inn áfengi eða framleiða áfengi hér á landi, til sölu eða vinnslu.

Enn fremur skulu þeir greiða áfengisgjald sem flytja áfengi með sér til landsins eða fá það sent erlendis frá, til eigin nota.

Ríkisskattstjóri skal halda skrá yfir gjaldskylda aðila skv. 1. mgr. Eigi skal færa aðila á skrá nema hann hafi tilskilið leyfi ríkislögreglustjóra skv. 6., 8. og 9. gr. áfengislaga nr. 75/1998.

3. gr. Gjaldflokkar.

Áfengisgjald skal vera sem hér segir á hvern sentílítra af vínanda í hverjum lítra hins áfenga drykkjar samkvæmt flokkun hans í tollskrá:

1. 58,70 kr. á hvern sentílítra umfram 2,25 sentílítra af öli sem flokkast í vörulið 2203, svo og af vörum sem innihalda blöndur af öli og óáfengum drykk og flokkast í vörulið 2206.

2. 52,80 kr. á hvern sentílítra umfram 2,25 sentílítra af eftirtöldum vörum, enda sé varan að hámarki 15% að styrkleika og innihaldi eingöngu vínanda sem myndast hefur við gerjun, án hvers kyns eimingar:

a. víni sem flokkast í vöruliði 2204 og 2205.

b. gerjuðum drykkjarvörum sem flokkast í vörulið 2206, annað hvort óblönduðum eða þynntum með sams konar óáfengri drykkjarvöru og er að finna í hinni íblönduðu drykkjarvöru (t.d. cider).

3. 70,78 kr. á hvern sentílítra af öðru áfengi.

Gjald skv. 1. mgr. skal reiknast hlutfallslega á brot af sentílítra af vínanda, reiknað með tveimur aukastöfum, og brot af lítra hins áfenga drykkjar.

Ef umbúðir vöru greina ekki magn eða styrkleika áfengis sem aðilar sem tilgreindir eru í 2. mgr. 2. gr. flytja til landsins eða fá sent erlendis frá er tollyfirvöldum heimilt að meta magn eða styrkleika áfengis og ákvarða gjald samkvæmt því.

II. KAFLI Álagning, uppgjörstímabil, gjalddagi o.fl.

4. gr. Álagning.

Áfengisgjald af innfluttu áfengi skal innheimt ásamt aðflutningsgjöldum við tollafgreiðslu nema annað leiði af reglugerð þessari.

Af áfengi, sem framleitt er innanlands til sölu þar, reiknast gjald við sölu eða afhendingu vörunnar frá verksmiðju eða framleiðanda til kaupanda og skiptir ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla fer fram.

Verði rýrnun á vörulager án þess að sala eða afhending komi fram í birgðabókhaldi ber gjaldskyldum framleiðanda ótilkvöddum að greiða áfengisgjald vegna vörurýrnunar á því uppgjörstímabili þegar rýrnunar verður vart.

5. gr. Greiðslufrestur við innflutning.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. er tollstjórum heimilt að veita skráðum innflytjendum greiðslufrest á áfengisgjaldi vegna tollafgreiðslu á innfluttu áfengi.

Hvert uppgjörstímabil vegna greiðslufrests á áfengisgjaldi við innflutning er 1. hvers mánaðar til loka hans. Gjalddagi er annar virkur dagur eftir lok hvers uppgjörstímabils. Innflytjandi skal eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddur greiða tollstjóra áfengisgjald vegna tollafgreiðslna á því tímabili.

Að öðru leyti skal fara um skilyrði, umsókn, tryggingar o.fl. eftir ákvæðum reglugerðar nr. 640/1989, um greiðslufrest á virðisaukaskatti og öðrum aðflutningsgjöldum í tolli, með síðari breytingum, þó að undanskilinni 2. mgr. 4. gr. þeirrar reglugerðar.

6. gr. Gjalddagi og uppgjörstímabil framleiðenda innanlands.

Hvert uppgjörstímabil vegna innlendrar framleiðslu er 1. hvers mánaðar til loka hans.

Framleiðandi skal eftir lok hvers uppgjörstímabils ótilkvaddur greiða innheimtumanni ríkissjóðs, í umdæmi því þar sem hann er heimilisfastur, áfengisgjald sem honum ber að standa skil á.

Áfengisgjaldi af innlendri framleiðslu, ásamt áfengisgjaldsskýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, skal skila eigi síðar en á gjalddaga. Gjalddagi er annar virkur dagur eftir lok uppgjörstímabils.

7. gr. Vangreitt áfengisgjald.

Sé áfengisgjald ekki greitt á gjalddaga, sbr. 2. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 6. gr., skal aðili sæta álagi til viðbótar því gjaldi sem honum ber að standa skil á. Sama gildir ef framleiðandi hefur ekki skilað áfengisgjaldsskýrslu eða henni verið ábótavant og áfengisgjald því áætlað, nema aðili hafi greitt fyrir gjalddaga upphæð er til áætlunar svarar eða gefið fyrir lok kærufrests fullnægjandi skýringu á vafaatriðum.

Álag skv. 1. mgr. skal vera 1% af þeirri upphæð sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.

Sé áfengisgjald ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Dráttarvextir skulu reiknaðir frá og með gjalddaga.

Verði vanskil á greiðslu áfengisgjalds skal tollstjóri synja innflytjanda eða framleiðanda um frekari greiðslufrest meðan vanskil vara.

Ef um er að ræða ítrekuð eða stórfelld vanskil á greiðslu áfengisgjalds, álags skv. 2. mgr. eða dráttarvaxta skv. 3. mgr. getur tollstjóri án fyrirvara stöðvað tollafgreiðslu á öðrum vörum til skuldara eða látið lögreglu stöðva atvinnurekstur skuldarans m.a. með því að setja starfsstöðvar, skrifstofur, útsölur, tæki og vörur undir innsigli þar til full skil eru gerð, enda telji tollstjóri hagsmuni ríkissjóðs ekki verða tryggða með öðrum hætti.

III. KAFLI Eftirgjöf áfengisgjalds.

8. gr. Undanþágur frá áfengisgjaldi.

Eftirfarandi er undanþegið áfengisgjaldi:

1. Sala áfengis úr landi.

2. Innflutningur og sala áfengis til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sbr. lög nr. 110/1951.

3. Innflutningur og sala áfengis í tollfrjálsar verslanir og tollfrjálsar forðageymslur.

4. Innflutningur og sala til aðila sem njóta skattfrelsis hér á landi samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Við sölu til þessara aðila er skilyrði að seljandi hafi í bókhaldi sínu áritaða heimild frá utanríkisráðuneytinu.

5. Innflutningur ferðamanna og farmanna á áfengi við komu frá útlöndum, í samræmi við ákvæði reglugerðar um tollmeðferð vara sem ferðamenn og farmenn hafa með sér við komu til landsins.

6. Innflutningur og sala til lækna og lyfsala sem heimild hafa til að selja áfengi sem talið er upp í lyfjaskrá og selt sem lyf.

7. Innflutningur og sala til framleiðenda sem hafa leyfi til framleiðslu áfengis samkvæmt 6. gr. áfengislaga, í samræmi við ákvæði 12. gr. reglugerðar þessarar.

8. Innflutningur og sala á neysluhæfum vínanda til framleiðslu á óneysluhæfum vínanda til iðnþarfa, efnarannsókna, náttúrugripasafna og annarra verklegra nota, í samræmi við ákvæði 12. gr.

Um endurgreiðslu áfengisgjalds til sendimanna erlendra ríkja við kaup á vörum innanlands fer eftir reglugerð nr. 957/2017, um endurgreiðslu virðisaukaskatts og áfengisgjalds til sendimanna erlendra ríkja.

9. gr. Niðurfelling eða endurgreiðsla áfengisgjalds af innfluttu áfengi vegna síðari sölu eða förgunar.

Tollstjóri skal fella niður eða endurgreiða áfengisgjald sem hefur þegar verið reiknað eða greitt af innfluttu áfengi sem síðar er afhent eða selt úr landi, til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, í tollfrjálsar verslanir, í tollfrjálsar forðageymslur, í almennar tollvörugeymslur, á frísvæði eða til aðila sem njóta skattfrelsis hér á landi samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Umsókn skulu fylgja afrit sölureikninga og önnur þau gögn sem tollstjóri telur nauðsynleg. Að öðru leyti skal fara um endurgreiðsluna eftir ákvæðum reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, með síðari breytingum..

Tollstjóri skal fella niður eða endurgreiða áfengisgjald sem hefur þegar verið reiknað eða greitt af innfluttu áfengi sem síðar er fargað undir eftirliti tollyfirvalda.

10. gr. Frádráttur áfengisgjalds af áfengi framleiddu hér á landi vegna síðari skila til framleiðanda til endursölu eða förgunar.

Við uppgjör innlendra framleiðenda skal þeim heimilt að draga frá þegar greitt áfengisgjald frá fyrri uppgjörstímabilum af áfengi sem framleiðandi hefur móttekið að nýju frá kaupanda til endursölu eða förgunar undir eftirliti ríkisskattstjóra.

11. gr. Áfengisgjaldsskírteini.

Framleiðendur áfengis geta fengið heimild hjá ríkisskattstjóra til niðurfellingar á áfengisgjaldi við eigin innflutning eða kaup á áfengi eða vínanda í framleiðslu sína. Sömuleiðis geta framleiðendur á óneysluhæfum vínanda til iðnþarfa, efnarannsókna og annarra verklegra nota fengið heimild hjá ríkisskattstjóra til niðurfellingar á áfengisgjaldi við eigin innflutning eða kaup á vínanda í framleiðslu sína.

Aðilar sem verða sannanlega að nýta neysluhæfan vínanda til iðnþarfa, efnarannsókna eða annarra verklegra nota geta fengið heimild hjá ríkisskattstjóra til kaupa á vínanda án áfengisgjalds.

Aðilar sem óska eftir heimild til niðurfellingar gjalds við innflutning eða kaup á áfengi eða vínanda samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. skulu sækja um heimild til ríkisskattstjóra. Umsókn skal vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

Telji ríkisskattstjóri að fullnægjandi upplýsingar séu komnar fram gefur hann út sérstakt skírteini til viðkomandi. Í skírteininu skulu tilgreindar heimildir til niðurfellingar gjalds vegna innflutnings eða kaupa á áfengi eða vínanda, eftir því sem við á hverju sinni. Ríkisskattstjóri getur takmarkað magn áfengis eða vínanda sem heimilt sé að fá gjald fellt niður af á grundvelli skírteinis.

12. gr. Niðurfelling og endurgreiðsla gjalds vegna innflutnings eða kaupa skírteinishafa.

Handhafar áfengisgjaldsskírteinis skv. 1. mgr. 11. gr., sbr. 4. mgr. sömu greinar, skulu fá fellt niður gjald við innflutning á áfengi eða vínanda til framleiðslu sinnar.

Innflytjandi getur á gjalddaga hvers uppgjörstímabils fengið endurgreitt gjald af áfengi eða vínanda sem hann hefur flutt til landsins og gjald reiknaðist af við innflutninginn, hafi hann selt vöruna án áfengisgjalds til handhafa áfengisgjaldsskírteinis. Skilyrði endurgreiðslu er að kaupandi framvísi skírteini við kaupin og innflytjandi skrái númer þess og gildistíma á sölureikninginn.

Sækja skal til ríkisskattstjóra um endurgreiðslu skv. 2. mgr. á sérstakri skýrslu sem vera skal á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Á skýrslunni skulu koma fram upplýsingar um sölu þess áfengis eða vínanda sem endurgreiðslubeiðnin snertir, m.a. heiti kaupenda, heildarsölumagn og fjárhæð gjalds sem óskað er endurgreiðslu á. Innflytjanda er heimilt að láta ríkisskattstjóra í té yfirlit yfir þá viðskiptavini sem kaupa af honum vínanda eða áfengi án áfengisgjalds á grundvelli skírteinis og þarf hann þá ekki að tilgreina nöfn kaupenda á skýrslu hverju sinni. Skýrslu skal skilað eigi síðar en tveimur dögum fyrir gjalddaga uppgjörstímabils.

Fallist ríkisskattstjóri á skýrsluna án frekari skýringa skal endurgreiðsla fara fram á næsta gjalddaga þar á eftir.

IV. KAFLI Bókhald og eftirlit.

13. gr. Bókhald og skráning viðskipta.

Gjaldskyldir aðilar skv. 1. mgr. 2. gr. skulu haga bókhaldi sínu og uppgjöri á áfengisgjaldi þannig að skattyfirvöld geti jafnan gengið úr skugga um réttmæti skila þeirra á gjaldinu.

Innflytjendum og heildsölum er skylt að halda birgðabókhald fyrir áfengi. Framleiðendum er skylt að halda framleiðsluskýrslur og birgðabókhald fyrir áfengi. Framleiðsluskýrslur skal halda með þeim hætti að hægt sé með auðveldum og öruggum hætti að rekja hverja átöppun á áfengi til einstakra áfengistegunda og umbúða. Birgðabókhald skal haldið með þeim hætti að hægt sé að rekja sérhverja átöppun eða innkaup frá innflutningsgögnum og innkaupareikningum til færslu í birgðabókhaldi og hvenær sem er bera saman vörubirgðir og niðurstöðu birgðabókhalds. Í birgðabókhaldi þarf að koma fram á aðgengilegan hátt ráðstöfun birgða vegna sölu innanlands, útflutnings, rannsókna, rýrnunar og skýringa á henni eða annarra atriða.

Gjaldskyldur aðili skal skrá sérhverja sölu áfengis á sölureikninga til samræmis við ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattskyldra aðila.

Gjaldskyldur aðili skal veita ríkisskattstjóra upplýsingar um heildarsölu sína skipt niður á viðskiptamenn og tímabil telji hann slíkt nauðsynlegt vegna eftirlits. Kaupendur áfengis sem um getur í 6., 8., 9. og 13. gr. áfengislaga skulu halda sérstaka innkaupareikninga í bókhaldi sínu og veita ríkisskattstjóra sams konar upplýsingar um innkaup sín sé þess óskað.

Um bókhald fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 145/1994, um bókhald, með áorðnum breytingum.

14. gr. Eftirlit.

Ríkisskattstjóri skal hafa eftirlit með starfsemi framleiðenda innanlands samkvæmt reglugerð þessari.

Framleiðanda ber að veita eftirlitsmönnum aðgang að öllum húsakynnum, sem nýtt eru til áfengisframleiðslu og birgðahalds svo og bókhaldsgögnum er sýna hráefnisnotkun og birgðir vöru. Hann skal láta eftirlitsmönnum í té fullnægjandi aðstöðu að mati ríkisskattstjóra þegar þeir sinna eftirlitsstörfum í atvinnuhúsnæði hans.

Ríkisskattstjóri getur ákveðið að átöppun áfengis skuli fara fram undir eftirliti og skal því aðeins taka tillit til rýrnunar að förgun úrgangsefna og skemmdrar eða gallaðrar framleiðslu fari fram undir eftirliti. Hann getur einnig ákveðið að innsigla skuli framleiðslutæki og -búnað svo og geyma og kúta sem notaðir eru undir áfengi sem selt er í miklu magni m.a. til veitingahúsa. Ríkisskattstjóri ákveður gerð og notkun innsigla. Hann getur sett reglur um afskriftir og töku rannsóknarsýna við framleiðslu áfengis.

Um eftirlit ríkisskattstjóra og tollstjóra að öðru leyti fer eftir ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og ákvæðum tollalaga.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

15. gr. Stofn til virðisaukaskatts.

Áfengisgjald myndar stofn til virðisaukaskatts hvort sem vara er flutt inn eða keypt innanlands til eigin nota, framleiðslu eða endursölu.

16. gr. Gildissvið gagnvart tollalögum og lögum um virðisaukaskatt.

Að því leyti sem ekki er ákveðið í reglugerð þessari um gjaldskyldu, gjaldfrelsi, álagningu, innheimtu, stöðvun tollafgreiðslu, upplýsingaskyldu, eftirlit, veð, sektir, viðurlög, refsingar og aðra framkvæmd varðandi áfengisgjald af innfluttu gjaldskyldu áfengi skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði tollalaga, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.

Að því leyti sem ekki eru ákvæði í reglugerð þessari um álagningu, kærur og úrskurði um ákvörðun á áfengisgjaldi, innheimtu, tilhögun bókhalds, framtöl, eftirlit, upplýsingaskyldu, stöðvun atvinnurekstrar, viðurlög, sektir, refsingar og aðra framkvæmd varðandi áfengisgjald af innlendri framleiðsluvöru skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði laga um virðisaukaskatt, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.

17. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum, öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 477/1995, um áfengisgjald, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.