Fjármálaráðuneyti

275/1996

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá, með síðari breytingum.

1. gr.

                Við 1. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein er orðast svo:

                Þjónusta sem felst í endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna skal ætíð undanþegin skattskyldri veltu, enda þótt skilyrðum 1. mgr. sé ekki fullnægt.

 

2. gr.

                6. gr. orðast svo:

                Sá sem greiða skal virðisaukaskatt skv. 4. gr. skal ótilkvaddur gera grein fyrir kaupum á þjónustu skv. 2. eða 3. gr. á sérstöku eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

                Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar frá lokum þess almenna uppgjörstímabils sem viðskiptin falla undir. Greiðslu ásamt greinargerð skv. 1. mgr. skal skila til innheimtumanns ríkissjóðs eigi síðar en á gjalddaga.

 

3. gr.

                Við 8. gr. bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:

                Hafi erlendur aðili sem selur hér á landi skattskylda þjónustu ekki fasta starfsstöð hérlendis ber honum að fela umboðsmanni með heimilisfesti hér á landi að vera í fyrirsvari fyrir sig, þ.m.t. að tilkynna um starfsemina til skattstjóra, innheimta virðisaukaskatt af skattskyldri þjónustu og skila í ríkissjóð.

                Hafi erlendur aðili skv. 2. mgr. ekki umboðsmann eða fyrirsvarsmann hér á landi og vanrækir að tilkynna til skattstjóra um starfsemi sína ber kaupandi þjónustunnar ábyrgð á virðisaukaskattsskilum hins erlenda aðila vegna þeirrar þjónustu sem hann er kaupandi að. Um skattskil í slíkum tilvikum gilda ákvæði 4. og 6. gr.

 

4. gr.

                Við 9. gr. bætist ný málsgrein er orðast svo:

                Komi í ljós að aðili hafi vanrækt að greiða virðisaukaskatt skv. 4. eða 7. gr. eða ekki greitt skattinn á tilskildum tíma skv. 6. gr. skal hann auk hins vangreidda skatts sæta álagi skv. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

 

5. gr.   

                Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 12. og 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. gr. gildir frá 1. apríl 1996.

 

Fjármálaráðuneytinu, 17. maí 1996.

 

F. h. r.

Guðrún Ásta Sigurðardóttir.

Hermann Jónasson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica