Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

203/1970

Reglugerð um húsaleigumál ríkisins.

1. gr.

Reglugerð þessi er sett til þess að tryggja samræmda stefnu um húsaleigu og leigukjör hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum.

Fjármálaráðuneytið, fjárlaga- og hagsýslustofnun, hefur yfirumsjón með húsaleigumálum ríkisins, eftir því sem nánar segir í reglugerð þessari.

2. gr.

Ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum er óheimilt að taka á leigu húsnæði, gera eða breyta leigumálum án samþykkis hlutaðeigandi ráðuneytis og fjárlaga og hagsýslustofnunar.

Ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, sem hyggjast taka á leigu húsnæði eða leigja út húsnæði, skulu að jafnaði leita tilboða með almennri auglýsingu. Að fengnum tilboðum skal send umsókn til hlutaðeigandi ráðuneytis á þar til gerðu tilboðseyðublaði, sem fjárlaga- og hagsýslustofnun gefur út.

3. gr.

Sé um að ræða endurnýjun húsaleigusamninga, skal send umsókn um það skv ákvæðum 2. gr. Sé einungis um að ræða breytingu á grunngjaldi húsaleigu, nægir skriflegt samþykki hlutaðeigandi ráðuneytis og fjárlaga- og hagsýslustofnunar.

4. gr.

Að fenginni umsókn um leiguhúsnæði skal viðkomandi ráðuneyti senda tilboð ásamt umsögn til fjárlaga- og hagsýslustofnunar.

5. gr.

Fjárlaga- og hagsýslustofnun tekur ákvörðun um það, hvort tilboði um leiguhúsnæði verði tekið. Ákvörðun skal tilkynna hlutaðeigandi ráðuneyti svo fljótt sem auðið er. Sé tilboði hafnað, skulu ástæður tilgreindar sérstaklega.

6. gr.

Leigusamningar skulu gerðir á sérstöku samningsformi, sem fjárlaga- og hagsýslustofnunin gefur út.

7. gr.

Forstöðumenn fyrirtækja og stofnana ríkisins undirrita leigusamninga. Til þess að samningur teljist skuldbindandi fyrir ríkið, skal hann einnig undirritaður af hlutaðeigandi ráðuneyti ásamt fjárlaga- og hagsýslustofnun.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett í samræmi við 5. gr. III., 4, reglugerðar nr. 96 31. desember 1969 um Stjórnarráð Íslands og öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytið, 15. september 1970.

Magnús Jónsson.

Gísli Blöndal.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.