Fjármálaráðuneyti

35/1997

Reglugerð um greiðslu barnabóta og barnabótaauka. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um greiðslu barnabóta og barnabótaauka.

 

1. gr.

Almennt.

                Ríkissjóður skal ár hvert greiða barnabætur og barnabótaauka vegna hvers barns innan 16 ára aldurs eins og nánar er kveðið á um í reglugerð þessari. Barnið skal vera heimilisfast hér á landi og á framfæri þeirra manna sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

 

2. gr.

Skerðing barnabóta og barnabótaauka.

                Fjárhæðir barnabóta og barnabótaauka skal skerða um þær barnabætur og hliðstæðar bætur sem framfærandi hefur fengið erlendis á árinu vegna barnsins.

 

3. gr.

Réttur til barnabóta og barnabótaauka.

                Framfærandi barns samkvæmt reglugerð þessari telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok hvers tekjuárs. Sá er greiðir meðlag með barni telst ekki framfærandi í þessu sambandi.

                Hjón, sem skattlögð eru skv. 63. gr. laga nr. 75/1981, teljast bæði framfærendur og skiptast barnabætur og barnabótaauki milli þeirra til helminga. Hið sama gildir um sambúðarfólk sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Sambúðarfólk sem á rétt á barnabótaauka verður að uppfylla skilyrði 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 í lok tekjuársins.

                Sé svo ástatt hjá hjónunum að annar makinn er skattskyldur hér á landi skv. 1. gr. laga nr. 75/1981 en hinn makinn ber ekki ótakmarkaða skattskyldu hér á landi vegna ákvæða samninga Íslands við önnur ríki eða af öðrum ástæðum, þá skal sá maki sem skattskyldur er hér á landi fá fullar barnabætur hjóna vegna þeirra barna hjónanna er dveljast hér á landi.

                Fyrir barn sem öðlast heimilisfesti hér á landi á tekjuárinu skal einungis greiða barnabótaauka í hlutfalli við dvalartíma þess hér á landi á því ári.

 

4. gr.

Ákvörðun barnabóta og barnabótaauka.

                Skattstjóri ákvarðar barnabætur samkvæmt þessari reglugerð og semur skrá um barnabætur hvers framfæranda. Skráin skal send fjármálaráðuneytinu.

                Telji einhver barnabætur sínar eigi rétt ákvarðaðar getur hann leitað til skattstjóra með skriflega beiðni um leiðréttingu. Skal beiðnin lögð fram eigi síðar en 30 dögum eftir útborgun bótanna og studd nauðsynlegum gögnum. Ákvörðun skattstjóra skal liggja fyrir við upphaf næsta útborgunartímabils barnabóta og niðurstaða skal tilkynnt viðkomandi manni um leið og næsta greiðsla barnabóta fer fram.

                Barnabótaauki skal ákveðinn samhliða álagningu tekjuskatts skv. X. kafla laga nr. 75/1981.

 

5. gr.

Skuldajöfnuður barnabóta og barnabótaauka.

                Barnabætur og barnabótaauki greiðast til framfæranda barns að því marki sem eftirstöðvum nemur þegar frá hefur verið dreginn fyrirframgreiddur barnabótaauki og ofgreiddur barnabótaauki frá fyrra ári, vangreiddir skattar og gjöld til ríkis og sveitarfélaga, ofgreiddar húsaleigubætur og vangreidd meðlög til Innheimtustofnunar sveitarfélaga í þessari forgangsröð:

                1.             Fyrirframgreiddur barnabótaauki og ofgreiddur barnabótaauki.

                2.             Tekjuskattur.

                3.             Önnur þinggjöld, sbr. þó 5. tölulið.

                4.             Útsvar og aðstöðugjald.

                5.             Tryggingagjald.

                6.             Vangreidd gjöld maka skv. 1.-4. tölul., þó ekki aðstöðugjald.

                7.             Ofgreiddar húsaleigubætur skv. 19. gr. laga nr. 100/1994.

                8.             Virðisaukaskattur.

                9.             Söluskattur.

                10.           Bifreiðagjald.

                11.           Þungaskattur álagður 10. júní 1996 eða síðar.

                12.           Launaskattur.

                13.           Vangreidd meðlög eftir kröfu Innheimtustofnunar sveitarfélaga.

 

6. gr.

Greiðsla barnabóta.

                Barnabætur samkvæmt þessari reglugerð skulu greiddar út með fjórum ársfjórðungslegum greiðslum. Barnabætur vegna tímabilsins janúar til mars greiðist út 1. febrúar, barnabætur vegna apríl til júní greiðist út 1. maí, barnabætur vegna tímabilsins júlí til september greiðist út 1. ágúst og barnabætur vegna tímabilsins október til desember greiðist út 1. nóvember.

                Barnabætur greiðast frá og með fyrsta ársfjórðungi eftir að barn fæðist eða öðlast heimilisfesti hér á landi til og með þeim ársfjórðungi að 16 ára aldri er náð eða heimilisfesti er slitið.

                Ríkisbókhald ávísar barnabótum til útborgunar hjá ríkisféhirði samkvæmt reglugerð þessari.

 

7. gr.

Greiðsla barnabótaauka.

                Barnabótaauki samkvæmt þesssari reglugerð skal greiddur út með tveimur jöfnum greiðslum. Fyrri greiðslan skal fara fram 1. ágúst en síðari greiðslan 1. nóvember.

                Ríkisbókhald ávísar barnabótaauka til útborgunar hjá ríkisféhirði samkvæmt reglugerð þessari.

 

8. gr.

Fyrirframgreiðsla barnabótaauka.

                Þar til álagning liggur fyrir, skv. 3. mgr. 4. gr, skal ríkissjóður greiða fyrirfram upp í barnabótaauka ársins. Barnabótaauka skal greiða fyrirfram til þeirra framfærenda barna sem nutu barnabótaauka á fyrra ári. Fyrirframgreiðsla skal miðast við þau börn sem voru innan 16 ára aldurs í árslok fyrra árs og heimilisföst hér á landi. Fyrirframgreiðsla barnabótaauka skal vera 50% af greiddum barnabótaauka fyrra árs. Fyrirframgreiðsla skal greidd með tveimur jöfnum greiðslum þegar frá hafa verið dregin vangoldin gjöld skv. 1. - 13. tölul. 5. gr. reglugerðar þessarar. Fyrri greiðslan skal greiðast út 1. febrúar en seinni greiðslan 1. maí.

 

9. gr.

Leiðrétting barnabóta og barnabótaauka.

                Komi í ljós að maður hefur ranglega notið bóta samkvæmt reglugerð þessari eða bætur hafi verið ákvarðaðar of háar skal skattstjóri leiðrétta þær. Um slíka leiðréttingu gilda ákvæði 95. gr. og 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eftir því sem við getur átt.

 

10. gr.

Gildistaka.

                Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í A-lið og B-lið 69. gr. og 119. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, öðlast gildi þegar í stað.

 

Fjármálaráðuneytinu, 10. janúar 1997.

 

F. h. r.

Bragi Gunnarsson.

Ragnheiður Snorradóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica