Fjármálaráðuneyti

237/1998

Reglugerð um ríkisábyrgðir, Ríkisábyrgðasjóð og endurlán ríkissjóðs.

1. gr.

          Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingu nema heimild sé veitt til þess í lögum. Ábyrgðar- eða endurlánsheimild í fjárlögum er heimilt að geyma til 1. apríl næsta árs á eftir því ári, er fjárlög taka til, sbr. 38. gr. laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins. Lagaheimild ríkissjóðs til að takast á hendur ábyrgðarskuldbindingu eða veita endurlán gefur aðila aldrei rétt til að krefjast ábyrgðar eða láns. Fjármálaráðherra ákveður hvort nýta skuli lagaheimild til ábyrgðar og endurláns. Yfirlýsing um ríkisábyrgð skal undirrituð af fjármálaráðherra eða Ríkisábyrgðasjóði, sbr. 5. gr. laga nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins.

            Ákvæði reglugerðar þessarar gilda einnig um endurlán ríkissjóðs eftir því sem við á.

2. gr.

            Ábyrgð ríkissjóðs er annað hvort einföld ábyrgð eða sjálfskuldarábyrgð. Ríkissjóður gengur ekki í sjálfskuldarábyrgð, nema slíkt sé tekið fram beinum orðum í lögum þeim, sem ábyrgð heimila. Í ábyrgðaryfirlýsingu skal skýrum orðum tekið fram, ef um sjálfskuldarábyrgð er að ræða.

            Sé í ábyrgðarheimild ekkert tekið fram um hvers konar ábyrgð sé að ræða, nær heimildin einungis til einfaldrar ábyrgðar. Nú er í ábyrgðaryfirlýsingu einungis kveðið á um að ríkissjóður takist á hendur ábyrgð, og er þá um einfalda ábyrgð að ræða.

            Ríkissjóður tekst einungis á hendur ábyrgð á skuldabréfum, sem skráð eru á nafn skuldareiganda. Framsöl á skuldabréfum þessum skulu tilkynnt Ríkisábyrgðasjóði. Skilmálum skuldabréfanna má ekki breyta nema með samþykki Ríkisábyrgðasjóðs. Ábyrgð ríkissjóðs er einungis gild gagnvart skráðum og tilkynntum eiganda skuldabréfanna.

3. gr.

            Ríkissjóður má ekki takast á hendur ábyrgð fyrir aðila, sem er í vanskilum við ríkissjóð eða Ríkisábyrgðasjóð nema sérstaklega hafi verið um greiðslur samið.

            Ábyrgð skal að jafnaði því aðeins veita, að sá sem ábyrgðar óskar, þarfnist lánsfjár til nýrra framkvæmda, kaupa á rekstrartækjum eða endurbóta á mannvirkjum eða tækjum. Í þessu sambandi teljast framkvæmdir, endurbætur og tækjakaup, sem eru eldri en þriggja ára, aldrei til nýrrar fjárfestingar.

            Ábyrgð má eigi veita nema eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:

 1. Ef lánsfjárþörfina er ekki hægt að uppfylla á almennum lánamarkaði án ábyrgðar og sýnt þykir að starfsemin sé hagkvæm.
 2. Ábyrgðarþegi leggi fram a.m.k. 20% af heildarfjárþörf verkefnisins.
 3. Ábyrgð ríkissjóðs nemi ekki hærra hlutfalli en 75% af lánsfjárþörf verkefnisins sem veitt er ríkisábyrgð til.

4. gr.

            Án sérstakrar lagaheimildar má ríkissjóður ekki takast á hendur ábyrgð, nema sett sé trygging af hendi skuldara gagnvart lánveitanda eða Ríkisábyrgðasjóði. Veðtrygging skal tekin í verðmætum þeim sem aflað er fyrir lánsfé það, sem ábyrgð er veitt fyrir, og rekstrareignum, sem þeim verðmætum eru tengdar, svo og öðrum eignum ef ástæða þykir til.

            Setji skuldari fasteignaveð til tryggingar greiðslu skuldar, sem ríkissjóður tekur ábyrgð á, skal við það miðað, að skuldir þær, er á fasteignaveðinu hvíla að meðtalinni þeirri skuld, sem ríkissjóður tekur ábyrgð á, nemi aldrei meiru fé en sem svarar 70% af matsverði fasteignar, sbr. 7. gr. enda sé eigi annað tekið fram í lögum um ábyrgðarheimildina. Sama gildir ef um er að ræða veðtryggingu í skipum eða flugvélum.

5. gr.

            Ábyrgðarþegi skal við veitingu ábyrgðar eða endurláns, greiða áhættugjald fyrir hvert ár lánstímans er reiknist 0,25-4,00% af höfuðstóli ábyrgðarskuldbindingar eins og hann er að meðaltali yfir lánstímann. Áhættugjald skal ákveðið af Ríkisábyrgðasjóði og taka mið af þeirri áhættu sem talin er vera af ábyrgðinni. Auk þess skal ábyrgðarþegi greiða afgreiðslugjald skv. gjaldskrá sem fjármálaráðherra setur sbr. 9. gr. laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir. Lánveitandi annast innheimtu áhættu- og ábyrgðargjalda og greiðir Ríkisábyrgðasjóði gegn afhendingu ábyrgðarskjala.

            Áhættugjald skal renna í ríkissjóð en afgreiðslugjald í Ríkisábyrgðasjóð.

6. gr.

            Umsókn um ríkisábyrgð eða endurlán ríkissjóðs skal send fjármálaráðherra. Henni skulu fylgja:

 1. Ítarleg greinargerð um til hvers lánsfénu skuli varið, ásamt greinilegri rekstraráætlun þess, er ábyrgðar eða láns óskar.
 2. Veðbókarvottorð um þær eignir er veðsetja skal, svo og önnur skjöl um eignarheimildir.
 3. Gögn um þær veðskuldir sem hvíla kunna á eign þeirri er veðsetja skal.
 4. Efnahags- og rekstrarreikningur þess er ábyrgðar óskar, fyrir að minnsta kosti tvö síðustu ár, í því formi og með þeim skýringum og gögnum, sem Ríkisábyrgðasjóður kann að krefjast.
 5. Gögn um vátryggingar eigna umsækjanda.
 6. Beiðni um mats- og skoðunargerð.

7. gr.

            Ríkisábyrgðasjóður skal vera fjármálaráðherra til aðstoðar við afgreiðslu ríkisábyrgða og veitingu endurlána.

            Á vegum Ríkisábyrgðasjóðs skal meta hæfi umsækjanda til að standa í skilum með þau lán er ríkisábyrgðar er óskað á. Í matinu skal koma fram mat á:

 1. Markaðsvirði þeirra eigna umsækjanda er settar verða að veði.
 2. Áætluð arðsemi þeirrar fjárfestingar sem lánað er til.
 3. Gildi ábyrgðar eða láns vegna þessa tiltekna verkefnis.
 4. Mat á áhættu sem tekin er af ríkissjóði.
 5. Mat á áhrifum ríkisábyrgða á samkeppni á viðkomandi sviði.
 6. Hvort afgreiðsla sé í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland á aðild að.

Umsækjendur greiða kostnað vegna matsgerðarinnar.

            Ríkisábyrgðasjóði er heimilt að leita til utanaðkomandi aðila um ofangreint mat.

8. gr.

            Ríkisábyrgðasjóður skal halda afskriftareikning vegna veittra ábyrgða og lána og skal hann á hverjum tíma gefa raunhæfa mynd af áætluðum afskriftum allra ábyrgða sjóðsins. Jafnharðan og veittar eru ábyrgðir eða lán bætir sjóðurinn við afskriftareikninginn. Fjárhæðirnar, sem bætt er við reikninginn, skulu í hverju tilviki samsvara þeirri áhættu sem tekin er að mati Ríkisábyrgðasjóðs. Á hverju ári skal ekki tekin meiri áhætta samtals en samsvarar þeirri fjárhæð sem mögulegt er að leggja í afskriftareikning.

9. gr.

            Ríkisábyrgðasjóður skal fylgjast með rekstri þeirra aðila, sem ríkissjóður hefur gengið í ábyrgð fyrir eða endurlánað. Ábyrgðarþegar skulu árlega láta í té efnahags- og rekstrarreikninga ásamt þeim skýrslum, bókhaldsgögnum og skýringum, er Ríkisábyrgðasjóður telur nauðsynlegar vegna eftirlits síns.

            Hafi Ríkisábyrgðasjóður krafið ábyrgðarþega um upplýsingar og gögn, en þær eigi borist fyrir tilskilinn tíma, er fjármálaráðherra heimilt að beita þann aðila dagsektum, þar til gögn eru í té látin.

            Á ári hverju skal Ríkisábyrgðasjóður fara yfir allar útistandandi ábyrgðir og endurlán og endurmeta áhættuna sem þeim fylgir. Stöðu á afskriftareikningi skal miða við nýjasta mat hverju sinni.

10. gr.

            Ríkisábyrgðasjóður hefur á hendi greiðslu krafna þeirra, er falla á ríkissjóð vegna ábyrgða er hann hefur tekist á hendur og eignast þær framkröfur sem þannig myndast.

11. gr.

            Eigandi veðskuldabréfs með ábyrgð ríkissjóðs skal tilkynna Ríkisábyrgðasjóði skriflega, ef vanskil verða á skuldabréfi með ábyrgð ríkissjóðs, og skal slík tilkynning hafa borist sjóðnum eigi síðar en 14 dögum áður en skuldareigandi hyggst ganga að skuldara samkvæmt skuldabréfi.

            Ríkisábyrgðasjóður á þess ætíð kost að greiða gjaldfallnar afborganir og vexti, og getur þá skuldareigandi ekki gjaldfellt alla skuldina.

12. gr.

            Nú hefur verið krafist nauðungarsölu á eign, sem er veðsett skuldareiganda til tryggingar láni með ábyrgð ríkissjóðs, eða eign, sem ríkissjóður hefur tekið að veði til tryggingar ábyrgð sinni eða endurláni, og skal þá uppboðshaldari tilkynna Ríkisábyrgðasjóði um beiðnina áður en eignin er auglýst til nauðungarsölu í fyrsta sinn.

13. gr.

            Nú verða vanskil á láni, er ríkissjóður hefur tekið sjálfskuldarábyrgð á, og getur þá skuldareigandi krafið Ríkisábyrgðasjóð beint um greiðslu skuldarinnar og þarf ekki að ganga að öðrum tryggingum vegna hennar. Skuldareigandi getur ekki talið alla skuldina fallna í gjalddaga vegna vanskila, nema hann hafi áður skriflega krafið Ríkisábyrgðasjóð um greiðslu og fengið synjun. Ríkisábyrgðasjóður getur ætíð leyst alla skuldina til sín, ef hann óskar þess. Nú leysir Ríkisábyrgðasjóður skuld til sín, og skal þá skuldareigandi framselja sjóðnum allan þann rétt, er hann kann að eiga á hendur skuldara eða öðrum vegna skuldaskiptanna, og getur sjóðurinn þá eindagað skuldina gagnvart skuldara, ef hann telur ástæðu til.

14. gr.

            Nú verða vanskil á skuld, sem ríkissjóður hefur tekið einfalda ábyrgð á, og skal þá skuldareigandi leita fullnustu í öðrum þeim tryggingum, er hann kann að hafa fengið til tryggingar skuldinni hjá skuldara. Nú hefur veð verið selt á nauðungaruppboði, en skuldareigandi hefur samt eigi fengið fullnægju, og skal hann þá ganga að öllum öðrum eignum skuldara. Komi í ljós við gjaldþrot eða á annan sannanlegan hátt, að skuldari geti ekki greitt skuldina, þannig að skuldareigandi fái fullnægju, skal Ríkisábyrgðasjóður eiga þess kost að greiða eftirstöðvar skuldarinnar með sömu kjörum og á jafnlöngum tíma og greiða skyldi eftirstöðvar skuldabréfsins samkvæmt ákvæðum þess.

15. gr.

            Nú fellur ábyrgðargreiðsla á ríkissjóð og Ríkisábyrgðasjóður innir greiðslu af hendi, en aðili á að fá fé greitt úr ríkissjóði, og skal þá fjármálaráðuneytið halda eftir þessu fé til greiðslu á skuldinni eftir því sem með þarf, enda þótt almennar reglur um skuldajöfnuð séu eigi fyrir hendi. Sama gildir ef greiðslufall verður hjá aðila sem notið hefur endurláns úr ríkissjóði.

            Nú fellur ábyrgðargreiðsla á ríkissjóð og Ríkisábyrgðasjóður innir greiðsluna af hendi, en skuldari hefur sett tryggingar fyrir áhættu ríkissjóðs, eða Ríkisábyrgðasjóður öðlast slíka tryggingu vegna framsals frá skuldareiganda, og skal þá gengið að tryggingu þessari og eftir atvikum öðrum eignum skuldara.

16. gr.

            Í texta skuldabréfa er ríkissjóður tekur ábyrgð á, skal taka fram, að um þau gildi ákvæði laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, og reglugerðar þessarar.

17. gr.

            Ábyrgðargjald skv. 6. gr. laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir nemur 0,0625% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra erlendra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili sbr. 8. gr. laganna. Með erlendum skuldbindingum er átt við skuldbindingar gagnvart aðilum sem skráðir eru eða búsettir erlendis, hvort sem þær eru í íslenskum eða erlendum gjaldmiðli.

            Með sama hætti skal greiða ábyrgðargjald er nemur 0,0375% af innlendum skuldbindingum. Með innlendum skuldbindingum er átt við skuldbindingar gagnvart aðilum sem skráðir eru eða búsettir á Íslandi, hvort sem skuldbindingar eru í íslenskum eða erlendum gjaldmiðli.

18. gr.

            Undanþegnar gjaldskyldu ábyrgðargjalds skv. 6. gr. laga nr. 121/1997, eru eftirtaldar skuldbindingar:

 1. Skuldbindingar sem áhættugjald hefur verið greitt af við afgreiðslu láns eða ábyrgðar.
 2. Húsbréf, útgefin af húsbréfadeild Byggingarsjóðs ríkisins.
 3. Skuldbindingar vegna innstæðna á hvers konar innlánsreikningum í innlánsstofnunum.
 4. Skuldbindingar vegna útflutningsábyrgða með ríkisábyrgð.
 5. Eftirlauna- og lífeyrisskuldbindingar.
 6. Almennar viðskiptaskuldir, þ.e. skuldbindingar þar sem ekki liggur fyrir skuldarviðurkenning í formi lánssamnings, útgefins skuldabréfs eða víxils.

            Seðlabanki Íslands er undanþeginn greiðslu ábyrgðargjalda.

19. gr.

            Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimildum í 9. gr. laga nr. 121/1997 um ríkisábyrgðir og 11. gr. laga nr. 43/1990 um Lánasýslu ríkisins, öðlast þegar gildi. Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 43 frá 1. mars 1967 og reglugerð nr. 450/1987.

Fjármálaráðuneytinu, 15. apríl 1998.

Friðrik Sophusson.

Magnús Pétursson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica