Fjármálaráðuneyti

374/1995

Reglugerð um tollverð og tollverðsákvörðun. - Brottfallin

1. KAFLI - Orðskýringar.

1. gr.

Við ákvörðun tollverðs skv. reglugerð þessari skulu eftirfarandi orð og orðasambönd skilgreind svo:

a. "Tollverð innfluttrar vöru": Verðmæti vöru til nota við álagningu tolls á innflutta vöru.

b. "Sams konar vörur": Vörur sem eru eins í öllu tilliti, þ.m.t. að einkennum, gæðum og orðspori. Minni háttar útlitsmunur útilokar ekki vörur, sem að öðru leyti falla undir skilgreininguna, frá því að teljast vera sams konar.

c. "Svipaðar vörur": Vörur sem ekki eru eins í öllu tilliti, en hafa þó svipuð einkenni og svipaða efnishluta og geta því þjónað sama tilgangi og komið hver í annarrar stað í viðskiptum. Gæði varanna, orðspor og hvort þær eiga sér vörumerki er meðal þeirra þátta sem athuga verður við ákvörðun á því hvort vörur séu svipaðar.

d. Orðasamböndin í b- og c-lið taka ekki til vara sem fela í sér eða gefa til kynna verkfræðivinnu, þróun, iðnverk, hönnun, áætlanir og uppdrætti sem ekkert tillit hefur verið tekið til við verðleiðréttingu skv. 4. tl. b-liðar 1. mgr. 3. gr. þar eð þeir þættir voru unnir hérlendis.

e. Vörur skal ekki telja "sams konar vörur" eða "svipaðar vörur"; nema þær hafi verið framleiddar í sama landi og vara sú sem verið er að virða.

f. Við verðákvörðun skv. 15. gr. er heimilt að beita hugtökunum "sams konar vörur"; og "svipaðar vörur" með eðlilegum sveigjanleika í því skyni að ná fram markmiðum greinarinnar.

g. "Vörur í sama gæðaflokki eða sömu tegundar": Vörur sem teljast til vöruflokka eða vörusviðs sem framleitt er í tilteknum iðnaði eða iðngrein, og tekur til sams konar eða svipaðra vara.

h. "Tegund ökutækis": Nafn ökutækis, ákvarðað af framleiðanda.

i. "Undirtegund ökutækis": Orð, bókstafir eða tölur sem eru fest utan á ökutæki eða fram koma í upplýsingum framleiðanda. Orð, bókstafir eða tölur sem eru hluti af tegundarheiti teljast ekki með undirtegundarheiti.

Við ákvörðun tollverðs skal því aðeins taka til greina vörur framleiddar af öðrum aðila að ekki séu fyrir hendi neinar sams konar eða svipaðar vörur framleiddar af sama aðila og vara sú sem verið er að virða.

II. KAFLI - Viðskiptaverð.

2. gr.

Í aðflutningsskýrslu skal innflytjandi tilgreina tollverð vöru og færa inn eftir því sem eyðublað fyrir aðflutningsskýrslur gefur tilefni til. Jafnframt skal innflytjandi afhenda tollstjóra frumrit eða samrit af vörureikningi yfir hina innfluttu vöru eða sendingu, þegar afhendingar aðflutningsskýrslu er krafist skv. 14. gr. tollalaga. Sbr. þó ákvæði reglugerða nr. 309/1992 og 228/1993.

Tollverð innfluttrar vöru er viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir hana með þeim leiðréttingum sem leiðir af ákvæðum 3. gr., að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

a. Kaupanda séu engar takmarkanir settar um ráðstöfun eða notkun vörunnar, aðrar en takmarkanir sem

1. settar eru eða krafist verður með lögum eða af opinberum stjórnvöldum hér á landi,

2. takmarka þau landfræðilegu mörk par sem endurselja má vöruna eða

3. hafa ekki veruleg áhrif á verðmæti vörunnar.

b. Salan eða verðið sé ekki háð einhverjum skilyrðum eða skilmálum sem ekki er hægt að ákvarða verð fyrir með tilliti til þeirra vara sem verið er að virða.

c. Enginn hluti ágóða af síðari sölu, ráðstöfun eða notkun vörunnar af hálfu kaupanda renni beint eða óbeint til seljanda, nema unnt sé að gera viðeigandi leiðréttingar í samræmi við ákvæði 3. gr.

d. Kaupandi og seljandi séu óháðir hvor öðrum eða séu þeir hvor öðrum háðir þá sé viðskiptaverðið nothæft í tollalegu tilliti samkvæmt nánari reglum settum samkvæmt 3. gr.

e. Tollstjóri hafi ekki dregið í efa sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum.

Þegar ekkert er greitt fyrir vöruna eða sýnt þykir að greiðsla sé einungis til málamynda, t.d. þegar um gjöf er að ræða, skal tollverð vörunnar ákvarðað samkvæmt ákvæðum IV. kafla reglugerðarinnar að viðbættum gjöldum skv. 3. gr.

3. gr.

Við ákvörðun tollverðs samkvæmt ákvæðum 2. gr. skal bæta eftirtöldu við það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir hina innfluttu vöru:

a. Eftirtöldu að svo miklu leyti sem það er borið af kaupanda en er ekki innifalið í verði sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöruna:

1. Umboðslaunum og miðlaraþóknun, þó ekki kaupumboðslaunum.

2. Gámakostnaði sem í tollalegu tilliti tilheyrir vörunni.

3. Pökkunarkostnaði, bæði fyrir vinnu og efni.

b. Viðeigandi hluta af verðmæti eftirtalinna vara og þjónustu, sem látið er beint eða óbeint í té af kaupanda án greiðslu eða á lækkuðu verði, til notkunar í sambandi við framleiðslu og sölu hinna innfluttu vara til útflutnings að svo miklu leyti sem slíkt verðmæti er ekki innifalið í því verði sem raunverulega er greitt eða greiða ber:

1. Efnivöru, hluta, parta o.þ.h. sem notað hefur verið í vöruna.

2. Verkfæri, forma, móta o.þ.h. sem notað hefur verið við framleiðslu vörunnar.

3. Efnivöru sem eyðst hefur við framleiðslu vörunnar.

4. Verkfræðivinnu, þróunar, iðnlistar, hönnunar, áætlana og uppdrátta sem unnið hefur verið annars staðar en hér á landi og nauðsynlegt er til framleiðslu vörunnar.

c. Einkaréttar- og leyfisgjöldum, sem tengd eru vörum þeim sem verið er að virða og kaupandi verður beint eða óbeint að greiða, sem skilyrði fyrir sölu þeirra, að svo miklu leyti sem þessi einkaréttar- og leyfisgjöld eru ekki innifalin í því verði sem raunverulega er greitt eða greiða ber. Þetta tekur þó ekki til þess konar gjalda sem greidd eru fyrir framleiðslu á vörunni hér á landi.

d. Verðmæti sérhvers ágóðahlutar af síðari endursölu, ráðstöfun eða notum hinnar innfluttu vöru sem rennur beint eða óbeint til seljanda.

Eftirtalið skal innifalið í tollverði:

a. Flutningskostnaður hinnar innfluttu vöru til innflutningshafnar eða innflutningsstaðar.

b. Gjöld fyrir fermingu, affermingu eða meðferð hinnar innfluttu vöru vegna flutnings þeirra til innflutningshafnar eða innflutningsstaðar.

c. Vátryggingarkostnaður.

Viðbætur við það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber skal einungis ákvarða samkvæmt þessari grein á grundvelli hlutlægra og mælanlegra atriða.

Við ákvörðun tollverðs skal engu bætt við það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber nema það sé unnt samkvæmt þessari grein, sbr. þó 3. mgr. 2. gr.

4. gr.

Þegar ákvarða skal hvort viðskiptaverð sé nothæft skv. 2. gr. á það ekki í sjálfu sér að valda því að viðskiptaverð sé talið ónothæft að kaupandi og seljandi eru hvor öðrum háðir í skilningi 6. gr. Í því tilviki skal kanna kringumstæður við söluna og samþykkja v viðskiptaverðið ef tengsl in hafa ekki haft áhrif á verðið. Hafi tollstjóri ástæðu til að ætla a, vegna upplýsinga frá innflytjanda eða af öðrum ástæðum, að tengslin hafi haft áhrif á verðið skal hann koma athugasemdum sínum á framfæri við innflytjanda og skal honum gefið nægilegt færi til andsvara. Óski innflytjandi eftir skal honum gerð skrifleg grein fyrir athugasemdum.

5. gr.

Við sölu milli háðra aðila skal samþykkja viðskiptaverðið og virða vöruna í samræmi við ákvæði 2. gr., enda sýni innflytjandi fram á, sé þess krafist af tollstjóra, að verðið sé sambærilegt við eitthvert neðangreint verð sem fyrir kemur á sama eða svipuðum tíma:

a. Viðskiptaverð við sölu til óháðra kaupenda á sams konar eða svipuðum vörum til landsins.

b. Tollverð sams konar eða svipaðra vara eins og það er ákvarðað skv. 13. gr.

c. Tollverð sams konar eða svipaðra vara eins og það er ákvarðað skv. 14. gr.

Þegar framangreindum könnunum er beitt skal taka tillit til mismunar sem sýnt er fram á varðandi viðskiptastig, magn, atriði talin upp í 3. gr. og kostnað sem seljandi verður fyrir við sölu þar sem hann og kaupandi eru óháðir hvor öðrum, en seljandi verður ekki fyrir við sölu þar sem hann og kaupandi eru háðir hvor öðrum.

Kannanir sem um ræðir í þessari grein skal nota að frumkvæði innflytjanda og eingöngu til viðmiðunar. Annað verð í staðinn má ekki ákvarða samkvæmt þessari grein.

6. gr.

Vegna ákvörðunar tollverðs skv. 2. gr. skal því aðeins telja aðila háða hvor öðrum að:

a. þeir séu yfirmenn eða stjórnendur fyrirtækja hvors annars,

b. þeir séu í lagalegum skilningi sameigendur fyrirtækis,

c. þeir séu vinnuveitandi og starfsmaður hans,

d. einhver aðili beint eða óbeint eigi, stjórni eða hafi umráð yfir 5 hundraðshlutum eða meira af atkvæðisrétti eða hlutabréfum hjá þeim báðum,

e. annar þeirra beint eða óbeint stjórni hinum,

f. þriðji aðili beint eða óbeint stjórni báðum,

g. báðir saman beint eða óbeint stjórni þriðja aðila, eða

h. þeir séu í sömu fjölskyldu.

Aðilar sem eru í viðskiptasambandi hvor við annan, þannig að annar er einkaumboðsmaður, einkadreifingaraðili eða sérleyfishafi hins aðilans í hvaða mynd sem er, skulu taldir vera háðir hvor öðrum í skilningi þessarar greinar.

III. KAFLI - Vefenging á viðskiptaverði.

7. gr.

Hafi tollstjóri réttmæta ástæðu til að draga í efa sannleiksgildi upplýsinga er fram koma í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum um viðskiptaverð vöru, skal hann krefja innflytjanda um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því, að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint í gögnum þessum.

8. gr.

Dragi tollstjóri sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð vöru í efa þrátt fyrir að hafa fengið í hendur þau gögn og skýringar er fram koma í 7. gr. eða hafi þau ekki borist, verður viðskiptaverð vöru ekki lagt til grundvallar við ákvörðun tollverðs. Um ákvörðun tollverðs fer þá eftir IV. kafla reglugerðarinnar.

9. gr.

Um úrskurði og kærur, þ.m.t. kæruaðild, kæruleiðir og kærufresti, gilda ákvæði X. kafla tollalaga nr. 55/1987 með áorðnum breytingum.

IV. KAFLI - Tollverð vöru þegar viðskiptaverð verður ekki lagt til grundvallar.

10. gr.

Sé ekki hægt að ákvarða tollverð vöru skv. 2. gr. skal tollverðið vera viðskiptaverð sams konar vara sem seldar hafa verið og fluttar til landsins á sama eða svipuðum tíma.

Þegar ákvæðum þessarar greinar er beitt, skal við ákvörðun tollverðs nota viðskiptaverð sams konar vara við sölu á sama viðskiptastigi og í sem næst sama magni og varan sem verið er að virða. Finnist slík sala ekki, skal nota viðskiptaverð sams konar vara við sölu á öðru viðskiptastigi eða í öðru magni, leiðrétt þannig, að tekið sé tillit til þess mismunar er leiðir af viðskiptastiginu eða magninu, enda sé hægt að gera slíka leiðréttingu á grundvelli framkominna gagna sem leiði skýrt í ljós að hún er réttmæt og nákvæm, hvort sem hún leiðir til hækkunar eða lækkunar verðsins.

Þegar kostnaðarliðir og gjöld, sem um ræðir í 3. gr., eru innifalin í viðskiptaverði skal við leiðréttingu taka tillit til verulegs mismunar á þessum kostnaðarliðum og gjöldum milli hinnar innfluttu vöru og sams konar viðmiðunarvara sem rekja má til mismunandi vegalengda og flutningsmáta.

Finnist við beitingu ákvæða þessarar greinar meira en eitt viðskiptaverð á sams konar vörum, skal nota lægsta verðið við ákvörðun á tollverði vörunnar.

11. gr.

Verði tollverð innfluttrar vöru hvorki ákvarðað skv. 2. né 10. gr. skal það vera viðskiptaverð svipaðra vara sem seldar eru og fluttar til landsins á sama eða svipuðum tíma og varan sem verið er að virða.

Ákvæði 2.-4. mgr. 10. gr. skulu gilda eftir því sem við á þegar tollverð er ákveðið samkvæmt þessari grein.

12. gr.

Verði tollverð innfluttrar vöru ekki ákvarðað skv. ákvæðum 2., 10. eða 11. gr. skal ákvarða það skv. 13. gr. eða, þegar ekki er unnt að ákvarða tollverð samkvæmt þeirri grein, skv. 14. gr., en þó skal fyrr beitt ákvæðum 14. gr. en 13. gr. ef innflytjandi óskar þess.

13. gr.

Sé innflutt vara eða sams konar eða svipaðar vörur seldar hérlendis í því ástandi sem þær voru fluttar inn, skal miða tollverð hinnar innfluttu vöru samkvæmt ákvæðum þessarar greinar við það einingarverð sem hún eða sams konar eða svipaðar innfluttar vörur eru seldar á í mesta heildarmagni, á sama eða svipuðum tíma og varan sem verið er að virða var flutt inn, til aðila sem óháðir eru þeim sem þeir kaupa vörurnar af, en þó að frádregnum eftirtöldum liðum:

a. Annað hvort þeim umboðslaunum sem venjulega eru greidd eða samþykkt er að greiða eða því sem venjulega er bætt við sem ágóðahlut og almenn útgjöld í tengslum við sölu hérlendis á innfluttum vörum í sama gæðaflokki eða sömu tegundar.

b. Venjulegum flutningskostnaði og vátryggingu og skyldum kostnaði sem leggst á vöru hérlendis.

c. Kostnaðarliðum og gjöldum sem getið er í 2. mgr. 3. gr., eftir því sem við á.

d. Tollum og öðrum gjöldum sem greiða ber hér á landi vegna innflutnings eða sölu vörunnar.

Séu hvorki hin innflutta vara né sams konar eða svipaðar innfluttar vörur til sölu á sama eða svipuðum tíma og varan sem virða á er flutt inn, skal miða tollverðið, að uppfylltum öðrum skilyrðum 1. mgr., við það einingarverð sem hin innflutta vara eða sams konar eða svipaðar innfluttar vörur eru seldar á hérlendis í því ástandi sem þær voru fluttar inn, hið fyrsta eftir innflutning þeirrar vöru sem verið er að virða, en þó innan 90 daga frá innflutningi.

Séu hvorki hin innflutta vara né sams konar eða svipaðar innfluttar vörur seldar hérlendis í því ástandi sem þær voru fluttar inn, skal miða tollverðið, ef innflytjandi óskar þess, við það einingarverð sem hin innflutta vara eftir frekari aðvinnslu er seld á í mesta heildarmagni til aðila hérlendis sem óháðir eru þeim sem þeir kaupa vörurnar af, enda sé tekið tillit til virðisauka vegna aðvinnslunnar og frádráttarliða sem gert er ráð fyrir í 1. mgr.

14. gr.

Tollverð innfluttrar vöru skal byggja á reiknuðu verði samkvæmt ákvæðum þessarar greinar. Reiknað verð skal mynda með samtölu eftirtalinna þátta:

a. Kostnaðarverðs eða verðmætis efnivara og tilbúnings eða annarrar aðvinnslu sem notuð er við framleiðslu hinnar innfluttu vöru.

b. Upphæðar vegna ágóðahlutar og almennra útgjalda er jafngildir því sem venjulega leggst á vörur í sama gæðaflokki eða sömu tegundar og sú sem verið er að virða og fellur í hlut framleiðenda í útflutningslandinu við útflutning hingað. c. Kostnaðar eða verðmætis allra annarra útgjaldaliða sem nauðsynlegir eru til að verðið verði sambærilegt við tollverð skv. 2. og 3. gr., svo sem kostnaður skv. 2. mgr. 3. gr.

15. gr.

Verði tollverð innfluttrar vöru ekki ákvarðað skv. 2. gr. eða 10.-14. gr., skal ákvarða það með rökréttum hætti samkvæmt meginreglum og almennum ákvæðum samnings um framkvæmd VII. gr., Hins almenna samnings um tolla og viðskipti 1994 og á grundvelli fáanlegra upplýsinga hér á landi.

Eigi skal ákvarða tollverð samkvæmt ákvæðum þessarar greinar á grundvelli eftirtalins:

a. Söluverðs hérlendis á vörum sem framleiddar eru hérlendis.

b. Fyrirkomulags sem gerir ráð fyrir að samþykkt sé í tollalegu tilliti hið hærra verð þegar tvenns konar verð kemur til greina.

c. Vöruverðs á heimamarkaði í útflutningslandinu.

d. Framleiðslukostnaðar, annars en reiknaðs verðs sem hefur verið ákvarðað fyrir sams konar eða svipaðar vörur í samræmi við ákvæði 14. gr.

e. Útflutningsverðs vörunnar til annars lands en Íslands.

f. Lágmarkstollverðs.

g. Verðs sem ákveðið er að geðþótta eða er tilbúið.

V. KAFLI - Sérákvæði vegna innflutnings ökutækja.

16. gr.

Ákvæði kafla þessa gilda um ákvörðun tollverðs innfluttra ökutækja sem flokkast undir vörulið nr. 8701-8706 og 8711 í viðauka I við tollalög nr. 55/1987, með síðari breytingum.

17. gr.

Við tollafgreiðslu ökutækis skal tollstjóri bera viðskiptaverð þess eins og það kemur fram í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum saman við viðmiðunarverð ökutækja af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt.

Tollstjóri athugar hvort viðskiptaverð ökutækis sem um ræðir sé óeðlilega lágt miðað við ástand þess, innflutningsverð sams konar ökutækis sem flutt er eða hefur verið flutt til landsins á sama tíma eða markaðsverðs sambærilegra ökutækja erlendis.

18. gr.

Gefi eftirlit tollstjóra skv. 17. gr. réttmæta ástæðu til að draga í efa sannleiksgildi aðflutningsskýrslu eða fylgiskjala, skal um málsmeðferð fara eftir ákvæðum III. kafla.

19. gr.

Ríkistollstjóri skal safna saman upplýsingum frá hlutlausum aðilum erlendis frá um viðmiðunarverð ökutækja í þeim löndum sem helst má vænta innflutnings frá og sjá til þess að tollstjórar eigi greiðan aðgang að upplýsingum þessum.

20. gr.

Við ákvörðun tollverðs skv. 15. gr., þegar ekki reynist unnt að ákvarða tollverð ökutækis á grundvelli 2. eða 10.-14. gr., skal tollverð vera viðmiðunarverð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund eins og það er tilgreint í bifreiðaskrá ríkistollstjóra, reiknað út samkvæmt ákvæðum 21. gr.

21. gr.

Við útreikning tollverðs skv. 20. gr. skal fyrst áætla líklegt FOB-verð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund með þeim hætti að af útsöluverði ökutækisins, skv. bifreiðaskrá ríkistollstjóra, er afreiknaður virðisaukaskattur, álagning seljanda sem skal áætluð 12%, vörugjald, svo og áætluð fjárhæð gjalda þeirra sem innifalin eru í tollverði skv. 2. mgr. 3. gr.

Þegar líklegt FOB-verð nýs ökutækis hefur verið fundið út skv. 1. mgr., skal það fyrnt vegna aldurs hins innflutta ökutækis, þannig:

a. Af ökutækjum að heildarþyngd 5 tonn eða meira og af grindum með hreyfli fyrir þessi ökutæki: 1,2% fyrir hvern byrjaðan mánuð í 12 mánuði og 1% fyrir hvern mánuð eftir það þar til náð hefur verið 90% fyrningu sem er hámarks fyrning.

b. Af öllum öðrum ökutækjum sem flokkast undir tollskrárnúmer upptalin í 16. gr.: 1,5% fyrir hvern byrjaðan mánuð í 12 mánuði, 1% fyrir næstu 24 mánuði og 0,5% fyrir hvern mánuð eftir það þar til náð hefur verið 90% fyrningu sem er hámarks fyrning.

Upphaf fyrningar samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar, skal vera sá mánuður er ökutækið var skráð fyrstu opinberri skráningu erlendis, en lok fyrningar skal vera komumánuður flutningsfars til landsins. Þó skal heimilt, ef dagsetning fyrstu skráningar ökutækis erlendis kemur ekki fram í skráningarskírteini þess og ekki er unnt að fá opinbera staðfestingu á fyrsta skráningardegi, að telja upphaf fyrningar frá 1. júlí þess árs sem er af framleiðanda yfirlýst árgerðarár.

Er verð ökutækis hefur verið afreiknað og fyrnt samkvæmt ákvæði þessu, skal bæta við verðið gjöldum þeim sem innifalin skulu í tollverði samkvæmt 2. mgr. 3. gr.

22. gr.

Sé verð ökutækis af sömu tegund og undirtegund og það ökutæki sem flutt er til landsins ekki að finna í skrá ríkistollstjóra, skal ákvarða líklegt útsöluverð nýs ökutækis af þeirri tegund sem flutt er inn, og tollverð reiknað út skv. ákvæði 21. gr.

23. gr.

Flytji maður búferlum til landsins eftir að hafa verið búsettur erlendis í a.m.k. eitt næstliðið ár og hafi með sér ökutæki sem hefur verið í hans eigu það ár eða lengur, skal heimilt að fyrna verð ökutækisins samkvæmt framlögðum vörureikningi fyrir hvern byrjaðan mánuð frá dagsetningu vörureiknings og til komumánaðar flutningsfars. Skal fyrningarhlutfall á mánuði ráðast af aldri ökutækisins, í samræmi við ákvæði b-liðar 2. mgr. 21. gr. Heimild þessi tekur þó ekki til ökutækja að heildarþyngd þrjú tonn eða meira.

24. gr.

Ríkistollstjóri getur gefið nánari fyrirmæli um framkvæmd mats á ökutækjum samkvæmt reglugerð þessari og látið útbúa eyðublöð um matsog skoðunargerð ökutækja. Ríkistollstjóri ákveður hvaða upplýsingar skuli koma fram á þessum eyðublöðum.

VI. KAFLI - Refsing og önnur viðurlög.

25. gr.

Um refsingu og önnur viðurlög, upptöku eigna og málsmeðferð gilda ákvæði XIV. kafla tollalaga nr. 55/1987 með síðari breytingum.

VII. KAFLI - Ýmis ákvæði.

26. gr.

Reynist nauðsynlegt við ákvörðun tollverðs innfluttrar vöru að fresta lokaákvörðun um það, skal eigi að síður heimila innflytjanda að leysa til sín vöruna úr tolli, enda setji hann, telji tollstjóri ástæðu til, fullnægjandi tryggingu vegna lögboðinna gjalda er greiða ber af vörunni.

27. gr.

Þegar tollverð er ákvarðað skv. 4.-5. eða 10.-14. gr. og í þeim tilvikum öðrum sem tollstjóri krefst skal innflytjandi fylla út tollverðsskýrslu sem sérstaklega er til þess gerð.

28. gr.

Innflytjandi á rétt á að fá skriflega skýringu á því frá tollstjóra, hvernig tollverð vöru, er hann flutti inn, var ákvarðað, enda sendi hann tollstjóra skriflega beiðni þar að lútandi.

29. gr.

Kostnaði, gjöldum og öðrum útgjöldum, sbr. 3. gr., sem til verður þegar sendar eru til landsins í einu sendingarnúmeri (farmskrárnúmeri) vörur sem flokkast í mismunandi tollskrárnúmer, skal jafnað hlutfallslega niður á einstakar vörur í sendingu miðað við verð þeirra á innkaupsstað, nema innflytjandi leggi fram sundurliðaðan reikning um slíkan kostnað, gjöld og önnur útgjöld vegna einstakra vörutegunda.

Ef vara er send lengra hérlendis en til fyrstu tollhafnar, er unnt hefði verið að afferma hana á, má draga frá flutningsgjaldsauka þann og sendingarkostnað sem sá framhaldsflutningur hefur haft í för með sér, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir kostnaðaraukanum. Þá er einnig heimilt að draga frá þann hluta flutningsgjalds sem greiddur er vegna slæmrar aðstöðu við affermingu eða vegna þess að far affermir á fleiri stöðum en einum, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir þeim kostnaðarauka.

30. gr.

Sé verð vara, sem flokka ber í mismunandi tollskrárnúmer samkvæmt tollskránni og greiða ber af mismunandi háan toll, tilgreint í einni fjárhæð skal greiða af öllum vörunum þann tollhundraðshluta sem hvílir á þeirri vöru sem ber hæstan toll, nema innflytjandi láti tollstjóra í té upplýsingar sem hann metur fullnægjandi og byggja má ákvörðun á um tollverð einstakra vara í sendingunni.

31. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í 10. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 4. gr. laga nr. 87/1995, svo og 148. gr. tollalaga, öðlast gildi þegar í stað. Frá sama tíma falla úr gildi reglugerðir nr. 395/1987, um tollverð og tollverðsákvörðun og reglugerð nr. 261/1991 um tollverð notaðra ökutækja, með áorðnum breytingum.

Fjármálaráðuneytið, 4. júlí 1995.
F. h. r.
Indriði H. Þorláksson.
Hermann Jónasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica