Fjármálaráðuneyti

188/1983

Reglugerð um einkennisbúninga og búnað tollgæslumanna - Brottfallin

REGLUGERÐ

um einkennisbúninga og búnað tollgæslumanna.

I. Gerð einkennisfatnaðar.

A. Einkennisfatnaður tollgæslumanna skal vera:

1. Húfa skal vera úr hvítu efni með 5 cm breiðri uppistandandi gjörð, 5 cm breiðri reisn, kringlóttum hvítum flötum kolli, gljáleðursskyggni og hökuól sem fest sé á gjörðina með tveimur litlum einkennishnöppum. Á gjörð skal vera gylltur borði, 13 mm breiður, og á honum að framan ofið hringmerki (kokarde) í íslensku fánalitunum. Á reisn að framan og niður á gjörðina skal vera á 5 cm háum skjaldlaga grunni úr svörtu klæði, merki þannig gert: Bókstafurinn T, 4 cm hár og skjaldarmerki Íslands, 2,5 cm hátt, fellt yfir legg stafsins úr gylltum málmi.

2. Jakki úr svörtu klæðisefni, tvíhnepptur og með venjulegum kraga, sem skal vera 8 cm þar sem hann er breiðastur og skal kraginn vera sléttur og óstunginn. Á jakkanum skulu vera tveir hliðarvasar og einn brjóstvasi að utan en tveir vasar að innan. Á jakkanum skulu vera tvær raðir stórra gylltra einkennishnappa, fjórir í hvorri röð, og skal jakkinn hnepptur á þrjá þeirra. Á ermum skulu vera minni einkennishnappar, þrír á hvorri.

3. Vesti úr sama efni með fjórum vösum, hneppt með einfaldri röð hinna minni einkennishnappa, 6-7 að tölu. Það skal vera slétt og óstungið.

4. Buxur úr sama efni, síðar, án uppábrota, með fjórum vösum. Að neðan skulu skálmar eigi vera breiðari en 22 cm.

5. Frakki I úr svörtu frakkaklæði (þykku ullarklæði), tvíhnepptur, síður á miðjan legg, með tveimur vösum, venjulegum óstungnum kraga, og hornin þannig gerð að hneppa megi frakkanum upp í háls. Að framan skal vera tvöföld röð stórra, gylltra einkennishnappa, fimm í hvorri röð, hinn efsti undir kragahorni. Á baki skulu vera tvær fellingar teknar saman með spæl og á spælunum skulu vera tveir stórir einkennishnappar. Í klauf að aftan skulu vera þrír litlir einkennishnappar. Á ermum skulu vera litlir einkennishnappar, þrír á hvorri.

6. Frakki II skal vera úr svörtu frakkaklæði, einhnepptur, stuttur með gærufóðri, tveimur vösum og loðkraga. Rennilás innra og einföld röð með 4-5 stórum einkennishnöppum ytra skal vera á frakkanum. Endurskinsbryddingar skulu vera neðst á frakkaermum.

7. Kápa skal vera úr svörtu, vatnsþéttu rykfrakkaefni, fóðruð. Á henni skal vera tvöföld röð stórra einkennishnappa, fimm í hvorri röð, og tveir einkennishnappar á bakspeldi. Tveir hliðarvasar með loki skulu einnig vera á henni og endurskinsbryddingar neðst á kápuermum.

8. Loðhúfa skal vera úr svörtu loðskinni og skal merki tollgæslunnar fest framan á hana.

B. Einkennisfatnaður tollgæslukvenna:

Einkennisfatnaður tollgæslukvenna skal vera hinn sami og tollgæslumanna, en þeim skal þó heimilt þegar við á að ganga í pilsum er gerð skulu úr sama efni og einkennisfötin.

C. Annar einkennisfatnaður tollgæslumanna:

1. Tollgæslumenn skulu vera í svörtum sokkum ef þeir eru í lágum skóm.

2. Skyrtur skulu vera hvítar eða ljósbláar.

3. Skór skulu vera svartir og flatbotna. Skóhlífar og stígvél skulu vera svört.

4. Hálsbindi skulu vera svört.

5. Treflar skulu vera svartir.

6. Hanskar skulu vera svartir.

II. Klæðaburður tollgæslumanna.

1. Stöðu sinnar og virðingar vegna verða tollgæslumenn að vera hreinlegir og snyrtilegir til fara. Fatnaði sínum skulu þeir halda vel við og hafa ávallt veI pressaðan. Tollgæslustjóri, tollstjóri eða þeir sem falið er það verk, skulu fylgjast með klæðaburði tollvarða og veita aðfinnslur þegar klæðaburði er ábótavant eða hann er ekki í samræmi við gildandi reglur.

2. Tollgæslumenn skulu ganga í einkennisfatnaði við störf sín.

3. Með samþykki Tollgæslustjóra eða viðkomandi tollstjóra er tollgæslumönnum heimilt að vera án jakka, t. d. við akstur, við afgreiðslustörf inni eða við einstök önnur tækifæri. Þeir skulu þá bera húfur sínar, nema inni við. Skyrtur skulu þá vera með tveimur brjóstvösum með lokum sem hneppt er með litlum einkennishnöppum.

4. Tollgæslumenn í Rannsóknardeild tollgæslunnar mega vera óeinkennisklæddir við störf sín, enda sé það ákveðið í samráði við Tollgæslustjóra.

5. Þegar tollgæslumenn sinna sérstökum verkefnum, mega þeir vera óeinkennisklæddir, enda sé það gert í samráði við yfirboðara þeirra. Skulu þeir þá bera á sér tollgæsluskilríki til að sanna á sér heimildir.

6. Tollgæslustjóri eða viðkomandi tollstjóri getur gefið tollvörðum nánari fyrirmæli um klæðaburð, búnað og annað þess háttar.

III. Tollmerki, tollgæsluskilríki og einkennishnappar.

1. Tollmerki Íslands er einkennismerki sem ber skjaldarmerki ríkisins og áletrunina "Tollmerki Íslands".

2. Tollgæslumenn skulu hafa sérstök skilríki í leðurveski þar sem fram kemur nafn, staða og ljósmynd af viðkomandi. Skilríki þessi skulu undirrituð af tollgæslustjóra eða viðkomandi tollstjóra. Veski þessi skulu þannig útbúin að í öðrum vasa þeirra skal fest Tollmerki Íslands en í hinn skal unnt að smeygja korti með nafni og mynd viðkomandi tollgæslumanns.

3. Einkennishnappar tollgæslumanna skulu vera kringlóttir, gylltir með upphleyptum bókstafnum "T" og íslenska fánann felldan yfir legg bókstafsins. Hnapparnir skulu vera af tveimur stærðum, þeir stærri 24 mm í þvermál og þeir minni 16 mm í þvermál.

IV. Stöðueinkenni tollgæslumanna.

Tollgæslustjóra eða viðkomandi tollstjóra er heimilt að skylda tollgæslumenn til þess að bera stöðueinkenni eða önnur fatamerki, enda fallist ráðuneytið á að taka almennt upp slík einkenni. Gerð þeirra skal ákveðin af fjármálaráðuneytinu að fengnum tillögum Tollvarðafélags Íslands og tollgæslustjóra.

V. Úthlutun og meðferð einkennisfatnaðar.

1. Tollgæslumenn í fullu starfi skulu fá afhentan ókeypis einkennisfatnað sem hér segir:

a. Fyrsta árið fái þeir tvenn einkennisföt en síðan ein á ári. Með einkennisfötum er átt við einn jakka, eitt vesti, tvennar buxur, tvær skyrtur og eitt bindi.

b. Einkennisföt, einkennishúfu, kápu og hanska skulu þeir fá á ári hverju, frakka I og loðhúfu annað hvert ár, en frakka II fjórða hvert ár. Vinnuslopp og samfesting eða tvo sloppa fá þeir ár hvert.

2. Venjulegt viðhald einkennisfatnaðar greiða hlutaðeigandi tollgæslumenn sjálfir. Þeir skulu þó fá greiddar tvær fatahreinsanir á ári, svo og aðrar hreinsanir á fötum, sem yfirmaður telur þörf á. Meiriháttar viðgerðir og tjón á fatnaði er heimilt að bæta tollgæslumönnum.

3. Þegar tollgæslumenn láta af störfum, skulu þeir skila þeim einkennisfatnaði sem þeir fengu síðast afhentan. Ennfremur skulu þeir skila húfum, búnaði og einkennum. Einkennisfatnað, sem fastráðinn tollgæslumaður hefur fengið afhentan, og hann hefur notað í meira en tvö ár, skal telja eign hans að þeim tíma liðnum. Tollgæslumönnum er óheimilt að nota eða afhenda fatnaðinn utan tollgæslustarfsins.

Tollgæslumenn sem láta af störfum á reynslutíma (sem starfað hafa skemur en tvö ár eða ekki lokið síðara námskeiði tollskólans) skulu skila öllum fatnaði, búnaði og einkennum, sem þeir hafa fengið afhent.

4. Tollgæslustjóri skal útvega einkennisbúninga og annan búnað handa tollgæslumönnum. Halda skal hann skrá yfir afhenta einkennisbúninga, merki og skilríki, og skulu tollgæslumenn gæta þess að þau lendi ekki í höndum óviðkomandi.

5. Einkennisfatnaður skal á hverjum tíma keyptur hjá þeim sem fjármálaráðuneytið vísar á. Tollgæslustjóri pantar einkennisfatnað tollgæslumanna í samræmi við framangreindar reglur.

VI. Ýmis ákvæði.

1. Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 78. gr. laga um tollheimtu og tolleftirlit nr. 59/1969, sbr. og 24. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, öðlast gildi 1. janúar 1984. Jafnframt falla úr gildi þau ákvæði reglugerðar nr. 145/1946 sem gilda um tollgæslumenn.

2. Fjármálaráðuneytið úrskurðar um ágreiningsatriði sem rísa kunna vegna túlkunar á reglugerð þessari.

Fjármálaráðuneytið, 22. mars 1983.

Ragnar Arnalds.

Skúli Bjarnason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica