Fjármálaráðuneyti

430/1984

Reglugerð um sjóðfélaga Lífeyrissjóðs bænda og iðgjöld til sjóðsins - Brottfallin

1. gr.

Sjóðfélagar í Lífeyrissjóði bænda skulu vera allir bændur og makar þeirra. Bóndi í þessu sambandi, þ. m. t. aðili að félagsbúi, telst sá er stundar búskap á lögbýli þar sem hann á lögheimili, enda hafi hann náð 16 ára aldri fyrir lok næsta almanaksárs á undan. Búi bóndi í óvígðri sambúð eiga bæði rétt á sjóðsaðild ef þau eiga sameiginlegt lögheimili og hafa átt eða eiga von á barni saman eða sambúðin hefur varað samfleytt í a. m. k. tvö ár, enda óski þau þess bæði skriflega.

Launþegar, er stunda störf við landbúnað, skulu vera sjóðfélagar, enda hafi þeir náð 16 ára aldri og eigi ekki sjálfsagða aðild að öðrum lífeyrissjóði.

Heimilt er stjórn sjóðsins að veita bændum, sem ekki eiga lögheimili á bújörðum sínum, aðild að sjóðnum, enda hafi þeir meiri hluta atvinnutekna sinna af búvöruframleiðslu. Ennfremur er henni heimilt að víkja frá skilyrðum um lögbýli ef um er að ræða verulegan búrekstur sem hlutaðeigandi hefur meiri hluta tekna sinna af. Þá getur sjóðstjórn heimilað sjóðsaðild mökum, sambúðarkonum eða sambúðarmönnum, sbr. 1. mgr., þeirra aðila er um ræðir í þessari málsgrein.

Elli- og örorkulífeyrisþegar sjóðsins teljast sjóðfélagar.

2. gr.

Við ákvörðun um, hverjir skuli teljast bændur á lögbýlum, skal að jafnaði farið eftir jarðaskrá.

Nú færir maður rök að því, að ekki sé um rétta eða fullnægjandi skráningu að ræða í jarðaskrá á atriðum, er máli skipta í sambandi við réttindi hans eða skyldur, og skal þá stjórn sjóðsins úrskurða um aðild hans að sjóðnum með hliðsjón af skattframtölum, landbúnaðarskýrslum og öðrum gögnum, er máli geta skipt. Á sama hátt skal stjórnin taka skráningu til athugunar og úrskurðar, ef gögnum ber ekki saman eða hún telur af öðru tilefni ástæðu til að ætla skráningu ófullnægjandi eða ranga.

Stjórnin tekur ákvörðun um, hvort breytt skráning skuli gilda um liðinn iðgjaldagreiðslutíma. Reikna skal vexti af vangreiddum iðgjöldum samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 6. gr. og 7. gr.

Skylt er félagsbúi að senda lífeyrissjóðnum tilkynningu um, hverjir séu aðilar að búinu og hvernig tekjum þess sé skipt milli þeirra. Á sama hátt skulu allar breytingar í þessu efni tilkynntar sjóðnum jafnóðum og þær eiga sér stað. Sjóðstjórnin ákveður, hvort leiðrétting á skiptingu iðgjalda skuli gerð fyrir liðinn iðgjaldagreiðslutíma, ef tilkynning hefur verið vanrækt.

3. gr.

Iðgjöld sjóðfélaga vegna búrekstrar skulu innheimt af búvöruverði og vera 1,25% af verði til framleiðenda, þar með töldum gjöldum til sjóða og kostnaði, er sölufélög greiða vegna framleiðenda. Skal gjald þetta dregið frá búvöruverði til sjóðfélaga og innheimt á sama hátt og búnaðarmálasjóðsgjald samkvæmt lögum nr. 40/1982. Ekki skal þó greiða hærra iðgjald en sem svarar 4,2% af þreföldum viðmiðunarlaunum samkvæmt 8. gr. laga nr. 50/1984 um Lífeyrissjóð bænda vegna bænda sem eru í hjónabandi eða óvígðri sambúð og maka þeirra, sambúðarkvenna eða sambúðarmanna, sbr. 1. gr., en aðrir bændur skulu greiða iðgjald allt að hálfum öðrum viðmiðunarlaunum. Mörk þessi miðast hvert almanaksár við hjúskaparstétt í lok ársins.

Á móti iðgjöldum sjóðfélaga samkvæmt 1. mgr. skal leggja gjald á allar búvörur og skal gjald þetta vera ákveðinn hundraðshluti af verði til framleiðenda sbr. 1. málsl. 1. mgr. þessarar greinar. Hundraðshluti þessi skal ákveðinn þannig að heildarfjárhæð mótframlags verði 50% hærri en samanlögð iðgjöld framleiðenda samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar. Ráðherra ákveður hundraðshlutann að fengnum tillögum sjóðstjórnar fyrirfram fyrir hvert almanaksár. Þó skal gjaldið ekki vera lægra en svo að það nemi 1,60% af heildarverðmæti búvara á almanaksárinu.

4. gr.

Nú hefur sjóðfélagi, sem greiðir iðgjald samkvæmt 1. mgr. 3. gr., atvinnutekjur af öðru en búvöruframleiðslu og þessi störf veita ekki sjálfsagða aðild að öðrum lífeyrissjóði og skal þá greiða iðgjöld af slíkum tekjum til þessa sjóðs iðgjöld skulu vera 10% af tryggðum tekjum og teljast 4% vera iðgjöld sjóðfélaga en 6% framlag vinnuveitanda.

Iðgjöld launþega, sem eru sjóðfélagar samkvæmt 2. mgr. 1. gr., skulu vera 10% af launum. Teljast 4% vera iðgjald sjóðfélaga en 6% framlag vinnuveitanda. Reki lögaðili búskap skal þó gjald samkvæmt 2. mgr. 3. gr., meðan til hrekkur, teljast mótframlag vegna forstöðumanns búsins og maka hans, sambúðarkonu eða sambúðarmanns. Séu laun greidd í fóðrun, fæði, húsnæði eða öðrum hlunnindum skulu þau reiknuð til peningaverðs í samræmi við skattmat.

5. gr.

Aðilar, sem taka búvörur bænda til sölu, vinnslu eða endursölu, svo sem mjólkurbú, sláturhús, verslanir og veitingahús, skulu innheimta iðgjöld samkvæmt 1. mgr. 3. gr. eftir fyrirmælum sjóðstjórnar. Sama gildir um framlög samkvæmt 2. mgr. 3. gr., nema ráðherra ákveði að greiða þau úr ríkissjóði í sambandi við niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum. Heimilt er söluaðila að innheimta iðgjöld jafnóðum og greiðslur til bænda fara fram, en skil til sjóðsins skulu við það miðuð, að innheimta eigi sér stað eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Skal gjalddagi fyrri árshelmings vera 1. ágúst, en gjalddagi síðari árshelmings 1. mars næsta ár. Heimilt er þó stjórn sjóðsins að ákveða, að gjalddagi skuli einungis vera einn á ári fyrir afurðir, sem aðallega eru lagðar inn til söluaðila síðari hluta árs. Skilagrein fyrir síðari árshelming skal fylgja sundurliðun á iðgjöldum ársins eftir nöfnum og nafnnúmerum iðgjaldsgreiðenda. Ennfremur skal tilgreina heimilisfang, ef sjóðstjórn óskar þess. Hafi skilagrein ekki borist að nefndum fresti liðnum, er stjórn sjóðsins heimilt auk dráttarvaxta samkvæmt 7. gr. að beita dagsektum fyrir hvern dag frá því, er ábyrgðarbréf um dagsektir berast söluaðila, til þess tíma, er skilagrein berst sjóðstjórn.

Með búvöruframleiðslu bónda reiknast einnig búvörur, sem lagðar eru inn á nafn maka hans, sambýliskonu eða sambýlismanns, sbr. 1. gr. Heimilt er söluaðila í samráði við sjóðstjórn að takmarka innheimtu iðgjalda vegna hvers einstaks bónda við fjárhæð sem svarar hámarksiðgjaldi því, sem kvæntum manni ber að greiða samkvæmt 1. mgr. 3. gr.

Bændur skulu standa skil á iðgjöldum og framlögum samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr., ef sala á sér stað beint til neytenda. Gilda ákvæði 1. mgr. þessarar greinar um gjalddaga iðgjalda skv. þessari málsgrein.

Við gjaldþrotaskipti hjá innheimtuaðila skulu kröfur samkvæmt 1. mgr. njóta sama forgangsréttar og launakröfur, enda hafi fénu ekki verið haldið aðskildu frá öðrum fjármunum þrotabúsins.

6. gr.

Iðgjöldum launþega samkvæmt 2. mgr. 4. gr. ber launagreiðanda að halda eftir af launum og standa sjóðnum skil á þeim ásamt eigin framlagi. Gjalddagi iðgjalda og framlaga hvers mánaðar er 10. næsta mánaðar. Sé um að ræða sumarfólk, sem einungis starfar á tímabilinu maí-september, er þó heimilt að gera skil í einu lagi fyrir sumarið með gjalddaga 10. október. Skilagrein skulu fylgja nöfn og nafnnúmer launþega ásamt greiðslutímabilum.

Sjóðfélagar bera sjálfir ábyrgð á, að iðgjöldum og framlögum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. sé skilað til sjóðsins. að öðru leyti gilda ákvæði 1. mgr. þessarar greinar um slíkar greiðslur.

7. gr.

Verði vanskil á greiðslu iðgjalda og framlaga samkvæmt 5. og 6. gr. lengur en 30 daga fram yfir gjalddaga, skulu vangoldin iðgjöld og framlög innheimt með vanskilavöxtum, sem Seðlabanki Íslands heimilar innlánsstofnunum hæsta að taka frá gjalddaga.

8. gr.

Enginn greiðir iðgjöld til sjóðsins lengur en til loka þess almanaksárs, er hann nær 69 ára aldri.

Af iðgjöldum, sem sjóðnum eru greidd vegna manna, sem ekki eru sjóðfélagar, og sjóðfélaga sem hafið hafa töku ellilífeyris eða náð 70 ára aldri, skal hann endurgreiða þann hluta, sem sjóðfélaginn hefur sjálfur greitt, enda komi krafa þar um innan þriggja ára frá lokum iðgjaldagreiðsluárs. Telji sjóðstjórn endurgreiðslurétt ótvíræðan og upplýsingar um móttakanda fullnægjandi, skal hún sjá um endurgreiðslu, annað hvort til söluaðila eða beint til iðgjaldagreiðanda, án þess, að krafa sé gerð. Þá skulu iðgjöld, sem innheimt eru umfram þau mörk, sem tilgreind eru í 1. mgr. 3. gr., endurgreidd eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

9. gr.

Heimilt er stjórn sjóðsins að semja við Framleiðsluráð landbúnaðarins um, að það annist innheimtu fyrir sjóðinn hjá söluaðilum og öðrum, sem gera eiga skil við hann á iðgjöldum og framlögum samkvæmt 5. og 6. grein.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1984 um Lífeyrissjóð bænda og öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 515/1975 um sjóðfélaga Lífeyrissjóðs bænda og iðgjöld til sjóðsins.

Ákvæði til bráðabirgða.

Í stað þeirra gjalddaga iðgjalda og framlaga, sem nefndir eru í 6. gr., skal gjalddagi vegna ársins 1984 vera einn, 10. janúar 1985.

Fjármálaráðuneytið, 14. nóvember 1984.

Albert Guðmundsson.

Höskuldur Jónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica