Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 21. okt. 2002

351/1994

Reglugerð um undirbúning og framkvæmd álagningar og innheimtu undirboðs- og jöfnunartolla.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi kveður á um sérstakar aðgerðir til þess koma í veg fyrir að erlendar vörur séu fluttar inn eða boðnar til sölu á undirboðskjörum eða með útflutningsverðlaunum, uppbótum, endurgreiðslum o.þ.h. erlendis, sem valdið hafa innlendum atvinnurekstri tjóni eða hættu á tjóni eða torveldað hann til muna. Reglugerð þessi gildir með sömu skilyrðum um þjónustuviðskipti.

Við framkvæmd reglugerðar þessarar skal gætt ákvæða fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að.

2. gr. Samráðsnefnd.

Fjármálaráðherra skipar sjö sérfróða menn til fjögurra ára í senn í samráðsnefnd sem skal fjalla um kærur samkvæmt 23. gr. og vinna önnur störf sem nefndinni eru falin með reglugerð þessari. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af viðskipta- og iðnaðarráðherra, annar af sjávarútvegsráðherra, þriðji af landbúnaðarráðherra, fjórði af utanríkisráðherra, fimmti af Samkeppnisstofnun, sá sjötti skal vera tollstjórinn í Reykjavík eða fulltrúi hans en einn nefndarmaður er skipaður án tilnefningar. Ráðherra skipar formann samráðsnefndar úr hópi nefndarmanna. Samkeppnisstofnun og embætti tollstjórans í Reykjavík aðstoða nefndina í störfum. hennar eftir því sem þörf er á. Kostnaður af störfum samráðsnefndar greiðist úr ríkissjóði.

3. gr. Undirboð.

Með undirboði er átt við að útflutningsverð vöru, eins og það er skilgreint í 10. gr., sé lægra en eðlisverð sams konar vöru, eins og það er skilgreint í 5. til 9. gr.

4. gr. Opinberir styrkir.

Með opinberum styrkjum er átt við hvers konar styrki sem veittir eru beint eða óbeint í uppruna- eða útflutningslandi við aðvinnslu, framleiðslu, útflutning eða flutning á vöru.

Undanþága frá aðflutningsgjöldum og óbeinum sköttum sem lagt er á sams konar vörur og efnivörur sem hafa verið notaðar í þær þegar þær eru ætlaðar til neyslu í uppruna- eða útflutningslandinu eða endurgreiðsla slíkra gjalda eða skatta, telst ekki styrkur í skilningi reglugerðar þessarar.

5. gr. Eðlisverð.

Samkvæmt reglugerð þessari er eðlisverð vöru:

1. Sambærilegt verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber við venjuleg viðskiptaskilyrði fyrir sams konar vöru sem ætluð er til neyslu í útflutnings- eða upprunalandi vörunnar. Tekið skal tillit til afsláttar eða endurgreiðslu sem beinlínis tengist þeirri vöru sem til athugunar er enda geri aðili sem hagsmuna hefur að gæta kröfu til þess og sanni á fullnægjandi hátt að slíkur afsláttur hafi verið veittur eða endurgreiðsla farið fram. Taka má tillit til afsláttar sem síðar er veittur ef sannað er að afsláttur hafi verið veittur í samræmi við fyrri viðskipti eða samkvæmt skuldbindingu um að fullnægja skilmálum til þess að öðlast rétt til afsláttar eftir á.

2. Ef sams konar vara er ekki seld við venjuleg viðskiptaskilyrði á heimamarkaði í útflutnings- eða upprunalandinu eða fullnægjandi samanburður getur ekki farið fram með tilliti til slíkrar sölu, skal eðlisverð vera annað hvort:

a. Samanburðarhæft verð sams konar vöru þegar slík vara er flutt til þriðja lands sem má vera hæsta útflutningsverð en er að jafnaði samsvarandi því sem almennt gerist í viðskiptum.

b. Tilbúið verð, reiknað á grundvelli framleiðslukostnaðar sams konar vöru að viðbættu sanngjörnu álagi fyrir sölukostnaði og ágóða. Framleiðslukostnaður skal reiknaður á grundvelli allra kostnaðarliða miðað við venjuleg viðskiptaskilyrði í upprunalandinu, þ.m.t. bæði fastur kostnaður og breytilegur, efni og vinna, svo og sanngjarnt álag vegna sölukostnaðar, umsýslukostnaðar og annarra almennra útgjalda. Fjárhæð sölukostnaðar, umsýslukostnaðar, annarra almennra útgjalda og ágóða skal reiknuð á grundvelli þess kostnaðar sem stofnað hefur verið til og þess ágóða sem framleiðandi eða útflytjandi hefur af arðbærri sölu sams konar vöru á heimamarkaði. Ef slíkar upplýsingar eru ófáanlegar, óáreiðanlegar eða ónothæfar, skulu þær reiknaðar á grundvelli þess kostnaðar sem stofnað hefur verið til og þess ágóða sem aðrir framleiðendur eða útflytjendur í útflutnings- eða upprunalandinu hafa af arðbærri sölu sams konar vöru. Sé hvoruga aðferðina hægt að nota skal kostnaður, sem stofnað hefur verið til, og ágóði reiknaður út frá sölu útflytjanda eða framleiðanda í sömu atvinnugrein í útflutnings- eða upprunalandi eða á annan sanngjarnan hátt.

3. Ef útflytjandi í upprunalandinu hvorki framleiðir né selur sams konar vöru í upprunalandinu skal eðlisverðið ákveðið á grundvelli verðs eða kostnaðar annarra seljenda eða framleiðenda í upprunalandinu á sama hátt og um ræðir í a- og b-lið. Almennt skal verð eða kostnaður birgis útflytjanda notað í þessum tilgangi.

6. gr.

Sé réttmæt ástæða til að ætla að það verð, sem vara er raunverulega seld á til neyslu í upprunalandi, sé lægra en framleiðslukostnaður eins og hann er skilgreindur í 2. tölul. 1. mgr. 5. gr., verður talið að sala á slíku verði hafi ekki myndast við venjuleg viðskiptaskilyrði ef:

1. Um verulegt magn hefur verið að ræða á því tímabili sem rannsókn tekur til, sbr. 4. mgr. 25. gr.

2. Á verði sem gerir ókleift að endurheimta, við venjuleg viðskiptaskilyrði og innan þess tíma sem vísað er til í a-lið, allan kostnað sem réttmætt er að reikna með.

Ef vara er ekki seld við venjuleg viðskiptaskilyrði samkvæmt 1. mgr. má ákveða eðlisverð vöru á grundvelli sölu á öðru tímabili en rannsóknin tekur til, enda sé það verð ekki lægra en framleiðslukostnaður. Ef slík sala hefur ekki farið fram má ákveða eðlisverð á grundvelli 2. tölul. 5. gr.

Ef ekki er mögulegt að ákveða eðlisverð vöru á grundvelli 2. mgr. má ákveða eðlisverð vöru með því að leiðrétta verð hennar þannig að tapi sé eytt og myndaður sanngjarn ágóði.

7. gr.

Þegar um innflutning er að ræða frá ríkjum sem búa ekki við markaðshagkerfi, skal ákveða eðlisverðið á viðeigandi og sanngjarnan hátt samkvæmt einni af eftirfarandi aðferðum:

1. Miðað við verð fyrir sams konar vöru í öðru landi sem býr við markaðshagkerfi og raunverulega er seld til neyslu á heimamarkaði í því landi, eða til annarra landa.

2. Miðað við tilbúið verð fyrir sams konar vöru í öðru landi sem býr við markaðshagkerfi.

3. Ef hvorki verð né tilbúið verð, fundið samkvæmt 1. og 2. tölul., telst fullnægjandi skal miða við verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber hér á landi fyrir sams konar vöru, að teknu tilliti til sanngjarns ágóða.

8. gr.

Sé vara ekki flutt inn beint frá upprunalandinu, skal eðlisverðið vera sambærilegt verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir sams konar vöru á heimamarkaði útflutningslandsins. Ef vara er aðeins í flutningi um útflutningslandið, ekki framleidd þar og ekkert sambærilegt verð er til í útflutningslandinu, skal miða við verð í upprunalandinu.

9. gr.

Við ákvörðun eðlisverðs samkvæmt reglugerð þessari verða viðskipti milli aðila, sem eru háðir hvor öðrum í skilningi 8. gr. tollalaga eða hafa sín á milli fyrirkomulag um jöfnun kostnaðar, ekki talin eiga sér stað við venjuleg viðskiptaskilyrði nema samráðsnefnd, skv. 2. gr., telji að verð og kostnaður sem er innifalinn sé sambærilegur við það sem innifalið er í viðskiptum milli aðila sem hafa engin slík tengsl.

10. gr. Útflutningsverð.

Útflutningsverð skal vera það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöru við innflutning að frádregnum sköttum, afslætti og endurgreiðslum sem raunverulega eiga sér stað og tengjast beint þeirri sölu sem til athugunar er. Einnig skal tekið tillit til afsláttar sem frestað hefur verið, hafi hann raunverulega verið veittur og tengist beint þeim sölu sem til athugunar er.

Liggi ekkert útflutningsverð fyrir eða ætla má að tengsl eða fyrirkomulag um kostnaðarskiptingu sé milli útflytjanda og innflytjanda eða þriðja aðila eða að það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöru við innflutning sé af öðrum ástæðum óáreiðanlegt, má ákvarða útflutningsverðið á grundvelli fyrsta endursöluverðs vörunnar til óháðs aðila. Sé varan ekki endurseld til óháðs aðila eða ekki endurseld í því ástandi sem hún var flutt til landsins má ákvarða verðið á annan sanngjarnan hátt. Í nefndum tilvikum skal tekið tillit til hvers konar kostnaðar sem stofnað hefur verið til eftir innflutning til endursölu og sanngjarns ágóðahluta. Til slíks kostnaðar skal m.a. telja:

1. Venjulegan kostnað vegna flutnings, trygginga og útskipunar og annan slíkan kostnað.

2. Tolla, undirboðstolla og aðra skatta sem greiða ber hér á landi vegna innflutnings eða sölu vörunnar.

3. Eðlileg útgjöld vegna fastakostnaðar og ágóða og/eða umboðslauna sem almennt eru greidd eða samið um.

11. gr. Samanburður.

Við samanburð á eðlisverði og útflutningsverði samkvæmt reglugerð þessari, skal miða við verð á sem næst sama tíma. Til að tryggja sanngjarnan samanburð skal taka tillit til atriða sem hafa áhrif á samanburðinn, m.a. mismunandi:

1. HIutlægra eiginleika; eðlisverð, eins og það er ákveðið samkvæmt 5. til 9. gr., skal leiðrétt með fjárhæð sem svari til sanngjarns mats á verði hinna mismunandi eiginleika viðkomandi vara.

2. Aðflutningsgjalda og óbeinna skatta; eðlisverð skal lækkað um upphæð sem svari til hvers konar aðflutningsgjalda og óbeinna skatta, skilgreint í samræmi við athugasemdir við viðauka við þessa reglugerð, sem lagt er á sams konar vörur og efnivörur sem hafa verið notaðar í þær þegar þær eru ætlaðar til neyslu í uppruna- eða útflutningslandinu og ekki innheimt eða endurgreitt vegna vara sem fluttar hafa verið til landsins.

3. Sölukostnaðar vegna sölu á mismunandi viðskiptastigi, mismunandi magni eða við mismunandi aðstæður og söluskilmála. Til sölukostnaðar telst m.a.:

a. Kostnaður vegna flutnings, trygginga og útskipunar svo og annar slíkur kostnaður: Lækka skal eðlisverðið um kostnað sem stofnað hefur verið til vegna flutnings viðkomandi vöru frá athafnasvæði útflytjanda til fyrsta óháða kaupanda. Útflutningsverð skal lækka um kostnað sem stofnað hefur verið til af útflytjanda vegna flutnings viðkomandi vöru frá honum í útflutningslandinu til ákvörðunarstaðar hér á landi.

b. Umbúðakostnaður: Lækka skal eðlisverðið um umbúðakostnað viðkomandi vöru.

c. Lántökukostnaður: Lækka skal eðlisverðið um hvers konar kostnað vegna lána sem veitt eru vegna sölu þeirrar vöru sem til athugunar er. Fjárhæð lántökukostnaðar sem til lækkunar kemur skal reiknuð út miðað við almenn kjör í viðskiptum sem í gildi eru í uppruna- eða útflutningslandinu.

d. Ábyrgðir, tryggingar, tæknileg aðstoð og önnur þjónusta sem veitt er þegar sala hefur farið fram: Lækka skal eðlisverðið um upphæð sem svari til beins kostnaðar fyrir að útvega ábyrgðir, tryggingar, tæknilega aðstoð og aðra þjónustu.

e. Annar sölukostnaður: Lækka skal eðlisverðið um upphæð sem svari til umboðslauna sem greidd hafa verið vegna þeirrar sölu sem til athugunar er. Laun greidd sölumönnum, þ.e. starfsmönnum sem eingöngu fást við beina sölustarfsemi, skulu einnig dregin frá.

Fjárhæð leiðréttingar skal reiknuð út á grundvelli upplýsinga sem miðast við rannsóknartímabilið eða upplýsingar frá næst liðnu fjárhagsári. Krafa um leiðréttingu sem er óveruleg með tilliti til verðs eða áætlaðs verðs í þeim viðskiptum sem eiga í hlut skal ekki tekin til greina. Almennt skal einstök leiðrétting, skv. 1. til 3. tölul. 1. mgr., sem hefur innan við 0,5% áhrif á verð vöru, talin óveruleg.

12. gr. Sams konar vara.

Í reglugerð þessari er með sams konar vöru átt við vöru sem er eins að öllu leyti og varan sem til athugunar er eða, þegar slík vara er ekki til, aðra vöru sem hefur eiginleika sem verulega líkjast eiginleikum þeirrar vöru sem til athugunar er.

13. gr.

Með innlendum atvinnurekstri er átt við alla framleiðendur hér á landi sem framleiða sams konar vörur og boðnar eru fram á undirboðskjörum eða með ríkisstyrkjum eða þá framleiðendur sem samanlagt framleiða meirihluta allrar innlendrar framleiðslu þeirra vara, þó ekki framleiðendur sem eru háðir útflytjendum eða innflytjendum í skilningi 8. gr. tollalaga eða eru sjálfir innflytjendur þeirra vara sem taldar eru fluttar inn á undirboðskjörum eða styrkjum.

14. gr. Undirboðsfrávik.

Með undirboðsfráviki er átt við mismun á eðlisverði og útflutningsverði, þegar eðlisverð er hærra en útflutningsverð. Séu undirboðsfrávik breytileg, má reikna út vegið meðaltal þeirra.

15. gr.

Ef mismunurinn milli eðlisverðs og útflutningsverðs er 5% eða minni, skulu aðgerðir samkvæmt reglugerð þessari látnar niður falla.

16. gr. Skipting kostnaðar.

Almennt skal allur kostnaðarútreikningur gerður á grundvelli tiltækra bókhaldsgagna og skipt í hlutfalli við veltu sérhverrar vöru og markað sem til athugunar er.

17. gr. Meðaltal og úrtak.

Sé vöruverð breytilegt:

1. Skal eðlisverð almennt reiknað út miðað við vegið meðaltal.

2. Skal útflutningsverð almennt borið saman við eðlisverð miðað við hver viðskipti fyrir sig ef vegið meðaltal hefði ekki efnislega áhrif á niðurstöðu rannsóknarinnar.

3. Má, þegar um veruleg viðskipti er að ræða, beita úrtaksaðferð, þ.e. nota það verð sem oftast gildir til þess að finna eðlisverð eða útflutningsverð.

18. gr. Útreikningur styrkja.

Fjárhæð styrks skal reiknuð út miðað við hverja einingu sem styrkt hefur verið og flutt til landsins.

Við útreikning styrks skal draga eftirfarandi þætti frá heildarstyrknum, enda geri aðili sem hagsmuna hefur að gæta, kröfu um frádrátt og sýni fram á að krafan sé réttmæt.

1. Umsóknargjald eða annan sambærilegan kostnað.

2. Útflutningsgjöld, tolla eða önnur gjöld sem lögð eru á vöru við innflutning til landsins og sérstaklega er ætlað að bæta upp styrki.

Sé styrkur veittur án tillits til magns, skal upphæðin ákveðin með því að deila verðmæti styrksins, eftir því sem við á, á framleiðslu eða útflutning viðkomandi vara yfir hæfilegt framleiðslutímabil. Almennt skal tímabil þetta miðast við framtalsár styrkþega.

Sé styrkur veittur til að afla fastafjármuna, skal styrkurinn reiknaður á þann hátt að dreifa honum yfir tímabil sem endurspegli eðlilegar afskriftir slíkra eigna í viðkomandi atvinnugrein. Verði eign ekki afskrifuð, skal styrkurinn metinn sem vaxtalaust lán.

Þegar um er að ræða innflutning frá ríki sem býr ekki við markaðshagkerfi, má ákveða upphæð styrks á viðeigandi og sanngjarnan hátt með samanburði á útflutningsverði og eðlisverði. Ákvæði 11. gr. skulu gilda um slíkan samanburð.

Sé upphæð styrks breytileg má reikna út vegið meðaltal.

19. gr. Tjón.

Undirboðs- eða jöfnunartollar verða því aðeins lagðir á samkvæmt reglugerð þessari, hafi innflutningur á undirboðskjörum eða með ríkisstyrkjum valdið tjóni eða hættu á tjóni fyrir innlendan atvinnurekstur eða torveldað hann til muna. Verði innlendur atvinnurekstur fyrir tjóni eða skapist hætta á tjóni af öðrum orsökum eða atvinnurekstur er torveldaður til muna, svo sem vegna innflutnings í miklu magni eða á lágu verði sem ekki verður rakið til undirboðskjara eða styrkja, verður því ekki mætt með undirboðs- eða jöfnunartollum.

20. gr.

Við mat á tjóni skal m.a. taka til eftirtalinna þátta:

1. Magns innfluttra vara á undirboðskjörum eða styrkjum, einkum hvort veruleg aukning hafi orðið annað hvort að öllu leyti eða í samanburði við framleiðslu eða neyslu hér á landi.

2. Verðs á innfluttum vörum á undirboðskjörum eða styrkjum, einkum hvort veruleg verðundirboð hafi átt sér stað samanborið við verð á sams konar framleiðslu hér á landi.

3. Áhrifa, sem af þessu leiðir á viðkomandi atvinnustarfsemi, sem marka má af raunverulegri eða mögulegri þróun þátta eins og framleiðslu, nýtingu framleiðslugetu, birgðum, sölu, markaðshlutdeild, verði, m.a. lækkun verðs eða hindrun verðhækkana sem annars hefðu orðið, arði af fjárfestingu, greiðsluflæðis og fjölda starfsmanna.

21. gr.

Um hættu á tjóni getur einungis verið að ræða þegar sérstakar aðstæður eru líklegar til þess að þróast með þeim hætti að um raunverulegt tjón verði að ræða. Í þessu sambandi má taka tillit til þátta eins og:

1. Hlutfallslegrar aukningar útflutnings til landsins á undirboðskjörum eða styrkjum.

2. Útflutningsgetu í uppruna- eða útflutningslandinu sem þegar er fyrir hendi eða verður til staðar í náinni framtíð og líkum á innflutningi til landsins.

3. Eðli hvers konar styrkja og viðskiptaáhrif sem líklegt er að af þeim muni leiða.

22. gr.

Áhrif innflutnings á undirboðskjörum eða með styrkjum skulu metin með tilliti til innlendrar framleiðslu á sams konar vöru ef hægt er að aðgreina þær frá öðrum vörum á grundvelli tiltækra upplýsinga. Sé ekki unnt að aðgreina sams konar innlenda framleiðslu skulu áhrif innflutnings á undirboðskjörum eða styrkjum metin með tilliti til þrengsta vöruhóps eða vörusviðs sem í eru sams konar vörur.

II. KAFLI Málsmeðferð.

23. gr. Kæra.

Aðilar sem telja að vara sé flutt inn eða boðin til sölu á undirboðskjörum eða með styrkjum, geta kært slíkt skriflega til fjármálaráðuneytisins. Með kæru skal sýnt fram á, með fullnægjandi hætti, að um undirboð eða styrki sé að ræða sem hafi valdið tjóni á innlendum atvinnurekstri eða skapað hættu á tjóni eða torveldað hann að mun.

Kæra skal þegar send til samráðsnefndar, skv. 2. gr., sem annast frumathugun málsins. Formaður nefndarinnar skal boða til fundar innan fimm virkra daga frá því að mál hefur verið kært til fjármálaráðuneytisins.

Sé kæra dregin til baka, skal málsmeðferð hætt nema slíkt verði ekki talið til hagsbóta fyrir innlenda atvinnustarfsemi.

24. gr. Frumathugun.

Við frumathugun skal einkum kanna:

1. Hvort um undirboð eða styrki sé að ræða í tengslum við þá vöru sem kært er út af og leita leiða til að staðreyna undirboðsfrávik eða upphæð styrks.

2. Hvort um tjón eða hættu á tjóni sé að ræða.

3. Hvort orsakasamband sé milli undirboðs eða styrks vegna innflutnings og tjóns eða meints tjóns.

4. Til hvaða aðgerða sé rétt að grípa miðað við aðstæður til að hindra tjón eða bæta úr því tjóni sem undirboð eða styrkir valda og hvaða úrræði séu fyrir hendi til að hrinda slíkum aðgerðum í framkvæmd.

Komi í ljós eftir frumathugun að kæra sé ekki studd nægilegum gögnum eða sönnunargögn séu ófullnægjandi til að réttmætt sé að hefja rannsókn í máli, skal samráðsnefndin tilkynna fjármálaráðuneytinu það sem tilkynnir kæranda skriflega um niður-stöðuna.

25. gr. Rannsókn.

Telji samráðsnefndin að frumathugun lokinni, skv. 24. gr., að nægar sannanir séu fyrirliggjandi til að taka kæru til efnislegrar úrlausnar, skal þegar hefja rannsókn máls.

Birta skal tilkynningu um upphaf rannsóknar í Lögbirtingablaðinu. Þar skal tilgreina þá vöru sem rannsókn beinist að og viðkomandi útflutnings- eða upprunalandi. Jafnframt skal gerð grein fyrir þeim upplýsingum sem borist hafa og tilgreint innan hvaða frests aðilar sem hagsmuna hafa að gæta geti komið að upplýsingum og skriflegum sjónarmiðum.

Nefndin skal tilkynna kæranda og öðrum aðilum sem kunnugt er um að hafi hagsmuna að gæta, svo sem útflytjendum, innflytjendum og stjórnvöldum útflutningslandsins um upphaf rannsóknar.

Rannsókn skal eftir atvikum ná til undirboðs og/eða styrkja og tjóns sem af því leiðir. Almennt skal rannsókn ekki taka til styttra tímabils en síðustu sex mánaða fyrir útgáfudag tilkynningar um upphaf rannsóknar.

26. gr.

Við rannsókn máls skal samráðsnefndin leita þeirra upplýsinga sem hún telur þörf á og láta rannsaka bókhald innflytjenda, útflytjenda, viðskiptaaðila, umboðsaðila, framleiðenda og félaga og samtaka sem tengjast málinu.

Samráðsnefndin getur óskað eftir að stjórnvöld hér á landi veiti aðstoð við upplýsingaöflun og framkvæmi nauðsynlega athugun og eftirlit, einkum vegna innflytjenda, viðskiptaaðila og framleiðenda hér á landi.

Sé það talið nauðsynlegt, getur samráðsnefndin látið fara fram rannsókn erlendis að því marki sem slíkt er unnt. Samráðsnefndin skal aðstoða embættismenn viðkomandi ríkja við rannsókn málsins sé þess óskað.

27. gr.

Samráðsnefndin getur ákveðið að gefa aðilum kost á að flytja mál sitt munnlega ef líkur eru á að niðurstaða máls geti haft áhrif á hagsmuni þeirra og rök séu til þess að mál sé munnlega flutt.

Nefndin getur ennfremur gefið aðilum, sem beinna hagsmuna hafa að gæta, tækifæri á að koma saman fyrir nefndina þannig að andstæð sjónarmið verði kynnt og frávísunarrökum komið að. Aðilum er ekki skylt að sækja slíka fundi og þótt fundur sé ekki sóttur skal það ekki skaða málstað viðkomandi aðila.

28. gr.

Neiti hagsmunaaðilar, skv. 2. mgr. 25. gr., að veita nauðsynlegar upplýsingar innan hæfilegs frests, hindri aðgang að upplýsingum eða tefji verulega rannsókn máls, má taka endanlega afstöðu til kæru eða taka ákvörðun um aðgerðir til bráðabirgða á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Verði nefndin þess áskynja að hagsmunaaðilar hafi lagt fyrir hana rangar eða villandi upplýsingar getur hún virt slíkar upplýsingar að vettugi og hafnað öllum kröfum sem á þeim eru byggðar.

29. gr.

Rannsókn vegna undirboða eða styrkja skal ekki vera því til fyrirstöðu, að heimiluð sé tollafgreiðsla á viðkomandi vöru.

Rannsókn skal lokið annað hvort með frávísun eða endanlegri ákvörðun. Rannsókn skal almennt lokið innan árs frá því hún hófst.

III. KAFLI Ákvarðanir um afgreiðslu máls.

30. gr. Frávísun máls.

Telji samráðsnefndin, að lokinni rannsókn máls, engra aðgerða þörf, skal hún þegar senda fjármálaráðherra greinargerð um niðurstöður sínar ásamt tillögu um frávísun máls.

Fallist fjármálaráðherra á tillögur samráðsnefndarinnar um frávísun skal samráðsnefndin tilkynna fulltrúum uppruna- eða útflutningslands og aðilum sem vitað er að hagsmuna hafa að gæta um ákvörðun ráðherra og jafnframt tilkynna í Lögbirtingablaði þá ákvörðun þar sem fram komi meginniðurstöður og lagarök.

31. gr. Loforð um úrbætur.

Komi fram loforð um úrbætur meðan á rannsókn máls stendur sem samráðsnefndin telur fullnægjandi, getur hún hætt rannsókn máls.

Um úrbætur er að ræða þegar:

1. Styrkir eru felldir niður eða takmarkaðir, eða aðrar fullnægjandi ráðstafanir gerðar af stjórnvöldum uppruna- eða útflutningslands.

2. Verði er breytt eða dregið er úr útflutningi að því marki sem samráðsnefndin telur fullnægjandi þannig að skaðleg áhrif undirboðsfrávika eða styrkja falli brott. Þegar aðili afsalar sér styrk eða nýtir hann ekki skal fylgja staðfesting yfirvalda uppruna- eða útflutningslands þar að lútandi.

Samráðsnefndin getur að eigin frumkvæði gert tillögur um úrbætur.

Niðurfelling rannsóknar samkvæmt þessari grein útilokar ekki endanlega innheimtu tryggingarfjár sem lagt hefur verið fram vegna álagningar jöfnunar- eða undirboðstolla samkvæmt ákvæðum 34. gr.

32. gr.

Þótt samráðsnefndin hafi tekið til greina loforð um úrbætur, getur hún engu að síður ákveðið að ljúka rannsókn máls.

Komist samráðsnefndin að þeim niðurstöðu að engin hætta sé á tjóni, fellur skuldbinding um úrbætur niður. Þó getur samráðsnefndin ákveðið að staðið skuli við slíka skuldbindingu þegar staðfest þykir að hætta á tjóni sé fyrir hendi ef úrbótanna nyti ekki við.

33. gr.

Samráðsnefndin getur krafist þess af hverjum þeim sem gefið hefur loforð um úrbætur, að hann veiti reglulega upplýsingar um að staðið hafi verið við slíkar skuldbindingar og leyfi sannprófun viðkomandi upplýsinga. Sé ekki orðið við slíkum kröfum skal litið svo á að um vanefnd sé að ræða.

Telji samráðsnefndin að um vanefndir sé að ræða og hagsmunir innlends atvinnurekstrar kalli á aðgerðir, getur fjármálaráðherra, að fengnum tillögum nefndarinnar og eftir að útflytjanda hefur verið veitt tækifæri til að tjá sig, lagt á undirboðs- eða jöfnunartolla til bráðabirgða með hliðsjón af þeim upplýsingum sem aflað hafði verið áður en loforð um úrbætur var tekið til greina.

34. gr. Aðgerðir til bráðabirgða.

Hafi frumathugun leitt í ljós að verulegar líkur séu á að um ólögmæt undirboð eða styrki samkvæmt 1. kafla sé að ræða og tjón af þeirra völdum þykir nægilega sannað og hagsmunir innlends atvinnurekstrar kalli á aðgerðir til að hindra tjón meðan á meðferð máls stendur, getur samráðsnefndin lagt til við fjármálaráðherra að undirboðs- eða jöfnunartollur verði lagður á til bráðabirgða.

Í því tilviki skal tollafgreiðsla vöru heimiluð, gegn því að trygging í formi peningagreiðslu er svari til bráðabirgðatolls sé lögð fram, en endanlegt uppgjör tollsins skal fara fram þegar ákvörðun fjármálaráðherra samkvæmt 35. gr. liggur fyrir.

Aðgerðir til bráðabirgða skulu ekki gilda lengur en í 12 mánuði.

35. gr. Endanleg afgreiðsla.

Komist samráðsnefndin að þeirri niðurstöðu að um undirboð eða styrki hafi verið að ræða á því tímabili sem til rannsóknar er sem valdið hafa innlendum atvinnurekstri tjóni eða skapað hættu á tjóni eða torveldað hann að mun skal nefndin gera tillögu til fjármálaráðherra um álagningu undirboðs- eða jöfnunartolla.

Ef endanleg fjárhæð undirboðs- eða jöfnunartolls er lægri en sá tollur sem lagður var á til bráðabirgða, skal endurgreiða mismuninn.

IV KAFLI Álagning og innheimta.

36. gr. Almenn ákvæði um tolla.

Ákvörðun um álagningu undirboðs- eða jöfnunartolla skal birta í Stjórnartíðindum. Í henni skal tilgreina fjárhæð og tegund tolls sem lagður er á, til hvaða vara hann taki, uppruna- eða útflutningsland og nafn birgja, ef ástæða þykir til. Ennfremur skal senda tilkynningu um ákvörðunina til aðila málsins, ásamt rökstuðningi.

Undirboðs- og jöfnunartollar mega ekki vera hærri en sem nemur undirboðsfráviki eða upphæð þeirra styrkja sem eru grundvöllur tollsins. Hafi tollur verið lagður á til bráðabirgða getur endanlegur tollur ekki verið hærri en sem nemur bráðabirgðatollinum fyrir það tímabil sem liðið er. Ákveða skal lægri fjárhæð, verði það talið fullnægjandi til að bæta tjón.

37. gr.

Undirboðs- eða jöfnunartolla skal ekki leggja á með afturvirkum hætti nema:

1. Þegar vara hefur verið flutt inn í miklu magni á skömmum tíma og boðin fram á undirboðskjörum sem valdið hefur tjóni innanlands. Í slíkum tilvikum má leggja undirboðstolla afturvirkt á innflutning sé það til þess fallið að koma í veg fyrir að innflutningur á undirboðskjörum endurtaki sig.

2. Þegar vara sem notið hefur útflutningstyrkja, sem brjóta í bága við hið almenna samkomulag um tolla og viðskipti, GATT, hefur verið flutt inn í miklu magni á skömmum tíma og valdið tjóni sem erfitt er að bæta. Í slíkum tilvikum má leggja á jöfnunartolla afturvirkt á innflutning sé það til þess fallið að koma í veg fyrir frekari innflutning á vörum sem njóta styrkja með þessum hætti.

3. Þegar um er að ræða vöru á undirboðskjörum eða styrkjum og loforð um úrbætur hefur verið vanefnt.

Undirboðs- eða jöfnunartollar sem lagðir eru á með afturvirkum hætti geta náð til innflutnings sem fluttur er inn allt að 90 dögum áður en kæra skv. 23. gr. er lögð fram.

38. gr.

Þegar um er að ræða innflutning til landsins frá fleiri en einu landi skal leggja viðeigandi toll á allan innflutning slíkra vara sem taldar eru vera á undirboðskjörum eða styrkjum og valda tjóni, þó ekki í þeim tilvikum þar sem loforð um úrbætur hefur verið tekið til greina.

Undirboðs- eða jöfnunartollar skulu lagðir á óháð öðrum tollum, sköttum og gjöldum sem almennt eru innheimtir við tollafgreiðslu á vörum.

Ekki skal leggja bæði á undirboðs- og jöfnunartolla á vöru til þess að leysa úr einu og sama máli sem upp hefur komið vegna undirboðs eða styrkja.

39. gr.

Undirboðs- og jöfnunartolla má leggja á vörur sem settar eru á markað hér á landi eftir að hafa verið settar saman eða framleiddar hér á landi að því tilskildu:

1. Að samsetningin eða framleiðslan sé á vegum aðila sem er tengdur eða háður framleiðanda sams konar útflutningsvara sem á verða lagðir undirboðs- eða jöfnunartollar,

2. Að samsetningin eða framleiðslan hafi farið af stað eða verið verulega aukin eftir að rannsókn á undirboði hófst.

3. Að verðmæti hluta eða efnivara, sem notað er við samsetninguna eða framleiðsluna og upprunnin er í útflutningslandi vöru sem er andlag undirboðs- eða jöfnunartolls, sé 50% eða meira en verðmæti allra annarra hluta og efnivara sem notað er.

Þegar ákvæðum þessarar greinar er beitt skal fullt tillit tekið til breytilegs kostnaðar sem stofnað er til við samsetningu eða framleiðslu svo og rannsóknar- og þróunarkostnaðar og tækni sem notuð er.

Áður en vörur, sem settar eru saman eða framleiddar hér á landi, eru settar á markað skal tollyfirvöldum afhent skýrsla um þær. Við álagningu undirboðs- eða jöfnunartolla skal slík skýrsla hafa sama gildi og aðflutningsskýrsla samkvæmt tollalögum.

Fjárhæð undirboðs- eða jöfnunartolls skal vera sú sama og gildir gagnvart framleiðendum í upprunalöndum vara, sem leggja má á undirboðstoll og innlendur framleiðandi er tengdur eða háður. Fjárhæðin skal vera í réttu hlutfalli við þann undirboðs- eða jöfnunartoll sem gildir gagnvart framleiðanda hinnar fullbúnu vöru miðað við cif-verð hluta og efnivara sem flutt hafa verið inn.

40. gr.

Leggi aðili, sem beinlínis hefur hagsmuna að gæta, fram fullnægjandi sönnur fyrir því að undirboðs- eða jöfnunartollur hafi beint eða óbeint verið greiddur af útflytjanda, þ.e. að endursöluverð til fyrsta kaupanda vöru sem háð er undirboðstolli er ekki hækkað um fjárhæð sem svari til undirboðstollsins, skal samráðsnefndin rannsaka málið og gefa útflytjendum og innflytjendum kost á því að tjá sig um málið.

Komist samráðsnefndin að þeim niðurstöðu að undirboðs- eða jöfnunartollur hafi verið greiddur að hluta eða öllu leyti af útflytjanda og hagsmunir innlends atvinnurekstrar krefjast þess að gripið sé til ráðstafana, skal leggja á viðbótartoll í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

Viðbótartoll má leggja á með afturvirkum hætti í samræmi við ákvæði 37. gr.

Ef rannsókn leiðir í ljós að verð hækkar ekki um fjárhæð sem nemur undirboðstolli og skýringar sé ekki að leita í lækkun kostnaðar eða hagnaðar hjá viðkomandi innflytjanda, skal það talin vísbending um að útflytjandi hafi borið undirboðstollinn.

41. gr. Endurupptaka máls.

Ákvörðun um álagningu undirboðs- eða jöfnunartolla og ákvörðun um að taka til greina loforð um úrbætur má taka til endurskoðunar, að hluta eða öllu leyti, þar sem það þykir réttmætt.

Endurupptaka getur farið fram að frumkvæði samráðsnefndarinnar. Ennfremur skal endurupptaka fara fram komi fram beiðni um það frá aðila sem hagsmuna hefur að gæta, enda sýni hann fram á að aðstæður hafi breyst á þann hátt að réttlæti endurupptöku máls. Beiðni um endurupptöku skal þó ekki tekin til greina nema minnst 6 mánuðir séu liðnir frá því að rannsókn lauk. Beiðni skal beint til fjármálaráðuneytisins.

Þyki ljóst eftir frumathugun að endurupptaka sé réttmæt skal rannsókn hafin að nýju í samræmi við 25. til 27. gr. sé slíkt nauðsynlegt. Upptaka máls skal ekki út af fyrir sig hafa áhrif á þær ráðstafanir sem þegar hefur verið tekin ákvörðun um.

Komi í ljós að forsendur fyrir álagningu undirboðs- eða jöfnunartolla hafi breyst skal taka tillit til þeirra breytinga.

42. gr.

Undirboðs- eða jöfnunartollar skulu falla niður eigi síðar en 5 árum eftir að ákvörðun um álagningu þeirra hefur verið birt í Stjórnartíðindum.

Sýni hagsmunaðili samráðsnefndinni fram á að brottfall undirboðs- eða jöfnunartolla muni leiða á ný til tjóns skal hún birta tilkynningu í Lögbirtingablaði um endurskoðun gildandi ráðstafana sem leitt gætu til ákvörðunar um áframhaldandi ráðstafanir í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

43. gr. Endurgreiðsla.

Geti innflytjandi sýnt fram á að innheimta undirboðs- eða jöfnunartolls hafi farið fram úr raunverulegu undirboðsfráviki eða upphæð styrks skal oftekinn tollur þegar endurgreiddur. Endurgreiðslufjárhæð skal ákveðin með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á undirboðsfráviki eða upphæð frá því að upphafleg rannsókn fór fram.

Innflytjandi skal senda skriflega umsókn til fjármálaráðuneytisins um endurgreiðslu samkvæmt 1. mgr. Sé umsókn um endurgreiðslu á rökum reist, skal samráðsnefndin reikna út endurgreiðslufjárhæðina og senda niðurstöðuna fjármálaráðherra til ákvörðunar.

V KAFLI Ýmis ákvæði.

44. gr. Þagnarskylda.

Með upplýsingar, sem fengnar hafa verið samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar skal farið sem trúnaðarmál sé þess óskað.

Hvorki samráðsnefndarmenn né aðrir mega birta upplýsingar sem látnar hafa verið í té sem trúnaðarmál, nema sá sem gaf þær veiti skriflegt leyfi til þess.

Sé óskað eftir því að farið sé með upplýsingar sem trúnaðarmál skal tilgreina hvers vegna og skal fylgja útdráttur úr efni þeirra sem trúnaðarskylda taki ekki til eða yfirlýsing um hvers vegna útdráttur verði ekki gerður úr slíkum upplýsingum.

Upplýsingar skulu almennt taldar trúnaðarmál ef birting þeirra gæti haft verulega neikvæð áhrif fyrir heimildarmann eða þann sem veitti þær.

Komi í ljós að ósk um trúnað sé ekki réttmæt og heimildarmaður er ófáanlegur til að birta upplýsingar eða að leyfa birtingu þeirra með almennu orðalagi eða útdrætti, má virða þær að vettugi. Upplýsingar má einnig virða að vettugi sé ósk í þá veru réttmæt og heimildarmaður ófáanlegur til að leggja fram útdrátt úr efni þeirra.

Ákvæði þessarar greinar koma ekki í veg fyrir að yfirvöld birti almennar upplýsingar, einkum ef slíkt er nauðsynlegt til að upplýsa á hvaða málsástæðum ákvörðun samkvæmt reglugerð þessari er byggð. Við slíka birtingu skal taka tillit til lögmætra hagsmuna viðkomandi aðila af því að viðskiptaleyndarmálum sé ekki ljóstrað upp.

45. gr. Lögvernd o.fl.

Um innheimtu og lögvernd undirboðs- og jöfnunartolla fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

46. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 118. og 148. gr. tollalaga nr. 55/ 1987, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.