Fjármálaráðuneyti

640/1989

Reglugerð um greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli - Brottfallin

REGLUGERÐ

um greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli.

 

1. gr.

Tollstjórum er heimilt að uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar að veita innflytjendum, sem eru virðisaukaskattskyldir aðilar og stunda innflutningsverslun, framleiðslu eða viðgerðarþjónustu í atvinnuskyni, greiðslufrest á virðisaukaskatti vegna tollafgreiðslu á innfluttum vörum, sem taldar eru upp í viðauka við reglugerð þessa, svo og innfluttri þjónustu þegar hún tengist vöruinnflutningi, sbr. reglugerð þar um.

Innflytjendur sem óska eftir gjaldfresti á virðisaukaskatti skulu uppfylla eftirtalin skilyrði:

 

a) Innflytjandi stundi atvinnurekstur og hafi til þess tilskilin leyfi, svo sem verslunarleyfi, sbr. lög nr. 41/1968, iðnaðarleyfi, sbr. lög nr. 42/1978, eða önnur leyfi sem krafist er vegna atvinnustarfsemi.

b) Innflytjandi hafi tilkynnt Hagstofu Íslands um atvinnustarfsemi sína og hafi verið færður á fyrirtækjaskrá, sbr. lög nr. 62/1969.

c) Innflytjandi hafi tilkynnt skattstjóra um starfsemi sína samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

d) Innflytjandi hafi að mati tollstjóra sýnt fram á við gerð og frágang aðflutningsskjala að hann hafi til að bera fullnægjandi þekkingu á þeim lögum og reglum sem gilda um tollmeðferð innfluttra vara.

 

Tollstjóri getur krafið innflytjanda um staðfestingu á því að skilyrði í a til c-lið 2. mgr. séu uppfyllt.

 

2. gr.

Innflytjendur þeir sem um ræðir í 1. gr. skulu sækja um heimild til tollafgreiðslu með greiðslufresti á virðisaukaskatti á þar til gerðu eyðublaði til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem þeir eru heimilisfastir.

 

Í umsókn skal tilgreina eftirfarandi:

1. Nafn, kennitölu og aðsetur.

2. Virðisaukaskattsnúmer.

3. Hverjir hafi umboð til þess að skuldbinda innflytjanda með undirritun aðflutningsskýrslu fyrir hans hönd, riti hann ekki sjálfur undir hana, og láta rithandarsýnishorn fylgja umsókn.

4. Aðrar þær upplýsingar sem eyðublaðið gefur tilefni til.

 

Innflytjandi skal þegar tilkynna tollstjóra allar breytingar sem verða á upplýsingum samkvæmt framanrituðu.

 

3. gr.

Innflytjandi skal skila með umsókn sinni yfirlýsingu banka, sparisjóðs eða viðurkennds tryggingar- eða ábyrgðarfélags um að tekin sé skilyrðislaus sjálfskuldarábyrgð á tiltekinni fjárhæð lánaðs virðisaukaskatts hans vegna og skal ábyrgðin taka til virðisaukaskatts sem innflytjandanum hefur verið veittur gjaldfrestur á auk dráttarvaxta og annars kostnaðar sem leiða kann af vanefndum, sbr. 5. gr.

Innflytjandi ákveður fjárhæð ábyrgðar sem jafnframt er hámark þeirrar fjárhæðar virðisaukaskatts sem gjaldfrestur er veittur á innan hvers uppgjörstímabils, sbr. 4. gr.

Ábyrgð skal vera ótímabundin og uppsegjanleg af hálfu ábyrgðaraðila með ábyrgðarbréfi til viðkomandi tollstjóra með þriggja mánaða fyrirvara. Uppsögn breytir ekki ábyrgð varðandi virðisaukaskatt sem greiðslufrestur hefur verið veittur á fyrir gildistöku uppsagnar ábyrgðar. Eftir uppsögn ábyrgðar er tollstjóra óheimilt að tollafgreiða vörur á lánskjörum til viðkomandi innflytjanda nema önnur ábyrgð sé sett.

Tollstjóri gefur út staðfestingu til viðkomandi innflytjanda um heimild til greiðslufrests telji hann skilyrði að öðru leyti uppfyllt og gildir hún í öllum tollumdæmum landsins, sbr. þó 3. mgr. 6. gr.

Innflytjandi skal í aðflutningsskýrslu gefa til kynna að óskað sé eftir greiðslufresti á virðisaukaskatti sem ná skal til allra vara í vörusendingunni sem notið geta greiðslufrests. Að öðru leyti skulu aðflutningsskjöl lögð fram með venjulegum hætti við það tollstjóraembætti þar sem tollafgreiða á viðkomandi vörusendingu, sbr. 106. gr. tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum.

Óheimilt er að veita greiðslufrest á virðisaukaskatti þegar bráðabirgðatollafgreiðsla fer fram svo og uppgjör hennar.

 

4. gr.

Hvert uppgjörstímabil vegna greiðslufrests á virðisaukaskatti samkvæmt reglugerð þessari er tveir mánuðir: janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember. Innflytjendur, sem veittur hefur verið greiðslufrestur á virðisaukaskatti, skulu eftir lok hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða tollstjóra, þar sem þeir eru heimilisfastir, virðisaukaskatt sem þeim hefur verið lánaður.

Greiða má samkvæmt gíróseðli sem sendur er innflytjanda í lok uppgjörstímabils.

Virðisaukaskatti skal skila eigi síðar en á gjalddaga sem er 15. dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna tollafgreiðslna á því tímabili. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag á eftir.

7. gr. reglugerðar 529/1989 gildir um fullnægjandi skil á virðisaukaskatti samkvæmt reglugerð þessari.

 

5. gr.

Verði um vanskil á greiðslu virðisaukaskatts að ræða samkvæmt 4. gr. skal tollstjóri synja innflytjanda um frekari greiðslufrest á virðisaukaskatti meðan vanskil vara. Jafnframt skulu dráttarvextir reiknaðir á vangreiddan virðisaukaskatt frá og með gjalddaga og innheimtir í ríkissjóð. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta skulu gilda ákvæði 1. mgr. 9. gr. og 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Hafi vangreiddur virðisaukaskattur ekki verið greiddur innan fimmtán daga frá gjald­daga eins og hann er ákveðinn samkvæmt 4. gr. skal gengið að sjálfskuldarábyrgð samkvæmt 3. gr. og nægir einföld krafa tollstjóra til ábyrgðaraðila. Greiðsla skal hafa borist tollstjóra innan sjö daga frá dagsetningu kröfubréfs. Hafi greiðsla eigi borist tollstjóra innan þess tíma skal tollafgreiðsla til viðkomandi innflytjanda þegar stöðvuð og ekki hefjast að nýju fyrr en fullnaðarskil hafa verið gerð.

Nú á innflytjandi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og skal innheimtumaður skuldajafna endurgreiðslunni á móti kröfum um vangreiddan virðisaukaskatt sem veittur hefur verið greiðslufrestur á samkvæmt reglugerð þessari.

Tollstjóri sem veitt hefur heimild til greiðslufrests, sbr. 2. gr., getur svipt innflytjanda heimild til greiðslufrests vegna ítrekaðra vanskila á greiðslu virðisaukaskatts sem veittur hefur verið greiðslufrestur á svo og ef skilyrðum 1. gr. er ekki lengur fullnægt. Greiðslufrestur fellur niður þegar ákvæði 3. mgr. 104. gr. tollalaga nr. 55/1987 eiga við.

 

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 34. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, til að öðlast gildi 1. janúar 1990.

Þrátt fyrir ákvæði 1. málsliðar 1. gr. skal veita greiðslufrest á virðisaukaskatti af öllum innfluttum vörum til 31. ágúst 1990. Uppgjörstímabil og gjalddagar til 30. apríl 1990 skulu vera hinir sömu og um ræðir í 4. gr. Uppgjörstímabil frá 1. maí til 31. ágúst 1990, vegna virðisaukaskatts af öðrum vörum en þeim sem um ræðir í viðauka við reglugerð þessa og um skulu gilda ákvæði 4. gr., skal vera einn mánuður og gjalddagi 15. dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Að öðru leyti gilda um framkvæmd greiðslufrests á virðisaukaskatti samkvæmt þessari málsgrein ákvæði reglugerðar þessarar eftir því sem við geta átt.

Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 3. gr. skal greiðslufrestur einungis gilda vegna tollafgreiðslu við þau tollstjóraembætti og tollafgreiðslustaði þar sem tölvuvædd tollafgreiðsla fer fram, enda séu tölvukerfi þeirra í samræmi við þær kröfur og skilmála sem ríkistollstjóri gerir til samskipta við tölvukerfi ríkistollstjóraembættisins.

 

Fjármálaráðuneytið, 29. desem6er 1989.

 

Ólafur Ragnar Grímsson.

Guðrún Ásta Sigurðardóttir.

 

Viðauki: (sjá viðauka Stjórnartíðindi )


Þetta vefsvæði byggir á Eplica