Fjármálaráðuneyti

593/2010

Reglugerð um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. - Brottfallin

1. gr.

Með nýsköpunarfyrirtæki í reglugerð þessari er átt við lögaðila skv. 1. og 3. tölul. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem vinna að nýsköpun. Með nýsköpun er átt við starfsemi sem leiðir til nýrrar og endurbættrar afurðar, þjónustu eða ferils og markaðslegs ávinnings.

2. gr.

Viðskiptaáætlun sú sem leggja þarf fram vegna umsóknar um staðfestingu vegna skattfrádráttar skv. 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, skal varða það verkefni sem sótt er um staðfestingu vegna.

Með 12 mánaða tímabili skv. 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, er átt við rekstrarár viðkomandi umsækjanda um staðfestingu vegna skattfrádráttar.

3. gr.

Með viðurkenndu fyrirtæki í lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, er átt við fyrirtæki sem skráð er í fyrirtækjaskrá, eða eftir atvikum firmaskrá, og viðeigandi skrá ríkisskattstjóra eða sambærilegum skrám í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

4. gr.

Upplýsingagjöf til fjárfesta telst vera tryggð ef fyrirtæki er skráð í Kauphöll eða ef fullnægjandi gögnum hefur verið skilað til ársreikningaskrár ríkisskattstjóra.

5. gr.

Rannís skal innan tveggja mánaða frá móttöku umsóknar taka ákvörðun um hvort lögaðili hljóti staðfestingu og tilkynna umsækjanda um þá ákvörðun. Með umsókn í þessu sambandi er átt við fullgilda umsókn með þeim gögnum og upplýsingum sem Rannís óskar eftir.

Ríkisskattstjóri heldur skrá yfir lögaðila sem hlotið hafa staðfestingu Rannís og skal hún vera öllum aðgengileg. Skráin telst aðgengileg ef hún er birt á vefsíðu ríkisskattstjóra.

6. gr.

Staðfesting Rannís gildir fyrir það almanaksár sem umsókn varðar. Óski nýsköpunarfyrirtæki eftir framlengingu á staðfestingu skal umsókn þar að lútandi lögð fram eigi síðar en 1. apríl ár hvert og með henni skulu fylgja gögn um framvindu og kostnað vegna nýsköpunarverkefna.

7. gr.

Við útreikning á skattfrádrætti skal miða við kostnað við hvert verkefni sem hlotið hefur staðfestingu Rannís skv. 5. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Hámarkskostnaður til útreiknings frádráttar hvers fyrirtækis getur aldrei orðið meiri en 50.000.000 kr. eða 75.000.000 kr. ef um aðkeypta þjónustu er að ræða frá viðurkenndum aðila óháð fjölda verkefna. Við ákvörðun á hámarks frádrætti skal fyrst taka eigin rannsóknar- og þróunarkostnað að hámarki 50.000.000 kr. og síðan bæta við aðkeyptum kostnaði frá viðurkenndum aðila að hámarki 25.000.000 kr.

Sé um að ræða samstarfsverkefni gildir sama hámark fyrir verkefnið í heild, sbr. 1. mgr., en skattfrádrætti skal skipta hlutfallslega miðað við útlagðan kostnað hvers nýsköpunarfyrirtækis fyrir sig vegna verkefnisins.

8. gr.

Með opinberum aðila er átt við ríki, sveitarfélag, stofnanir þeirra og aðra opinbera aðila. Þá tekur skilgreiningin einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér. Aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi sem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar. Auk þess skal eitthvert eftirfarandi atriða eiga við um hann:

a. Starfsemi hans er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila. Miðað skal við að aðili sé að mestu leyti rekinn á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila ef opinber fjármögnun nemur meira en 50% af árlegum rekstrarkostnaði.

b. Hann lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.

c. Hann lýtur sérstakri stjórn sem ríki eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða aðrir opinberir aðilar skipa að meiri hluta.

Þeir opinberu aðilar sem taldir eru upp í 1. viðbæti ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006, sem birt var 7. september 2006 í EES-viðbæti Stjórnartíðinda ESB nr. 44/2006, skulu allir teljast opinberir aðilar í skilningi þessarar greinar.

9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 16. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 2. júlí 2010.

F. h. r.

Maríanna Jónasdóttir.

Ingibjörg Helga Helgadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica