Fjármálaráðuneyti

883/2005

Reglugerð um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. - Brottfallin

I. KAFLI

Hlutverk.

1. gr.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) er fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins og heyrir undir fjármálaráðherra.


2. gr.

ÁTVR hefur með höndum eftirtalin verkefni:



a. Innkaup á áfengi.
b. Birgðahald og dreifingu á áfengi til vínbúða.
c. Rekstur vínbúða.
d. Innkaup, innflutning,heildsölu og dreifingu á tóbaki.
e. Framleiðslu á neftóbaki.


3. gr.

ÁTVR skal sinna verkefnum sem versluninni eru falin í 2. gr. í samræmi við lög nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum, áfengislög nr. 75/1998, með síðari breytingum og reglugerð þessa. Starfsemi ÁTVR skal miða við að hún sé sem hagkvæmust og afli tekna, sem nægi til að greiða rekstrarkostnað og skila arði sem telst hæfilegur, m.a. með tilliti til þeirra eigna sem bundnar eru í rekstri hennar.


II. KAFLI

Yfirstjórn.

4. gr.

Ráðherra skipar þrjá menn í stjórn ÁTVR til tveggja ára í senn og jafnmarga til vara. Ráðherra skipar formann og varaformann stjórnar og ákveður þóknun stjórnarmanna.


5. gr.

Stjórn ÁTVR markar meginstefnu fyrirtækisins og hefur eftirlit með framkvæmd hennar. Stjórnin skilar ráðherra árlegri skýrslu um starfsemi sína.


6. gr.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi með a.m.k. einnar viku fyrirvara. Fundir stjórnar eru lögmætir ef a.m.k. tveir stjórnarmanna eru á fundinum. Ákvarðanir stjórnar skulu færðar til bókar. Forstjóri ÁTVR situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt.


7. gr.

Ráðherra skipar forstjóra ÁTVR. Forstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri. Hann ræður starfsfólk og ákveður starfssvið þess í samræmi við þarfir fyrirtækisins. Forstjóri gerir starfsáætlun og rekstraráætlun að höfðu samráði við stjórn ÁTVR og á grundvelli þeirrar meginstefnu sem stjórnin hefur markað. Forstjóri ber ábyrgð á gerð ársskýrslu fyrir hvert ár og kynnir hana fyrir stjórninni. Forstjóri kemur fram út á við fyrir hönd ÁTVR.


III. KAFLI

Innkaup og sala áfengis og tóbaks.

Vöruval áfengis.

8. gr.

Ákvarðanir um innkaup áfengis skulu byggjast á reglum um vöruval sbr. 9. gr. sem ÁTVR setur.



Reglurnar skulu annars vegar miða að því að tryggja vöruúrval með hliðsjón af eftirspurn kaupenda og hins vegar að því að tryggja framleiðendum og birgjum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu í vínbúðum. Reglurnar skulu hljóta staðfestingu ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.


9. gr.

Í vöruvalsreglum ÁTVR um áfengi skal sölutegundum áfengis, sem ÁTVR hefur á boðstólum, skipt í eftirtalda söluflokka eftir sölumeðferð: kjarna, reynsluflokk, mánaðarflokk og sérflokk. Áfengi í kjarna og í reynsluflokki skal einnig skipt upp í vöruflokka eftir þeim megineinkennum sem áfengið hefur vegna framleiðsluaðferða eða hráefnis sem notað var við framleiðsluna. Heimilt er að skipta einstökum vöruflokkum frekar upp, t.d. eftir uppruna. Einnig er heimilt að kveða á um hámarksstærð og lágmarksstærð umbúða sölutegunda í einstökum vöruflokkum.


10. gr.

Nýrri vöru, sem tekin er til ótímabundinnar sölu og ekki telst til sérflokks sbr. 12. gr., skal skipa í reynsluflokk. Í vöruvalsreglum ÁTVR skal kveðið á um þann árangur, sem ná þarf í sölu til að vara komist í varanlega sölu, haldist innan reynsluflokks eða dugi ekki til að sölu verði haldið áfram.



Í vöruvalsreglum skal kveða á um þann söluárangur sem ná þarf í sölu vöru, sem skráð er til varanlegrar sölu þ.e. í söluflokkinn kjarna til þess að hún haldist í söluflokknum.


11. gr.

ÁTVR getur haft til sölu í vínbúðum sínum áfengistegundir, sem hvorki eru í kjarna né reynsluflokki, ef þær eru sérstaklega ætlaðar til sölu á ákveðnum árstímum, enda séu þær að innihaldi frábrugðnar öðrum áfengistegundum frá sama áfengisframleiðanda og hefð fyrir sölu þeirra á ákveðnum árstíma. Þær áfengistegundir sem boðnar eru til sölu með þessum hætti skulu flokkast í mánaðarflokk. Tilgreina skal sölutíma í sölureglum ÁTVR.


12. gr.

Auk vöru í kjarna, reynsluflokki og mánaðarflokki getur ÁTVR haft á boðstólum í einni eða fleiri vínbúðum sínum áfengistegundir, sem ekki teljast til þessara flokka, en nauðsynlegt þykir að bjóða til sölu til að tryggja viðunandi fjölbreytni í vöruúrvali og þjóna eftirspurn kaupenda. Áfengistegundir seldar með þessum hætti skulu flokkast í sérflokk.


13. gr.

ÁTVR skal halda uppi pöntunarþjónustu á áfengi, sem ekki er boðið til sölu skv. ákvæðum 9. – 12. gr.



Í vöruvalsreglum skal nánar kveðið á um sölu áfengis í pöntunarþjónustu m.a. um þá tryggingu sem sá er pantar vöru setur fyrir því að af viðskiptum verði.


14. gr.

ÁTVR skal semja skrá um framlegð allrar sölutegunda áfengis. Með framlegð er átt við mun söluverðs og innkaupsverðs. Framlegðarskrá sýni framlegð vöru á 12 mánaða tímabili. Framlegð sexhundruðustu vöru á framlegðarskrá skal notuð til viðmiðunar um framtíð vöru í verslunum ÁTVR eftir því sem nánar verður kveðið á um í vöruvalsreglum.


15. gr.

Vöruvalsreglur skulu jafnan endurskoðaðar fyrir 1. mars ár hvert í ljósi fenginnar reynslu og í því skyni að ná fram markmiðum þeim er fram koma í 2. mgr. 8. gr. Að lokinni endurskoðun hverju sinni skulu reglurnar staðfestar af ráðherra á ný og birtar í heild.


16. gr.

Birgðahald áfengis.

ÁTVR skal halda birgðir af áfengi eftir því sem eftirspurn gefur tilefni til. Birgðahald hverrar sölutegundar skal einnig miðað við það sem hagkvæmt er með tilliti til aðfangakostnaðar og geymslukostnaðar, þ.m.t. fjárbindingar í birgðum.


17. gr.

Vínbúðir.

ÁTVR rekur vínbúðir, þar sem áfengi er selt í smásölu.



Ákvarðanir er varða rekstur á einstökum vínbúðum, t.d. um afgreiðslutíma, mannahald o.fl. skulu teknar með hliðsjón af því, hvað er hagkvæmt á hverjum stað.


18. gr.

Komi fram tillaga eða ósk um opnun vínbúðar frá sveitarstjórn, skal ÁTVR gera ráðherra grein fyrir afstöðu sinni og ráðherra síðan taka endanlega ákvörðun í málinu. ÁTVR getur einnig átt frumkvæði að tillögugerð til ráðherra um opnun, lokun eða flutning vínbúðar.


19. gr.

Verðlagning áfengis.

Verð á einstökum sölutegundum áfengis skal vera hið sama í öllum vínbúðum ÁTVR.


20. gr.

Verð á áfengi frá vínbúð skal ákveðið þannig að við afhendingarverð frá birgjum skal bætt álagningu, sem ákveðin er með tilliti til kostnaðar við smásöludreifingu og þess að hún skili arði sem telst hæfilegur m.a. með tilliti til þeirra eigna sem bundnar eru í rekstri ÁTVR. Álagningarhlutfallið skal vera hið sama innan hvers álagningarflokks, sbr. 21. gr.



Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ÁTVR heimilt að lækka tímabundið smásöluverð vöru sem felld hefur verið úr kjarna, sbr. 2. mgr. 10. gr.


21. gr.

Við ákvörðun álagningarhlutfalla skv. 2. mgr. 21. gr. skal áfengi skipt upp í þrjá álagningarflokka, bjór, áfengi til og með 22% vínanda miðað við rúmmál og aðra áfenga drykki. Hverjum álagningarflokki má skipta upp í undirflokka eftir sölumagni, veltuhraða og eðli vöru. Skal álagning reiknuð fyrir hvern undirflokk um sig og vera hin sama fyrir allar sölutegundir innan hans. Vöru í reynsluflokki, sérflokki og sérpantað áfengi skal verðleggja með sérstöku aukaálagi.



Fjármálaráðherra ákveður þær hlutfallstölur, sem notaðar eru við verðlagningu.


22. gr.

Við sölu á áfengi sem undanþegið er áfengisgjaldi eða ber lækkað áfengisgjald skv. 6. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi, sbr. 8. - 9. gr. reglugerðar nr. 505/1998 , um áfengisgjald, skal álagning ÁTVR vera hin sama í krónum talin og við sölu á gjaldskyldu áfengi.


Innkaup, vöruval, heildsala og dreifing tóbaks.

23. gr.

Ákvarðanir um innkaup tóbaks skulu byggjast á reglum um vöruval sem ÁTVR setur. Reglur um innkaup, vöruval, heildsölu og dreifingu tóbaks skulu settar eftir sömu meginmarkmiðum og tilgreind eru um áfengi í reglugerð þessari. Við val á tóbaksvöru er ÁTVR óbundið af notkun framlegðarskrár, sbr. 14. gr. en getur þess í stað notað skrá um magn seldrar vöru, þyki það betur henta.


IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

24. gr.

Stjórnarmenn, forstjóri og allir starfsmenn ÁTVR eru bundnir þagnarskyldu um öll þau atriði er þeir fá vitneskju um í starfi og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.


25. gr.

Reikningsár ÁTVR er almanaksárið. Um bókhald, gerð ársreiknings og endurskoðun gilda lög nr. 145/1994, um bókhald, og eftir því sem við geta átt lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og lög nr. 86/1997, um ríkisendurskoðun. Forstjóri ÁTVR staðfestir ársreikning að lokinni endurskoðun.


26. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 369/2003, um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, með síðari breytingum.


Fjármálaráðuneytinu, 26. september 2005.


F. h. r.

Baldur Guðlaugsson.
Elmar Hallgríms.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica