Viðskiptaráðuneyti

242/2006

Reglugerð um almenn útboð verðbréfa að verðmæti 210 millj. kr. eða meira og skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað. - Brottfallin

I. KAFLI

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um almenn útboð verðbréfa að verðmæti 210 millj. kr. eða meira og skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað sbr. IV. kafli laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, með síðari breytingum.

Fjárhæðarmark skv. 1. mgr. miðast við samanlagt markaðsverðmæti útboðs eða útboða verðbréfa af sömu tegund yfir 12 mánaða tímabil.

II. KAFLI

2. gr.

Orðskýringar.

1.

Verðbréf sem gefin eru út samfellt eða með endurteknum hætti: Útgáfuröð verðbréfa eða a.m.k. tvær útgáfur verðbréfa af svipaðri tegund og/eða í svipuðum flokki gefin út yfir 12 mánaða tímabil.

2.

Heimaríki:

i)

að því er varðar alla útgefendur verðbréfa á Evrópska efnahagssvæðinu, sem eru ekki tilgreindir í ii-lið, er heimaríki það ríki á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem útgefandinn er með skráða skrifstofu,

ii)

að því er varðar útgáfu verðbréfa sem ekki eru hlutabréfatengd,

a)

þar sem nafnverð hverrar einingar nemur a.m.k. kr. 83.000, eða

b)

sem veita rétt til að eignast framseljanleg verðbréf eða móttaka reiðufé af þeirri ástæðu að þeim hafi verið breytt eða réttur sem þau veita hafi verið nýttur, að því tilskildu að útgefandi verðbréfanna sé ekki útgefandi undirliggjandi verðbréfa eða aðili sem tilheyrir samstæðu útgefanda undirliggjandi verðbréfa,

er heimaríki það ríki á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem útgefandinn er með skráða skrifstofu eða þar sem verðbréfin voru eða munu verða skráð á skipulegan verðbréfamarkað eða þar sem almennt útboð verðbréfanna fer fram, að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess sem óskar eftir skráningu á skipulegan verðbréfamarkað, eftir því sem við á,

 

iii)

að því er varðar alla útgefendur verðbréfa sem eru með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins og eru ekki tilgreindir í ii-lið, er heimaríki það ríki á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem ætlunin er að láta fara fram almennt útboð á verðbréfunum í fyrsta sinn eftir 31. desember 2003 eða þar sem fyrsta umsókn um skráningu á skipulegan verðbréfamarkað er lögð fram.



Heimaríki skv. iii-lið er valið af útgefanda, tilboðsgjafa eða þeim sem óskar eftir skráningu á skipulegan verðbréfamarkað, eftir því sem við á. Ef heimaríki skv. iii-lið er ekki valið af útgefanda skal hann staðfesta valið.

Útgefendur sem eru með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins og hafa þegar skráð verðbréf á skipulegum verðbréfamarkaði skulu velja lögbært yfirvald skv. iii-lið 1. mgr. Ef Ísland er valið sem heimaríki skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu eigi síðar en 1. júní 2006.

3.

Gistiríki: Með gistiríki er átt við það ríki þar sem almennt útboð verðbréfa fer fram eða þar sem sótt er um skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað ef það ríki er ekki heimaríki skv. 2. tölul.

4.

Tilboðsgjafi: Aðili sem býður almenningi verðbréf til kaups.

5.

Staðfesting: Með staðfestingu er átt við jákvæða niðurstöðu úr athugun lögbærs yfirvalds heimaríkis á því hvort lýsing sé fullnægjandi, þ.m.t. hvort upplýsingar í lýsingu séu samræmdar og skýrar.



Fjárhæðir í þessari reglugerð eru bundnar við gengi evru (EUR) miðað við gengi hennar 4. janúar 2005 (83,54 kr.).

III. KAFLI

3. gr.

Ábyrgð á lýsingu.

Ábyrgð vegna upplýsinga sem gefnar eru í lýsingu hvílir a.m.k. á útgefanda eða stjórn, framkvæmdar- eða eftirlitsstjórn hans, tilboðsgjafa, þeim sem óskar eftir skráningu á skipulegan verðbréfamarkað eða ábyrgðaraðila, eftir því sem við á.

Þeir sem bera ábyrgðina skulu tilgreindir með skýrum hætti í lýsingunni með nafni og stöðuheiti eða, ef um er að ræða lögaðila, nafni og skráðri skrifstofu. Þar að auki skal fylgja yfirlýsing frá þeim þess efnis að samkvæmt þeirra bestu vitund séu upplýsingarnar í lýsingunni í samræmi við staðreyndir og að ekki sé neinum upplýsingum sleppt sem kynnu að skipta máli varðandi áreiðanleika lýsingarinnar.

Aðili getur ekki sætt skaðabótaábyrgð skv. almennum reglum þar að lútandi eingöngu á grundvelli samantektar, þ.m.t. þýðingar á henni, nema samantektin sé villandi, ónákvæm eða í ósamræmi við aðra hluta lýsingarinnar.

IV. KAFLI

4. gr.

Lýsingin.

Lýsing skal innihalda upplýsingar um útgefandann og verðbréfin sem fyrirhugað er að bjóða í almennu útboði eða skrá á skipulegan verðbréfamarkað. Lýsing skal einnig innihalda stutta og greinargóða samantekt sem lýsir megineinkennum og áhættu hvað varðar útgefandann, ábyrgðaraðila, ef við á, og verðbréfin sjálf. Samantektin skal vera á sama tungumáli og frumútgáfa lýsingarinnar.

Í samantektinni skal vakin athygli á eftirfarandi:

  1. að samantektina skuli lesa sem kynningu á lýsingunni,
  2. að ákvörðun um fjárfestingu í verðbréfunum skuli tekin á grundvelli lýsingarinnar í heild sinni,
  3. að ef farið er fyrir dómstóla með kröfu sem varðar upplýsingar í lýsingunni, gæti fjárfestir sem stefnir þurft að greiða kostnað við þýðingu á lýsingunni áður en málarekstur hefst, og
  4. að einstaklingar eða lögaðilar sem útbúið hafa samantektina, þ.m.t. þýðingu á henni, og sóttu um staðfestingu á samantektinni hjá Fjármálaeftirlitinu, geta sætt skaðabótaábyrgð skv. almennum reglum þar að lútandi en þó einungis ef samantektin er villandi, ónákvæm eða í ósamræmi við aðra hluta lýsingarinnar.

5. gr.

Lágmarksupplýsingar í lýsingu.

Lýsing skal uppfylla ákvæði IV. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar þessarar og ákvæði reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 809/2004 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB að því er varðar upplýsingar í lýsingum, svo og framsetningu þeirra, upplýsingar felldar inn með tilvísun, og birtingu lýsinganna, svo og dreifingu auglýsinga og tilgreina á skýran og skilmerkilegan hátt að minnsta kosti þau atriði sem fram koma í viðaukum með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 809/2004.

Ef ekki er hægt að birta í lýsingu eða grunnlýsingu upplýsingar um endanlegt útboðsgengi og fjölda verðbréfa sem verða boðin í almennu útboði skal tilgreina í lýsingunni eða grunnlýsingunni:

  1. þau viðmið og/eða skilyrði sem notuð verða til að ákvarða framangreind atriði eða, að því er varðar útboðsgengi, hámarksgengi, eða
  2. að hægt verði að afturkalla samþykki um kaup eða áskrift að verðbréfum í a.m.k. tvo virka daga eftir að upplýsingar um endanlegt útboðsgengi og fjölda verðbréfa sem verða boðin í almennu útboði hafa verið skráðar hjá Fjármálaeftirlitinu.

Skrá skal upplýsingar um endanlegt útboðsgengi og fjölda verðbréfa hjá Fjármálaeftirlitinu og birta upplýsingarnar í samræmi við 8. gr.

Ef tilteknar upplýsingar sem skal tilgreina í lýsingu eiga ekki við um starfssvið eða rekstrarform útgefandans eða verðbréfin skal lýsingin innihalda upplýsingar sem eru sambærilegar viðkomandi upplýsingum. Ef engar slíkar sambærilegar upplýsingar eru til staðar gildir umrædd krafa um upplýsingagjöf ekki.

6. gr.

Upplýsingar felldar inn með tilvísun.

Heimilt er að fella upplýsingar inn í lýsingu með tilvísun til eins eða fleiri skjala sem hafa verið birt eða eru birt samhliða lýsingu hafi þau verið staðfest af eða skráð hjá Fjármálaeftirlitinu eða birt á grundvelli upplýsingaskyldu útgefandans vegna skráningar á skipulegan verðbréfamarkað. Upplýsingarnar skulu vera þær nýjustu sem útgefandinn hefur undir höndum. Ekki er heimilt að fella upplýsingar inn í samantekt með tilvísun.

Þegar upplýsingar eru felldar inn með tilvísun skal fylgja skrá yfir millivísanir til að auðvelda fjárfestum að finna tilteknar upplýsingar.

7. gr.

Staðfesting lýsingar.

Óheimilt er að birta lýsingu fyrr en Fjármálaeftirlitið hefur staðfest hana.

Fjármálaeftirlitið skal tilkynna útgefanda, tilboðsgjafa eða þeim sem óskar eftir skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað, eftir því sem við á, um ákvörðun sína varðandi staðfestingu lýsingar innan tíu virkra daga frá því að drög að lýsingu voru lögð fram. Það jafngildir ekki staðfestingu þó Fjármálaeftirlitið tilkynni ekki um ákvörðun sína varðandi lýsinguna innan þess tímafrests sem mælt er fyrir um í þessari málsgrein og 3. mgr.

Tímafrestur, sem er tilgreindur í 2. mgr., skal lengdur í tuttugu virka daga ef útgefandi verðbréfanna sem boðin eru í almennu útboði hefur engin verðbréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði og hefur ekki áður boðið verðbréf í almennu útboði.

Ef Fjármálaeftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að framlögð skjöl séu ófullnægjandi eða þörf sé á viðbótarupplýsingum, gilda tímafrestir sem tilgreindir eru í 2. og 3. mgr. frá þeim degi sem útgefandi, tilboðsgjafi eða sá sem óskar eftir skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað lætur slíkar upplýsingar í té.

Í þeim tilvikum sem um getur í 2. mgr. ber Fjármálaeftirlitinu að tilkynna útgefanda innan tíu virkra daga frá því að umsókn var lögð fram ef framlögð skjöl eru ófullnægjandi.

Með fyrirvara um samþykki viðkomandi lögbærs yfirvalds, er Fjármálaeftirlitinu heimilt að færa staðfestingu á lýsingu til lögbærs yfirvalds annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna útgefanda, tilboðsgjafa eða þeim sem óskar eftir skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað um slíka tilfærslu innan þriggja virkra daga frá því ákvörðun liggur fyrir. Tímafrestur sem um getur í 2. mgr. gildir frá þeim tilkynningardegi.

8. gr.

Birting lýsingar.

Þegar lýsing hefur verið staðfest skal hún skráð hjá Fjármálaeftirlitinu og gerð aðgengileg almenningi af hálfu útgefanda, tilboðsgjafa eða þess sem óskar eftir skráningu verðbréfanna á skipulegan verðbréfamarkað. Skal það gert eins fljótt og auðið er, í öllu falli með góðum fyrirvara áður en almennt útboð hefst en þó eigi síðar en við upphaf almenns útboðs eða skráningar verðbréfanna á skipulegan verðbréfamarkað. Ef um er að ræða almennt frumútboð á flokki hlutabréfa sem ekki er skráður á skipulegan verðbréfamarkað en fyrirhugað er að skrá í fyrsta skipti, skal lýsingin vera aðgengileg í a.m.k. sex virka daga áður en útboðinu lýkur.

Lýsing telst aðgengileg almenningi þegar hún hefur verið birt:

  1. í heild sinni í einu eða fleiri dagblöðum sem dreift er um allt land eða hafa víðtæka útbreiðslu á Íslandi ef um er að ræða almennt útboð verðbréfa eða skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað á Íslandi, eða
  2. á prentuðu formi og gerð aðgengileg, almenningi að kostnaðarlausu, á starfsstöðvum verðbréfamarkaðar þar sem skrá á verðbréfin eða á skráðri skrifstofu útgefandans og á starfsstöðvum milligönguaðila á fjármálamarkaði sem annast markaðssetningu og/eða sölu verðbréfanna, þ.m.t. á starfsstöðvum þeirra sem annast greiðslur fyrir útgefandann, eða
  3. á rafrænu formi á vefsetri útgefanda og, ef við á, á vefsetri milligönguaðila á fjármálamarkaði sem annast markaðssetningu og/eða sölu verðbréfanna, þ.m.t. á vefsetri þeirra sem annast greiðslur fyrir útgefandann, eða
  4. á rafrænu formi á vefsetri þess skipulega verðbréfamarkaðar þar sem sótt er um skráningu, eða
  5. á rafrænu formi á vefsetri Fjármálaeftirlitsins.

Útgefendur sem birta lýsingar sínar í samræmi við a- eða b-lið skulu einnig birta þær á rafrænu formi í samræmi við c-lið.

Birta skal tilkynningu um hvernig lýsing hafi verið eða verði gerð aðgengileg og hvar almenningur getur nálgast hana. Tilkynninguna skal birta í einu eða fleiri dagblöðum sem dreift er um allt land eða hafa víðtæka útbreiðslu á Íslandi eigi síðar en næsta virka dag eftir birtingu lýsingarinnar.

Fjármálaeftirlitið skal birta á vefsetri sínu allar staðfestar lýsingar eða skrá yfir lýsingar sem hafa verið staðfestar síðastliðna 12 mánuði í samræmi við 7. gr., þ.m.t. tengil (e. hyperlink) á lýsingu á vefsetri útgefanda eða á vefsetri skipulegs verðbréfamarkaðar, ef við á.

Ef um er að ræða lýsingu sem samanstendur af nokkrum skjölum og/eða þar sem upplýsingar eru felldar inn með tilvísun, má birta viðkomandi skjöl og upplýsingar aðskilin og dreifa þeim aðskildum að því tilskildu að fyrrnefnd skjöl séu gerð aðgengileg, almenningi að kostnaðarlausu, í samræmi við 2. mgr. Í hverju skjali skal tilgreint hvar hægt sé að nálgast öll önnur skjöl sem eru hlutar af lýsingunni.

Texti og framsetning lýsingar og/eða viðauka við hana, sem eru birt eða gerð aðgengileg almenningi, skulu í öllum tilvikum vera nákvæmlega eins og frumútgáfan sem Fjármálaeftirlitið eða lögbært yfirvald heimaríkis staðfesti.

Ef lýsing er gerð aðgengileg almenningi á rafrænu formi skulu útgefandi, tilboðsgjafi, sá sem óskar eftir skráningu verðbréfanna á skipulegan verðbréfamarkað eða milligönguaðilar á fjármálamarkaði sem annast markaðssetningu og/eða sölu verðbréfanna engu að síður afhenda fjárfesti lýsinguna á prentuðu formi honum að kostnaðarlausu, óski hann þess.

9. gr.

Auglýsingar.

Hvers kyns auglýsingar sem varða annaðhvort almennt útboð verðbréfa eða skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað, skulu uppfylla þau skilyrði sem tilgreind eru í 2.-5. mgr. Ákvæði 2.-4. mgr. gilda þó aðeins um tilvik þar sem útgefandi, tilboðsgjafi eða sá sem óskar eftir skráningu á skipulegan verðbréfamarkað er skyldugur til að útbúa lýsingu.

Í auglýsingu skal koma fram að lýsing hafi verið eða verði birt og hvar fjárfestar geti eða muni geta nálgast lýsinguna.

Það skal vera ljóst að um auglýsingu sé að ræða. Upplýsingar í auglýsingu skulu hvorki vera ónákvæmar né villandi. Þær skulu einnig vera í samræmi við upplýsingar í lýsingunni ef hún hefur þegar verið birt eða þær upplýsingar sem skulu koma fram í lýsingu ef lýsingin verður birt síðar.

Allar upplýsingar sem varða almennt útboð verðbréfa eða skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað og sem miðlað er munnlega eða skriflega, jafnvel þó slíkt sé ekki gert í auglýsingaskyni, skulu undantekningarlaust vera í samræmi við þær upplýsingar sem fram koma í lýsingunni.

Ef ekki er skylt að birta lýsingu samkvæmt ákvæðum IV. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, með síðari breytingum, skulu mikilvægar upplýsingar sem útgefandi eða tilboðsgjafi veitir og beint er til fagfjárfesta eða tilgreindra hópa fjárfesta, þ.m.t. upplýsingar sem miðlað er í tengslum við fundi vegna útboða á verðbréfum, miðlað til allra fagfjárfesta eða tilgreindra hópa fjárfesta sem útboðið beinist eingöngu að. Ef skylt er að birta lýsingu, skulu upplýsingar sem miðlað er á ofangreindan hátt vera í lýsingunni eða viðauka við hana, sbr. 24. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, með síðari breytingum.

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að auglýsingar í tengslum við almenn útboð verðbréfa eða skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað uppfylli þau skilyrði sem tilgreind eru í 2.- 5. mgr.

10. gr.

Lýsingar sem staðfestar hafa verið af öðrum

lögbærum yfirvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Fjármálaeftirlitinu ber, með fyrirvara um 14. gr., að taka gildar lýsingar og viðauka við þær lýsingar sem staðfestar hafa verið af lögbærum yfirvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu að því tilskildu að tilkynningarskyldu skv. 11. gr. hafi verið fullnægt. Slíkar lýsingar eru undanskildar hvers konar staðfestingarferli eða stjórnsýslumeðferð hjá Fjármálaeftirlitinu.

Komi fram mikilvægar nýjar upplýsingar, veigamikil mistök eða ónákvæmni er varða upplýsingar í lýsingu eftir að lýsing hefur verið staðfest, er Fjármálaeftirlitinu heimilt að vekja athygli lögbærs yfirvalds viðkomandi heimaríkis á að þörf sé á nýjum upplýsingum.

11. gr.

Tilkynning lögbærra yfirvalda.

Fjármálaeftirlitið skal að beiðni útgefanda eða þess aðila sem ábyrgur er fyrir því að útbúa lýsingu, senda lögbæru yfirvaldi gistiríkis afrit af lýsingunni ásamt skriflegri staðfestingu þess efnis að lýsingin uppfylli þau skilyrði sem gerð eru til lýsinga á Evrópska efnahagssvæðinu. Fyrrnefnd gögn skulu látin í té innan þriggja virkra daga frá því að slík beiðni er lögð fram. Ef beiðnin er lögð fram ásamt drögum að lýsingu, skulu gögnin látin í té innan eins virks dags frá því að lýsingin er staðfest. Ef við á, skal þýðing á samantektinni látin fylgja. Þýðingin á samantektinni er á ábyrgð útgefanda eða þess aðila sem ábyrgur er fyrir því að útbúa lýsinguna. Sama ferli skal fylgt varðandi viðauka við lýsinguna. Fyrrnefnd gögn þurfa einnig að liggja fyrir til að Fjármálaeftirlitið geti tekið gildar lýsingar og viðauka við þær lýsingar sem staðfest hafa verið af lögbærum yfirvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 10. gr.

Ef tilteknar upplýsingar eiga ekki við skv. 4. mgr. 5. gr. þessarar reglugerðar og/eða veitt er undanþága frá birtingu tiltekinna upplýsinga skv. 4. mgr. 23. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, með síðari breytingum, skal það tilgreint í fyrrgreindri staðfestingu ásamt viðeigandi rökstuðningi.

12. gr.

Tungumál.

Eftirfarandi reglur gilda um tungumál lýsingar, eftir því sem við á:

  1. Þegar almennt útboð fer fram eða þegar einungis er sótt um skráningu á skipulegan verðbréfamarkað hérlendis og Ísland er heimaríki, skal lýsing samin á íslensku eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir.
  2. Þegar almennt útboð fer fram eða þegar sótt er um skráningu á skipulegan verðbréfamarkað í einu eða fleiri ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, að Íslandi sem heimaríki undanskildu, skal lýsing annaðhvort samin á tungumáli sem viðkomandi lögbær yfirvöld samþykkja eða á ensku að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess sem óskar eftir skráningu, eftir því sem við á. Til þess að Fjármálaeftirlitið geti tekið til skoðunar lýsingu, skal hún samin annaðhvort á því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir eða á ensku, að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess sem óskar eftir skráningu á skipulegan verðbréfamarkað, eftir því sem við á.
  3. Þegar almennt útboð fer fram eða þegar sótt er um skráningu á skipulegan verðbréfamarkað í fleiri en einu ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, þar á meðal hérlendis og Ísland er heimaríki, skal lýsing samin á tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir og einnig gerð aðgengileg annaðhvort á tungumálum sem lögbær yfirvöld gistiríkjanna samþykkja eða á ensku, að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess sem óskar eftir skráningu, eftir því sem við á.
  4. Þegar almennt útboð fer fram eða þegar sótt er um skráningu á skipulegan verðbréfamarkað á Íslandi og Ísland er gistiríki skal lýsing gerð aðgengileg á tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir eða ensku að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess sem óskar eftir skráningu, eftir því sem við á. Fjármálaeftirlitið getur farið fram á að samantektin sé þýdd á íslensku.
  5. Þegar sótt er um skráningu verðbréfa sem ekki eru hlutabréfatengd á skipulegan verðbréfamarkað í einu eða fleiri ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, og verðbréfin eru í einingum sem nema að lágmarki 4,2 millj. kr. að nafnverði, skal lýsingin samin annaðhvort á tungumáli sem lögbær yfirvöld í viðkomandi heimaríki og gistiríkjum samþykkja eða á ensku, að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess sem óskar eftir skráningu, eftir því sem við á. Ef samantekt liggur fyrir er Fjármálaeftirlitinu ekki heimilt að fara fram á að hún sé þýdd.

13. gr.

Útgefendur sem eru með skráða skrifstofu í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ef Ísland er heimaríki útgefanda sem hefur skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, getur Fjármálaeftirlitið staðfest lýsingu fyrir almennt útboð eða skráningu á skipulegan verðbréfamarkað sem samin er í samræmi við löggjöf viðkomandi ríkis, ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

  1. að lýsingin hafi verið samin í samræmi við alþjóðlega staðla setta af alþjóðlegum samtökum eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði þ.m.t. staðlar Alþjóðasamtaka eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði (IOSCO) um birtingu upplýsinga,
  2. að kröfur til upplýsingagjafar þ.m.t. kröfur vegna fjárhagslegra upplýsinga, séu sambærilegar þeim kröfum sem fram koma í IV. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, með síðari breytingum og reglugerð þessari.

Ef um er að ræða almennt útboð eða skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað hérlendis og Ísland er ekki heimaríki og útgefandi verðbréfanna er með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, gilda ákvæði 10., 11. og 12. gr.

14. gr.

Varúðarráðstafanir ef Ísland er gistiríki.

Komist Fjármálaeftirlitið að því að lög eða reglur hafi ekki verið virtar af útgefanda eða fjármálafyrirtæki sem hefur umsjón með almennu útboði eða að útgefandi hafi ekki uppfyllt þær skyldur sem skráning verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað leggur á herðar hans, skal það vísa málinu til lögbærs yfirvalds viðeigandi heimaríkis.

Ef útgefandi eða fjármálafyrirtæki sem hefur umsjón með almennu útboði halda áfram að brjóta viðkomandi lög eða reglur, þrátt fyrir ráðstafanir lögbærs yfirvalds viðeigandi heimaríkis eða vegna þess að slíkar ráðstafanir bera ekki árangur, skal Fjármálaeftirlitið, eftir að hafa tilkynnt það lögbæru yfirvaldi heimaríkis, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda fjárfesta.

15. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 71/2003 um lýsingar þegar verðbréf eru boðin í almennu útboði eða skráð á skipulegan verðbréfamarkað.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 1. mgr. 73. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Samtímis fellur úr gildi reglugerð nr. 630/2003 um verðbréfaviðskipti.

Ákvæði til bráðabirgða.

Heimilt er í þrjá mánuði frá gildistöku þessarar reglugerðar að semja og birta útboðslýsingu og/eða skráningarlýsingu og fara í almennt útboð og skrá verðbréf í kauphöll í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 630/2003 um verðbréfaviðskipti og reglugerðar nr. 434/1999 um opinbera skráningu verðbréfa í kauphöll eins og þær voru fyrir gildistöku þessarar reglugerðar.

Viðskiptaráðuneytinu, 23. mars 2006.

Valgerður Sverrisdóttir.

Kristján Skarphéðinsson.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica