Fjármálaráðuneyti

667/1995

Reglugerð um framtal og skil á virðisaukaskatti.

Breytingareglugerðir:

1.gr.

            Hvert uppgjörstímabil virðisaukaskatts er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember.

Uppgjörstímabil bænda.

2.gr.

            Uppgjörstímabil aðila á landbúnaðarskrá, sbr. 30. gr. laga nr. 50/1988, er sex mánuðir, janúar til og með júní og júlí til og með desember.

Ársuppgjörstímabil.

3.gr.

            Aðili sem selur skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 800.000 kr. tvö almanaksár í röð skal á næsta almanaksári þar á eftir nota árið sem uppgjörstímabil. Ákvæði þetta tekur ekki til þeirra sem falla undir 2. gr. og 1. mgr. 4. gr.

            Skattstjóri skal tilkynna aðila um breytt uppgjörstímabil hafi skattskyld velta hans undanfarin tvö almanaksár verið undir þeim mörkum er greinir í 1. mgr.

            Fari skattskyld velta aðila skv. 1. mgr. umfram þau mörk sem þar greinir skal hann á næsta gjalddaga almennra uppgjörstímabila, sbr. 1. gr., gera upp mismun þess útskatts og innskatts sem fallið hefur á sölu og kaup skattaðila á almanaksárinu.

Skemmri uppgjörstímabil.

4.gr.

            Fyrirtæki geta fengið heimild skattstjóra til þess að nota hvern almanaksmánuð sem uppgjörstímabil ef útskattur er að jafnaði lægri en innskattur vegna þess að verulegur hluti veltunnar er undanþeginn skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Nú nemur útskattur í slíku fyrirtæki að jafnaði minna en helmingi innskatts og getur skattstjóri þá heimilað því að nota skemmra uppgjörstímabil en einn mánuð, en þó ekki skemmra en eina viku.

            Aðilar á landbúnaðarskrá geta þrátt fyrir ákvæði 2. gr. fengið heimild skattstjóra til þess að nota almenn uppgjörstímabil skv. 1. gr.

            Uppgjörstímabil má einungis breyta þannig að það sé miðað við upphaf tveggja eða sex mánaða tímabils skv. 1. eða 2. gr. Uppgjörstímabilum, sem eru skemmri en einn mánuður, skal haga þannig að hverjum almanaksmánuði er skipt í tvö eða fjögur því sem næst jafnlöng uppgjörstímabil. Beiðni um breytingu á uppgjörstímabili verður að hafa borist skattstjóra a.m.k. einum mánuði fyrir gildistöku væntanlegrar breytingar. Fái aðili heimild til að breyta uppgjörstímabili skal sú breyting gilda í a.m.k. tvö ár.

Tímabundin uppgjörstímabil.

5.gr.

            Aðili sem tímabundið hefur með höndum skattskylda starfsemi getur fengið heimild skattstjóra til að nota sérstakt uppgjörstímabil sem tekur til þess tímabils sem starfsemi varir. Tímabundið uppgjörstímabil getur hið skemmsta verið einn fjórði hluti almanaksmánaðar og lengst tveir almanaksmánuðir.

Virðisaukaskattskýrslur.

6.gr.

            Virðisaukaskattskyldir aðilar skulu ótilkvaddir gera grein fyrir virðisaukaskatti, sem þeim ber að standa skil á eða þeir eiga rétt á að fá endurgreiddan, á séerstökum virðisaukaskattskýrslum sem ríkisskattstjóri lætur gera. Ríkisskattstjóri ákveður hvaða upplýsingar skuli gefa á skýrslum þessum. Skýrslur til nota fyrir þá sem hafa tveggja mánaða, sex mánaða eða ársuppgjörstímabil skulu vera í formi gíróseðils.

            Sé um að ræða leiðréttingaruppgjör skv. 3. mgr. 3. gr. eða leiðréttingu á áður ákvörðuðum virðisaukaskatti skal gerð grein fyrir því á sérstökum leiðréttingarskýrslum í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

            Virðisaukaskattskýrslu ber einnig að skila innheimtumanni eða skattstjóra fyrir hvert uppgjörstímabil þótt ekki hafi verið um skattskylda veltu að ræða.

Aðrar upplýsingar virðisaukaskattskylds aðila.

7.gr.

            Til viðbótar því sem skýrslueyðublöð skv. 6. gr. gefa tilefni til skal skattaðili skýra frá öðrum atriðum sem kunna að skipta máli um virðisaukaskattskil hans. Einnig er virðisaukaskattskyldum aðila skylt að láta skattyfirvöldum í té, í því formi sem óskað er nánari sundurliðun á þeim fjárhæðum sem hann færir á virðisaukaskattskýrslu, svo og styðja þær gögnum sé þess óskað.

Gjalddagar.

8.gr.

            Virðisaukaskatti ásamt virðisaukaskattskýrslu skal skila eigi síðar en á gjalddaga. Þegar um er að ræða almenn uppgjörstímabil, sbr. 1. gr., er gjalddagi fimmti dagur annars almanaksmánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna viðskipta á því tímabili. Þó er gjalddagi aðila á landbúnaðarskrá 1. september ár hvert vegna viðskipta á fyrri hluta árs og 1. mars ár hvert vegna viðskipta á síðari hluta næstliðins árs.

            Gjalddagi vegna skemmri uppgjörstímabila, sbr. 1. mgr. 4. gr., eða tímabundinna uppgjörstímabila, sbr. 5. gr., er einum mánuði og fimm dögum eftir lok tímabilsins vegna viðskipta á því tímabili. Gjalddagi vegna ársuppgjörs, sbr. 3. gr., er 15. mars ár hvert vegna viðskipta á næstliðnu ári.

            Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag á eftir.

Fullnægjandi skil á virðisaukaskatti.

9.gr.

            Það teljast fullnægjandi skil á virðisaukaskatti ef:

  1. Greitt er í banka, sparisjóði eða pósthúsi í síðasta lagi á gjalddaga.
  2. Greitt er hjá innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga. Innheimtumenn virðisaukaskatts eru tollstjórinn í Reykjavík og sýslumenn utan Reykjavíkur.
  3. Póstlögð greiðsla hefur borist innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga.

Skil eru ekki fullnægjandi nema allar tilskildar upplýsingar komi fram á skýrslu og hún sé undirrituð af skattaðila eða ábyrgum starfsmanni hans.

Endurgrieðsla á virðisaukaskatti.

10.gr.

            Sé innskattur hætti en útskattur á einhverju uppgjörstímabili skal senda skýrslu vegna þess tímabils til skattstjóra í því umdæmi þar sem skattaðili á lögheimili. Skattstjór skal rannsaka slíka skýrslu sérstaklega. Fallist hann á skýrsluna tilkynnir hann innheimtumanni ríkissjóðs um samþykki sitt til endurgreiðslu.

            Hafi skýrslu verið skilað á tilskildum tíma skal endurgreiðsla fara fram innan fimmtán daga frá lokum skilafrests skv. 8. gr. Berist skýrsla eftir lok skilafrests skal endurgreiðsla fara fram innan fimmtán daga frá því að skattstjóri kvað upp úrskurð um innsenda skýrslu. Hafi skattaðili fengið heimild skattstjóra til að nota skemmra uppgjörstímabil, sbr. 4. gr., skal endurgrieðsla fara fram innan fimmtán daga frá því að skýrsla barst skattstjóra.

            Geti skattstjóri vegna aðstæðna skattaðila ekki gert nauðsynlegar athuganir á gögnum þeim er skýrslugjöfin byggist á framlengist frestur sá sem um ræðir í 2. mgr. um þann tíma sem slíkar aðstæður ríkja.

            Skattstjóri má aðeins samþykkja endurgreiðslu til skattaðila sem nota ársuppgjörstímabil skv. 1. mgr. 3. gr. þegar fyrir liggur ársreikningur.

            Skattstjóri má aðeins samþykkja endurgreiðslu samkvæmt þessari grein að skattákvörðun liggi fyrir vegna fyrri uppgjörstímabila. Kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatt til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum skal skuldajafna á móti endurgreiðslu. Skuldajafna má ógreiddum virðisaukaskatti vegna fyrri tímabila ásamt álagi og dráttarvöxtum þótt hann sé ekki enn fallinn í gjalddaga.

Aukauppgjör bænda.

11.gr.

            Skattstjóra er heimilt að fallast á beiðni þeirra sem stunda landbúnað, sbr. 2. gr., um aukauppgjör á virðisaukaskatti ef í ljós kemur að þeir eiga kröfu á verulegri endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á fjárfestingar- og rekstrarvörum.

            Skilyrði aukauppgjörs er að útskattur á því tímabili sem beiðni um aukauppgjör tekur til nemi minna en tveimur þriðju hlutum innskatts á tímabilinu.

            Hvert aukauppgjör tekur til tveggja eða fjögurra almanaksmánaða talið frá upphafi yfirstandandi sex mánaða uppgjörstímabils eða lokum fyrra aukauppgjörstímabils. Gera skal upp útskatt og innskatt vegna viðskipta á aukauppgjörstímabilinu eins og um reglulegt uppgjör væri að ræða.

Bráðabirgðauppgjör sláturleyfishafa.

12.gr.

            Sláturleyfishafar samkvæmt lögum nr. 30/1966 geta fengið heimild skattstjóra til að skila á ári hverju tveimur sérstökum bráðabirgðaskýrslum vegna innskatts af innlögðum sauðfjárafurðum. Uppgjörstímabil skýrslna þessara skal vera frá 1. september til og með 15. október og frá 1. nóvember til og með 15. desember.

            Skattstjóri skal afgreiða bráðabirgðaskýrslu án ástæðulauss dráttar.

            Við reglulegt uppgjör skal sláturleyfishafi færa á skýrslu annan innskatt en bráðabirgðaskýrsla tekur til.

Umsjá með framtali, skilum og uppgjöri annarra.

13.gr.

            Ríkisskattstjóri getur heimilað aðila að sjá um framtal, skil og uppgjör virðisaukaskatts af skattskyldri sölu á vöru eða þjónustu annars aðila enda hafi aðilar samið um slíka tilhögun skriflega. Heimild ríkisskattstjóra getur verið tímabundin og háð öðrum skilyrðum sem hann setur.

Um innheimtu á vangoldnum virðisaukaskatti.

14.gr.

            Til að tryggja sem best virðisaukaskattskröfu ríkissjóðs skal innheimtumaður hefja innheimtuaðgerðir, þ.m.t. lokunaraðgerðir skv. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988, í síðasta lagi 30 dögum eftir að skattstjóri, eftir atvikum ríkisskattstjóri, hefur ákvarðað virðisaukaskatt vegna viðkomandi uppgjörstímabils eða endurákvarðað gjaldanda virðisaukaskatt vegna fyrri tímabila.

            Ef ágreiningur um skattskyldu eða skatthæð er til meðferðar hjá yfirskattanefnd getur innheimtumaður frestað lokunaraðgerðum, enda bjóði skuldari fram sjálfskuldarábyrgð banka eða sparisjóðs, er innheimtumaður metur fullnægjandi, til tryggingar virðisaukaskattskuld, álagi, dráttarvöxtum og öllum innheimtukostnaði.

            Staðfesti yfirskattanefnd úrskurð skattstjóra eða ríkisskattstjóra að öllu leyti eða að hluta skal innheimtumaður ganga að bankaábyrgð skv. 2. mgr., nema aðili greiði að fyllu skattkröfu ríkissjóðs. Beri gjaldandi ágreining undir dómstóla getur innheimtumaður þó samþykkt nýja bankaábyrgð þar til endanlegur dómur hefur gengið í málinu.

Álag.

15.gr.

            Sé virðisaukaskattur ekki greiddur á tilskildum tíma skal aðili sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á. Sama gildir ef virðisaukaskattskýrlu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla skv. 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, verið of há.

            Álagi skal ekki beitt á skil vegna eldri uppgjörstímabila sem gerð eru réttilega skv. 3. mgr. 3.gr.

Refsiákvæði.

16.gr.

            Brot gegn ákvæðum 5. og 6. gr. varða refsingu skv. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Gildistaka.

17.gr.

            Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 1. mgr. 24. gr., 1. og 2. mgr. 33. gr. og 1. og 3. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 1996. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 529/1989, um framtal og skil á virðisaukaskatti, með síðari breytingum.

Bráðabirgðaákvæði.

            Aðilar sem hafa skattskylda veltu undir 800.000 kr. á almanaksárunum 1994 og 1995 skulu þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 3. gr. nota ársuppgjörstímabil skv. 1. mgr. 3. gr. frá og með 1. janúar 1996.

Fjármálaráðuneytið, 27. desember 1995.

F.h.r.

Indriði H. Þorláksson.

Jón Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica