Fjármála- og efnahagsráðuneyti

585/2017

Reglugerð um vátryggingastarfsemi. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um starfsemi vátryggingafélaga hér á landi. Reglugerðin er byggð á fram­seldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/35 frá 10. október 2014 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II) og framseldri reglugerð framkvæmdastjórnar­innar (ESB) 2016/467 frá 30. september 2015, sem breytti reglugerð 2015/35/ESB að því er varðar útreikning gjaldþolskröfu vegna tiltekinna eignaflokka.

Kaflar I (að undanskilinni 2. gr.) -VIII, X-XI og XV í I. þætti og kaflar I-IV í III. þætti reglugerðar 2015/35/ESB ásamt viðaukum I-V og XI-XIX og reglugerð 2016/467/ESB er birt á ensku með auglýsingu nr. 3/2017 í C-deild Stjórnartíðinda og öðlast gildi hér á landi með heimild í 2. mgr. 4. gr., sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

Í reglugerð þessari er byggt á 2. gr. í I. kafla og IX., XIII. og XIV. kafla í I. þætti reglugerðar 2015/35/ESB ásamt síðari breytingum.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:

  1. Fráviksaðferðir fyrir mat (e. alternative valuation method): Verðmatsaðferðir vegna mats á eignum og skuldbindingum, aðrar en þær sem nota eingöngu skráð markaðsverð fyrir sömu eða svipaðar eignir eða skuldir.
  2. Sviðsmyndagreining (e. scenario analysis): Greining áhrifa af samsettum neikvæðum atburðum.
  3. Gildandi vátryggingarsamningur (e. existing insurance contract): Vátryggingarsamningur þar sem vátryggingarskuldbinding hefur skapast.
  4. Væntur hagnaður innifalinn í framtíðariðgjöldum (e. the expected profit included in future premiums): Vænt núvirði af framtíðarsjóðstreymi sem fæst með því að fella inn í vátrygg­ingaskuld iðgjöld, vegna gildandi vátryggingarsamninga, sem búist er við í fram­tíðinni, en sem hugsanlega yrðu ekki greidd af annarri ástæðu en þeirri að vátrygginga­atburður hafi orðið, án tillits til lagalegra eða samningsbundinna réttinda vátryggingar­takans til að segja upp samningnum.
  5. Veðlánatrygging (e. mortgage insurance): Greiðsluvátrygging sem veitir lánveitendum vernd ef veðlán þeirra lenda í vanskilum.
  6. Innviðaeignir (e. infrastructure assets): Áþreifanlegar byggingar eða búnaður, kerfi og net sem veita eða styðja við nauðsynlega opinbera þjónustu.
  7. Fyrirtæki í innviðafjárfestingum (e. infrastructure project entity): Fyrirtæki sem má ekki hafa aðra starfsemi en að eiga, fjármagna, þróa eða reka innviðaeignir, þar sem greiðslur til lánardrottna og hlutabréfafjárfesta eru að mestum hluta fengnar með þeim eignum sem eru fjármagnaðar.

Ákvæði þetta byggir á 1. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

3. gr.

Sérfræðiálit.

Þegar vátryggingafélag gefur sér forsendur vegna mats á eignum og skuldum, vátryggingaskuld, gjaldþoli, gjaldþolskröfum, lágmarksfjármagni og fjárfestingarreglum skulu þær byggðar á þekkingu einstaklinga með viðeigandi kunnáttu, reynslu og skilning á áhættu í vátryggingastarfsemi.

Vátryggingafélag skal, að teknu tilliti til hlutfallsreglunnar, tryggja að þeim sem byggja á forsendum 1. mgr. sé kunnugt um þær, áreiðanleikastig þeirra og takmarkanir. Það gildir einnig um þjón­ustu­aðila sem starfssviði eða starfsemi hefur verið útvistað til.

Ákvæði þetta byggir á 2. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

II. KAFLI

Stjórnkerfi.

4. gr.

Almennar kröfur um stjórnarhætti.

Vátryggingafélag skal í starfsemi sinni:

  1. hafa skilvirkt samstarf, innri skýrslugerð og miðlun upplýsinga á öllum sviðum félagsins,
  2. hafa skilvirkar aðferðir við ákvarðanatöku og skipurit sem útskýrir boðleiðir, úthlutun starfssviða og ábyrgð og skal taka mið af eðli, umfangi og margbreytileika áhættu í rekstri þess,
  3. tryggja að í stjórn félagsins sé nauðsynleg hæfni, geta, færni og starfsreynsla á viðeigandi sviðum rekstrarins til að félaginu sé stjórnað á faglegan og skilvirkan hátt,
  4. tryggja að hver stjórnarmaður hafi nauðsynlega hæfni, getu, færni og starfsreynslu til að sinna þeim verkefnum sem honum eru falin,
  5. hafa starfsfólk sem hefur færni, þekkingu og sérhæfingu til að sinna þeim ábyrgðarsviðum sem þeim eru falin,
  6. tryggja að allt starfsfólk þekki verklag sem þarf til að það geti sinnt skyldum sínum,
  7. tryggja að úthlutun verkefna til starfsfólks og starfssviða hindri ekki eða sé ekki líklegt til að hindra starfsfólk við að sinna starfi sínu á traustan, heiðarlegan og hlutlægan hátt,
  8. vera með upplýsingakerfi sem skila heildstæðum, áreiðanlegum, skýrum, samkvæmum, tímanlegum og viðeigandi upplýsingum um starfsemina, skuldbindingar og áhættuþætti sem félagið er útsett fyrir,
  9. skrá með skipulegum hætti upplýsingar um rekstur félagsins og innra skipulag,
  10. tryggja öryggi og áreiðanleika upplýsinga og trúnað félagsins að teknu tilliti til eðlis þeirra,
  11. hafa skýrar boðleiðir við miðlun upplýsinga og tryggja að þær séu þannig settar fram að auðvelt sé fyrir starfsfólk að átta sig á mikilvægi þeirra fyrir starf sitt,
  12. vera með skriflega starfskjarastefnu.

Í stefnum um áhættustýringu, innra eftirlit, innri endurskoðun og, ef við á, útvistun skal tilgreina ábyrgðarsvið, markmið, úrvinnslu og aðferðir við upplýsingagjöf, allt í samræmi við heildarstefnu félagsins.

Vátryggingafélag skal hafa stefnu um rekstrarsamfellu sem á að tryggja viðhald mikilvægra gagna og starfssviða og áframhaldandi vátryggingastarfsemi verði truflun í kerfum og verklagi. Verði því ekki við komið skal hafa stefnu um hvernig unnt er að endurheimta gögnin og starfssviðin og endurreisa starfsemina tímanlega.

Vátryggingafélag skal tryggja að að minnsta kosti tveir einstaklingar stjórni félaginu í reynd, þ.e. að tveir einstaklingar komi að ákvarðatökum fyrir félagið.

Vátryggingafélag skal tryggja að til staðar séu skilvirkir ferlar og verklag til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og að til staðar sé greining á mögulegum ástæðum fyrir hagsmunaárekstrum. Einnig skal vera verklag sem tryggir að þeir sem gera og innleiða áætlanir og stefnur félagsins séu meðvitaðir um hvar hagsmunaárekstrar geta verið og hvernig taka skuli á slíkum árekstrum.

Vátryggingafélag skal reglulega vakta og meta hvort stjórnkerfi þess sé fullnægjandi og skilvirkt og bæta úr annmörkum þegar tilefni er til.

Ákvæði þetta byggir á 258. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

5. gr.

Áhættustýring.

Vátryggingafélag skal hafa áhættustýringarkerfi með eftirtöldum þáttum:

  1. skilgreinda, skriflega stefnu um áhættustýringu í samræmi við heildarstefnu félagsins. Stefnan skal hafa markmið og meginreglur, samþykkt þolmörk áhættu og verkefni ábyrgðar­sviða í starfsemi félagsins,
  2. skilgreint verklag um ákvarðanatökuferli,
  3. skriflegar stefnur sem tryggja á skilvirkan hátt að veigamiklir áhættuþættir sem félagið er útsett fyrir séu skilgreindir og flokkaðir eftir gerð og samþykkt þolmörk áhættu fyrir hvern áhættuþátt. Í stefnunum skal útfæra hvernig áhættustefna félagsins er framkvæmd og hvernig eftirlitskerfi er gert að teknu tilliti til eðlis, umfangs og rekstrartímabila og tengdra áhættuþátta,
  4. verklag og ferla við skýrslugjöf sem tryggja að upplýsingar um veigamikla áhættu sem félagið er útsett fyrir og skilvirkni áhættustýringarkerfisins séu vaktaðar og greindar með virkum hætti og að kerfið verði lagfært ef nauðsyn krefur.

Vátryggingafélag skal tryggja að stjórn, forstjóri og ábyrgðarmenn lykilstarfssviða taki tillit til upplýsinga sem eru hluti af áhættustýringarkerfinu við ákvarðanatöku.

Vátryggingafélag skal framkvæma álagspróf og sviðsmyndagreiningar eftir því sem við á að teknu tilliti til allrar viðeigandi áhættu sem félagið er útsett fyrir.

Þegar útreikningur á vátryggingaskuld eða gjaldþolskröfu byggir á lánshæfismati viðurkennds lánshæfismatsfyrirtækis eða þeirri staðreynd að áhættuskuldbinding hafi ekki verið metin skal vátryggingafélag einnig taka tillit til annarra upplýsinga sem skipta máli.

Ákvæði þetta byggir á 259. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

6. gr.

Umfang áhættustýringar.

Vátryggingafélag skal hafa stefnu um eftirtalda þætti í áhættustýringu:

  1. Áhættutöku og vátryggingaskuld sem mælir fyrir um:
    1. aðgerðir félagsins til að meta og stýra áhættu vegna taps eða óhagstæðrar breyt­ingar á virði vátryggingarskuldbindinga sem stafa af ófullnægjandi forsendum vegna verðlagningar og tjónamata,
    2. að gögn sem stuðst er við séu fullnægjandi, og hvernig gæði þeirra eru við áhættu­töku og mat á vátryggingaskuld skv. 19. gr. reglugerðar 2015/35/ESB og að það sam­ræmist viðmiðum um nægjanleika og gæði,
    3. að verklag við uppgjör tjóna sé fullnægjandi, þ.m.t. að hve miklu marki það nær yfir allt tjónameðferðarferlið.
  2. Eigna- og skuldastýringu sem mælir fyrir um:
    1. hvert sé ósamræmi í uppbyggingu á eignum og skuldum, einkum ósamræmi í líftíma eigna og skulda,
    2. hæði milli áhættu af mismunandi eigna- og skuldaflokkum,
    3. hæði milli áhættu af mismunandi vátryggingarskuldbindingum,
    4. áhættuskuldbindingar félagsins utan efnahagsreiknings,
    5. áhrif af viðeigandi áhættuvörnum á eigna- og skuldastýringu.
  3. Stjórnun fjárfestingaráhættu sem mælir fyrir um:
    1. aðgerðir félagsins til að tryggja að fjárfestingar þess séu í samræmi við varfærnis­regluna, sbr. 113. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi,
    2. aðgerðir félagsins til að tryggja að fjárfestingar þess taki tillit til eðlis rekstrarins, samþykktra þolmarka áhættu þess, gjaldþolsstöðu þess og áhættuskuldbindinga þess til lengri tíma,
    3. eigið innra mat félagsins á kröfuáhættu af fjárfestingu mótaðila, þ.m.t. þegar mót­aðilinn er ríki,
    4. markmið og áhrif af notkun afleiða eða annarra sambærilegra fjármálagerninga, stefnu um notkun þeirra og hvernig notkunin stuðlar að skilvirkri stjórnun eignasafns eða dregur úr áhættu, aðferðir við að meta áhættu af slíkum gerningum og megin­reglur áhættustýringar sem beitt er,
    5. innri magntakmörkun á eignum og áhættuskuldbindingum, eftir því sem við á, þ.m.t. þeim sem eru utan efnahagsreiknings til að tryggja skilvirka áhættustýringu.
  4. Stjórnun lausafjáráhættu sem mælir fyrir um:
    1. aðgerðir sem félagið grípur til vegna skammtíma og langtíma lausafjáráhættu,
    2. hversu viðeigandi samsetning eigna er með tilliti til eðlis þeirra, líftíma og seljanleika svo staðið sé við skuldbindingar félagsins á gjalddaga,
    3. áætlun um hvernig tekist er á við breytingar á væntu sjóðstreymi.
  5. Stjórnun samþjöppunaráhættu sem mælir fyrir um aðgerðir til að greina upptök samþjöpp­unar­áhættu til að tryggja að samþjöppun áhættu haldist innan skilgreindra marka ásamt aðgerðum til að greina mögulega áhættu af smiti milli samþjappaðra áhættu­skuldbind­inga.
  6. Stjórnun rekstraráhættu sem mælir fyrir um aðgerðir til að úthluta skýrum ábyrgðarsviðum svo unnt sé að greina, skjalfesta og vakta viðeigandi áhættuskuldbindingar vegna rekstrar­áhættu með reglubundnum hætti.
  7. Endurtryggingar og aðrar áhættuvarnir sem mæla fyrir um:
    1. aðgerðir sem tryggja að valin sé hentug endurtryggingavernd og aðrar áhættuvarnir,
    2. aðgerðir sem meta hvaða áhættuvarnir eru viðeigandi vegna eðlis áhættunnar sem gert er ráð fyrir og getu félagsins til að stýra og stjórna áhættu sem tengist þeim vörnum,
    3. eigið mat vátryggingafélags á kröfuáhættu af áhættuvörnum.

Væntur hagnaður innifalinn í framtíðariðgjöldum skal reiknaður út sem mismunur á milli vátrygg­inga­skuldar án áhættuálags skv. 76. gr. laga um vátryggingastarfsemi, og vátrygg­inga­skuldar án áhættuálags samkvæmt þeirri forsendu að iðgjöld vegna gildandi vátryggingar­samninga sem vænst er í framtíðinni fáist ekki nema vátryggingaratburður hafi átt sér stað, án tillits til lögbundinna eða samningsbundinna réttinda vátryggingartakans til að segja upp samningnum.

Væntur hagnaður innifalinn í framtíðariðgjöldum skal reiknaður sérstaklega fyrir hvern einsleitan áhættuflokk sem notaður er við mat á vátryggingaskuld, að því tilskildu að vátrygg­ingar­skuldbindingarnar séu einnig einsleitar í vænta hagnaðinum sem er innifalinn í framtíðar­iðgjöldum.

Vátryggingarsamningum sem tap verður á má eingöngu jafna á móti vátryggingarsamningum sem skila hagnaði innan sama einsleita áhættuflokks.

Ákvæði þetta byggir á 260. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

7. gr.

Áhættustýring hjá vátryggingafélagi sem veitir lán og/eða veðlánatryggingu.

Ef vátryggingafélag stundar lánveitingar skal það hafa skriflegar stefnur sem tryggir:

  1. að viðmið lánveitinga séu áreiðanleg og vel skilgreind og að til staðar sé skýrt ferli fyrir samþykki, breytingu, endurnýjun og endurfjármögnun lána,
  2. að félagið hafi innri aðferðir til að meta kröfuáhættu áhættuskuldbindinga vegna einstakra lántaka lánasafnsins í heild,
  3. samfellda stýringu og eftirlit með lánasöfnum, þ.m.t. til að greina og halda utan um breytingar á lánshæfi og vanskil og gera fullnægjandi virðisbreytingar,
  4. að áhættudreifing lánasafnsins sé fullnægjandi að teknu tilliti til tilgreinds markhóps og heildarfjárfestingaráætlunar félagsins.

Ef vátryggingafélag er með starfsemi í veðlánatryggingum skulu vera áreiðanleg og vel skilgreind viðmið fyrir áhættutöku og kröfum skv. b-d-lið 1. mgr. skal fullnægt vegna veðlána sem liggja til grundvallar vátryggingarskuldbindingum þeirra.

Ákvæði þetta byggir á 261. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

8. gr.

Áhættustýring við fjárfestingar í viðurkenndum innviðaverkefnum.

Vátryggingafélag skal gera áreiðanleikakönnun áður en fjárfest er í viðurkenndum innviða­verkefnum, sem felur í sér:

  1. skjalfest mat um hvernig fjárfestingarverkefnið fullnægir viðmiði 164. gr. a reglugerðar 2015/35/ESB. Matið skal staðfest af aðila sem er óháður þeim sem framkvæmir áreiðan­leika­könnunina og án mögulegra hagsmunaárekstrar á milli þeirra,
  2. staðfestingu á því að skipulag á flæði fjár í verkefninu hafi verið metið af aðilum sem eru óháðir þeim aðilum sem þróa skipulag fjárfestingarinnar og án mögulegra hagsmunaárekstra á milli þeirra.

Vátryggingafélag sem hefur fjárfest í viðurkenndum innviðaverkefnum skal reglulega framkvæma álagspróf á flæði fjár og virði veða sem styðja fyrirtækið vegna innviðafjárfestingarinnar. Álagspróf skal vera í samræmi við eðli, umfang og margbreytileika áhættunnar sem felst í innviðaverkefninu.

Þegar vátryggingafélag hefur fjárfest í viðurkenndu innviðaverkefni skal það hafa skriflega stefnu skv. 39. gr. laga um vátryggingastarfsemi þar sem fram kemur hvernig innviðaverkefni eru vöktuð meðan þau eru byggð upp og hvernig endurheimt fjármagns er hámörkuð ef verkefnið gengur ekki upp.

Vátryggingafélag sem hefur fjárfest í viðurkenndu innviðaverkefni með skuldabréfum og lánum skal hafa eigna- og skuldastýringu til að tryggja að þau geti átt fjárfestinguna meðan verkefnið varir.

Ákvæði þetta byggir á 261. gr. a reglugerðar 2015/35/ESB.

9. gr.

Heildargjaldþolsþörf.

Mat á heildargjaldþolsþörf vátryggingafélags skv. 1. tölul. 1. mgr. 45. gr. laga um vátrygginga­starfsemi, skal vera framsýnt og taka til eftirfarandi þátta:

  1. áhættu sem félagið er eða gæti orðið útsett fyrir að teknu tilliti til mögulegra breytinga á áhættusniði þess vegna viðskiptalíkans félagsins eða efnahags- og fjármálaumhverfis þ.m.t. rekstraráhættu,
  2. eðlis og gæða gjaldþolsliða eða annarra tilfanga sem eiga við til að ná yfir áhættu skv. a-lið.

Þættir skv. 1. mgr. skulu taka tillit til:

  1. tímabila vegna langtímaáhættu félagsins,
  2. matsaðferða sem eru viðeigandi fyrir rekstur og áhættusnið félagsins,
  3. innri eftirlits- og áhættustýringarkerfa félagsins og samþykktra þolmarka áhættu félagsins.

Ákvæði þetta byggir á 262. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

10. gr.

Fráviksaðferðir fyrir mat.

Ef fráviksaðferðir fyrir mat eru notaðar skal vátryggingafélag:

  1. tilgreina eignir og skuldir sem notaðar eru í fráviksaðferðinni,
  2. rökstyðja notkun á aðferðinni vegna eigna og skulda skv. a-lið,
  3. skjalfesta forsendur fyrir fráviksaðferðinni,
  4. meta óvissu á mati á eignum og skuldum skv. a-lið,
  5. meta reglulega reynslu af mati á eignum og skuldum skv. a-lið.

Ákvæði þetta byggir á 263. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

11. gr.

Vátryggingaskuld - útreikningur sannreyndur.

Vátryggingafélag skal sannreyna útreikning á vátryggingaskuld, einkum með samanburði við fyrri reynslu að minnsta kosti einu sinni á ári og þegar vísbendingar eru um að gögn, forsendur eða aðferðir sem notaðar eru við útreikning eða fjárhæð vátryggingaskuldar eru ekki lengur full­nægjandi. Sannreyna skal:

  1. hversu viðeigandi, heildstæð og nákvæm gögnin eru sem notuð eru við útreikning á vátrygg­inga­skuldinni,
  2. hversu viðeigandi flokkun vátryggingarsamninga er,
  3. úrbætur sem gerðar hafa verið á gæðum gagna,
  4. hversu viðeigandi nálganir eru í útreikningi besta mats,
  5. áreiðanleika og raunsæi forsendna sem notaðar eru við útreikning á vátryggingaskuldinni,
  6. áreiðanleika, gildissvið og mikilvægi tryggingastærðfræði- og tölfræðiaðferða sem notaðar eru við útreikning á vátryggingaskuldinni,
  7. hversu áreiðanleg fjárhæð vátryggingaskuldarinnar er.

Vátryggingafélag skal meta áhrif breytinga á forsendur fyrir framtíðaraðgerðir stjórnenda á mati vátryggingaskuldar. Ef breytingar á forsendum fyrir framtíðaraðgerðir stjórnenda hefur umtalsverð áhrif á vátryggingaskuld skal vátryggingafélag geta orsaka áhrifanna og hvernig þau eru tekin með í ákvarðanatökuferlið.

Útreikning á vátryggingaskuld skal sannreyna fyrir hvern einsleitan áhættuflokk fyrir sig. Sannreyna skal útreikning á besta mati, áhættuálagi og vátryggingaskuld reiknuðu samkvæmt markaðsvirði fjármálagerninga sem með áreiðanlegum hætti endurspegla framtíðarsjóðstreymi. Sannreyna skal sérstaklega þann hluta vátryggingaskuldar þar sem aðlögun vegna samræmingar er beitt. Við útreikning á besta mati skal sannreyna brúttó besta mat annars vegar og endurheimtanlegar fjárhæðir frá endurtryggingarsamningum og félögum með sérstakan tilgang hins vegar. Vátrygg­inga­skuld skaðatrygginga skal sannreyna sérstaklega fyrir iðgjaldaskuld og tjónaskuld.

Ákvæði þetta byggir á 264. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

12. gr.

Vátryggingaskuld - skjölun.

Vátryggingafélag skal skjalfesta eftirtalda ferla:

  1. söfnun gagna og greiningu á gæðum þeirra og aðrar upplýsingar sem tengjast útreikningi vátryggingaskuldar,
  2. val á forsendum sem notaðar eru við útreikning á vátryggingaskuld, sérstaklega val á forsendum fyrir skiptingu útgjalda,
  3. val og framkvæmd tryggingastærðfræði- og tölfræðiaðferða fyrir útreikning vátrygg­inga­skuldar,
  4. sannreyndan útreikning vátryggingaskuldar.

Skjalfestir ferlar skv. a-lið 1. mgr. skulu innihalda:

  1. skrá yfir gögn sem notuð eru við útreikning vátryggingaskuldar, tilgreiningu á uppruna þeirra, einkennum og notkun,
  2. forskriftir fyrir söfnun, úrvinnslu og notkun á gögnum skv. 83. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi,
  3. lýsingu á ósamræmdri notkun og rökstuðning fyrir henni ef gögn eru ekki notuð með sam­ræmdum hætti frá einum tíma til annars við útreikning á vátryggingaskuld.

Skjalfestir ferlar skv. b-lið 1. mgr. skulu hafa:

  1. skrá yfir allar viðeigandi forsendur sem útreikningur á vátryggingaskuld byggist á, þar með talið forsendur um framtíðaraðgerðir stjórnenda,
  2. rökstuðning fyrir vali á forsendum,
  3. lýsingu á gögnum sem valið byggist á,
  4. markmið með valinu og viðmiðum sem notuð eru til að meta valið,
  5. veigamiklar takmarkanir á valinu,
  6. lýsingu á ferlum sem notaðir eru til að endurskoða valið á forsendum,
  7. rökstuðning fyrir breytingum á forsendum frá einu tímabili til annars og mat á áhrifum af veigamiklum breytingum,
  8. viðeigandi frávik í forsendum um framtíðaraðgerðir stjórnenda, skv. 2. mgr. 23. gr. reglu­gerðar 2015/35/ESB.

Ákvæði þetta byggir á 265. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

13. gr.

Innra eftirlit.

Innra eftirlit skal tryggja að vátryggingafélag fari að gildandi lögum og stjórnsýslufyrirmælum og að árangur og skilvirkni í starfsemi félagsins sé í samræmi við markmið þess. Einnig skal innra eftirlit tryggja að fjárhagslegar og ófjárhagslegar upplýsingar séu aðgengilegar og áreiðanlegar.

Ákvæði þetta byggir á 266. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

14. gr.

Innra eftirlit með mati eigna og skulda.

Vátryggingafélag skal hafa skilvirk kerfi og skipulag til að tryggja að mat eigna og skulda þess sé áreiðanlegt og viðeigandi. Vátryggingafélag skal hafa ferli til að sannprófa reglulega að mark­aðs­verð eða gögn í matinu séu viðeigandi og áreiðanleg.

Vátryggingafélag skal hafa skrásetta skilgreinda stefnu og verklag fyrir matsferlið, þ.m.t. lýsingu á ábyrgðarsviðum einstaklinga sem taka þátt í matinu ásamt viðeigandi líkönum og gagnaveitum.

Að beiðni Fjármálaeftirlitsins skal vátryggingafélag láta framkvæma ytra, óháð mat eða láta staðfesta virði veigamikilla eigna og skulda.

Vátryggingafélag skal:

  1. hafa fullnægjandi aðföng, bæði með tilliti til gæða og magns, til að þróa, kvarða, samþykkja og endurskoða matsaðferðir sem notaðar eru vegna gjaldþols,
  2. hafa innra eftirlitskerfi:
    1. með reglubundinni óháðri endurskoðun og sannprófun á upplýsingum, gögnum og forsendum sem notaðar eru í matsaðferðinni, niðurstöðum hennar og nothæfi mats­aðferðarinnar við mat skv. a-lið 10. gr.,
    2. sem stjórn og forstjóri hafa yfirsýn yfir vegna samþykkis á mati á eignum og skuldum og verklags sem tekur tillit til ytra, óháðs mats eða sannprófunar á virði veiga­mikilla eigna eða skulda.

Ákvæði þetta byggir á 267. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

15. gr.

Lykilstarfssvið. Almenn ákvæði.

Lykilstarfssvið og tengdar boðleiðir inn í stjórnkerfi vátryggingafélags skulu vera þannig að tryggt sé að hvert svið geti starfað á hlutlausan, sanngjarnan og sjálfstæðan hátt. Hvert starfssvið er á ábyrgð stjórnar og gefur skýrslu til hennar og skal starfa, eftir því sem við á, með öðrum starfs­sviðum til að gegna sínu hlutverki.

Starfsmenn lykilstarfssviða skulu geta að eigin frumkvæði verið í samskiptum við aðra starfsmenn og hafa vald, aðföng og sérfræðikunnáttu til að sinna skyldum sínum og hafa óhindraðan aðgang að öllum viðeigandi upplýsingum til þess.

Starfsmenn lykilstarfssviða skulu tafarlaust tilkynna til stjórnar meiriháttar vandamál á sínu ábyrgðar­sviði.

Ákvæði þetta byggir á 268. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

16. gr.

Áhættustýring.

Starfssvið áhættustýringar skal hafa eftirtalin verkefni:

  1. aðstoða stjórn og önnur starfssvið við skilvirkan rekstur áhættustýringarkerfis,
  2. vakta áhættustýringarkerfið,
  3. vakta almennt áhættusnið félagsins í heild,
  4. gera ítarlega skýrslu um áhættuskuldbindingar og veita stjórn ráðgjöf vegna áhættu­stýringar, þ.m.t. vegna stefnumótunar, t.d. viðskiptaáætlun, samruna og yfirtökur og stór verkefni og fjárfestingar,
  5. greina og meta yfirvofandi áhættu.

Starfssvið áhættustýringar skal:

  1. fullnægja kröfum um hlutverk áhættustýringar vegna eigin líkans skv. 10. mgr. 44. gr. laga um vátryggingastarfsemi,
  2. hafa náið samráð við notendur niðurstaðna eigin líkans félagsins,
  3. starfa náið með starfssviði tryggingastærðfræðings.

Ákvæði þetta byggir á 269. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

17. gr.

Regluvarsla.

Regluvarsla vátryggingafélags skal hafa stefnu og áætlun um reglufylgni. Í stefnunni skal skilgreina ábyrgðarsvið, valdheimildir regluvörslu ásamt skyldu regluvörslu til skýrslugerðar. Í áætluninni skal skilgreina verkefni regluvörslu vegna allra hlutaðeigandi sviða í starfsemi vátryggingafélags og áhættunnar vegna bresta í reglufylgni.

Regluvarsla skal gera mat á áreiðanleika ráðstafana vátryggingafélags til að koma í veg fyrir brest á reglufylgni.

Ákvæði þetta byggir á 270. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

18. gr.

Innri endurskoðun.

Starfsmönnum innri endurskoðunar er óheimilt að starfa fyrir önnur svið.

Þrátt fyrir 1. mgr. geta starfsmenn innri endurskoðunar gegnt störfum á öðrum lykilstarfssviðum ef:

  1. það samræmist eðli, umfangi og margbreytileika áhættunnar í rekstri félagsins,
  2. ekki er hætta á hagsmunaárekstrum,
  3. það myndi hafa í för með sér kostnað fyrir félagið sem væri í hlutfallslegu ósamræmi við heildarkostnað við stjórnun félagsins ef starfsmaður í innri endurskoðun myndi ekki starfa á öðrum lykilstarfssviðum.

Eftirfarandi verkefni heyra undir innri endurskoðun:

  1. gerð endurskoðunaráætlunar þar sem fram kemur hver verður endurskoðun næstu ára, með tilliti til allrar starfseminnar og heildarstjórnkerfis félagsins,
  2. áhættumiðuð nálgun við ákvörðun um forgangsröðun,
  3. tilkynning endurskoðunaráætlunar til stjórnar,
  4. útgáfa fyrirmæla sem byggja á niðurstöðu áætlunar skv. a-lið og framlagning skýrslu, að minnsta kosti árlega, um niðurstöður innri endurskoðunar og ábendingar til stjórnar,
  5. sönnun þess að farið sé að ákvörðunum stjórnar sem teknar eru skv. fyrirmælum d-liðar.

Starfssvið innri endurskoðunar skal gera úttektir sem ekki eru í endurskoðunaráætluninni ef nauðsyn krefur.

Ákvæði þetta byggir á 271. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

19. gr.

Starfssvið tryggingastærðfræðings.

Við samræmingu á útreikningi vátryggingaskuldar heyra eftirfarandi verkefni undir starfssvið tryggingastærðfræðings:

  1. notkun á aðferðafræði og verklagsreglum til að meta hvort vátryggingaskuld sé fullnægjandi og til að tryggja að útreikningur sé í samræmi við XIV. kafla laga um vátryggingastarfsemi,
  2. mat á óvissu sem fylgir útreikningi á vátryggingaskuld,
  3. tryggja að tekið sé á hvers kyns takmörkunum í gögnum sem notuð eru til að reikna út vátryggingaskuld á viðunandi hátt,
  4. tryggja að þær nálganir sem best eiga við séu notaðar við útreikning á besta mati í sam­ræmi við 83. gr. laga um vátryggingastarfsemi,
  5. tryggja að einsleitir áhættuflokkar vátryggingarskuldbindinga séu tilgreindir fyrir viðeigandi mat á undirliggjandi áhættu,
  6. taka tillit til viðeigandi upplýsinga sem fjármálamarkaðir veita og almennra aðgengilegra gagna um vátryggingaráhættu og tryggja að þau séu felld inn í matið á vátryggingaskuld,
  7. bera saman og rökstyðja sérhvern veigamikinn mun í útreikningi á vátryggingaskuld milli ára,
  8. tryggja að viðeigandi mat sé notað vegna valrétta og ábyrgða sem felast í vátrygg­ingar­samningum.

Starfssvið tryggingastærðfræðings skal meta hvort aðferðafræði og forsendur sem notuð eru við útreikning á vátryggingaskuld séu viðeigandi fyrir vátryggingagreinar félagsins og hvernig rekstri þess er stjórnað með hliðsjón af tiltækum gögnum.

Starfssvið tryggingastærðfræðings skal meta hvort upplýsingatæknikerfi sem notuð eru við útreikning á vátryggingaskuld styðji nægjanlega við þær tryggingastærðfræði- og tölfræðiaðferðir sem eru notaðar.

Starfssvið tryggingastærðfræðings skal, þegar bestu möt eru borin saman við fyrri reynslu, endurskoða gæði eldri bestu mata og nota þann skilning sem fæst við það mat til að bæta gæði útreikninga. Samanburður á bestu mötum við fyrri reynslu skal gera með samanburði á mældum gildum og matsins sem liggur að baki útreikningi á besta mati, í þeim tilgangi að draga ályktanir um hversu viðeigandi, nákvæm og heildstæð gögn og forsendur sem notaðar eru sem og aðferða­fræðin sem beitt er við útreikning þeirra.

Upplýsingar sem lagðar eru fyrir stjórn um útreikning vátryggingaskuldar skulu fela í sér að minnsta kosti rökstudda greiningu á áreiðanleika og nægjanleika útreiknings hennar og á heimildum og óvissustigi í mati á vátryggingaskuld. Greiningin skal studd með næmnigreiningu vegna hverrar stórrar áhættu sem vátryggingaskuld felur í sér. Starfssvið tryggingastærðfræðings skal tiltaka og útskýra, eftir því sem við á, efasemdir um hvort vátryggingaskuld sé nægileg.

Álit starfssviðs tryggingastærðfræðings á áhættutöku vátryggingafélags, skal að minnsta kosti fela í sér ályktanir um:

  1. hvort framtíðariðgjöld séu nægileg, sérstaklega með tilliti til undirliggjandi áhættu, þ.m.t. vátryggingaráhættu og áhrif valrétta og ábyrgða sem felast í vátryggingarsamningum,
  2. áhrif verðbólgu, lagalegrar áhættu, breytinga á samsetningu eignasafns félagsins og kerfa sem breyta iðgjöldum með hliðsjón af tjónasögu vátryggingartaka (bónuskerfi) eða svipaðra kerfa sem innleidd eru í einsleitum áhættuflokkum,
  3. vaxandi tilhneigingu vátryggingastofns til að draga að eða halda í tryggða einstaklinga með hærra áhættusnið (andval).

Álit starfssviðs tryggingastærðfræðings um endurtryggingavernd skal fela í sér greiningu á hvort eftirfarandi atriði séu fullnægjandi:

  1. áhættusnið og áhættutaka félagsins,
  2. endurtryggjendur með tilliti til lánshæfis þeirra,
  3. vænt endurtryggingavernd við álagssviðsmyndir að teknu tilliti til áhættutöku,
  4. útreikningur á endurheimtanlegum fjárhæðum frá endurtryggingarsamningum og félögum með sérstakan tilgang.

Starfssvið tryggingastærðfræðings skal að minnta kosti árlega leggja skriflega skýrslu fyrir stjórn. Skýrslan skal fela í sér öll verkefni sem starfssvið tryggingastærðfræðings hefur framkvæmt og niðurstöður þeirra. Tilgreina skal með skýrum hætti sérhvern annmarka og veita ábendingar um úrbætur.

Ákvæði þetta byggir á 272. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

20. gr.

Hæfi og hæfni.

Vátryggingafélag skal hafa skráðar stefnur og verklag til að tryggja að stjórn, forstjóri og þeir sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum séu á hverjum tíma hæfir og hafi hæfni til að sinna starfi sínu á tilhlýðilegan hátt.

Mat á hæfi skal byggt á faglegri og formlegri menntun, þekkingu og viðeigandi reynslu af vátrygg­inga­starfsemi, annarri fjármálastarfsemi eða öðrum rekstri að teknu tilliti til starfsskyldna og, þar sem við á, þekkingu á vátryggingum, fjármálum, bókhaldi, tryggingastærðfræði og stjórnun.

Við mat á hæfi stjórnarmanna skal líta til þess hvort stjórnarmenn hafi reynslu sem tryggir fjöl­breytni í menntun, þekkingu og reynslu stjórnar í heild til að tryggja að félaginu sé stjórnað á faglegan hátt.

Mat á hæfni skal byggt á mati á heiðarleika og fjárhagslegu heilbrigði sem byggist á upplýsingum um hegðun, heilindi, háttsemi og viðskiptasiðferði, þ.m.t. upplýsingar um afbrot, fjárhagsleg og önnur atriði sem skipta máli fyrir matið.

Ákvæði þetta byggir á 273. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

21. gr.

Útvistun.

Vátryggingafélag sem útvistar eða hefur í hyggju að útvista starfssviðum eða hluta af vátryggingarekstri til þjónustuveitanda skal setja stefnu um útvistun þar sem tilgreind eru áhrif útvistunarinnar á rekstur félagsins, upplýsingagjöf og eftirlit með framkvæmd. Félagið skal tryggja að skilmálar og skilyrði samnings um útvistun séu í samræmi við skuldbindingar félagsins skv. 49. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

Ef vátryggingafélag og þjónustuveitandi eru aðilar að sömu samstæðu skal félag, þegar það útvistar nauðsynlegum eða mikilvægum rekstrarstarfssviðum eða starfsemi, taka mið af því að hve miklu marki félagið hefur yfirráð yfir þjónustuveitandanum eða getur haft áhrif á aðgerðir hans.

Þegar þjónustuveitandi er valinn skal stjórn vátryggingafélags tryggja að:

  1. kannað sé hvort þjónustuveitandi hafi hæfni, getu og heimild að lögum til að gegna starfinu á fullnægjandi hátt, með tilliti til markmiða og þarfa félagsins,
  2. hvorki séu né verði hagsmunaárekstrar sem gætu hindrað að þarfir vátryggingafélags séu uppfylltar,
  3. til staðar sé skriflegt samkomulag milli vátryggingafélags og þjónustuveitanda sem skilgreini skýrt réttindi og skyldur samningsaðila,
  4. skilmálar og skilyrði í samningi um útvistun séu útskýrð og að stjórnin hafi veitt leyfi fyrir þeim,
  5. útvistunin feli ekki í sér brot á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum einkum að því er varðar gagnavernd,
  6. þjónustuveitandi heyri undir sömu ákvæði um öryggi og upplýsingaleynd og vátrygg­inga­félagið að því er varðar vátryggingartaka og vátryggða.

Í samningi um útvistun skv. c-lið 3. mgr. skal að minnsta kosti vera:

  1. ákvæði um skyldur og ábyrgð samningsaðila,
  2. ákvæði þar sem þjónustuveitandi skuldbindur sig til að fara að lögum og stjórnvalds­fyrirmælum sem og stefnum vátryggingafélagsins og að eiga samstarf við Fjármála­eftirlitið að því er varðar útvistaða starfsemi,
  3. ákvæði þar sem þjónustuveitandi skuldbindur sig til að upplýsa um hvers kyns þróun sem gæti haft veruleg áhrif á getu hans til að sinna hlutverki sínu á skilvirkan hátt og í samræmi við lög og reglur,
  4. ákvæði um að uppsagnarfrestur þjónustuveitanda sé nægilega langur til að vátrygg­inga­félagið geti fundið aðra lausn ef samningum er sagt upp,
  5. skilmáli um að vátryggingafélag geti rift samningi ef nauðsyn krefur án þess að það hafi áhrif á gæði þjónustu eða skaði samfellu í þjónustu til vátryggingartaka,
  6. skilmáli um að þjónustuveitandi skuli upplýsa vátryggingafélag reglulega um útvistað starfs­svið og framkvæmd þess og rétt félagsins til að gefa út almennar leiðbeiningar og einstök fyrirmæli til starfsstöðvar þjónustuveitanda vegna atriða í framkvæmd þjónustunnar,
  7. skilmáli um að þjónustuveitandi varðveiti allar trúnaðarupplýsingar sem varða vátrygg­inga­félagið og vátryggingartaka þess, vátryggða, starfsmenn, verktaka og alla aðra aðila,
  8. skilmáli um að vátryggingafélag, ytri endurskoðandi þess og Fjármálaeftirlitið hafi aðgang að öllum upplýsingum um útvistað starfssvið, þ.m.t. til að framkvæma vettvangsskoðanir á starfsstöðvum þjónustuveitanda,
  9. skilmáli um að Fjármálaeftirlitið geti, eftir því sem við á og nauðsynlegt er, beint fyrir­spurnum til þjónustuveitanda sem hann skuli svara án milligöngu vátryggingafélags,
  10. skilmáli um að vátryggingafélag geti aflað upplýsinga um útvistaða starfsemi og geti gefið út fyrirmæli um útvistaða starfsemi og starfssvið,
  11. skilmálar og skilyrði þess að þjónustuveitandi geti endurútvistað útvistuðu starfssviði og starfsemi,
  12. skilmáli um að skyldur og ábyrgð þjónustuveitanda sem leiða af samningi hans við vátrygg­inga­félag haldist óbreytt þrátt fyrir endurútvistun samkvæmt k-lið.

Vátryggingafélag sem útvistar nauðsynlegum eða mikilvægum starfssviðum eða starfsemi skal tryggja að eftirtöldum kröfum sé fullnægt:

  1. að viðkomandi þættir í áhættustýringu og innra eftirliti þjónustuveitanda séu fullnægjandi til að tryggt sé að farið sé að ákvæðum a- og b-liðar 2. mgr. 49. gr. laga um vátrygg­inga­starfsemi,
  2. að áhættustýring og innra eftirlit feli í sér eftirlit með hinni útvistuðu starfsemi á full­nægj­andi hátt til að tryggt sé að farið sé að ákvæðum a- og b-liðar 2. mgr. 49. gr. laga um vátrygg­inga­starfsemi,
  3. sannprófun þess að þjónustuveitandi hafi nauðsynlegt fjármagn til að framkvæma viðbótar­verkefni á viðeigandi og áreiðanlegan hátt og að starfsfólk þjónustuveitanda sé nægjan­lega hæft og áreiðanlegt,
  4. að þjónustuveitandi hafi fullnægjandi viðbragðsáætlun vegna neyðarástands eða rekstrar­raskana og prófi reglulega afritunarbúnað, ef nauðsyn krefur, með tilliti til útvist­aðrar starfsemi eða starfssviða.

Ákvæði þetta byggir á 274. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

22. gr.

Starfskjarastefna.

Starfskjarastefna skv. l-lið 1. mgr. 4. gr. skal:

  1. vera í samræmi við viðskiptaáætlun vátryggingafélags, áhættustýringu og áhættusnið þess, markmið, áhættustýringaðferðir, langtímahagsmuni og árangur félagsins í heild. Stefnan skal fela í sér ráðstafanir sem stuðla að því að forðast hagsmunaárekstra,
  2. stuðla að traustri og skilvirkri áhættustýringu og ekki hvetja til áhættusækni umfram áhættu­þol félags,
  3. gilda í öllu félaginu og taka tillit til verkefna og frammistöðu stjórnar, forstjóra, þeirra sem gegna lykilstarfssviðum og annars starfsfólks sem í starfi sínu hefur mikil áhrif á áhættusnið félagsins,
  4. hafa almenn viðmið sem stjórn setur fyrir starfsfólk, sem í starfi sínu hefur mikil áhrif á áhættu­snið félagsins og hefur eftirlit með innleiðingu stefnunnar,
  5. hafa skýra, gagnsæja og skilvirka stjórnarhætti um starfskjör, þ.m.t. eftirlit með fram­kvæmd stefnunnar,
  6. hafa sjálfstæða starfskjaranefnd, ef við á, að teknu tilliti til stærðar og innra skipulags vátrygg­inga­félags, til þess að styðja eftirlit stjórnar með útfærslu, innleiðingu og fram­kvæmd stefnunnar,
  7. vera sýnileg öllu starfsfólki félagsins.

Fyrirkomulag skv. c-lið 1. mgr. skal:

  1. þegar starfskjaraáætlun hefur bæði fasta og breytilega þætti, jafna slíka þætti svo að fastir eða tryggir þættir myndi nægjanlega hátt hlutfall af heildarstarfskjörum til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði of háð breytilegum þáttum og félaginu sé gert kleift að hafa sveigjanlega kaupaukastefnu, þ.m.t. möguleika á að greiða enga breytilega þætti,
  2. þegar breytileg starfskjör eru árangurstengd, láta heildarfjárhæð breytilegu starfskjaranna byggjast á mati á árangri einstaklings og viðkomandi rekstrareiningar og heildarárangri félagsins eða samstæðunnar sem félagið tilheyrir,
  3. við greiðslu á stórum hluta breytilegra starfskjaraþátta, án tillits til forms á greiðslunni, hafa sveigjanlega frestaða þætti sem taka mið af eðli rekstrar og viðmiðunartímabili í rekstraráætlun félagsins. Frestunin skal ekki vera styttri en þrjú ár og skal taka mið af eðli og áhættu rekstrarins og störfum viðkomandi starfsmanna,
  4. taka tillit til fjárhagslegra viðmiða og annarra viðmiða við mat á frammistöðu aðila,
  5. við mat á frammistöðu, sem breytileg starfskjör byggjast á, fela í sér lækkun vegna núver­andi og framtíðar áhættu að teknu tilliti til áhættusniðs félagsins og fjármagns­kostn­aðar,
  6. við starfslokagreiðslur miða við frammistöðu á öllu ráðningartímabilinu og tryggja að ekki sé umbunað fyrir mistök,
  7. skuldbinda aðila sem heyra undir starfskjarastefnu að nota ekki áhættuvarnir, t.d. afleiður eða vátryggingar sem vinna gegn markmiðum starfskjarafyrirkomulags þeirra,
  8. hafa breytilegan hluta starfskjara starfsfólks á lykilstarfssviðum óháðan frammistöðu skipulags­eininga og sviða sem heyra undir þeirra stjórn.

Starfskjarastefna skal taka tillit til innra skipulags vátryggingafélags og eðlis, umfangs og marg­breyti­leika áhættu í rekstrinum.

Ákvæði þetta byggir á 275. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

III. KAFLI

Opinber birting.
Skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu: Uppbygging og efni.

23. gr.

Uppbygging.

Uppbygging skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu skal vera í samræmi við viðauka I með reglugerð 2015/35/ESB og þar skulu birtar upplýsingar skv. 25.-31. gr.

Skýrslan skal hafa lýsandi upplýsingar á megindlegu og eigindlegu formi og, eftir því sem við á, megindleg sniðmát.

Ákvæði þetta byggir á 290. gr. og XX. viðauka reglugerðar 2015/35/ESB.

24. gr.

Veigamiklar upplýsingar.

Upplýsingar sem birtar eru í skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu eru álitnar veigamiklar ef vöntun þeirra eða rangfærslur í þeim gætu haft áhrif á ákvarðanatöku eða mat á skýrslunni.

Ákvæði þetta byggir á 291. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

25. gr.

Samantekt.

Í skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu skal vera gagnorð samantekt sem ætluð er vátrygg­ingar­tökum og vátryggðum.

Í samantektinni skulu koma fram allar veigamiklar breytingar á rekstri og afkomu vátrygg­inga­félags, stjórnkerfi, áhættusniði, mati á gjaldþolsstöðu og eiginfjárstýringu á reiknings­tímabili.

Ákvæði þetta byggir á 292. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

26. gr.

Rekstur og afkoma.

Skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu skal hafa eftirfarandi upplýsingar um rekstur vátrygg­inga­félags:

  1. heiti félagsins og rekstrarform þess,
  2. heiti eftirlitsstjórnvalds og eftir atvikum heiti eftirlitsstjórnvalds samstæðu sem félagið tilheyrir,
  3. heiti og upplýsingar um tengilið ytri endurskoðanda félagsins,
  4. hverjir eigi virka eignarhluti í félaginu,
  5. stöðu félagsins innan samstæðu ef við á,
  6. þýðingarmestu vátryggingagreinar félagsins og helstu starfssvæði þess,
  7. viðskipti eða aðra atburði á reikningstímabili sem hafa haft veruleg áhrif á félagið.

Í skýrslunni skulu einnig vera eftirtaldar upplýsingar:

  1. eigindlegar og megindlegar upplýsingar um heildarárangur vátryggingafélags, sundurliðaðar eftir mikilvægum vátryggingagreinum og mikilvægum starfssvæðum félags á reikn­ings­tímabili ásamt samanburði við fyrra tímabil,
  2. eigindlegar og megindlegar upplýsingar um afkomu fjárfestinga vátryggingafélags á reikn­ings­tímabili ásamt samanburði við fyrra tímabil:
    1. tekjur og gjöld af fjárfestingum eftir eignaflokkum, og, ef nauðsynlegt er til að réttur skilningur fáist á tekjum og útgjöldum, einstakir liðir slíkra tekna og útgjalda,
    2. hagnaður og tap sem færð eru beint á eigið fé,
    3. allar fjárfestingar í verðbréfun,
  3. aðrar veigamiklar tekjur og gjöld vátryggingafélags á reikningstímabili ásamt samanburði við fyrra tímabil,
  4. sérstakur kafli sem hefur aðrar veigamiklar upplýsingar um rekstur og afkomu vátrygg­inga­félags.

Ákvæði þetta byggir á 293. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

27. gr.

Stjórnkerfi.

Í skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu skulu vera eftirtaldar upplýsingar um stjórnkerfi vátrygg­inga­félags:

  1. samsetning stjórnar ásamt lýsingu á meginhlutverkum og ábyrgð, stutt lýsing á skiptingu ábyrgðar einkum hvort viðeigandi nefndir séu innan stjórnar og lýsing á meginhlutverkum og ábyrgðarsviðum lykilstarfssviða,
  2. allar veigamiklar breytingar á stjórnkerfi sem hafa átt sér stað á reikningstímabilinu,
  3. upplýsingar um stefnu um starfskjör stjórnar og framkvæmd hennar og starfskjarastefnu og framkvæmd hennar fyrir starfsmenn nema annað sé tekið fram um þá, þ.m.t. skal tilgreina:
    1. helstu viðmið starfskjarastefnu með útskýringu á samspili fastra og breytilegra liða starfskjara,
    2. upplýsingar um viðmið fyrir einstaklinga og hópa sem hlutabréfavalréttir, hlutabréf eða breytilegir þættir starfskjara byggjast á,
    3. lýsing á megineinkennum kerfis um eftirlaunaréttindi eða snemmtekin eftirlaun fyrir stjórnarmenn og þá sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum,
  4. upplýsingar um veigamikil viðskipti aðila sem hafa veruleg áhrif á félagið og stjórnarmenn á reikningstímabilinu við hluthafa.

Í skýrslunni skulu einnig vera eftirfarandi upplýsingar:

  1. Í stefnu vátryggingafélags um hæfi og hæfni skal vera:
    1. lýsing á sérstökum kröfum félagsins um færni, þekkingu og sérfræðikunnáttu stjórnar, forstjóra og þeirra sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum og
    2. lýsing á ferli félagsins til að meta hæfi og hæfni stjórnar, forstjóra og þeirra sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum.
  2. Um áhættustýringarkerfi vátryggingafélags:
    1. lýsing á áhættustýringarkerfi félags þ. á m. um stefnumótun, ferla og aðferðir sem eru notaðar við skýrslugjöf og hvernig félagið getur á skilvirkan og samfelldan hátt greint, mælt, vaktað, stjórnað og tilgreint áhættuþætti sem félagið er útsett fyrir,
    2. lýsing á því hvernig áhættustýringarkerfið, þ.m.t. starfssvið áhættustýringar, er innleitt og fellt inn í stjórnkerfi og ákvarðanatökuferli félags.
  3. Um ferli sem vátryggingafélag hefur til að fullnægja kröfum um framkvæmd eigin áhættu- og gjaldþolsmats:
    1. lýsing á ferlinu sem félagið hefur til að fullnægja kröfum um að framkvæmd eigin áhættu- og gjaldþolsmats sé hluti af áhættustýringarkerfi þess, þ.m.t. hvernig eigið áhættu- og gjaldþolsmat er fellt inn í stjórnkerfi og ákvarðanatökuferli félagsins,
    2. hve oft eigið áhættu- og gjaldþolsmat er tekið til skoðunar og samþykkt af stjórn félagsins,
    3. hvernig félagið hefur ákvarðað eigin gjaldþolsþörf í ljósi áhættusniðs þess og hvernig eiginfjárstýringaraðgerðir og áhættustýringarkerfi þess virka saman.
  4. Lýsing á innra eftirlitskerfi vátryggingafélags ásamt lýsingu á framkvæmd regluvörslu.
  5. Lýsing á framkvæmd innri endurskoðunar vátryggingafélags og því hvernig sjálfstæði og hlutlægni starfssviðs innri endurskoðunar er tryggt gagnvart starfsemi félagsins.
  6. Lýsing á framkvæmd starfssviðs tryggingastærðfræðings.
  7. Lýsing á útvistunarstefnu vátryggingafélags, útvistun á nauðsynlegu eða mikilvægu starfssviði eða starfsemi og varnarþing þjónustuveitanda.
  8. Mat á gæði stjórnkerfis vátryggingafélags miðað við eðli, umfang og margbreytileika þeirrar áhættu sem fylgir rekstri þess.
  9. Í sérstökum kafla skulu vera allar aðrar mikilvægar upplýsingar um stjórnkerfi vátrygg­inga­félags.

Ákvæði þetta byggir á 294. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

28. gr.

Áhættusnið.

Í skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu skulu vera eigindlegar og megindlegar upplýsingar um áhættusnið vátryggingafélags fyrir eftirtalda áhættuþætti:

  1. vátryggingaráhættu,
  2. markaðsáhættu,
  3. kröfuáhættu,
  4. lausafjáráhættu,
  5. rekstraráhættu,
  6. aðrir veigamiklir áhættuþættir.

Í skýrslunni skulu vera eftirtaldar upplýsingar um áhættuskuldbindingar vátryggingafélags, þ.m.t. áhættuskuldbindingu sem stafar af liðum utan efnahagsreiknings og yfirfærslu áhættu til félaga með sérstakan tilgang:

  1. lýsing á aðferðum til að meta þessa áhættuþætti, þ.m.t. allar veigamiklar breytingar á þeim á reikningstímabilinu,
  2. lýsing á veigamiklum áhættuþáttum sem félagið er útsett fyrir, þ.m.t. allar veigamiklar breytingar á þeim á reikningstímabilinu,
  3. lýsing á því hvernig fjárfest hefur verið í samræmi við varfærnisregluna, sbr. 113. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi.

Í skýrslunni skulu einnig vera eftirfarandi upplýsingar:

  1. lýsing á veigamikilli samþjöppun áhættu sem vátryggingafélag kann að vera útsett fyrir,
  2. lýsing á áhættuvörnum og ferlum sem vakta áframhaldandi skilvirkni þeirra,
  3. í umfjöllun um lausafjáráhættu skal vera heildarfjárhæð vænts hagnaðar sem innifalinn er í framtíðariðgjöldum skv. 2. mgr. 6. gr.,
  4. lýsing á aðferðum sem notaðar eru til að meta áhættunæmni, forsendur sem byggt er á og niðurstöður álagsprófa og næmnigreininga fyrir veigamikla áhættuþætti og viðburði,
  5. í sérstökum kafla, allar aðrar veigamiklar upplýsingar um áhættusnið vátryggingafélags.

Ákvæði þetta byggir á 295. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

29. gr.

Mat á gjaldþolsstöðu.

Í skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu skulu vera eftirfarandi upplýsingar um mat á eignum vátryggingafélags við mat á gjaldþolsstöðu:

  1. virði eigna og lýsing á grundvelli, aðferðum og meginforsendum sem notaðar eru við matið fyrir hvern veigamikinn eignaflokk,
  2. megindleg og eigindleg útskýring á veigamiklum mun á grundvelli, aðferðum og megin­forsendum sem félagið notar annars vegar við mat á gjaldþolsstöðu og hins vegar við mat þess í reikningsskilum fyrir hvern veigamikinn eignaflokk.

Í skýrslunni skulu einnig vera eftirtaldar upplýsingar:

  1. vegna mats á vátryggingaskuld vátryggingafélags við mat á gjaldþolsstöðu:
    1. virði vátryggingaskuldar, þ.m.t. fjárhæð besta mats og áhættuálags og lýsing á grundvelli, aðferðum og meginforsendum sem notaðar eru við mat á gjaldþolsstöðu, aðskilið fyrir hverja veigamikla vátryggingagrein,
    2. lýsing á óvissu á virði vátryggingaskuldar,
    3. megindleg og eigindleg útskýring á veigamiklum mun á grundvelli, aðferðum og meginforsendum sem félagið notar annars vegar við mat á gjaldþolsstöðu og hins vegar við mat í reikningsskilum, aðskilið fyrir hverja veigamikla vátryggingagrein,
    4. þegar aðlögun vegna samræmingar er notuð skal vera lýsing á aðlöguninni og eignasafni skuldbindinga og tilteknum eignum sem aðlöguninni er beitt á og magn­greining á áhrifunum af að breyta aðlöguninni í núll á fjárhagsstöðu viðkomandi félags, þ.m.t. á fjárhæð vátryggingaskuldar, gjaldþolskröfu, kröfu um lágmarks­fjármagn, kjarnaeiginfjárliði og viðurkennda gjaldþolsliði til að mæta kröfu um lágmarks­fjármagn og gjaldþolskröfu,
    5. yfirlýsing um hvort félagið notar aðlögun vegna óstöðugleika og magngreining áhrifanna af að breyta aðlöguninni í núll á fjárhagsstöðu viðkomandi félags, þ.m.t. á fjárhæð vátryggingaskuldar, gjaldþolskröfu, kröfu um lágmarksfjármagn, kjarna­eiginfjárliði og viðurkenndir gjaldþolsliðir til að mæta kröfu um lágmarks­fjármagn og gjaldþolskröfu,
    6. lýsing á:
      a) endurheimtanlegum fjárhæðum vegna endurtryggingarsamninga og félaga með sérstakan tilgang,
      b) öllum veigamiklum breytingum á viðkomandi forsendum sem gerðar eru í útreikn­ingi á vátryggingaskuld í samanburði við fyrra reikningstímabil,
  2. mat á öðrum skuldum vátryggingafélags vegna mats á gjaldþolsstöðu:
    1. virði annarra skulda, sem og lýsing á grundvelli, aðferðum og meginforsendum sem notaðar eru vegna mats á gjaldþoli, fyrir hvern veigamikinn flokk annarra skulda,
    2. megindleg og eigindleg útskýring á veigamiklum mismun milli grundvallar, aðferða og meginforsendna sem félagið notar vegna mats á gjaldþolsstöðu annars vegar og þeirra sem notuð eru við mat þess í reikningsskilum hins vegar, fyrir hvern veiga­mikinn flokk annarra skulda,
  3. um verkefni áhættustýringar og hvernig farið sé að kröfum skv. 1. og 3. mgr.,
  4. í sérstökum kafla, allar aðrar veigamiklar upplýsingar um mat á eignum og skuldum vegna gjaldþolsstöðu.

Ákvæði þetta byggir á 296. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

30. gr.

Eiginfjárstýring.

Í skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu skulu vera eftirtaldar upplýsingar um gjaldþol vátrygg­ingafélags:

  1. markmið, stefnur og ferlar sem félag notar til að stýra gjaldþoli, þ.m.t. upplýsingar um tíma­bil sem notað er fyrir viðskiptaáætlanir og allar aðrar veigamiklar breytingar á reikn­ings­tímabili,
  2. uppbygging, magn og gæði gjaldþols við lok reikningstímabils og við lok fyrra reikn­ings­tímabils, þ.m.t. greining á umtalsverðum breytingum á hverjum gjaldþolsþætti á reiknings­tímabili fyrir hvern gjaldþolsþátt,
  3. fjárhæðir viðurkenndra gjaldþolsliða til að mæta gjaldþolskröfu flokkaðar eftir gjald­þols­þáttum,
  4. fjárhæðir viðurkenndra kjarnaeiginfjárliða til að mæta kröfu um lágmarksfjármagn flokkaðar eftir gjald­­þols­þáttum,
  5. megindleg og eigindleg útskýring á veigamiklum mismun á eigin fé samkvæmt reikn­ings­skilum félags og eigna umfram skuldir eins og reiknað er út vegna mats á gjaldþols­stöðu,
  6. lýsing á einkennum og fjárhæð hvers kjarnaeiginfjárliðar sem fellur undir bráðabirgðaákvæði laga um vátryggingastarfsemi,
  7. lýsing á veigamiklum stuðningsgjaldþolsliðum, fjárhæð og, ef Fjármálaeftirlitið hefur sam­þykkt aðferð vátryggingafélags við að ákvarða fjárhæð liðarins, lýsing á þeirri aðferð sem og einkennum og nöfnum mótaðila fyrir liðunum skv. a-, b- og c-liðum 2. mgr. 90. gr. laga um vátryggingastarfsemi,
  8. lýsing á liðum sem dregnir eru frá gjaldþoli og stutt lýsing á veigamiklum takmörkunum sem hafa áhrif á aðgengi og framsalshæfi gjaldþols félagsins.

Nöfn á mótaðila skv. g-lið skulu ekki birt ef slík birting er óheimil, óraunhæf eða ef mótaðilarnir sem eiga í hlut eru ekki mikilvægir.

Í skýrslu skv. 1. mgr. skulu einnig vera eftirtaldar upplýsingar um gjaldþolskröfu og kröfu um lágmarksfjármagn fyrir vátryggingafélag:

  1. fjárhæðir gjaldþolskröfu og kröfu um lágmarksfjármagn félags við lok reikningsskilatímabils ásamt upplýsingum um hvort endanleg fjárhæð gjaldþolskröfunnar bíði staðfestingar Fjármálaeftirlitsins eftir því sem við á,
  2. fjárhæð gjaldþolskröfu félags skipt eftir áhættueiningum ef félag notar staðalregluna og eftir áhættuflokkum ef félag notar eigin líkan,
  3. upplýsingar um hvort og þá fyrir hvaða áhættueiningar og undireiningar staðalreglunnar félag notar einfaldaða útreikninga,
  4. upplýsingar um hvort og í hvaða tilvikum félag notar stika sem endurspegla áhættusnið þess skv. 3. mgr. 100. gr. laga um vátryggingastarfsemi,
  5. áhrif stika sem að mati Fjármálaeftirlitsins endurspegla áhættusnið félags skv. 102. gr. laga um vátryggingastarfsemi og fjárhæð viðbótargjaldþolskröfu ásamt rökstuðningi,
  6. upplýsingar sem félag notar til að reikna út kröfu um lágmarksfjármagn,
  7. allar mikilvægar breytingar á gjaldþolskröfu og kröfu um lágmarksfjármagn á reikn­ings­tímabili og ástæður slíkra breytinga.

Ef eigin líkan er notað til að reikna gjaldþolskröfu skal skýrsla skv. 1. mgr. hafa eftirtaldar upp­lýsingar:

  1. í hvaða tilgangi félag notar eigin líkan,
  2. lýsingu á umfangi líkans hvað varðar rekstrareiningar og flokka áhættu,
  3. ef hlutalíkan er notað skal lýsa aðferð við að tengja líkanið við staðalreglu, þ.m.t. lýsingu á óhefðbundnum aðferðum eftir því sem við á,
  4. lýsingu á aðferðum sem notaðar eru í eigin líkani fyrir útreikning á spá um líkindadreifingu og gjaldþolskröfu,
  5. mismun á aðferðafræði og undirliggjandi forsendum sem notaðar eru í staðalreglu og í eigin líkani fyrir hverja áhættueiningu,
  6. áhættumál og til hversu langs tíma er horft í eigin líkani. Ef ekki er miðað við sömu forsendur skv. 2. mgr. 100. gr. laga um vátryggingastarfsemi skal skýra út með hvaða hætti gjaldþolskrafan, sem reiknuð er með því að nota eigin líkan, veitir vátryggingartökum og vátryggðum jafngilda vernd,
  7. lýsingu á einkennum og gæðum gagna sem notuð eru í líkaninu.

Í skýrslu skv. 1. mgr. skulu vera eftirtaldar upplýsingar um hvert frávik vátryggingafélags frá kröfu um lágmarksfjármagn eða umtalsvert frávik þess frá gjaldþolskröfu:

  1. tímabil og hámarksfjárhæð hvers fráviks frá kröfu um lágmarksfjármagn félags á reikn­ingstímabili ásamt útskýringu á uppruna þess og afleiðingum, ráðstöfunum til úrbóta sem gripið hefur verið til, sbr. d-lið 5. tölul. 1. mgr. 54. gr. laga um vátryggingastarfsemi, og útskýringu á áhrifum slíkra ráðstafana,
  2. fjárhæð fráviksins á uppgjörsdegi ef frávik frá kröfu um lágmarksfjármagn félags hefur ekki verið leiðrétt þá,
  3. tímabil og hámarksfjárhæð hvers umtalsverðs fráviks frá gjaldþolskröfu og útskýringu á uppruna þess og afleiðingum sem og hvaða ráðstafana hefur verið gripið til, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 54. gr. laga um vátryggingastarfsemi, og útskýring á áhrifum slíkra ráðstafana,
  4. fjárhæð fráviks á uppgjörsdegi ef umtalsvert frávik frá gjaldþolskröfu félags hefur ekki verið leiðrétt þá.

Í skýrslu skv. 1. mgr. skulu vera í sérstökum kafla allar aðrar veigamiklar upplýsingar um eigin­fjár­stýringu vátryggingafélags.

Ákvæði þetta byggir á 297. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

31. gr.

Viðbótarupplýsingar.

Ef vátryggingafélag birtir opinberlega, að eigin frumkvæði, sbr. 4. mgr. 56. gr. laga um vátrygg­inga­starfsemi, upplýsingar eða útskýringar um gjaldþol þess og fjárhagslega stöðu skal félagið tryggja að slíkar upplýsingar séu í samræmi við upplýsingar sem það hefur gefið Fjármála­eftirlitinu skv. 31. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

Ákvæði þetta byggir á 298. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

32. gr.

Skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu. Undanþáguákvæði.

Ef Fjármálaeftirlitið heimilar vátryggingafélagi að birta ekki ákveðnar upplýsingar skv. 1. mgr. 55. gr. laga um vátryggingastarfsemi skal slíkt leyfi aðeins gilda meðan ástæða undanþágunnar er til staðar.

Vátryggingafélag skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu jafnskjótt og ástæða undanþágu skv. 1. mgr. 55. gr. laga um vátryggingastarfsemi er ekki lengur til staðar.

Ákvæði þetta byggir á 299. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

33. gr.

Frestir.

Vátryggingafélag skal birta opinberlega skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu innan frests skv. 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um vátryggingastarfsemi og, eftir lok tímabilsins sem tilgreint er í greininni, eigi síðar en 14 vikum eftir lok fjárhagsárs félagsins.

Jafnskjótt og vátryggingafélag birtir skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu og allar uppfærðar skýrslur skal hún send Fjármálaeftirlitinu.

Ákvæði þetta byggir á 300. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

34. gr.

Aðferðir við upplýsingagjöf.

Ef vátryggingafélag hefur vefsíðu sem tengist rekstri þess skal skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu birt þar.

Ef vátryggingafélag hefur ekki vefsíðu en er aðili að atvinnugreinasamtökum sem hefur vefsíðu skal skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu birt á vefsíðu samtakanna með samþykki þeirra.

Skýrsla sem er birt skv. 1. eða 2. mgr. skal vera aðgengileg þar í að minnsta kosti fimm ár eftir birtingu skv. 1. mgr. 33. gr.

Ef vátryggingafélag birtir ekki skýrslu skv. 1. og 2. mgr. skal það senda rafrænt eintak af skýrslunni þeim sem biður um hana innan fimm ára frá birtingu skv. 1. mgr. 33. gr. Vátryggingafélag skal senda skýrsluna innan 10 virkra daga frá því að beiðni berst.

Vátryggingafélag skal, án tillits til þess hvort skýrsla félags hafi verið birt á vefsíðu skv. 1. eða 2. mgr., senda þeim sem þess óskar innan tveggja ára frá birtingu skýrslu skv. 1. mgr. 33. gr. útprentað eintak af skýrslunni innan 20 virkra daga frá því beiðni berst.

Vátryggingafélag skal senda Fjármálaeftirlitinu skýrslu skv. 1. mgr. og allar uppfærðar skýrslur á rafrænu formi.

Ákvæði þetta byggir á 301. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

35. gr.

Uppfærslur.

Ef vátryggingafélag skal birta opinberlega upplýsingar um eðli og áhrif meiriháttar atburða sem hafa veruleg áhrif á gildi skýrslu þess um gjaldþol og fjárhagslega stöðu skv. 1. mgr. 56. gr. laga um vátryggingastarfsemi skal það birta uppfærða skýrslu í samræmi við 2. mgr. Ákvæði 23.-32. gr. skulu gilda um þá uppfærðu skýrslu.

Uppfærð skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu skal birt eins fljótt og unnt er eftir að meiriháttar atburðir eiga sér stað án þess að slík birting hafi áhrif á upplýsingarnar.

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. getur vátryggingafélag ákveðið vegna upplýsingaskyldu skv. 5. mgr. 33. gr. að birta sérstaklega breytingar á upplýsingum um eðli og áhrif meiriháttar atburða sem hafa veruleg áhrif á gildi skýrslunnar.

Ákvæði þetta byggir á 302. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

36. gr.

Aðlögunarákvæði vegna samanburðarupplýsinga.

Vátryggingafélag skal einungis gera samburð á upplýsingum við fyrra reikningstímabil samkvæmt þessum kafla ef fyrra reikningstímabil nær yfir tímabil eftir gildistökudag laga um vátrygg­inga­starfsemi.

Ákvæði þetta byggir á 303. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

IV. KAFLI

Reglubundin gagnaskil.

37. gr.

Innihald gagnaskila.

Upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið krefur vátryggingafélag um vegna fyrirfram ákveðinna tímabila skv. 31. gr. laga um vátryggingastarfsemi, skulu innihalda eftirfarandi:

  1. skýrslu vátryggingafélags um gjaldþol og fjárhagslega stöðu skv. 33. gr. ásamt öllum jafn­gildum upplýsingum sem birtar hafa verið opinberlega samkvæmt öðrum lögum eða stjórn­valds­fyrirmælum sem skýrslan vísar til, sem og allar uppfærðar skýrslur sem hafa verið birtar skv. 35. gr.,
  2. reglubundna eftirlitsskýrslu skv. 40.-44. gr. Í skýrslunni skulu einnig vera upplýsingar sem koma fram í 26.-30. gr. sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt vátryggingafélagi undanþágu frá að birta í skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu skv. 1. mgr. 55. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Reglubundna eftirlitsskýrslan skal fylgja uppbyggingu viðauka 1 með reglugerð 2015/35/ESB fyrir skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu,
  3. eftirlitsskýrslu um eigin áhættu og gjaldþolsmat með niðurstöður úr hverju mati á eigin áhættu og gjaldþolsmati sem vátryggingafélag hefur framkvæmt skv. 45. gr. laga um vátrygg­ingastarfsemi,
  4. árlegt og ársfjórðungslegt sniðmát fyrir megindlegar upplýsingar sem tilgreina nánar og eru viðbót við upplýsingar sem eru í skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu og reglubundna eftirlitsskýrslu, með tilliti til mögulegra takmarkana og undanþága skv. 31. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Að því marki sem félag er undanskilið ársfjórðungslegri skýrslu skv. 31. gr. sömu laga skal það eingöngu leggja fram árleg megindleg sniðmát. Árleg gagnaskil skulu ekki fela í sér lista yfir eignir ef félagið hefur undanþágu skv. 31. gr. laga um vátrygg­inga­starfsemi.

Í reglubundinni eftirlitsskýrslu skal vera samantekt sem sýnir allar veigamiklar breytingar sem hafa orðið á rekstri og frammistöðu vátryggingafélags, stjórnkerfi, áhættusniði, mati á gjaldþoli og eiginfjárstýringu á reikningstímabili. Í samantektinni skulu koma fram ástæður og áhrif slíkra breytinga og upplýsingar um eigið áhættu- og gjaldþolsmat.

Umfang ársfjórðungslegra upplýsinga skv. 1. mgr. skal vera minna en árlegra upplýsinga.

Ákvæði 1. mgr. skal ekki hafa áhrif á heimild Fjármálaeftirlitsins til að krefjast þess að vátrygg­inga­félag tilkynni reglulega allar aðrar upplýsingar sem teknar eru saman á ábyrgð eða að beiðni stjórnar.

Ákvæði þetta byggir á 304. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

38. gr.

Veigamiklar upplýsingar.

Upplýsingar sem eru veittar Fjármálaeftirlitinu eru veigamiklar ef vöntun þeirra eða rangfærslur í þeim gætu haft áhrif á ákvarðanatöku eða mat Fjármálaeftirlitsins.

Ákvæði þetta byggir á 305. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

39. gr.

Eftirlitsskýrsla um eigið áhættu- og gjaldþolsmat.

Í eftirlitsskýrslu um eigið áhættu- og gjaldþolsmat skulu koma fram:

  1. eigindlegar og megindlegar niðurstöður matsins og ályktanir sem vátryggingafélag dregur af þeim,
  2. aðferðir og meginforsendur matsins,
  3. upplýsingar um heildargjaldþolsþörf félags og samanburður hennar við gjaldþolskröfu, kröfu um lágmarksfjármagn og gjaldþol félags,
  4. eigindlegar upplýsingar um að hvaða marki mælanlegar áhættur félags endurspeglast ekki í útreikningi á gjaldþolskröfu. Ef umtalsverð frávik hafa verið greind skal einnig gera grein fyrir megindlegum áhrifum þeirra.

Ákvæði þetta byggir á 306. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

40. gr.

Rekstur og afkoma.

Í reglubundinni eftirlitsskýrslu skulu vera eftirtaldar upplýsingar:

  1. Um rekstur vátryggingafélags:
    1. Helstu þættir sem hafa áhrif á þróun, afkomu og stöðu félags á tímabili viðskipta­áætlunar þess, þ.m.t. samkeppnisstöðu félagsins og mikilvæg lagaleg álitaefni,
    2. lýsing á helstu markmiðum félags, þ.m.t. viðeigandi stefnur og tímarammar.
  2. Eftirtaldar eigindlegar og megindlegar upplýsingar um afkomu vátryggingastarfsemi félags, eins og sýnt er í reikningsskilum þess:
    1. tekjur og gjöld af vátryggingastarfsemi eftir mikilvægum vátryggingagreinum og landsvæðum þar sem félag er með starfsemi á reikningstímabilinu, samanborið við fyrra tímabil og ástæður fyrir öllum veigamiklum breytingum,
    2. greining á afkomu vátryggingastarfsemi félags á reikningstímabili,
    3. afkoma einstakra vátryggingagreina félags á reikningstímabili samanborið við áætl­anir, og mikilvægir þættir sem skýra mun þar á milli,
    4. áætlanir um afkomu vátryggingastarfsemi félags, með upplýsingum um mikilvæga þætti sem gætu haft áhrif á afkomu á tímabilinu,
    5. upplýsingar um mikilvægar áhættuvarnir sem hafa verið keyptar eða samið um á reikningstímabilinu.
  3. Eftirtaldar eigindlegar og megindlegar upplýsingar um afkomu fjárfestinga vátrygg­inga­félags, eins og sýnt er í reikningsskilum þess:
    1. tekjur og gjöld vegna fjárfestingarstarfsemi á síðasta reikningstímabili samanborið við fyrra tímabil og ástæður fyrir öllum veigamiklum breytingum,
    2. greining á afkomu fjárfestinga eftir viðeigandi eignaflokkum og í heild á reikn­ings­tímabili,
    3. áætlanir um vænta afkomu fjárfestinga félags, með upplýsingum um mikilvæga þætti sem gætu haft áhrif á árangurinn,
    4. lykilforsendur sem félag gengur út frá í fjárfestingarákvörðunum sínum að því er varðar hreyfingar á vöxtum, gengi og öðrum markaðsþáttum sem skipta máli,
    5. upplýsingar um allar fjárfestingar í verðbréfun og áhættustýringaraðferðir félags að því er varðar slík verðbréf eða gerninga.
  4. Mikilvægar tekjur og gjöld önnur en stafa af vátrygginga- eða fjárfestingarstarfsemi.
  5. Allar aðrar veigamiklar upplýsingar um rekstur og afkomu vátryggingafélags.

Ákvæði þetta byggir á 307. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

41. gr.

Stjórnkerfi.

Í reglubundinni eftirlitsskýrslu skal eftirfarandi koma fram:

  1. Um stjórnkerfi vátryggingafélags:
    1. upplýsingar sem gera Fjármálaeftirlitinu kleift að skilja stjórnkerfi félagsins og meta hvernig það hæfir starfsstefnu og rekstri félagsins,
    2. upplýsingar um boðleiðir og hvernig ábyrgð og verkefnum er skipt innan félagsins,
    3. starfskjör stjórnarmanna á reikningsímabili og samanburður við fyrra tímabil ásamt ástæðum veigamikilla breytinga.
  2. Hvernig vátryggingafélag fullnægir kröfum um hæfni og hæfi:
    1. skrá yfir þá sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum skv. 41. gr. laga um vátrygg­inga­starfsemi,
    2. stefnur og ferla sem félagið hefur til að tryggja að þeir sem bera ábyrgð á lykil­starfssviðum fullnægi kröfur um hæfi og hæfni.
  3. Um áhættustýringarkerfi vátryggingafélags:
    1. áhættustýringaráætlanir félagsins, markmið, ferlar og skýrslugjafaraðferðir fyrir hvern áhættuflokk,
    2. umtalsverða áhættuþætti sem félagið er útsett fyrir á líftíma vátryggingar­skuldbind­inga þess og hvernig tekið er tillit til þeirra í heildar­gjaldþols­þörf þess,
    3. veigamikla áhættu sem félagið hefur greint og er ekki að fullu tekin með í útreikning á gjaldþolskröfu,
    4. hvernig félagið fullnægir kröfum um að fjárfestingar séu í samræmi við varfærnis­regluna, sbr. 113. gr. laga um vátryggingastarfsemi,
    5. hvernig félagið notar og sannreynir lánshæfismöt lánshæfismatsfyrirtækja,
    6. næmni vátryggingaskuldar og gjaldþols félagsins gagnvart forsendum framreiknings áhættulauss vaxtaferils.
  4. Um eigið áhættu- og gjaldþolsmat sem vátryggingafélag gerði á reikningstímabili:
    1. lýsing á því hvernig matið er framkvæmt, skjalfest og yfirfarið,
    2. lýsing á því hvernig matið er notað í stjórnunarferlum og ákvarðanatökuferli félags­ins.
  5. Um innra eftirlit vátryggingafélags:
    1. helstu ferlar innra eftirlits,
    2. starfsemi regluvörslu skv. 2. mgr. 46. gr. laga um vátryggingastarfsemi á reikn­ings­tímabilinu,
    3. reglufylgnistefna félagsins skv. 17. gr., ferli á endurskoðun stefnunnar, tíðni endur­skoðana og allar umtalsverðar breytingar á stefnunni á reikningstímabili.
  6. Um innri endurskoðun vátryggingafélags:
    1. lýsing á úttektum innri endurskoðunar sem framkvæmdar eru á reikningstímabili með samantekt á helstu niðurstöðum og ábendingum sem stjórn hafa verið kynntar og allar aðgerðir sem gripið var til vegna þeirra,
    2. lýsing á innri endurskoðunarstefnu félagsins, ferli á endurskoðun þeirrar stefnu, tíðni endurskoðana og allar veigamiklar breytingar á stefnunni á reikningstímabilinu,
    3. lýsing á endurskoðunaráætlun félagsins, þ.m.t. fyrirhuguðum úttektum innri endur­skoðunar og ástæður þeirra,
    4. ef einstaklingar sem framkvæma innri endurskoðun gegna öðrum lykilstarfssviðum í samræmi við 2. mgr. 18. gr., bæði eigindlegt og megindlegt mat á viðmiðum skv. a- og b-liðum 2. mgr. 18. gr.
  7. Yfirlit yfir helstu verkefni sem tengjast hverjum þætti á reikningstímabili sem starfssvið tryggingastærðfræðings ber ábyrgð á ásamt lýsingu á aðkomu starfssviðsins að áhættu­stýringu félagsins.
  8. Um útvistun:
    1. rök fyrir útvistun ef vátryggingafélag útvistar nauðsynlegri eða mikilvægri rekstrar­einingu eða starfsemi ásamt gögnum um að viðeigandi eftirlit og öryggis­ráðstaf­anir séu til staðar,
    2. þjónustuaðilar sem nauðsynlegum eða mikilvægum rekstrareiningum hefur verið útvistað til og hvernig vátryggingafélag tryggir að þjónustuaðili hlíti ákvæðum a-liðar 3. mgr. 21. gr.,
    3. skrá yfir ábyrgðaraðila vegna útvistaðra lykilstarfssviða hjá þjónustuaðila.
  9. Aðrar veigamiklar upplýsingar um stjórnkerfi vátryggingafélags.

Ákvæði þetta byggir á 308. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

42. gr.

Áhættusnið.

Í reglubundinni eftirlitsskýrslu skulu vera eftirtaldar upplýsingar vegna áhættu í starfsemi vátrygg­inga­félags:

  1. Eigindlegar og megindlegar upplýsingar um áhættusnið vátryggingafélags skv. 2.-9. mgr., aðgreindar fyrir eftirtalda flokka áhættu:
    1. vátryggingaráhættu,
    2. markaðsáhættu,
    3. kröfuáhættu,
    4. lausafjáráhættu,
    5. rekstraráhættu,
    6. aðra veigamikla áhættu.
  2. Vegna áhættuskuldbindingar vátryggingafélags, þ.m.t. áhættunnar sem stafar af liðum utan efnahagsreiknings og yfirfærslu á áhættu til félaga með sérstakan tilgang:
    1. yfirlit yfir veigamiklar áhættuskuldbindingar sem gert er ráð fyrir á tímabili rekstrar­áætlunar með tilliti til stefnu félagsins og hvernig þeim verður stýrt,
    2. fjárhæð veðs skv. mati skv. 74. gr. laga um vátryggingastarfsemi ef félagið selur eða skuldbindur veðtryggingu, skv. 214. gr. reglugerðar 2015/35/ESB,
    3. einkenni veðtryggingar, einkenni og verðgildi eigna sem veðsettar eru og tilsvarandi vissar og óvissar skuldir sem skapast vegna veðsins ef félagið hefur veitt veð skv. 214. gr. reglugerðar 2015/35/ESB,
    4. veigamiklir skilmálar og skilyrði tengd veðinu,
    5. heildarlisti yfir eignir og hvernig fjárfest hefur verið í samræmi við varfærnisregluna, sbr. 113. gr. laga um vátryggingastarfsemi,
    6. samningar um viðskipti með verðbréfalánveitingar eða -lántökur, endurhverf verð­bréfa­kaup eða endurhverfa verðbréfasölu, sbr. 82. lið 1. mgr. 4. gr. reglugerðar 2013/575/ESB, þ.m.t. lausafjárskiptasamningar, upplýsingar um einkenni þeirra og magn,
    7. ábyrgðir vegna hliðaráhættu og áhættuvarnir á ábyrgðum ef félagið selur vátrygg­ingar með breytilegum jafngreiðslum.
  3. Stærð og einkenni lánasafns vátryggingafélags.
  4. Veigamikil samþjöppun áhættu sem félagið er útsett fyrir og yfirlit yfir þá samþjöppun sem getur orðið á tímabilinu miðað við stefnu félagsins og hvernig henni er stýrt.
  5. Vegna áhættuvarna vátryggingafélags:
    1. núverandi áhættuvarnir og lýsing á þeim áhættuvörnum sem fyrirhugaðar eru á tíma­bilinu miðað við stefnu félagsins auk rökstuðnings fyrir áhættuvörnum og áhrifum þeirra,
    2. mat veðs skv. 74. gr. laga um vátryggingastarfsemi sem telst fullnægjandi áhættu­­vörn skv. 214. gr. reglugerðar 2015/35/ESB ásamt veigamiklum skilmálum og skil­yrðum tengdum veðsetningarfyrirkomulaginu.
  6. Í umfjöllun um lausafjáráhættu skal fjallað um væntan hagnað sem felst í framtíðar­iðgjöldum eins og þau eru reiknuð út skv. 2. mgr. 6. gr. fyrir hverja vátryggingagrein, niðurstaða úr eigindlegu mati skv. ii-lið d-liðar 1. mgr. 6. gr. og lýsing á aðferðum og meginforsendum sem framangreind niðurstaða byggist á.
  7. Vegna áhættunæmni vátryggingafélags:
    1. lýsing á álagsprófum og sviðsmyndagreiningum skv. 3. mgr. 5. gr. sem félagið hefur gert auk niðurstaðna,
    2. lýsing á aðferðum og meginforsendum álagsprófa og sviðsmyndagreininga.
  8. Megindleg gögn sem nauðsynleg eru til að ákvarða fylgni milli áhættuþátta sem áhættu­einingar eða undireiningar grunngjaldþolskröfunnar ná yfir.
  9. Aðrar veigamiklar upplýsingar um áhættusnið vátryggingafélagsins.

Ákvæði þetta byggir á 309. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

43. gr.

Mat á gjaldþoli.

Í reglubundinni eftirlitsskýrslu skulu vera veigamiklar upplýsingar sem ekki hafa þegar verið birtar í skýrslu vátryggingafélags um gjaldþol og fjárhagslega stöðu varðandi mat á eignum þess, vátrygg­ingaskuld og öðrum skuldbindingum vegna gjaldþols.

Í reglubundinni eftirlitsskýrslu skal vera lýsing á:

  1. forsendum framtíðaraðgerða stjórnanda,
  2. forsendum fyrir atferli vátryggingartaka.

Í reglubundinni eftirlitsskýrslu skulu vera upplýsingar um fráviksaðferðir fyrir mat skv. 10. gr.

Ef vátryggingafélag verðleggur eignir eða skuldir út frá matsaðferðum sem það notar við undir­búning reikningsskila skv. 4. mgr. 9. gr. reglugerðar 2015/35/ESB skal það tilkynna bæði um eigind­legt og megindlegt mat á viðmiðum skv. d-lið 4. mgr. 9. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

Ákvæði þetta byggir á 310. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

44. gr.

Eiginfjárstýring.

Í reglubundinni eftirlitsskýrslu skulu vera eftirtaldar upplýsingar um gjaldþol vátryggingafélags:

  1. veigamiklir skilmálar og skilyrði fyrir megingjaldþol félagsins,
  2. vænt þróun á gjaldþoli félags á tímabili miðað við stefnu félagsins og eiginfjáráætlanir sem taka mið af álagi. Einnig skal koma fram hvort fyrirhugað er að endurgreiða eða innkalla einhverja gjaldþolsliði eða afla viðbótargjaldþols,
  3. hvernig félag hyggst bregðast við, innan tímamarka, niðurfellingu kjarnagjaldþolsliða sem falla undir aðlögun skv. 6. og 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um vátryggingastarfsemi.

Í eftirlitsskýrslu skv. 1. mgr. skulu einnig vera eftirtaldar upplýsingar:

  1. vegna gjaldþolskröfu og kröfu um lágmarksfjármagn vátryggingafélags:
    1. megindlegar upplýsingar um gjaldþolskröfu félags skipt niður eftir áhættueiningum ef félag notar staðalregluna og eftir áhættuflokkum ef félag notar eigin líkan,
    2. vænt þróun á gjaldþolskröfu og kröfu um lágmarksfjármagn félagsins á tímabili miðað við stefnu félags,
    3. mat á gjaldþolskröfu félagsins sem ákvörðuð er í samræmi við staðalregluna ef Fjármálaeftirlitið krefur félagið um það, sbr. 5. mgr. 104. gr. laga um vátrygg­inga­starfsemi,
  2. ef eigin líkan er notað til útreiknings gjaldþolskröfu:
    1. niðurstaða mats á áhrifavalda rekstrarniðurstöðu skv. 240. gr. reglugerðar 2015/35/ESB fyrir hverja stóra rekstrareiningu og hvernig flokkun áhættu sem valin er í líkaninu útskýrir þessa áhrifavalda,
    2. hvort og að hvaða marki áhættusnið félags víkur frá forsendum eigin líkans félags,
    3. upplýsingar um framtíðaraðgerðir stjórnanda sem notaðar eru við útreikning á gjaldþolskröfu,
  3. hvort breyting hafi orðið á upplýsingum í umsókn fyrir samþykki á eigin stikum eða aðlögun vegna samræmingar sem skipta máli fyrir mat Fjármálaeftirlitsins á umsókninni ef eigin stikar vátryggingafélags eru notaðir til að reikna út gjaldþolskröfu eða aðlögun vegna sam­ræmingar er beitt á áhættulausa vexti,
  4. um sérhverja raunhæfa fyrirsjáanlega áhættu á að kröfum um lágmarksfjármagn eða gjaldþolskröfu félags sé ekki fullnægt og um áætlanir félags til að tryggja það,
  5. aðrar veigamiklar upplýsingar um eiginfjárstýringu vátryggingafélags.

Ákvæði þetta byggir á 311. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

45. gr.

Frestir.

Vátryggingafélag skal senda Fjármálaeftirlitinu:

  1. reglubundna eftirlitsskýrslu skv. b-lið 1. mgr. 37. gr. að minnsta kosti þriðja hvert ár innan frests skv. 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um vátryggingastarfsemi, og, eftir lok tíma­bilsins sem tilgreint í ákvæðinu, eigi síðar en 14 vikum eftir lok fjárhagsárs félagsins,
  2. eftirlitsskýrslu um eigið áhættu- og gjaldþolsmat skv. c-lið 1. mgr. 37. gr. innan tveggja vikna eftir að mati er lokið,
  3. árlegar upplýsingar skv. d-lið 1. mgr. 37. gr. innan frests skv. 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um vátryggingastarfsemi, og eftir lok tímabilsins sem tilgreint er í ákvæðinu eigi síðar en 14 vikum eftir lok fjárhagsárs félagsins,
  4. ársfjórðungslegar upplýsingar skv. d-lið 1. mgr. 37. gr. innan frests skv. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um vátryggingastarfsemi, og eftir lok tímabilsins sem tilgreint er í ákvæðinu, eigi síðar en fimm vikum eftir lok hvers ársfjórðungs.

Fjármálaeftirlitið getur krafið vátryggingafélag um að leggja fram reglubundna eftirlitsskýrslu við lok hvers fjárhagsárs þess með fyrirvara um fresti skv. a-lið 1. mgr.

Ef ekki er gerð krafa um reglubundna eftirlitsskýrslu vegna viðkomandi fjárhagsárs skal vátrygg­inga­félag engu að síður senda Fjármálaeftirlitinu skýrslu þar sem fram koma allar veiga­miklar breytingar sem hafa orðið í rekstri og afkomu félagsins, stjórnkerfi, áhættusniði, mati á gjald­þoli og eiginfjárstýringu á því tiltekna fjárhagsári og hafa gagnorða útskýringu á ástæðum og áhrifum slíkra breytinga. Skýrslan skal lögð fram innan frests skv. a-lið 1. mgr.

Ákvæði þetta byggir á 312. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

46. gr.

Form.

Vátryggingafélag veitir upplýsingar skv. 1. mgr. 45. gr. á rafrænu formi.

Ákvæðið þetta byggir á 313. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

47. gr.

Aðlögunarupplýsingar.

Auk kröfu um eftirlitsskýrslu samkvæmt þessum kafla vegna fyrsta ársins sem lög um vátrygg­inga­starfsemi gilda skal vátryggingafélag senda Fjármálaeftirlitinu eftirfarandi megindlegar og eigind­legar upplýsingar:

  1. upphafsmat eigna og skulda skv. matsreglum 74.-87. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Viðmiðunardagsetning upphafsdags reikningsskila skal vera 1. janúar 2016,
  2. eigindleg skýring á mismun talna í mati skv. a-lið og þeirra sem reiknaðar eru út samkvæmt gjaldþolsreglum skv. þágildandi lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi aðskilið fyrir hvern veigamikinn eigna- og skuldaflokk,
  3. kröfu um lágmarksfjármagn, gjaldþolskröfu og gjaldþol félagsins frá og með dagsetningu upphafsreikningskila skv. a-lið.

Vátryggingafélag skal senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar skv. 1. mgr. eigi síðar en 20 vikum eftir viðmiðunardagsetningu upphafsreikningsskila skv. a-lið 1. mgr.

Ákvæði þetta byggir á 314. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

V. KAFLI

Gagnsæi og ábyrgð Fjármálaeftirlitsins.

48. gr.

Trúnaðarupplýsingar.

Fjármálaeftirlitinu er ekki heimilt að birta trúnaðarupplýsingar sem það fær nema þær séu í samantekt eða á samandregnu formi þannig að ekki sé hægt að auðkenna einstök vátryggingafélög eða samstæður.

Ákvæði þetta byggir á 315. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

49. gr.

Samandregin töluleg gögn.

Samandregin töluleg gögn sem eru birt um lykilþætti vegna eftirlitsreglna skulu hafa upplýsingar sem tilgreindar eru í viðauka II í reglugerð 2015/35/ESB.

Frá og með 31. desember 2020 skal birta gögn fjögurra undangenginna ára. Þegar gögn verða birt vegna stöðu 31. desember 2018 skal birta gögn allra undangenginna ára frá og með 1. janúar 2016.

Ákvæði þetta byggir á 316. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

50. gr.

Aðferðir við birtingu upplýsinga.

Upplýsingar skv. 2. mgr. 30. gr. laga um vátryggingastarfsemi, skulu birtar og vera aðgengilegar á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins á íslensku og ensku.

Uppfæra skal upplýsingar skv. 1. mgr. að minnsta kosti árlega. Ef breytingar verða á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum á vátryggingamarkaði skulu upplýsingar uppfærðar.

Árleg töluleg gögn vegna eftirlitsskyldra félaga og samstæðna skv. 49. gr. skulu birt, að því er varðar hvert almanaksár, innan þriggja mánaða eftir skilafrest samkvæmt b-lið 1. mgr. 45. gr. Upplýsingar um Fjármálaeftirlitið skv. 30. gr. laga um vátryggingastarfsemi, skulu birtar innan fjögurra mánaða eftir lok hvers almanaksárs.

Fyrstu upplýsingarnar sem eru birtar skv. 30. gr. laga um vátryggingastarfsemi skulu vera fyrir árið 2016. Upplýsingarnar skulu birtar á ensku eigi síðar en 1. október 2017.

Ákvæði þetta byggir á 317. gr. reglugerðar 2015/35/ESB.

VI. KAFLI.

Innleiðing og gildistaka.

51. gr.

Innleiðing.

Með reglugerðinni öðlast gildi ákvæði framseldrar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/35 frá 10. október 2014 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB, um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II), að undanskildum ákvæðum um vátryggingasamstæður (Þáttur/Title II).

52. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 4. mgr. 30. gr., 12. mgr. 31. gr., 1. mgr. 50. gr., 3. mgr. 57. gr., laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi og öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 16. júní 2017.

Benedikt Jóhannesson.

Sóley Ragnarsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica