Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Breytingareglugerð

591/2017

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 916/2009, um fjárfestingarstefnu og úttekt á ávöxtun lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

4. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Í fjárfestingarstefnu skulu koma fram þær forsendur sem stjórn lífeyrissjóðs byggir fjárfestingarstefnuna á. Ávallt skal hafa hagsmuni sjóðfélaga og ávöxtun fjár sjóðsins, með tilliti til áhættu að leiðarljósi við mótun fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðs.

Að lágmarki skal vera umfjöllun um áhrif aldurssamsetningar sjóðfélaga, lífeyrisbyrðar og áhrif framtíðargreiðsluflæðis vegna lífeyrisskuldbindinga. Einnig skal fjalla um hvernig ákvarðanir um fjárfestingar eru teknar með tilliti til greininga á upplýsingum með öryggi, gæðum, lausafjárstöðu og arðsemi eignasafnsins í heild.

Jafnframt skal í fjárfestingarstefnu tilgreint hvernig áhættu er dreift, m.a. með hliðsjón af fylgni áhættu einstakra eigna og eignaflokka, gjaldmiðla og atvinnugreina. Þá skal vera umfjöllun um hvernig þess er gætt að áhætta á samþjöppun og uppsöfnun áhættu í eignasafninu er lágmörkuð.

Fjárfestingarstefnan skal tilgreina hvaða fjárfestingar eru utan heimilda eignastýringaaðila og þurfa samþykki stjórnar. Í fjárfestingarstefnu skulu koma fram þau siðferðislegu viðmið sem lífeyrssjóður hefur sett sér í fjárfestingum.

Efnisleg umfjöllun um efnahagshorfur og aðstæður á mörkuðum skal vera í fjárfestingarstefnu sjóðsins. Þá skal eignaflokkum stillt upp með hliðsjón af markmiði og vikmörkum. Vikmörk, þ.e. bil á milli hámarks- og lágmarksfjárfestingar skulu vera þess eðlis að þau teljist ekki of víð og miða við raunhæfa fjárfestingarmöguleika á því tímabili sem fjárfestingarstefnan nær til. Gera skal grein fyrir markmiði og viðmiði um ávöxtun.

Hafi lífeyrissjóður fleiri en eina samtryggingardeild skal setja sérstaka stefnu fyrir hverja deild fyrir sig.

Fram skulu koma upplýsingar um með hvaða hætti lífeyrissjóður birtir fjárfestingarstefnu sína. Birting á vefsíðu er fullnægjandi. Lífeyrissjóður skal senda upplýsingar um fjárfestingarstefnu fyrir komandi ár til Fjármálaeftirlitsins, eigi síðar en 1. desember ár hvert.

2. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðs skal að lágmarki byggja á tegundaflokkun 1.-6. töluliðar 36. gr. a laga nr. 129/1997, sbr. fylgiskjal I með reglugerð þessari.

Auk ofangreindra upplýsinga skal fjárfestingarstefnan kveða á um eftirfarandi atriði:

  1. Markmið og viðmið um ávöxtun og áhættu. Taka skal fram mælikvarða sjóðsins á áhættu fjárfestinga og skýra hvernig áhætta er metin og vöktuð. Sjóðurinn skal einnig taka fram viðmið sem notað er til að mæla árangur ávöxtunar.
  2. Hámarksfjárfestingu í fjármálagerningum og innlánum útgefnum af sama aðila, tengdum viðskiptavinum eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni. Tilgreina skal sérstaklega ef sérstakar takmarkanir gilda að þessu leyti fyrir einstaka tegundaflokka.
  3. Hámarksfjárfestingu í fasteignaveðtryggðum skuldabréfum. Einnig skulu koma fram reglur um veðsetningarhlutföll og veðandlög.
  4. Hámarkshlutdeild í hlutafé einstakra félaga.
  5. Hámarkshlutdeild í hlutdeildarskírteinum útgefnum af verðbréfasjóði (UCITS) eða deild hans.
  6. Hámarkshlutdeild í hlutdeildarskírteinum útgefnum af öðrum sjóðum um sameiginlega fjár-festingu eða deild þeirra.
  7. Hlutfall fjárfestingar í fyrirtækjum sem eingöngu sinna þjónustuverkefnum fyrir lífeyris-sjóðinn.
  8. Hámarksfjárfesting í sjóðum innan sama rekstrarfélags.
  9. Hámarksfjárfesting í samtölu tveggja eða fleiri tegundaflokka hafi sjóðurinn sett sér slíkt markmið.
  10. Hafi lífeyrissjóður heimild í fjárfestingarstefnu til að gera afleiðusamninga, skal tilgreina viðmið um notkun þeirra.
  11. Hlutfall eigna í virkri stýringu.
  12. Markmið um meðallíftíma skuldabréfaflokka.
  13. Markmið um hlutfall lausafjár.
  14. Markmið um gjaldmiðlasamsetningu eftir tegundaflokkun og í heild.
  15. Markmið um atvinnugreinaskiptingu eignasafns.

3. gr.

8. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Í fjárfestingarstefnu skulu koma fram þær forsendur sem vörsluaðili byggir fjárfestingarstefnuna á. Ávallt skal hafa hagsmuni rétthafa og ávöxtun fjár, með tilliti til áhættu, að leiðarljósi við mótun fjárfestingarstefnu.

Að lágmarki skal vera umfjöllun um þann áhættuþátt sem fylgir því að rétthafar geti flutt inneign sína til annarra vörsluaðila lífeyrissparnaðar í séreign og áætlaðs framtíðargreiðsluflæðis vegna útgreiðslna. Einnig skal fjalla um hvernig ákvarðanir um fjárfestingar eru teknar með tilliti til greininga á upplýsingum með öryggi, gæðum, lausafjárstöðu og arðsemi eignasafnsins í heild.

Jafnframt skal fjárfestingarstefna ná yfir hvernig áhættu er dreift, m.a. með hliðsjón af fylgni áhættu einstakra eigna og eignaflokka, gjaldmiðla og atvinnugreina. Þá skal vera umfjöllun um hvernig þess er gætt að áhætta vegna samþjöppunar og uppsöfnun áhættu í eignasafninu er lágmörkuð.

Í fjárfestingarstefnu skulu koma fram þau siðferðislegu viðmið sem lífeyrissjóður hefur sett sér í fjárfestingum.

Efnisleg umfjöllun um efnahagshorfur og aðstæður á mörkuðum skal vera í fjárfestingarstefnu. Þá skal eignaflokkum stillt upp með hliðsjón af markmiði og vikmörkum. Vikmörk, þ.e. bil á milli hámarks- og lágmarksfjárfestingar skulu vera þess eðlis að þau teljist ekki of víð og miða við raunhæfa fjárfestingarmöguleika á því tímabili sem fjárfestingarstefnan nær til. Gera skal grein fyrir markmiði og viðmiði um ávöxtun.

Bjóði vörsluaðili lífeyrissparnaðar í séreign upp á fleiri en eina fjárfestingarleið skal setja sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja leið fyrir sig.

Fram skulu koma upplýsingar um með hvaða hætti vörsluaðili birtir fjárfestingarstefnu sína. Birting á vefsíðu er fullnægjandi. Vörsluaðili lífeyrissparnaðar í séreign skal senda upplýsingar um fjárfestingarstefnu fyrir komandi ár til Fjármálaeftirlitsins, eigi síðar en 1. desember ár hvert.

4. gr.

9. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Fjárfestingarstefna vörsluaðila lífeyrissparnaðar í séreign skal að lágmarki byggja á tegundaflokkun 1.-6. töluliðar 36. gr. a laga nr. 129/1997, sbr. 39. gr. b sömu laga og fylgiskjal I með reglugerð þessari.

Auk ofangreindra upplýsinga skal fjárfestingarstefna kveða á um eftirfarandi atriði:

  1. Markmið og viðmið um ávöxtun og áhættu. Taka skal fram mælikvarða á áhættu fjárfestinga og skýra hvernig áhætta er metin og vöktuð. Vörsluaðili skal einnig taka fram viðmið sem notað er til að mæla árangur ávöxtunar.
  2. Hámarksfjárfestingu í fjármálagerningum og innlánum útgefnum af sama aðila, tengdum viðskiptavinum eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni. Tilgreina skal sérstaklega ef sérstakar takmarkanir gilda að þessu leyti fyrir einstaka tegundaflokka.
  3. Hámarksfjárfestingu í fasteignaveðtryggðum skuldabréfum. Einnig skulu koma fram reglur um veðsetningarhlutföll og veðandlög.
  4. Hámarkshlutdeild í hlutafé einstakra félaga.
  5. Hámarkshlutdeild í hlutdeildarskírteinum útgefnum af verðbréfasjóði eða deild hans (UCITS).
  6. Hámarkshlutdeild í hlutdeildarskírteinum útgefnum af öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu eða deild þeirra.
  7. Hámarksfjárfesting í sjóðum innan sama rekstrarfélags.
  8. Hámarksfjárfesting í samtölu tveggja eða fleiri tegundaflokka hafi vörsluaðili sett sér slíkt markmið.
  9. Hafi lífeyrissjóður heimild í fjárfestingarstefnu til að gera afleiðusamninga, skal tilgreina viðmið um notkun þeirra.
  10. Hlutfall eigna í virkri stýringu.
  11. Markmið um meðallíftíma skuldabréfaflokka.
  12. Markmið um hlutfall lausafjár.
  13. Markmið um gjaldmiðlasamsetningu eftir tegundaflokkun og í heild.
  14. Markmið um atvinnugreinaskiptingu eignasafns.

5. gr.

11. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Úttekt á ávöxtun eignasafna vegna samtryggingardeildar og lífeyrissparnaðar í séreign næstliðins árs skal skilað til Fjármálaeftirlitsins eigi síðar en 30. apríl ár hvert. Gera skal grein fyrir úttekt á ávöxtun eignasafna fyrir hverja deild og fjárfestingarleið. Úttektin skal innihalda upplýsingar um ávöxtun fjármálagerninga í samræmi við leiðbeiningar sem Fjármálaeftirlitið gefur út og sem byggja á tegundaflokkun 36. gr. a. laga nr. 129/1997.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 39. gr. a laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. júlí 2017.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 23. júní 2017.

F. h. r.

Haraldur Steinþórsson.

Anna V. Ólafsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.