Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Breytingareglugerð

247/2015

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 758/2011, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, með síðari breytingum.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. reglugerðarinnar:

2. og 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Reglugerðin byggir á viðmiðunum um ríkisaðstoð til rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarverkefna sem fram koma í reglugerð ESB nr. 651/2014, um almenna hópundanþágu, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar ríkisaðstoðar sem samrýmast framkvæmd EES-samningsins, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2014. Ríkisaðstoðarkerfið sem felst í lögum nr. 152/2009 hefur verið fellt undir reglugerð ESB nr. 651/2014, sbr. yfirlýsingu sem send var Eftirlitsstofnun EFTA til birtingar 29. desember 2014.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað dagsetningarinnar "1. september" í 1. mgr. kemur: 1. október.
  2. Við 2. mgr. bætist nýr töluliður sem verður 5. tölul. og orðast svo:

    1. Staðfesting umsækjenda þess efnis að skilyrði 3. og 4. mgr. séu uppfyllt.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
    Eigi íslenska ríkið útistandandi endurgreiðslukröfu á umsækjanda vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar skal hafna umsókn um staðfestingu verkefna.
  4. Við greinina bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr. og orðast svo:
    Eigi umsækjandi um staðfestingu verkefna í fjárhagsvanda skal umsókn hafnað. Fyrirtæki telst eiga í fjárhagsvanda ef a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt:

    1. Um er að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
    2. Um er að ræða félag þar sem a.m.k. einn aðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
    3. Um er að ræða fyrirtæki sem sætir gjaldþrotameðferð eða hefur óskað heimildar til að leita nauðasamninga.
    4. Um er að ræða fyrirtæki sem hefur fengið björgunaraðstoð í skilningi leiðbeinandi reglna ESA um björgun og endurskipulagningu fyrirtækja, og hefur enn ekki endurgreitt lánið eða aflétt ábyrgðinni eða hefur fengið aðstoð til endurskipulagningar og er því enn bundið af samþykktri áætlun um endurskipulagningu.
    5. Um er að ræða fyrirtæki sem hvorki er lítið né meðalstórt og hefur uppfyllt eftirtalin skilyrði síðustu tvö reikningsár:

      1. hlutfall milli bókfærðra skulda fyrirtækisins og eigin fjár hefur verið hærra en 7,5 og
      2. hagnaður fyrir afskriftir og vexti (EBITDA) nemur lægri fjárhæð en nettófjármagnskostnaður ársins.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. reglugerðarinnar:

  1. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

    1. Rannsóknir: Skipulegar rannsóknir eða veigamiklar athuganir sem hafa að markmiði að stuðla að nýrri þekkingu og færni við að þróa nýjar vörur, ferla eða þjónustu eða leiða til verulegra umbóta á þeim vörum, ferlum eða þjónustu sem þegar er til staðar. Þær felast í gerð íhluta í flókin kerfi, og geta falið í sér smíði frumgerða í rannsóknarstofuumhverfi eða umhverfi með viðmótshermun á fyrirliggjandi kerfum og einnig tilraunaverkefnum, þegar nauðsyn krefur vegna rannsókna og þá einkum vegna almennrar staðfestingar á tækni.
    2. Þróun: Öflun, sameining, mótun og notkun á fyrirliggjandi vísindalegri, tæknilegri, viðskiptalegri og annarri hagnýtri þekkingu og kunnáttu í því skyni að þróa nýjar eða endurbættar vörur, verkferla eða þjónustu. Þetta getur m.a. einnig tekið til starfsemi sem miðar að skilgreiningu á hugmynd, áætlanagerð og skrásetningu nýrra vara, verkferla eða þjónustu. Þróun getur falist í hönnun frumgerðar, gerð sýnisútgáfu, framkvæmd tilraunaverkefnis, prófunum og að sannreyna nýjar eða endurbættar vörur, verkferla eða þjónustu í umhverfi sem er einkennandi fyrir raunveruleg vinnsluskilyrði þar sem aðalmarkmiðið er að gera frekari tæknilegar endurbætur á ófullmótuðum vörum, verkferlum eða þjónustu. Hér getur líka verið um að ræða þróun á markaðshæfri frumgerð eða tilraunaverkefni, þegar slík frumsmíð er óhjákvæmilega endanleg markaðsvara þar sem framleiðsla á henni er of kostnaðarsöm til þess að nota eingöngu til kynningar og til að sannreyna eiginleika hennar.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein, sem verður 2. mgr. og orðast svo:
    Starfsemi sem er í eðli sínu hluti af almennum rekstri fyrirtækja telst ekki til þróunar. Hér undir fellur m.a. eftirtalið:

    1. Venjulegar eða reglubundnar breytingar á vörum, þjónustu, framleiðslulínum, framleiðsluferlum, núverandi þjónustu eða annarri áframhaldandi starfsemi, jafnvel þótt slíkar breytingar geti leitt af sér úrbætur.
    2. Umbætur og breytingar á vörum fyrirtækis, þjónustu eða framleiðsluferlum, þegar ekki er um að ræða þróun nýrrar þekkingar, nýrrar færni eða nýtingu núverandi þekkingar á nýjan hátt.
    3. Þjálfun og endurmenntun.
    4. Markaðsathuganir og markaðskannanir.
    5. Uppsetning eða aðlögun á aðkeyptum búnaði og tækjum.
    6. Uppsetning framleiðsluferlis.
    7. Öflun, bygging eða endurbætur á fasteignum, ökutækjum, skipum eða loftförum.
    8. Kortlagning á eða leit að námum, náttúruauðlindum eða sambærilegu, nema þegar um er að ræða þróun nýrra eða betri aðferða eða tækni.
    9. Fjármögnun samstarfsverkefna án virkrar þátttöku allra samstarfsaðila í verkefninu.
    10. Eftirlit, gæðamat og vottun á núverandi framleiðslu og framboði á vöru og þjónustu.

4. gr.

Við 7. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein sem verður 6. mgr. og orðast svo:

Lögaðilar teljast tengdir í skilningi þessa ákvæðis þegar:

  1. þeir eru hluti samstæðu skv. 2. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, eða eru undir beinu og/eða óbeinu meirihlutaeignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri lögaðila innan samstæðu, eða
  2. meirihlutaeignarhald eins lögaðila yfir öðrum er til staðar samanlagt með beinum og óbeinum hætti, eða
  3. þeir eru beint eða óbeint í meirihlutaeigu eða undir stjórnunarlegum yfirráðum einstaklinga sem eru tengdir sifjaréttarlegum böndum, t.d. einstaklinga í hjónabandi eða staðfestri samvist, systkina og einstaklinga sem eru skyldir í beinan legg.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 16. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, og öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 11. mars 2015.

F. h. r.

Guðmundur Árnason.

Guðrún Þorleifsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.