Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

1077/2017

Reglugerð um áhættulausan vaxtaferil vegna núvirðingar á vátryggingaskuld.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um áhættulausan vaxtaferil vegna núvirðingar á vátryggingaskuld.

Reglugerðin er byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/51/ESB (Omnibus II) sem breytti tilskipun 2009/138/EB.

2. gr. Vátryggingaskuld.

Vátryggingafélag skal meta skuldbindingar sínar vegna gerðra vátryggingarsamninga og er slík fjárskuldbinding vátryggingaskuld vátryggingafélags. Vátryggingaskuld skal metin með varfærni og með áreiðanleika og hlutlægni að leiðarljósi og skal á hverjum tíma vera sú fjárhæð sem vátryggingafélag þarf að greiða ef vátryggingaskuldbinding þess væri flutt til annars vátryggingafélags með skömmum fyrirvara.

3. gr. Aðildarríki.

Aðildarríki er í reglugerð þessari ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) eða Færeyjar.

4. gr. Útreikningur á vátryggingaskuld.

Vátryggingaskuld skal vera samtala besta mats á skuldbindingum og áhættuálagi.

Besta mat skuldbindinga er meðaltal framtíðarfjárstreymis vegið með líkindum að teknu tilliti til áhrifa tímasetninga greiðslna með viðeigandi áhættulausum vaxtaferli.

5. gr. Útreikningur á áhættulausum vaxtaferli.

Við ákvörðun á áhættulausum vaxtaferli skv. 2. mgr. 4. gr. til tiltekins tíma skal taka mið af upplýsingum um viðeigandi fjármálagerninga með gjalddaga á þeim tiltekna tíma á djúpum, virkum og gagnsæjum markaði. Þegar slíkar upplýsingar eru ekki fyrir hendi skal ákvarða áhættulausan vaxtaferil með brúun eða framreikningi.

Sá hluti vaxtaferilsins sem er framreiknaður skal byggjast á upplýsingum fram að síðasta gjalddaga þar sem á markaði er dýpt, seljanleiki og gagnsæi. Þann vaxtaferil skal framreikna að endanlegum langtímavöxtum skv. 47. gr. reglugerðar 2015/35/ESB um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga.

6. gr. Aðlögun á áhættulausum vaxtaferli vegna samræmingar.

Vátryggingafélag getur notað aðlögun vegna samræmingar á viðeigandi áhættulausum vaxtaferli við útreikning á besta mati á skuldbindingum vegna líftryggingastofns eða endurtryggingastofns vegna líftrygginga, þ. á m. lífeyrisbætur vegna skaðatrygginga, að fengnu fyrirframsamþykki Fjármálaeftirlitsins, þegar eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

  1. Vátryggingafélagið hefur tilgreint eignasafn, samsett af skuldabréfum og öðrum eignum með sambærilegt fjárstreymi til að mæta besta mati á líftryggingastofni og félagið viðheldur eignasafninu meðan skuldbindingarnar eru til staðar, nema vænt fjárstreymi milli eigna og skuldbindinga hafi raskast verulega.
  2. Stýring vátryggingaskuldbindinga þar sem aðlögun er notuð og eignasafn sem er tilgreint til að mæta þeim er aðskilið frá annarri starfsemi vátryggingafélagsins. Hið tilgreinda eignasafn má ekki nota til að mæta tapi vegna annarrar starfsemi vátryggingafélagsins.
  3. Vænt fjárstreymi eignasafnsins er sambærilegt sérhverju væntu fjárstreymi skuldbindinga vátryggingastofns í sama gjaldmiðli og frávik valda ekki áhættu sem er veruleg miðað við eðlilega áhættu vátryggingastarfsemi þar sem aðlögun er notuð.
  4. Stofn að baki líftryggingaskuldbindingu leiðir ekki til frekari iðgjaldagreiðslna.
  5. Einungis langlífisáhætta, kostnaðaráhætta, endurmatsáhætta og dánaráhætta tengist stofni að baki líftryggingaskuldbindingu.
  6. Þegar vátryggingaáhætta stofns líftryggingaskuldbindingar felur í sér dánaráhættu skal besta mat skuldbindingarinnar ekki hækka meira en 5% við þá álagssviðsmynd sem notuð er við útreikning á dánaráhættu samkvæmt staðalreglu.
  7. Vátryggingarsamningar í stofni vátryggingaskuldbindinga fela ekki í sér neina valmöguleika fyrir vátryggingartaka að undanskildum endurkaupsrétti þar sem endurkaupsverðmætið er ekki hærra en verðmæti þeirra eigna sem er ætlað að mæta skuldbindingunni á þeim tíma sem endurkaupsréttur er nýttur.
  8. Fjárstreymi hins tilgreinda eignasafns er ákveðið og hvorki útgefandi né þriðji aðili geta breytt því.
  9. Vátryggingaskuldbindingu vegna tilgreinds vátryggingastofns verður ekki skipt í aðgreinda hluta þegar vátryggingarsamningar eru gerðir samkvæmt þessari málsgrein.

Þrátt fyrir h-lið 1. mgr. getur vátryggingafélag tilgreint eignir þar sem fjárstreymi fylgir verðlagsbreytingum að því gefnu að þær eignir endurspegli fjárstreymi skuldbindinga vátryggingastofns sem fylgja verðlagsbreytingum.

Þegar útgefandi eða þriðji aðili hafa rétt til að breyta fjárstreymi eignar þannig að fjárfestir leyfi að sama fjárstreymi sé náð með því að endurfjárfesta í eignum með jafngildu eða betra lánshæfi, geta þær orðið hluti af eignasafni skv. h-lið 1. mgr.

Vátryggingafélag sem notar aðlögun til samræmingar vegna skuldbindinga vátryggingastofns getur ekki horfið frá því. Ef vátryggingafélag uppfyllir ekki lengur skilyrði 1. mgr. til að nota aðlögun vegna samræmingar skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það þegar í stað og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að uppfylla skilyrðin. Uppfylli vátryggingafélag ekki skilyrðin innan tveggja mánaða skal það hætta notkun aðlögunarinnar á alla vátryggingastofna sína og er ekki heimilt að nota aftur aðlögun vegna samræmingar fyrr en að 24 mánuðum liðnum.

Ekki er heimilt að nota aðlögun vegna samræmingar þegar viðeigandi vaxtaferill til að reikna besta mat fyrir skuldbindingarnar felur í sér aðlögun vegna óstöðugleika skv. 8. gr.

Ákvæði þetta byggir á 77b. gr. tilskipunar 2009/138/EB, sbr. tilskipun 2014/51/ESB.

7. gr. Útreikningar á aðlögun vegna samræmingar.

Reikna skal aðlögun vegna samræmingar skv. 6. gr. fyrir hvern gjaldmiðil í samræmi við eftirfarandi reglur:

  1. aðlögunin skal vera jöfn mismuni á:

    1. vaxtaferli sem leiðir til þess að við núvirðingu fjárstreymis vátryggingastofns verði virði þess jafnt mati á tilgreindu eignasafni í vátryggingaskuld skv. 75. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi,
    2. vaxtaferli sem við núvirðingu fjárstreymis vátryggingastofns gefur besta mat á virði vátryggingaskuldar að teknu tilliti til tímagildis fjármuna með áhættulausum grunnvaxtaferli,
  2. aðlögun vegna samræmingar á ekki að fela í sér það grunnáhættuálag sem endurspeglar áhættu sem vátryggingafélag ber í eigin áhættu,
  3. þrátt fyrir a-lið skal auka grunnáhættuálag þar sem með þarf til að tryggja að aðlögun eigna með undirliggjandi fjárfestingum af lægri gæðaflokki fari ekki umfram aðlögun fyrir eignir í hærri gæðaflokki með sömu tímalengd og eignaflokkurinn,
  4. notkun á utanaðkomandi lánshæfismati í útreikningi á aðlögun vegna samræmingar skal fylgja ákvæðum um útreikning í V. kafla I. bálkar reglugerðar nr. 585/2017, um vátryggingastarfsemi, um hvernig nota eigi mat utanaðkomandi lánshæfismatsstofnunar við útreikning gjaldþolskröfu og hvernig matið er yfirfært á kvarða sem gefur til kynna lánshæfisþrep.

Grunnáhættuálag skv. b-lið 1. mgr. skal:

  1. vera jafngilt summu álags sem samsvarar líkum á greiðslufalli eigna og álags sem samsvarar væntu tapi vegna lækkunar á lánshæfi eigna,
  2. ekki vera lægra en 30% af langtímameðalálagi á áhættulausa vexti eigna með sama líftíma, útlánagæði og eignaflokkun samkvæmt mati á fjármálamörkuðum fyrir áhættuskuldbindingar gagnvart íslenska ríkinu og Seðlabanka Íslands,
  3. ekki vera lægra en 35% af langtímameðaláhættuálagi á áhættulausum vaxtaferli með sömu lengd, gæði og eignaflokkun samkvæmt mati á fjármálamörkuðum fyrir aðrar eignir en nefndar eru í b-lið.

Líkur á greiðslufalli skv. a-lið skulu byggja á langtímavanskilalíkum fyrir tilgreint eignasafn og endurspegla líftíma þess, gæðaflokkun og eignaflokkun. Þar sem ekki er hægt að finna áreiðanlegt áhættuálag út frá tölum um vanskil skv. a-lið skal grunnáhættulagið vera jafnt langtímameðaltali áhættuálagsins á áhættulausa vexti sem lýst er í b- og c-lið 2. mgr.

Ákvæði þetta byggir á 77c. gr. tilskipunar 2009/138/EB, sbr. tilskipun 2014/51/ESB.

8. gr. Aðlögun á áhættulausum vaxtaferli vegna óstöðugleika.

Fyrir hvern gjaldmiðil skal aðlögun á áhættulausum vaxtaferli vegna óstöðugleika fela í sér muninn á þeirri ávöxtun sem hægt er fá á tilgreint eignasafn og áhættulausum vöxtum í sama gjaldmiðli.

Tilgreint eignasafn viðkomandi gjaldmiðils skal endurspegla eignir sem vátryggingafélag hefur fjárfest í til að mæta besta mati skuldbindinga í sama gjaldmiðli.

Aðlögun áhættulauss vaxtaferils vegna óstöðugleika skal samsvara 65% af áhættuálagi fyrir viðkomandi gjaldmiðil.

Leiðrétt áhættuálag gjaldmiðilsins skal reiknað sem mismunur á milli áhættuálags sbr. 2. mgr. og þess hluta mismunarins sem má rekja til raunhæfs mats á væntu tapi, óvæntri kröfuáhættu eða annarri áhættu sem tengist eignunum.

Aðlögun áhættulauss vaxtaferils vegna óstöðugleika skal einungis ná til þess hluta ferilsins sem ekki er fenginn vegna framreiknings, sbr. 5. gr. Framreikningur vaxtaferils skal byggja á leiðréttum áhættulausum vöxtum.

Áður en 65% áhættustuðli er beitt fyrir tiltekið ríki, sbr. 3. mgr. skal aðlögun áhættulausa vaxtaferilsins vegna óstöðugleika hækkuð með mismuninum á leiðréttu áhættuálagi ríkisins og tvöföldu leiðréttu áhættuálagi viðkomandi gjaldmiðils. Þetta skal gert þar sem munurinn er jákvæður og leiðrétting áhættuálags gjaldmiðils er yfir 100 punktum. Bæta skal aukningunni á aðlöguninni við besta mat vátryggingaskuldbindinga á vátryggingarsamningum sem eru boðnir á markaði viðkomandi ríkis. Leiðrétt áhættuálag ríkis (er reiknað á samsvarandi hátt og leiðrétt áhættuálag gjaldmiðils fyrir sama ríki, en byggt er á lýsandi eignasafni sem inniheldur þær eignir sem vátryggingafélög fjárfesta í til að mæta besta mati vátryggingaskuldar vegna vátryggingarsamninga sem boðnir eru á markaði viðkomandi ríkis og eru útgefnir í gjaldmiðli ríkisins.

Ekki skal nota aðlögun áhættulausa vaxtaferilsins vegna óstöðugleika á vátryggingaskuldbindingar þar sem aðlögun vegna samræmingar hefur verið bætt við áhættulausa vaxtaferilinn við útreikning besta mats skuldbindinga, skv. 6. gr.

Gjaldþolskrafa skal ekki fela í sér hættu á lækkun eigin fjár sem verður vegna breytinga á aðlögun vegna óstöðugleika.

Ákvæði þetta byggir á 77d. gr. tilskipunar 2009/138/EB, sbr. tilskipun 2014/51/ESB.

9. gr. Upplýsingar vegna útreiknings á áhættulausum vaxtaferli.

Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin gefur út eftirfarandi upplýsingar að minnsta kosti ársfjórðungslega fyrir viðeigandi gjaldmiðla:

  1. áhættulausan vaxtaferil vegna útreiknings á besta mati vátryggingaskuldar skv. 2. mgr. 76. gr. laga nr. 100/2016, sem eru samhljóða þeim upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið gefur út skv. 78. gr. laga nr. 100/2016,
  2. grunnáhættuálag, fyrir hverja viðeigandi tímalengd vaxta, flokk lánshæfismats og eignaflokk, til að reikna út aðlögun vegna samræmingar við útreikning á áhættulausum vaxtaferli.

aðlögun á áhættulausum vaxtaferli vegna óstöðugleika skv. 8. gr. fyrir öll aðildarríki.

Ákvæði þetta byggir á 77e. gr. tilskipunar 2009/138/EB, sbr. tilskipun 2014/51/ESB.

10. gr. Viðbótargjaldþolskrafa.

Í kjölfar eftirlitsferlis skv. 29. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, getur Fjármálaeftirlitið lagt viðbótargjaldþolskröfu á vátryggingafélag ef það kemst að þeirri niðurstöðu að áhættusnið vátryggingafélags sem notar aðlögun vegna samræmingar skv. 6. gr. eða aðlögun vegna óstöðugleika skv. 8. gr. víki verulega frá forsendum aðlögunarinnar. Viðbótargjaldþolskrafan skal vera í hlutfalli við áhættu af frávikinu.

Ákvæði þetta byggir á d-lið 1. mgr. 37. gr. tilskipunar 2009/138/EB, sbr. tilskipun 2014/51/ESB.

11. gr. Áhættustýring.

Þegar vátryggingafélag notar aðlögun vegna samræmingar skv. 6. gr. eða aðlögun vegna óstöðugleika skv. 8. gr. skal það gera greiðsluáætlun fyrir inn- og útgreiðslur sem tengjast þeim eignum og skuldbindingum sem lúta slíkum aðlögunum.

Vátryggingafélag skal vegna eigna- og skuldastýringar:

  1. Greina næmni vátryggingaskuldar og viðurkenndra gjaldþolsliða fyrir forsendum sem liggja að baki framreikningi áhættulauss vaxtaferils skv. 77. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi.
  2. Ef aðlögun vegna samræmingar skv. 6. gr. er notuð skal reglulega leggja mat á:

    1. Næmni vátryggingaskuldar og viðurkenndra gjaldþolsliða fyrir forsendum sem liggja til grundvallar útreikningi á aðlögun vegna samræmingar, og þeirra áhrifa sem þvinguð sala eigna hefði á viðurkennda gjaldþolsliði.
    2. Næmni vátryggingaskuldar og viðurkenndra gjaldþolsliða fyrir breytingum á tilgreindu eignasafni.
    3. Áhrif þess að aðlögun vegna samræmingar yrði engin.
  3. Ef vátryggingafélag nýtir aðlögun vegna óstöðugleika skv. 8. gr. skal reglulega leggja mat á:

    1. Næmni vátryggingaskuldar og viðurkenndra gjaldþolsliða fyrir forsendum mats á aðlögun vegna óstöðugleika og hugsanlegra áhrifa þvingaðrar sölu eigna á viðurkennda gjaldþolsliði.
    2. Áhrif þess að aðlögun vegna óstöðugleika yrði engin.

Mat vátryggingafélags skv. a-c-liðum 2. mgr. skal vera hluti af gagnaskilum þess skv. 31. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi. Ef mat á áhrifum brottfalls aðlögunar vegna samræmingar eða óstöðugleika leiða til þess að gjaldþolskrafa verður ekki uppfyllt skal vátryggingafélag einnig skila greiningu á þeim viðbrögðum sem félagið getur gripið til við þær aðstæður til þess að viðurkenndir gjaldþolsliðir fullnægi gjaldþolskröfu eða hvernig unnt er að breyta áhættusniði þess svo ákvæði um gjaldþolskröfu verði uppfyllt.

Stefna stjórnar vátryggingafélags um áhættustýringu skal fela í sér stefnu fyrir notkun aðlögunar vegna óstöðugleika.

Ákvæði þetta byggir á 3. málsl. 2. mgr. og 2a. mgr. 44. gr. tilskipunar 2009/138/EB, sbr. tilskipun 2014/51/ESB.

12. gr. Innleiðing.

Með reglugerðinni eru tekin upp ákvæði 37., 44., 45, 77b., 77c., 77d. og 77e. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB, um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/51/ESB (Omnibus II) sem breytti tilskipun 2009/138/EB.

13. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 8. mgr. 32. gr., 1. mgr. 50. gr. og 2. tölul. 87. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, og öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 24. nóvember 2017.

Benedikt Jóhannesson.

Sóley Ragnarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.