Fara beint í efnið

Prentað þann 18. apríl 2024

Stofnreglugerð

566/2021

Reglugerð um flutning fjárheimilda A-hluta á milli ára.

1. gr. Markmið og tilgangur.

Tilgangur reglugerðar þessarar er að skýra hlutverk og ábyrgð þeirra sem vinna að ákvörðun um ráðstöfun árslokastöðu milli ára, sbr. 30. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál.

Markmið reglugerðarinnar er að treysta faglega málsmeðferð, samræmd vinnubrögð, hagkvæmni og gæði við undirbúning og framkvæmd þessa verkefnis.

2. gr. Fjárheimild.

Fjárheimildir málaflokka fjárlaga skiptast í fjárveitingar til ríkisaðila og verkefna. Þær greinast í rekstrarframlag, rekstrartilfærslu, fjármagnstilfærslu og fjárfestingarframlag, sbr. 5. tl. 3. gr. laga um opinber fjármál. Rekstrarframlag er mismunur rekstrargjalda og rekstrartekna.

3. gr. Rekstrarliðir.

Séu hrein rekstrargjöld lægri en rekstrarframlag er heimilt að halda afgangi sem nemur allt að 4% af rekstrargjaldafjárveitingu ársins. Þó skal uppsöfnuð hrein eign rekstrarliða í árslok aldrei vera umfram 10% af rekstrargjaldaframlagi ársins og fluttri fjárveitingu frá fyrra ári. Hrein eign umfram hámark fellur niður, í samræmi við 8. gr.

Séu útgjöld rekstrarliða umfram fjárveitingar, þrátt fyrir aðgerðir skv. 7. gr., færist halli yfir á næsta ár.

4. gr. Framlög til fjárfestinga.

Staða fjárfestingaliða í árslok færist almennt til næsta árs nema verkefni sé lokið eða hætt sé við fjárfestingarverkefni, þá fellur ónýtt fjárveiting niður, í samræmi við 7. gr.

5. gr. Tilfærsluliðir og reiknaðir liðir.

Árslokastöður tilfærsluliða flytjast almennt ekki á milli ára.

Árslokastöður tiltekinna verkefna sem ráðast af hagrænum forsendum, metnum stærðum í reikningshaldslegu uppgjöri eða öðrum þáttum utan ákvörðunarvalds ráðherra, flytjast ekki á milli ára. Gerð er breyting á árslokastöðu skv. 7. gr. reglugerðar þessarar.

Hlutaðeigandi ráðherra skal gera grein fyrir því í ársskýrslu sinni hvaða skýringar eru á árslokastöðu sem felld er niður skv. 2. mgr. og hvaða aðgerðum var beitt til að draga úr umframgjöldum innan ársins.

6. gr. Varasjóðir.

Ef ríkisaðili eða verkefni hefur fengið sérstaka fjárveitingu úr almennum varasjóði á árinu, aðra en launa- eða verðlagsbætur, skal fella óráðstafaða og óskuldbundna fjárveitingu í árslok niður, auk óráðstafaðrar stöðu varasjóðs hlutaðeigandi málaflokks.

Varasjóður málaflokks skal nýttur til að mæta útgjöldum einstaka ríkisaðila eða verkefna málaflokksins, umfram fjárveitingar ársins.

Sé afgangur í varasjóði málaflokks eftir að umframútgjöld innan málaflokks hafa verið jöfnuð er heimilt að flytja afgangsstöðu milli ára. Þó skal hrein eign aldrei vera umfram 4% af rekstrargjaldafjárheimild málaflokks. Hrein eign varasjóðs málaflokks umfram hámark og árslokastaða almenns varasjóðs fellur niður í samræmi við 7. gr.

7. gr. Breyting á árslokastöðu.

Breytingar á árslokastöðu í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar skal færa til hækkunar eða lækkunar á fjárveitingu næsta árs.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið getur við sérstakar aðstæður, heimilað að ríkisaðili eða verkefni haldi eftir afgangi þrátt fyrir ákvæði 3.-6. gr.

8. gr. Birting ákvörðunar um ráðstöfun árslokastöðu.

Með ríkisreikningi skal birta yfirlit sem sýnir óráðstafaðar fjárheimildir og umframútgjöld sem færast milli ára, skiptingu þeirra í fjárveitingar til ríkisaðila í A-hluta og verkefna og í varasjóði málaflokka og sundurliðun breytinga sem gerðar eru á fjárveitingum skv. 7. gr.

Fjármála- og efnahagsráðherra auglýsir ákvörðun um ráðstöfun árslokastöðu í Stjórnartíðindum.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 67. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og öðlast þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 30. apríl 2021.

F. h. r.

Sigurður H. Helgason.

Viðar Helgason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.