Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

917/2006

Reglugerð um (4.) breytingu á reglugerð nr. 939/2003 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. - Brottfallin

1. gr.

Á eftir 4. gr. kemur ný grein sem orðast svo:

5. gr.

Breytingar innan bótagreiðsluársins.

Komi fram upplýsingar frá þeim aðilum sem getið er um í 1. mgr. 3. gr. eða við eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins sem leiða til breytinga á tekjuáætlun innan ársins og breytingin hefur áhrif á rétt til bóta eða fjárhæð greiðslna skal Tryggingastofnun ríkisins skora á bótaþega að breyta tekjuáætlun og skal stofnunin breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði á eftir til samræmis við upplýsingar frá bótaþega. Berist ekki nýjar upplýsingar frá bótaþega og sýnt er að um er að ræða varanlega breytingu á tekjum er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að breyta útreikningi bóta til samræmis við fyrirliggjandi upplýsingar.

Þegar nýr útreikningur bóta, sbr. 1. mgr., liggur fyrir skal jafna áætluðum heildar­greiðslum ársins á alla mánuði bótagreiðsluársins og greiða bætur samkvæmt því þá mánuði sem eftir eru af árinu. Ef í ljós kemur að bætur hafi verið ofgreiddar kemur ofgreiðslan til innheimtu við næsta árlegt uppgjör, nema bótaþegi semji um annað. Hafi bætur verið vangreiddar skal bótaþega greitt það sem upp á vantar.

2. gr.

11. gr. orðast svo:

11. gr.

Tilhögun frádráttar af bótum.

Ofgreiðslur sem nema lægri fjárhæð en 20.000 kr. á bótagreiðsluári, samkvæmt árlegu uppgjöri Tryggingastofnunar skulu ekki innheimtar af bótaþega.

Ellilífeyrir, örorkulífeyrir og endurhæfingarlífeyrir samkvæmt 11. og 12. gr. laga um almanna­tryggingar og 8. gr. laga um félagslega aðstoð sem lífeyrisþegi á rétt á skal alltaf greiddur út nema lífeyrisþegi semji um annað.

Þegar ljóst er að um ofgreiðslu er að ræða sem er umfram fjárhæð skv. 1. mgr. skal bótaþega gefinn kostur á að greiða Tryggingastofnun ríkisins kröfuna í einu lagi eða dreifa greiðslum.

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að halda að hámarki eftir 20% af þeim tekjutengdu bótum sem bótaþegi á rétt á í hverjum mánuði, sbr. þó 2. mgr., upp í ofgreiðslu uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu nema samið sé um annað.

Ef bótaþegi sýnir Tryggingastofnun fram á að innheimta ofgreiðslna skv. 4. mgr. verði til þess að hann hafi heildartekjur sem nema lægri fjárhæð en félagsmálaráðuneytið telur vera lágmarksframfærsluþörf og fram kemur í leiðbeiningum félagsmálaráðuneytisins um félagsaðstoð sveitarfélaga, nú 88.873 kr. á mánuði, skal Tryggingastofnun ríkisins, að ósk bótaþega, lækka fjárhæð mánaðarlegrar innheimtu þannig að heildartekjur bóta­þegans nái þeirri fjárhæð.

Tryggingastofnun ríkisins er ávallt heimilt að semja við bótaþega um tilhögun endur­greiðslu, þar á meðal um dreifingu greiðslna.

3. gr.

2. mgr. 12. gr. fellur brott.

4. gr.

Á eftir 12. gr. koma þrjár nýjar greinar sem orðast svo:

13. gr.

Innheimta ofgreiðslna.

Að jafnaði skal Tryggingastofnun ríkisins draga ofgreiðslur af greiðslum stofnunarinnar til bótaþega á næstu 12 mánuðum eftir árlegt uppgjör. Ef ljóst er eftir endurreikning skv. 10. gr. að bótaþegi muni ekki geta endurgreitt ofgreiðslu á 12 mánuðum skal Tryggingastofnun ríkisins meta hvernig staðið verður að innheimtu, þar á meðal hvort lengja skuli endurgreiðslutímann, innheimta samkvæmt almennum reglum eða bjóða bótaþega upp á sérstakan samning um endurgreiðslu. Hið sama á við ef bótaþegi nær ekki að endurgreiða ofgreiðslu á 12 mánuðum sbr. ákvæði 11. gr. Við mat á því hvernig staðið verði að innheimtu ofgreiddra bóta skal Tryggingastofnun ríkisins hafa hliðsjón af heildartekjum bótaþega, eignastöðu og upplýsingum um aðrar aðstæður bótaþega sem Tryggingastofnun hefur aðgang að.

14. gr.

Málsmeðferðarreglur.

Ef í ljós kemur við endurreikning samkvæmt 10. gr. að bótaþegi hefur fengið ofgreiddar bætur skal Tryggingastofnun ríkisins þegar tilkynna honum um það skriflega og gefa honum kost á að koma að mótmælum og leiðréttingum við kröfu stofnunarinnar og leita samninga við stofnunina um fyrirkomulag endurgreiðslunnar. Þá skal Tryggingastofnun ríkisins jafnframt skora á bótaþega að endurgreiða ofgreiðsluna og gera tillögu til hans að tilhögun endurgreiðslu í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

15. gr.

Reglur Tryggingastofnunar ríkisins um innheimtu.

Tryggingastofnun ríkisins skal setja starfsreglur um innheimtu ofgreiðslna skv. 50. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, þar á meðal um heimildir til samninga við bótaþega, hvenær skuli draga ofgreiðslur af bótum sem bótaþegi kann síðar að öðlast rétt til, aðrar innheimtuaðgerðir og tilhögun þeirra.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 10. gr., sbr. 66. gr., laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, 2. mgr. 15. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, og 29. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum öðlast þegar gildi.

Setja skal númer greina í reglugerð nr. 939/2003, með síðari breytingum, í rétta töluröð. Hið sama gildir um tilvísanir í málsgreinar og greinar í ákvæðum reglugerðarinnar.

Ákvæði 4. gr. reglugerðar þessarar um Innheimtu ofgreiðslna koma til framkvæmda við uppgjör árið 2007 vegna bóta sem greiddar eru á árinu 2006.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 9. nóvember 2006.

Siv Friðleifsdóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica