Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

860/2004

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 939/2003 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. - Brottfallin

1. gr.

Við upptalninguna í 2. gr. bætist eftirfarandi:
Tekjur: Til tekna samkvæmt reglugerð þessari teljast tekjur eins og þær eru skilgreindar í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum. Tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, skulu sæta sömu meðferð gangvart bótaútreikningi, og væri þeirra aflað hér á landi.


2. gr.

Við 4. gr. bætast þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
Ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í 1. mgr. 3. gr. Hafa skal tekjur síðastliðins árs og þess sem af er yfirstandandi ári fram að þeim tíma er umsókn barst Tryggingastofnun ríkisins til hliðsjónar.

Tryggingastofnun ríkisins er þó heimilt, þegar einstaklingur leggur inn nýja umsókn um bætur frá stofnuninni, að miða útreikning bóta eingöngu við þær tekjur sem áætlað er að aflað verði eftir að bótaréttur stofnast. Unnt er að beita heimild þessari bæði um nýja umsókn um örorkubætur/endurhæfingarlífeyri, og um nýja umsókn um ellilífeyri hjá sama einstaklingi, enda sé ekki um samfellt bótatímabil að ræða. Heimildinni verður þó eingöngu beitt einu sinni um útreikning greiðslna hvors bótaflokks fyrir sig.

Fjármagnstekjum skal ávallt skipt til helminga milli hjóna við útreikning bóta. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.


3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr.:

a) Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo:
"Hafi heimild í 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar verið beitt, skal endurreikningur bótafjárhæða ársins taka mið af sömu forsendum og þar eru lagðar til grundvallar."
b) Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
"Fjármagnstekjum skal ávallt skipt til helminga milli hjóna við útreikning bóta. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða."
c) 1. málsl. 3.mgr. (sem verður 4. mgr.) fellur brott.
d) Í 2. málsl. 3. mgr. (sem verður 4. mgr.) fellur brott orðið "þennan" og á eftir orðinu "endurreikning" komi orðið "bóta".


4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr.:

a) Heiti greinarinnar orðist svo: "Endurreikningur bóta við breyttar aðstæður innan bótagreiðsluárs".
b) Við 1. málsl. a-liðar 1. mgr. bætast orðin "samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda".
c) Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein sem orðast svo:
"Við endurreikning bóta til þeirra sem bótaréttur breytist hjá í kjölfar breyttra aðstæðna, sbr. 2. mgr. 7. gr., gildir eftirfarandi:
a) Byggja skal á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ef bótagreiðsluár skiptist í tvö eða fleiri útreikningstímabil skal endurreikningur bóta taka mið af því á hvaða tímabili þessar tekjur eru skráðar í staðgreiðsluskrá.
b) Aðrar tekjur en þær sem greinir í a-lið 2. mgr. skulu hafa áhrif á endurreikning bóta í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem tilheyra hverju tímabili. Þegar hjúskap eða sambúð er slitið á bótagreiðsluári er þó heimilt að undanskilja þessar tekjur að hluta eða öllu leyti við endurreikning tímabilsins eftir að hjúskaparstaða breyttist."


5. gr.

Við 13. gr. bætist ný málsgrein sem orðast svo:
"Endurreikningur vistunarframlags skal fara fram í fyrsta skipti eftir álagningu opinberra gjalda árið 2005."


6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 10. gr., sbr. 66. gr., laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, 2. mgr. 15. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, og 29. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 28. október 2004.

Jón Kristjánsson.
Davíð Á. Gunnarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica