Velferðarráðuneyti

257/2017

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 170/2009, um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. - Brottfallin

1. gr.

Á eftir 5. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur ný málsgrein sem orðast svo:

Að jafnaði er einungis heimilt að veita eina uppbót skv. 3. gr. eða einn styrk skv. 4. og 5. gr. til kaupa á bifreið samkvæmt reglugerð þessari. Í sérstökum tilfellum er þó heimilt að veita framfærendum hreyfihamlaðra barna uppbót eða styrk vegna hvers barns til kaupa á einni bifreið ef um er að ræða fleiri en eitt hreyfihamlað barn í sömu fjölskyldu og sem búa á sama heimili. Framfærendur skulu í þeim tilfellum sýna fram á að fjölskyldan þurfi stærri bifreið vegna sérstaks búnaðar eða hjálpartækja sem börnin nota að staðaldri og að skilyrði reglugerðar þessarar séu uppfyllt að öðru leyti. Sækja skal um uppbót eða styrk vegna barnanna á sama tíma og getur heildargreiðsla styrkjanna ekki verið hærri en sem nemur kaupverði bifreiðar.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 14. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, sbr. einnig 70. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Velferðarráðuneytinu, 10. mars 2017.

Þorsteinn Víglundsson
félags- og jafnréttismálaráðherra.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica