Velferðarráðuneyti

1250/2016

Reglugerð um heimild til að framlengja bætur þrátt fyrir dvöl á hjúkrunar- eða dvalarheimili fyrir aldraða eða á sjúkrahúsi.

1. gr.

Stöðvun bótagreiðslna.

Dvelji lífeyrisþegi á dvalarheimili sem ekki er á föstum fjárlögum falla bætur, sbr. 3. tölul. 2. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Dvelji lífeyrisþegi á hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnun sem ekki er á föstum fjárlögum falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra og 2. málsl. 5. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

Dvelji lífeyrisþegi á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum lengur en í mánuð samfellt falla bætur niður ef dvölin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði, sbr. 1. málsl. 5. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

2. gr.

Framlenging bótagreiðslna.

Lífeyrisþega, sbr. 1. gr., er heimilt að sækja um framlengingu bóta í því skyni að gera honum og eftir atvikum maka hans kleift að standa tímabundið skil á afborgunum eða rekstrarkostnaði íbúðar­húsnæðis þeirra eftir að bætur hafa fallið niður. Tryggingastofnun er heimilt að víkja frá tíma­mörkum sem tilgreind eru í 1. gr. og framlengja greiðslum bóta þegar sérstaklega stendur á, sbr. 3. málsl. 5. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og að uppfylltum skil­yrðum reglugerðar þessarar.

3. gr.

Mat á aðstæðum og skilyrði.

Við mat á því hvort heimila skuli framlengingu bóta skal líta heildstætt á allar aðstæður umsækj­anda og eftir atvikum maka hans, þ.m.t. tekjur, eignir og skuldastöðu. Í því sambandi skal einkum litið til þess hvort framlenging bóta sé nauðsynleg vegna afborgana eða annars rekstrar­kostnaðar íbúðarhúsnæðis umsækjanda.

Framlenging bóta er aðeins heimil ef mánaðarleg greiðslubyrði umsækjanda er hærri en mán­aðar­legar tekjur hans að frádreginni staðgreiðslu skatta og eftir að bætur frá Tryggingastofnun hafa fallið niður. Sama á við ef mánaðarlegar tekjur umsækjanda að frádreginni staðgreiðslu skatta og eftir að bætur frá Tryggingastofnun hafa fallið niður eru lægri en sem nemur fullu ráðstöfunarfé, sbr. 8. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar, að teknu tilliti til útgjalda vegna íbúðarhúsnæðis og dvalar­kostnaðar ef við á.

Framlenging bóta er ekki heimil ef maki umsækjanda fær á sama tíma greidda heimilisuppbót skv. 8. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.

4. gr.

Tímabil framlengingar.

Heimilt er að framlengja greiðslur í allt að þrjá mánuði í senn en þó ekki lengur en í samtals sex mánuði.

Heimilt er að sækja um framlengingu greiðslna að nýju að liðnu einu ári frá því að greiðslum vegna síðustu framlengingar lauk ef greiðslur bóta hafa fyrir lok þess tímabils hafist að nýju að lokinni dvöl skv. 1. gr. reglugerðar þessarar.

5. gr.

Umsóknir um framlengingu.

Sækja skal um framlengingu bóta samkvæmt reglugerð þessari innan sex mánaða frá því að greiðslur bóta falla niður, sbr. 1. gr. Í umsókn skal gerð grein fyrir áætluðum dvalartíma, aðstæðum umsækjanda og eftir atvikum maka hans, sbr. 3. gr., sem og öðrum atriðum sem máli geta skipt varðandi afgreiðslu umsóknar.

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 10. mgr. 48. gr., sbr. 70. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og 29. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 357/2005, um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að framlengja bótagreiðslur þrátt fyrir dvöl á sjúkrahúsi eða stofnun fyrir aldraða, með síðari breytingu.

Velferðarráðuneytinu, 23. desember 2016.

Eygló Harðardóttir
félags- og húsnæðismálaráðherra.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica