Félagsmálaráðuneyti

1000/2001

Reglugerð um breytingu á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs, nr. 458/1999. - Brottfallin

1. gr.

Í stað 1. mgr. 4. gr. kemur svohljóðandi 1. mgr.:
Vextir af lánum Íbúðalánasjóðs, skv. 1.-6. og 8. tölul. 2. gr. skulu taka mið af þeim lánskjörum, sem Íbúðalánasjóði bjóðast hverju sinni. Vextir af lánum Íbúðalánasjóðs, skv. 7. tölul. 2. gr. skulu vera breytilegir. Stjórn Íbúðalánasjóðs skal við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert ákveða vexti fyrir einstaka lánaflokka að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands. Stjórn Íbúðalánasjóðs lætur birta ákvörðun sína um vexti í Lögbirtingablaði fyrir 1. febrúar ár hvert.


2. gr.

Í stað VIII. kafla kemur nýr svohljóðandi VIII. kafli:


VIII. KAFLI
Lán til leiguíbúða.
34. gr.
Almennt.

Íbúðalánasjóði er heimilt að veita sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum, þ. á m. húsnæðissamvinnufélögum, lán til byggingar eða kaupa leiguíbúða til útleigu fyrir félagsmenn í hlutaðeigandi félögum eða félagasamtökum eða aðra leigjendur hjá slíku félagi.

Úr þessum lánaflokki skal veita lán til leiguíbúða sem ekki falla undir skilgreiningu VIII. kafla laga nr. 44/1998, um húsnæðismál. Þá skal veita úr þessum lánaflokki lán til allt að 150 leiguíbúða á ári á árunum 2002, 2003, 2004 og 2005 eða alls 600 íbúða á 4,5% vöxtum samkvæmt sérstöku átaki til að auka framboð leiguhúsnæðis, sbr. 40. gr.


35. gr.
Markmið félaga og félagasamtaka.

Markmið félaga og félagasamtaka skal meðal annars vera að koma á fót, leigja út, halda við og endurnýja íbúðarhúsnæði ásamt sameiginlegri aðstöðu.

Hyggist félag eða félagasamtök koma á fót leiguíbúðum og sækja til þess um lán frá Íbúðalánasjóði skal senda samþykktir/lög hlutaðeigandi félags eða félagasamtaka til félagsmálaráðherra til staðfestingar. Staðfesting þessi skal liggja fyrir áður en sótt er um lán hjá Íbúðalánasjóði.

Húsnæðissamvinnufélög er fengið hafa staðfestingu félagsmálaráðherra á samþykktum sínum samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög skulu undanþegin sérstakri staðfestingu á samþykktum sínum skv. 2. mgr.


36. gr.
Efni samþykkta.

Skilyrði þess að félög eða félagasamtök hljóti staðfestingu félagsmálaráðherra er að eftirfarandi atriði komi fram í samþykktum/lögum hlutaðeigandi, auk almennra skilyrða um efni samþykkta slíkra félaga eða félagasamtaka:

1. Að tilgangur félagsins eða samtakanna sé meðal annars að koma á fót og reka leiguíbúðir. Verkefnið sé langtímaverkefni.
2. Hvert sé stofnfé og hver sé fjárhagsleg ábyrgð félagsins eða félagasamtakanna.
3. Hvernig háttað sé endurskoðun reikninga og reikningsskilum.
4. Að reikningar séu áritaðir og endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.
5. Hvernig fari með eigur félagsins eða samtakanna við slit.
6. Skipulagsskrár félaga og félagasamtaka sem rekin eru að hætti sjálfseignarstofnana skulu hafa hlotið staðfestingu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sbr. 1. gr. laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá nr. 19/1988, eða verið skráð á sjálfseignarstofnanaskrá Hagstofu Íslands, sbr. 37. gr. laga nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.
7. Hvernig skuli fara með endurgreiðslu afnotaréttar, sbr. 42. gr.
37. gr.
Áætlanir og ákvörðun lánsheimilda.

Fyrir 1. október ár hvert skulu umsækjendur senda Íbúðalánasjóði áætlanir sínar um fyrirhugaðar byggingar eða kaup á íbúðum á komandi ári. Íbúðalánasjóður getur óskað eftir því að áætlanir miðist við allt að þrjú ár.

Í áætlun skal m.a. koma fram rökstuðningur fyrir íbúða- og lánsþörf svo og með hvaða hætti umsækjandi hyggst ráðstafa þeim leiguíbúðum sem hann hyggst byggja eða kaupa.

Þegar fyrir liggur það fjármagn, sem Íbúðalánasjóður hefur til ráðstöfunar hverju sinni vegna lánveitinga til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði til útleigu úr þessum lánaflokki og vaxtakjör þeirra, fer stjórn Íbúðalánasjóðs yfir áætlanir umsækjenda um þörf fyrir leiguhúsnæði og ákveður í desember ár hvert lánsheimildir sem umsækjendum er heimilt að nýta sér á næsta ári.


38. gr.
Lánsumsóknir.

Þegar sveitarfélög, félög eða félagasamtök hafa tekið ákvörðun um kaup eða byggingu leiguhúsnæðis tilkynna þau þá ákvörðun sína til Íbúðalánasjóðs og sækja jafnframt formlega um lán.

Í lánsumsókn skal koma fram fjöldi, gerð og stærð viðkomandi íbúða, framkvæmdatími, áætlaður byggingarkostnaður og annað það sem nauðsynlegt er til þess að unnt sé að taka afstöðu til umsóknar.

Umsóknir um lán skulu hafa borist Íbúðalánasjóði áður en framkvæmdir hefjast.


39. gr.
Eigið framlag og afgreiðsla lánsumsókna.

Umsækjendur skulu sýna fram á það, við lánsumsókn hjá Íbúðalánasjóði, að þeir hafi fjárhagslegt bolmagn til þess að greiða þann hluta af byggingarkostnaði eða kaupverði íbúðar sem ekki fæst lánað til skv. 41. gr. Því til staðfestingar skal leggja fram ábyrgð af hálfu fjármálastofnunar eða annað sem Íbúðalánasjóður metur gilt.

Íbúðalánasjóður aðgætir hvort umsókn samræmist heimild stjórnar Íbúðalánasjóðs, ákvæðum reglugerðar þessarar svo og ákvæðum laga um húsnæðismál. Íbúðalánasjóður tilkynnir síðan umsækjanda um afgreiðslu sína á umsókn hans.


40. gr.
Sérstakt átak til fjölgunar leiguíbúða.

Samkvæmt sérstöku átaki til fjölgunar leiguíbúða á árunum 2002, 2003, 2004 og 2005 úthlutar Íbúðalánasjóður í samráði við félagsmálaráðuneyti lánum til umsækjenda. Við úthlutun skal m.a. tekið tillit til þarfar til leiguhúsnæðis í viðkomandi sveitarfélagi og þátttöku sveitarfélagsins til átaksins. Sérstök áhersla skal lögð á að auka framboð á minni íbúðum.


41. gr.
Lánskjör og lánsfjárhæð.

Lán til leiguíbúða skulu tryggð með veði í hlutaðeigandi íbúðarhúsnæði. Veðrými miðast við 90% af byggingarkostnaði eða kaupverði íbúðar, þó aldrei meira en 90% af hámarksverði íbúða, samkvæmt reglum Íbúðalánasjóðs. Heimilt er að víkja frá reglum um veðrými í tengslum við sérstakt átak til fjölgunar leiguíbúða, sbr. 40. gr.

Lán getur numið allt að 90% af byggingarkostnaði eða kaupverði íbúðar. Um ákvörðun byggingarkostnaðar og byggingarhætti, þ. á m. stærðir íbúða og reglur um hámarksverð íbúða, fer eftir V. kafla reglugerðar nr. 873/2001 um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur, og samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar Íbúðalánasjóðs. Stjórn Íbúðalánasjóðs ákveður lánshlutfallið hverju sinni að teknu tilliti til fjölda umsókna og þess fjármagns sem til ráðstöfunar er hverju sinni. Lán sem veitt eru samkvæmt þessum kafla koma til útborgunar þegar framkvæmdum er lokið eða samkvæmt kauptilboði.

Við ákvörðun lánsfjárhæðar skal taka tillit til fjármagns frá opinberum aðilum, þ. á m. úr ríkissjóði, til hlutaðeigandi framkvæmda þannig að lán úr Íbúðalánasjóði og annað fjármagn verði samanlagt aldrei hærra en 90% af kaupverði eða byggingarkostnaði.

Lánstími skal vera allt að 50 árum. Vextir af lánum til leiguíbúða skulu vera breytilegir. Um lánskjör fer að öðru leyti eftir 4. gr.


42. gr.
Sala á afnotarétti.

Félögum og félagasamtökum er heimilt að selja félagsmanni eða leigjanda afnotarétt í íbúð með þeirri kvöð að hlutur hans standi óhreyfður í íbúðinni á meðan hann hefur afnot af henni. Gjaldið má nema allt að 30% af byggingarkostnaði eða kaupverði íbúðar og takmarkast við eigið framlag umsækjanda, sbr. 1. mgr. 39. gr.

Gerður skal skriflegur samningur um sölu afnotaréttar skv. 1. mgr. þar sem kveðið skal á um réttindi og skyldur samningsaðila.

Við lok samningstímans skal félagsmaður eða leigjandi, sé hann ekki jafnframt félagsmaður, fá endurgreiddan hlut sinn í samræmi við samþykktir hlutaðeigandi félags eða félagasamtaka.

Kvöð skv. 1. mgr. skal þinglýst á viðkomandi íbúð.


43. gr.
Takmarkanir.

Óheimilt er að hafa eigendaskipti á íbúð sem á hvílir lán sem veitt hefur verið samkvæmt þessum kafla, nema til komi annaðhvort uppgreiðsla lánsins eða samþykki stjórnar Íbúðalánasjóðs um yfirtökuna.

Félög og félagasamtök er ráðstafa leiguíbúð skv. 1. mgr. 42. gr. bera eftir sem áður fulla ábyrgð á láninu sem veitt var af Íbúðalánasjóði.

Sé rekstri félags hætt eða tilgangi þess breytt eða það íbúðarhúsnæði sem lánað er til er tekið undir annan rekstur skal áhvílandi lán Íbúðalánasjóðs greitt upp. Þinglýsa skal kvöð þess efnis á íbúðina samhliða þinglýsingu lánsins.

Tilkynna skal Íbúðalánasjóði um breytingar skv. 3. mgr. án ástæðulausrar tafar.


3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 16. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, öðlast þegar gildi.


Félagsmálaráðuneytinu, 28. desember 2001.

Páll Pétursson.
Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica