Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 5. maí 2016

1054/2010

Reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu.

I. KAFLI Gildissvið, markmið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til félagslegrar þjónustu og sérstaks stuðnings við fatlað fólk, 18 ára og eldra, sem hefur þörf fyrir slíka þjónustu þar sem það á heimili.

2. gr. Markmið.

Markmiðið með reglugerð þessari er að fatlað fólk fái félagslega þjónustu og sérstakan stuðning til þess að geta búið þannig að sem best henti hverjum og einum. Skal tekið mið af óskum, aðstæðum og þörf fyrir þjónustu. Fylgt skal þeirri meginreglu að fólk eigi val um hvernig það býr, enda sé það í samræmi við það sem almennt tíðkast.

Þjónustan skal vera einstaklingsbundin, heildstæð og sveigjanleg. Skal hún veitt með það að markmiði að efla vald fólks yfir aðstæðum sínum og lífi, styrkja sjálfsmynd þess, sjálfstraust, félagslega stöðu, sjálfsvirðingu og lífsgæði.

3. gr. Skilgreiningar á nokkrum hugtökum.

  1. Þjónusta á heimilum fatlaðs fólks: Stuðningur eða aðstoð við fatlað fólk til þess að það geti lifað eðlilegu lífi til jafns við aðra og tekið þátt í samfélaginu.
  2. Teymi fagfólks: Fagfólk sem hefur þekkingu á þörfum fullorðins fatlaðs fólks og metur stuðningsþörf þess með heildstæðum hætti í samráði við umsækjanda eða aðstandanda.
  3. Einstaklingsbundin þjónustuáætlun: Áætlun um framkvæmd fjölþættrar þjónustu þar sem tiltekin eru markmið áætlunarinnar og leiðir, hverjir séu samstarfsaðilar og hverjir beri ábyrgð á að koma áætluninni í framkvæmd.
  4. Sérstakur stuðningur: Frekari liðveisla, þ.e. margháttuð aðstoð við athafnir daglegs lífs sem tekur meðal annars mið af einstaklingsbundnum þörfum fólks með hliðsjón af óskum þess eða aðstandanda.
  5. Þjónustuaðili: Sveitarfélag eða lögaðili um rekstur þjónustsvæðis, sem ber faglega og fjárhagslega ábyrgð á þjónustu á heimilum fatlaðs fólks, eða lögaðili sem veitir þjónustu samkvæmt samningi við sveitarfélag eða þjónustusvæði.
  6. Rekstraraðili: Sá sem ber ábyrgð á framkvæmd þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu samkvæmt samningi við þjónustuaðila.

II. KAFLI Umsóknir um þjónustu og mat.

4. gr. Umsókn um þjónustu.

Sótt er um þjónustu hjá því sveitarfélagi þar sem viðkomandi á lögheimili með skriflegri umsókn. Á grundvelli fyrirliggjandi umsóknar metur sveitarfélagið þörf fyrir stuðning í samráði við umsækjanda eða aðstandanda hans. Það mat skal eiga sér stað innan tveggja mánaða frá því að umsókn berst. Niðurstöðuna skal kynna fyrir umsækjanda eins fljótt og auðið er og eigi síðar en mánuði eftir að hún liggur fyrir.

Umsóknir eru gildar þegar umsækjandi hefur náð 16 ára aldri. Þjónusta kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en eftir að 18 ára aldri hefur verið náð.

5. gr. Mat á þörf fyrir þjónustu og sérstakan stuðning.

Sé niðurstaða matsins sú að þörf umsækjanda fyrir þjónustu sé önnur eða víðtækari en veitt er samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga skal teymi fagfólks meta sérstaka stuðningsþörf umsækjanda. Teymunum er ætlað að meta heildstætt þörf þeirra sem þurfa á þjónustu, sem veitt er á grundvelli laganna, að halda og hvernig, þ.e. með hvaða úrræði megi koma til móts við óskir þeirra. Við matið skal teymi fagfólks nota verklag og viðmiðanir sem tryggja að stuðningsþörf sé metin með samræmdum heildstæðum hætti á landsvísu í samráði við umsækjendur og aðstandendur.

Niðurstaða teymisins um mat á þörf og úrræði skal liggja fyrir eigi síðar en þremur mánuðum eftir að umsókn berst teyminu. Teymið sendir niðurstöðurnar til þeirra er málið varðar, þ.e. umsækjanda, félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem umsækjandi á lögheimili og annarra rekstraraðila þar sem það á við. Þjónustuaðili tekur ákvörðun um hversu mikil þjónusta skuli veitt og hvert fyrirkomulag hennar verði í samráði við umsækjendur eða aðstandendur.

III. KAFLI Framkvæmd og fyrirkomulag.

7. gr. Einstaklingsbundin þjónustuáætlun.

Fatlað fólk sem hefur þörf fyrir viðvarandi og fjölbreytilegan stuðning á rétt á að gerð sé einstaklingsbundin þjónustuáætlun fyrir það. Gerð slíkrar áætlunar skal vera á ábyrgð þeirra sem sjá um framkvæmd þjónustunnar.

Sé umsókn skv. 4. gr. samþykkt skulu umsækjandi og þjónustuaðili gera í sameiningu einstaklingsbundna þjónustuáætlun um hvernig sérstakur stuðningur verði veittur. Miðað skal við að gengið sé frá áætlun eins fljótt og kostur er og eigi síðar en tólf mánuðum frá því að umsókn berst sveitarfélagi. Þjónustuaðili, og sveitarfélag, ef það er ekki þjónustuveitandi, og notandi skulu árlega endurskoða áætlun með tilliti til þarfa viðkomandi.

Þess skal gætt að sjálfsákvörðunarréttur fólks sé virtur. Geti einstaklingur ekki talað fyrir sig sjálfur skal leita allra leiða til að öðlast skilning á því hver vilji hans er og í því skyni leitað til þeirra sem þekkja hann best. Þess sé gætt að viðkomandi njóti stuðnings aðstandanda eða persónulegs talsmanns við gerð áætlunarinnar.

Þjónustuáætlunin felur í sér skýr markmið sem vinna skal að með því að veita stuðning og samhæfa úrræði mismunandi þjónustuaðila, þar á meðal félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og annarra aðila, svo sem á sviði menntunar, atvinnu og tómstunda.

Þjónustuáætlunin lýsir því hver ber ábyrgð á því að tilteknum verkþáttum í áætluninni sé framfylgt ásamt upplýsingum um þann tíma sem einstökum stuðningsþáttum er ætlaður.

8. gr. Framkvæmd þjónustu á heimilum fatlaðs fólks.

Fólk sem nýtur stuðnings samkvæmt reglugerð þessari skal eiga rétt á stuðningi við daglegt líf hvar sem það býr eftir því sem við verður komið. Skipulagt samstarf skal vera milli þeirra sem nota þjónustuna, þjónustuaðila og aðstandanda, sé hlutaðeigandi samþykkur því.

Sá sem hefur mannaforráð og ber faglega ábyrgð á daglegu starfi með fötluðu fólki á heimilum þess skal hafa þekkingu og reynslu af starfi með fötluðu fólki og menntun til slíkra starfa ef mögulegt er. Þjónustuaðilar og rekstraraðilar bera ábyrgð á því að þjálfun starfsmanna sé ávallt í samræmi við þarfir þeirra sem njóta stuðnings samkvæmt reglugerð þessari.

9. gr. Endurmat og eftirlit.

Til að tryggja að framvinda þjónustu sé ávallt í samræmi við þau markmið sem sett hafa verið í þjónustuáætlun skal þjónustan endurmetin reglulega á grundvelli verklagsreglna sem sveitarfélag setur.

Eigi sjaldnar en einu sinni á ári skal sá sem nýtur þjónustunnar fá tækifæri til að fara yfir og endurskoða þjónustuáætlunina og meta framkvæmd hennar með þjónustuaðilum.

Sé það mat þess sem notar þjónustu og þjónustuaðila að þörf sé á nýrri áætlun skal hún gerð eigi síðar en þremur mánuðum frá lokum fyrri áætlunar.

Reglulegt eftirlit skal haft með þeirri þjónustu sem veitt er samkvæmt reglugerð þessari, svo sem með gæðamati og könnun meðal þeirra sem njóta þjónustunnar. Nákvæm leiðsögn um framkvæmd þessa eftirlits skal tryggð og samræmd fyrir landið. Velferðarráðuneytið setur starfsreglur, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök, um árlegt innra og ytra eftirlit, fyrirkomulag þess og hversu oft eftirlitið fer fram. Innra eftirlit er á ábyrgð og kostnað þjónustuaðila. Ytra eftirlit er á ábyrgð og kostnað velferðarráðuneytis.

10. gr. Fyrirkomulag þjónustu.

Samningur á grundvelli 6. gr. tekur meðal annars til þess hvernig þjónusta á heimilum fatlaðs fólks er veitt. Almennt er miðað við það að sveitarfélag annist framkvæmd þjónustunnar eða greiði öðrum rekstraraðilum fyrir að veita þjónustuna.

IV. KAFLI Fjárhagslegt fyrirkomulag.

12. gr. Rekstrarkostnaður.

Allur launakostnaður við sérstakan stuðning á heimili fatlaðs fólks greiðist af þjónustuaðila. Rekstrarkostnaður vegna þjónustu sem veitt er greiðist af þjónustuaðila. Hér er meðal annars um að ræða kostnað vegna símanotkunar, gagnaflutninga, aksturs og námskeiðahalds sem tengist framkvæmd þjónustunnar. Einnig fæði og annar kostnaður sem fellur til við starfsmannahald.

Beri einstaklingur kostnað af fæði starfsmanns skal þjónustuaðili endurgreiða þann kostnað. Miðað skal við kostnað sem almennt er greiddur vegna fæðis aðstoðarfólks, þ.e. fæðispeningar samkvæmt kjarasamningum.

VI. KAFLI Gildistaka.

16. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 10. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, meðal annars þeim sem samþykktar voru á Alþingi þann 17. desember 2010, nr. 152/2010. Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 2011, sbr. þó 2. mgr. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um búsetu fatlaðra, nr. 296/2002, með síðari breytingum, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða I.

Ákvæði til bráðabirgða. I.

Þrátt fyrir að reglugerð um búsetu fatlaðra, nr. 296/2002, með síðari breytingum, sé úr gildi felld með reglugerð þessari, halda þó gildi sínu ákvæði reglugerðarinnar að því er varðar heimili fyrir börn, sbr. 7. gr. hennar, meðan slík heimili eru rekin.

II.

Við gildistöku reglugerðar þessarar breytist fjárhæð húsaleigu samkvæmt húsaleigusamningum sem gerðir hafa verið á grundvelli reglugerðar um búsetu fatlaðra, nr. 296/2002, með síðari breytingum. Breytingin felst í því að fjárhæð húsaleigu tekur mið af breytingum sem orðið hafa á vísitölu neysluverðs frá janúar 2003. Hin breytta húsaleiga tekur breytingum í samræmi við reglur um félagslegt leiguhúsnæði í viðkomandi sveitarfélagi sem eru í gildi á þeim tíma þegar breytingin er gerð. Sveitarstjórn er heimilt að ákvarða að framangreind breyting á húsaleigu komi til framkvæmda í fjórum áföngum, þ.e. 1. apríl og 1. október 2011 og 1. apríl og 1. október 2012. Tilkynna skal sérhverjum leigjanda um breytingu á húsaleigu í hverjum áfanga eigi síðar en tveimur mánuðum áður en breytingin kemur til framkvæmda.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.