Félags- og tryggingamálaráðuneyti

878/2008

Reglugerð um sérstaka uppbót til framfærslu lífeyrisþega. - Brottfallin

1. gr.

Heimilt er að greiða sérstaka uppbót til elli- og örorkulífeyrisþega ef sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án þess, sbr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Sama gildir um þá sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri skv. 7. gr. sömu laga.

Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 150.000 kr. á mánuði. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem ekki fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án uppbótarinnar skal miða við að heildartekjur séu undir 128.000 kr. á mánuði.

Til tekna samkvæmt reglugerð þessari teljast allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Sama gildir um erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi. Eingreiðslur til lífeyrisþega (orlofs- og desemberuppbætur) skulu þó ekki teljast til tekna við útreikning sérstakrar uppbótar.

2. gr.

Fjárhæð sérstakrar uppbótar skal nema mismun fjárhæða skv. 2. mgr. 1. gr. og heildartekna eins og þær eru skilgreindar í 3. mgr. 1. gr. Reynist heildartekjur jafnháar eða hærri en fjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 1. gr. greiðist ekki sérstök uppbót.

Til grundvallar útreikningi á fjárhæð sérstakrar uppbótar hvers mánaðar skal leggja 1/12 af áætluðum heildartekjum almanaksárs. Þegar heimild til greiðslu uppbótar nær aðeins til hluta úr ári skal þó miða útreikning hennar við þær tekjur sem áætlað er að aflað verði eftir að heimild til greiðslu myndaðist.

Fjárhæð uppbótar greiðist í samræmi við búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

3. gr.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna fjárhæð sérstakrar uppbótar á grundvelli þeirra upplýsinga, sbr. 16. gr. laga nr. 100/2007.

4. gr.

Fjárhæðir viðmiðunarmarka skv. 2. mgr. 1. gr. skulu taka breytingum á sama hátt og bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 14. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda frá og með 1. september 2008.

Félags- og tryggingamálaráðuneytinu, 16. september 2008.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Ágúst Þór Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica