Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð

543/2006

Reglugerð um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til réttinda foreldra sem eru launamenn eða sjálfstætt starfandi einstaklingar á innlendum vinnumarkaði þegar börn þeirra greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun. Reglugerðin á einnig við um rétt foreldra í námi til sömu greiðslna.

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi orða sem hér segir:

  1. Barn: Einstaklingur sem er yngri en 18 ára.
  2. Alvarlega fatlað barn: Barn sem, vegna alvarlegrar þroskaröskunar, geðröskunar eða líkamlegrar hömlunar, þarf sérstaka íhlutun, svo sem þjálfun, aðstoð og gæslu á uppvaxtarárum sínum.
  3. Langveikt barn: Barn sem þarfnast læknisfræðilegrar meðferðar vegna alvarlegs og langvinns sjúkdóms.
  4. Launamaður: Hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.
  5. Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.
  6. Nám: 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75-100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.
  7. Bráðaaðstæður: Aðstæður sem koma upp þegar foreldri er knúið til að leggja niður störf utan heimilis eða gera hlé á námi þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og það þarfnast þjónustu sérhæfðrar greiningar- eða meðferðarstofnunar.

II. KAFLI

Stjórnsýslan.

3. gr.

Vinnumálastofnun.

Vinnumálastofnun annast framkvæmd laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, og reglugerðar þessarar.

Vinnumálastofnun metur á grundvelli umsóknar og fylgigagna, sbr. 4. gr., hvort og í hversu langan tíma foreldri eigi rétt til greiðslna samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og reglugerðar þessarar þegar það þarf að leggja niður störf til að annast barn sitt sem greinst hefur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun.

4. gr.

Umsókn um greiðslur.

Foreldri skal sækja um greiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og reglugerðar þessarar til Vinnumálastofnunar á þar til gerðum eyðublöðum. Umsókn skal meðal annars fylgja:

  1. vottorð sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu um greiningu, meðferð og umönnunarþörf barns,
  2. staðfesting frá vinnuveitanda um að foreldri leggi niður störf og um starfstímabil þess, eða vottorð frá skóla um að foreldri hafi gert hlé á námi og fyrri námsvist,
  3. staðfesting sjúkra- eða styrktarsjóðs um að foreldri hafi nýtt sér réttindi sín þar, og
  4. aðrar upplýsingar sem Vinnumálastofnun telur nauðsynlegar.

Sækja skal sérstaklega um framlengingu á greiðslum skv. 18. gr. reglugerðar þessarar eða greiðslur samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 10. gr. reglugerðar þessarar.

Umsóknin skal undirrituð af báðum foreldrum enda fari þau bæði með forsjá barnsins. Forsjárlaust foreldri skal undirrita umsókn uppfylli það skilyrði 5. mgr. 8. gr. eða 5. mgr. 12. gr. laganna um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna sem og maki, sambúðarmaki eða samvistarmaki þegar það á við.

III. KAFLI

Skilyrði fyrir greiðslum til foreldra á vinnumarkaði.

5. gr.

Þátttaka á innlendum vinnumarkaði.

Foreldri, sbr. d- og e-lið 2. gr., getur átt sameiginlegan rétt á greiðslum í allt að þrjá mánuði með hinu foreldri barnsins eftir að hafa verið samfellt í starfi, sbr. 6. gr., í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en barnið greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Í vottorði sérfræðings skal koma fram hvenær barnið greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun en miða skal við þá dagsetningu við ákvörðun um sex mánaða tímabil skv. 1. málsl.

Það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi 1. mgr., sbr. einnig III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, felur í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:

  1. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
  2. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,
  3. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
  4. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Vinnumálastofnun, sbr. lög um atvinnuleysistryggingar, metur hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði foreldri skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 3. mgr. Um rétt til atvinnuleysisbóta fer samkvæmt skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar.

Tryggingastofnun ríkisins, sbr. lög um almannatryggingar, metur hvort foreldri hefði átt rétt á sjúkra- eða slysadagpeningum hefði foreldri sótt um þá fyrir þann tíma sem um er að ræða, sbr. c-lið 3. mgr. Um rétt til sjúkradagpeninga fer samkvæmt skilyrðum laga um almannatryggingar.

6. gr.

Samfellt starf.

Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil. Enn fremur telst til samfellds starfs þau tilvik sem talin eru upp í a-d-liðum 3. mgr. 5. gr.

7. gr.

Foreldri leggur niður störf.

Skilyrði fyrir greiðslum til foreldra, sbr. d- og e-lið 2. gr., er að foreldri þurfi að leggja niður störf til að annast barn sitt þegar upp koma bráðaaðstæður þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun. Foreldri skal hafa lagt niður störf samtals í 14 virka daga vegna sérstakrar umönnunar barns síns áður en greiðslur geta hafist.

8. gr.

Lögheimilisskilyrði.

Foreldri, sbr. d- og e-lið 2. gr., og barn þess skulu eiga lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur eru inntar af hendi, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili.

9. gr.

Réttindi foreldra hjá öðrum aðilum.

Skilyrði fyrir greiðslum til foreldra, sbr. d- og e-lið 2. gr., er að fullar launagreiðslur frá vinnuveitanda í forföllum foreldris hafi fallið niður sem og greiðslur úr sjúkra- eða styrktarsjóði stéttarfélags vegna veikinda eða fötlunar barns.

10. gr.

Greiðslur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Foreldri, sbr. d- og e-lið 2. gr., sem þarf að leggja niður störf að hluta vegna bráðaaðstæðna sem koma upp þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun getur átt rétt á hlutfallslegum greiðslum skv. 9. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og 20. gr. reglugerðar þessarar í samræmi við minnkað starfshlutfall. Fullar greiðslur skulu miðast við starfshlutfall foreldris á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar þessarar en skilyrði 5.-9. gr. og V. kafla reglugerðar þessarar eiga einnig við um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu.

Óski foreldri eftir greiðslum samhliða minnkuðu starfshlutfalli skulu greiðslur til foreldris vera í samræmi við hlutfall minnkaðs starfshlutfalls foreldris af því starfshlutfalli sem foreldri var í á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar þessarar. Fullt starf miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf.

Heimilt er að framlengja tímabilið, sem foreldri hefði ella átt rétt á greiðslum skv. 8.-9. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hefði það lagt niður störf að fullu, um sem nemur mismun hlutfalls minnkaðs starfshlutfalls foreldris af því starfshlutfalli sem foreldri var í á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar þessarar og 100% hlutfalls.

Ákvæði 1.-3. mgr. eiga einnig við þegar foreldri, sbr. d- og e-lið 2. gr., kemur aftur til starfa í lægra starfshlutfalli en það var í áður en það lagði niður störf tímabundið og ástæður þess að foreldrið er í hlutastarfi má rekja til þeirra bráðaaðstæðna sem komu upp þegar barn greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, sbr. 7. og 14. gr. reglugerðar þessarar.

IV. KAFLI

Skilyrði fyrir greiðslum til foreldra í námi.

11. gr.

Foreldri í námi.

Foreldri getur átt sameiginlegan rétt á greiðslum í allt að þrjá mánuði með hinu foreldri barnsins eftir að hafa verið samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum í námi, sbr. f-lið 2. gr., áður en barnið greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Í vottorði sérfræðings skal koma fram hvenær barnið greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun en miða skal við þá dagsetningu við ákvörðun um sex mánaða tímabil skv. 1. málsl.

Þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. um samfellt nám, sbr. f-lið 2. gr., í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en barnið greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun samkvæmt vottorði sérfræðings, getur foreldri átt rétt á greiðslum skv. 1. mgr. hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Hið sama á við hafi foreldri lokið a.m.k. einnar annar námi, sbr. f-lið 2. gr., og hafi síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi varað samfellt í a.m.k. sex mánuði.

Verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en barn greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun skal meta sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna skv. 8.-10. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og reglugerðar þessarar.

12. gr.

Hlé á námi.

Skilyrði fyrir greiðslum til foreldra í námi, sbr. f-lið 2. gr., er að foreldri geri hlé á námi í a.m.k. eina önn í viðkomandi skóla til að annast barn sitt þegar upp koma bráðaaðstæður þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun.

13. gr.

Lögheimilisskilyrði.

Foreldri í námi, sbr. f-lið 2. gr., skal hafa átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði áður en barn þess greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili. Enn fremur skulu foreldri og barn þess eiga lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur eru inntar af hendi.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur foreldri langveiks eða alvarlega fatlaðs barns sem flutt hefur lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, sbr. f-lið 2. gr., átt rétt á greiðslum enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Skal foreldri jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 12. gr. laganna og reglugerðar þessarar.

V. KAFLI

Sameiginleg skilyrði fyrir greiðslum.

14. gr.

Umönnunarþörf barns.

Skilyrði fyrir greiðslum til foreldris er að langveikt eða alvarlega fatlað barn þess þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris vegna sjúkdóms eða fötlunar sem fellur undir sjúkdómsstig skv. 15. gr. eða fötlunarstig skv. 16. gr. Miða skal við að foreldri, sbr. d- og e-lið 2. gr., geti ekki sinnt störfum sínum vegna umönnunarinnar meðan greiðslur standa yfir enda verði annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila, svo sem hjá leikskólum, dagvistunarþjónustu og skammtímavistun fyrir fatlaða, ekki við komið, sbr. einnig 7. gr. reglugerðar þessarar. Sama á við um foreldra í námi, sbr. f-lið 2. gr., en miða skal við að foreldri geti ekki stundað nám sitt vegna umönnunarinnar þann tíma er greiðslur koma fyrir, sbr. einnig 12. gr. reglugerðar þessarar.

15. gr.

Sjúkdómsstig.

Foreldri á vinnumarkaði, sbr. d- og e-lið 2. gr., eða í námi, sbr. f-lið 2. gr., getur átt rétt á greiðslum þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm sem fellur undir eitthvert eftirfarandi sjúkdómsstiga. Vinnumálastofnun skal meta undir hvert eftirfarandi sjúkdómsstiga barn fellur:

1. stig: Börn sem þurfa langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og yfirsetu foreldris vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með illkynja sjúkdóma.

2. stig: Börn sem þurfa tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis alvarlegra nýrna-, lungna- eða lifrarsjúkdóma, sem krefjast ónæmisbælandi meðferðar og alvarlegra hjarta­sjúkdóma.

3. stig: Börn sem þurfa innlagnir á sjúkrahús og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með alvarlega bæklunar­sjúkdóma, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, meltingarfærasjúkdóma og geðsjúkdóma.

Við mat skv. 1. mgr. skal miða við að um sé að ræða langvinnan sjúkdóm sem líklegt er að vari í a.m.k. þrjá mánuði.

Við meðferð umsóknar um framlengingu á réttindum foreldra skv. 18. gr. skal mat skv. 1. mgr. endurtekið þegar ástæða þykir til.

16. gr.

Fötlunarstig.

Foreldri á vinnumarkaði, sbr. d- og e-lið 2. gr., eða í námi, sbr. f-lið 2. gr., getur átt rétt á greiðslum samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og reglugerðar þessarar þegar barn þess greinist með alvarlega fötlun sem fellur undir eitthvert eftirfarandi fötlunarstiga. Vinnumálastofnun skal meta undir hvert eftirfarandi fötlunarstiga barn fellur:

1. stig: Börn sem vegna alvarlegrar fötlunar eru algjörlega háð öðrum með hreyfifærni og/eða flestar athafnir daglegs lífs.

2. stig: Börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfa mjög víðtæka aðstoð og nær stöðuga gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna alvarlegrar þroskahömlunar eða alvarlegrar einhverfu.

3. stig: Börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfa töluverða aðstoð og gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna miðlungs þroskahömlunar, hreyfihömlunar sem krefst notkunar hjólastóls, og verulegrar einhverfu.

Við meðferð umsóknar um framlengingu á réttindum foreldra skv. 18. gr. skal mat skv. 1. mgr. endurtekið þegar ástæða þykir til.

17. gr.

Mat á lengd greiðslutímabils foreldra.

Við mat á því í hversu langan tíma foreldrar eiga sameiginlegan rétt til greiðslna, skal Vinnumálastofnun líta heildstætt á aðstæður fjölskyldunnar við þær bráðaaðstæður sem upp koma þegar barn greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun. Skal þá miða við aðstæður fjölskyldunnar þegar óskað er eftir að greiðslur hefjist, sbr. einnig 9. gr., en meðal annars skal litið til sjúkdóms- eða fötlunarstigs barns, sbr. 15.-16. gr., umfangs þjónustu greiningar- og meðferðarstofnunar og umönnunarþarfar samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu og þeirrar vistunarþjónustu sem í boði er á vegum opinberra aðila.

Þegar barn deyr af völdum sjúkdóms eða fötlunar er heimilt að halda greiðslum áfram sem foreldri hefði ella átt rétt á í allt að einn mánuð frá andláti barns, enda því tímabili sem Vinnumálastofnun hafði áður ákveðið skv. 1. mgr. ekki lokið.

18. gr.

Framlenging á greiðslutímabili.

Foreldri barns sem fellur undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig, sbr. 15.-16. gr., getur átt sameiginlegan rétt með hinu foreldri barnsins til framlengingar á greiðslutímabili skv. 1. mgr. 5. gr. eða 1. mgr. 11. gr. um allt að sex mánuði enda uppfylli foreldri skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og reglugerðar þessarar, sbr. einnig 2. mgr.

Við mat á því hvort foreldrar eigi rétt til framlengingar skv. 1. mgr. og í hversu langan tíma, skal Vinnumálastofnun líta heildstætt á aðstæður fjölskyldunnar skv. 17. gr. sem og lengdar vistunar á sjúkrahúsi, hjúkrunar í heimahúsi, yfirsetu foreldris og hversu tíðar sjúkrahúsinnlagnir barnsins eru enda þarfnist barnið meðferðar í heimahúsi samhliða tíðum sjúkrahúsinnlögnum.

19. gr.

Barn greinist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnar.

Foreldri barns sem greinist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm, sbr. 15. gr., eftir að hafa náð bata getur átt sameiginlegan rétt á greiðslum samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og reglugerðar þessarar með hinu foreldri barnsins. Hið sama getur átt við þegar ástand barns versnar vegna sjúkdóms eða fötlunar.

Foreldri, sbr. d- og e-lið 2. gr., skal hafa verið samfellt á vinnumarkaði, sbr. 6. gr., í a.m.k. tólf mánuði áður en barnið greindist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnaði samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Í vottorði sérfræðings skal koma fram hvenær barnið greindist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnaði en miða skal við þá dagsetningu við ákvörðun um tólf mánaða tímabil skv. 1. málsl. Að öðru leyti þarf foreldri að uppfylla skilyrði fyrir greiðslum skv. III. og V. kafla.

Foreldri í námi, sbr. f-lið 2. gr., skal hafa stundað nám í a.m.k. tólf mánuði áður en barnið greindist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnaði samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Í vottorði sérfræðings skal koma fram hvenær barnið greindist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða ástand þess versnaði en miða skal við þá dagsetningu við ákvörðun um tólf mánaða tímabil skv. 1. málsl. Að öðru leyti þarf foreldri að uppfylla skilyrði fyrir greiðslum skv. IV. og V. kafla.

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

20. gr.

Greiðslufjárhæð.

Greiðsla til foreldris samkvæmt reglugerð þessari skal nema 93.000 kr. á mánuði.

21. gr.

Ósamrýmanleg réttindi.

Foreldri sem fær atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögum þessum fyrir sama tímabil. Sama á við um foreldri sem fær lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Þegar barn greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun meðan foreldrar þess eru í fæðingarorlofi eða fá greiddan fæðingarstyrk samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldrarnir ekki jafnframt rétt á greiðslum samkvæmt lögum þessum vegna sama barns, sbr. þó 15. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og 19. gr. reglugerðar þessarar.

22. gr.

Kæruleið.

Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um réttindi foreldra samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og reglugerðar þessarar eru kæranlegar til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Kæra skal berast nefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

23. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 5. gr., 7. mgr. 8. gr., 7. mgr. 12. gr. og 18. gr. laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, skal öðlast gildi 1. júlí 2006, sbr. þó 19. gr. laganna.

Félagsmálaráðuneytinu, 27. júní 2006.

Magnús Stefánsson.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica