Félagsmálaráðuneyti

376/1995

Reglugerð um hættumat vegna snjóflóða og nýtingu hættusvæða.

1.gr. 

 Hættumat.

Meta skal hættu af snjóflóðum í þeim sveitarfélögum þar sem snjóflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku.

Hættumatið skal ná til byggðra svæða og svæða sem skipulögð eru eða skipuleggja á fyrir byggð, mannvirki eða umferð og útivist fólks á vetrartíma.

Niðurstöður hættumats skal afmarka á kort í mælikvarða 1:5000 og aðalskipulagsupp-drátt viðkomandi byggðar. Hættumatinu skal fylgja greinargerð þar sem fram komi:
1. Reikningslegar forsendur og önnur þau gögn sem matið byggist á.
2. Þær sögulegu forsendur sem framangreindir útreikningar byggjast á.
3. Tölfræðileg líkindi þess að hættumatið sýni þá hámarksskriðlengd snjóflóða sem búast megi við á 100, 300, 500 og 1.000 ára fresti eða fyrirvarar varðandi líklegan endurkomutíma.

Megin niðurstöður ofangreindra atriða skal færa inn á hættumatskort.

Taka skal fullt tillit til hættumats við skipulagningu nýrra svæða og skal matið lagt fram sem fylgiskjal með skipulagstillögum.

Hættumat skal lagt til grundvallar við gerð neyðaráætlana.

Almannavarnir ríkisins annast gerð hættumats og neyðaráætlana.

2. gr. 

 Gagnasöfnun.

Áður en hættumat er gert skal safna saman eftirfarandi lágmarksgögnum um viðkomandi byggðarlag og nálæg svæði:
1. Gera skal kort í mælikvarða 1:5000 yfir svæði sem tilgreind eru í 2. mgr. 1. gr. sem sýni landslag upp á efstu fjallsbrúnir og inn á aðliggjandi snjósöfnunarsvæði.
2. Safna skal gögnum um snjóflóð á viðkomandi svæði og í námunda við það, með því að kanna ritaðar heimildir, tala við heimamenn og leita eftir merkjum um snjóflóð í landinu. Skrá skal sem nákvæmastar upplýsingar um allt er varðar snjóflóð og veðurfarslegar forsendur þeirra, og talið er skipta máli.
3. Kanna skal á vettvangi framburð flóða, sár í jarðvegi og gróðri, og ljósmynda snjóflóðafarvegi.

Niðurstöður gagna skulu dregnar á kort í mælikvarðanum 1:5000 þar sem fram komi bæði þekktir og líklegir snjóflóðafarvegir, mörk þeirra og skriðlengd.

Telja skal snjóflóð og skriðlengd þess þekkta þegar stuðst er við mælingar á snjóflóði eða þegar mörk snjóflóðs eru afdráttarlaust afmörkuð af þekktu kennileiti og staðfest af sjónarvotti eða annarri öruggri samtímaheimild.

Önnur mörk snjóflóða sem heimildir eru til um, skulu dregin á kort sem líkleg.

3. gr. 

 Snjóflóðasvæði.

Snjóflóðasvæði eru afmörkuð með svonefndri grunnlínu sem hér segir:
1. Dregnar eru útlínur þekktra snjóflóða samkvæmt skilgreiningu 3. mgr. 2. gr.
2. Dregnar eru útlínur líklegra snjóflóða samkvæmt skilgreiningu 4. mgr. 2. gr.
3. Afmarkaðir eru aðrir farvegir þar sem talið er að snjóflóð geti hlaupið fram.
4. Stærð snjóflóðafarvega skv. 1., 2. og 3. lið er metin á eftirfarandi hátt með reiknilíkönum sem viðurkennd eru af Almannavörnum ríkisins:
a.Notuð eru þekkt snjóflóð til að finna reiknistuðla til notkunar í reiknilíkani, með því að aðlaga þá að mestu þekktri skriðlengd.
b.Reiknistuðlar þekktra flóða eru færðir milli farvega með sambærileg skilyrði og þannig fundin skriðlengd í hverjum farvegi.
c.Breidd snjóflóða er áætluð samkvæmt landslagi eða reiknuð.

Ef snjóflóðasaga byggðarlags er ófullnægjandi skal meta snjóflóðafarvegi, snjósöfnun þeirra og annað það sem getur haft áhrif á skriðlengd snjóflóða. Velja skal reiknistuðla fyrir þessa farvegi með hliðsjón af sambærilegum farvegum á öðrum snjóflóðasvæðum. Um þessa farvegi gilda að öðru leyti ákvæði þessarar greinar.

4. gr. 

 Reiknilíkön.

Við útreikninga skal nota reiknilíkön sem viðurkennd eru af Almannavörnum ríkisins hverju sinni.

Almannavarnir ríkisins skulu hafa samráð við Veðurstofu Íslands varðandi viðurkenningu á reiknilíkönum.

Rökstuddar reikningslegar forsendur skulu koma fram fyrir hvern farveg, svo og reiknaður hraði snjóflóðsins í einstökum viðmiðunarpunktum þess í ferlinum.

Komi fram munur á skriðlengdum snjóflóða sem ákvarðast skv. 3. gr., eftir því hvers konar reiknilíkan er notað, skal fylgja ítarlegur rökstuðningur fyrir þeim skriðlengdarmörkum sem notuð eru í hættumati.

5. gr. 

 Skilgreining hættusvæða.

Í hættumati eru skilgreind tvenns konar hættusvæði og skulu þau auðkennd með rauðum og gulum lit á hættumatskorti og skipulagsuppdrætti.

Hættusvæði afmarkast þannig:

1. Mörk rauðs svæðis fylgja grunnlínu snjóflóðs, sbr. 3. gr., en í tungu þess markast þau þó af línu þar sem ástreymisþrýstingur hornrétt á stefnu flóðs reiknast 10 kPa, og er þá miðað við að snjóflóðið hafi eðlismassann 350 kg/m3.

2. Gult svæði tekur við af rauðu og skal aldrei vera mjórra en 50 m mælt hornrétt á grunnlínu. Í tungu flóðs skal draga mörkin neðan grunnlínu, í fjarlægð frá henni sem nemur hálfri vegalengd milli grunnlínu og neðri marka rauðs svæðis, hvort tveggja mælt lárétt. Nái breidd guls svæðis í tungu snjóflóðs, þannig ákveðin, ekki 50 m, gilda ákvæði um lágmarksbreidd.
Aukist halli verulega í tungu snjóflóðs innan guls svæðis neðan grunnlínu, eins og það er skilgreint hér á undan, skulu áhrif þess sérstaklega metin við ákvörðun á neðri mörkum gula svæðisins.

3. Verði fjarlægð milli gulra svæða sem liggja samhliða niður hlíð minni en 100 m má líta á svæðið milli þeirra sem gult hættusvæði.

6. gr. 

 Rauð hættusvæði.

Á hættusvæðum sem merkt eru með rauðum lit á hættumatskorti og skipulagsuppdrætti, gilda þessar reglur um nýtingu:
1. Nota má rauð hættusvæði undir skipulagða starfsemi sem fram fer utan þess árstíma sem hætta er á snjóflóðum. Einnig má vera starfsemi á skíðasvæðum sem liggja inni á rauðum hættusvæðum, sé stöðugt fylgst með snjóflóðahættu. Skylt er að hafa viðbúnað til að koma viðvörunum á framfæri til fólks innan skíðasvæða og til að vara fólk við þegar hætta er á snjóflóðum. Rýma skal hættusvæði meðan snjóflóðahætta vofir yfir. Einnig er skylt að hafa til staðar neyðaráætlun sem tekur til leitar og björgunar á fólki sem lendir í snjóflóðum á svæðinu. Skíðaskála eða aðrar byggingar sem nota á til gistingar eða samkomu fólks má ekki byggja á hættusvæðum.
2. Heimilt er að nota rauð hættusvæði undir ýmis veitumannvirki, sem eru starfrækt mannlaus, svo og samgöngumannvirki, enda séu tök á að loka fyrir umferð fólks um hættusvæðið þegar snjóflóðhætta skapast. Slík mannvirkjagerð skal hlíta skilyrðum annarra laga og reglugerða sem um hana gilda, svo sem byggingarlaga og byggingarreglugerðar.

7. gr.

Gul hættusvæði.

Á hættusvæðum sem merkt eru með gulum lit á hættumatskorti og skipulagsuppdrætti, gilda þessar reglur um nýtingu:
1. Ekki má byggja mannvirki sem draga að sér fjölmenni á vetrartíma vegna viðskipta, skólahalds, samkomuhalds eða íþróttaiðkana annarra en vetraríþrótta.
2. Þegar vetraríþróttir eru stundaðar inni á gulum hættusvæðum gilda sömu ákvæði og í 1. tölul. 6. gr.
3. Heimilt er að byggja önnur mannvirki en getið er í 1. tölul. ef sýnt er fram á að þau standist 10 kPa áraun snjóflóðs þvert á stefnu flóðsins á þann flöt sem næst stendur upptökum þess. Er þá miðað við eðlismassa skv. 1. tölul. 5. gr. Þegar slík heimild er gefin í skipulagi skal kveðið nánar á um þau skilyrði sem mannvirki skuli fullnægja að öðru leyti, svo sem um aðgengi í vari fyrir snjóflóðum.

8. gr. 

 Rýming hættusvæða.

Þegar snjóflóðahætta skapast á hættusvæðum sem merkt eru með rauðum og gulum lit, skal tafarlaust koma viðvörun til þeirra sem þar eru, rýma svæðin og loka þeim fyrir allri umferð fólks, samkvæmt neyðaráætlunum Almannavarna ríkisins.

>Heimilt er að rýma stærra svæði en skilgreint hættusvæði, sé ástæða til að mati lögreglustjóra.

9. gr. 

 Breyting á mörkum hættusvæða og varnarvirki.

Falli snjóflóð á svæði sem ekki var metið sem hættusvæði, skal það skoðað strax sem rautt hættusvæði. Jafnframt skal síðan endurmeta mörk hættusvæða í sveitarfélaginu, samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

>Breyta má mörkum hættusvæða með því að gera varnarvirki sem hægja á snjóflóðum og stytta þannig skriðlengd þeirra, eða breyta stefnu. Einnig má breyta mörkum hættusvæða með því að byggja varnarvirki, sem eru nægilega öflug til að varna því að skrið hefjist á upptakasvæði flóðs.

Varnarvirki sem byggð eru ofan við upptakasvæði snjóflóða og ætlað er að breyta væntanlegri snjósöfnun á upptakasvæðinu, breyta ekki mörkum hættusvæðis.

Þegar mörk hættusvæða breytast vegna varnarvirkja skal merkja varið svæði á hættumatskorti og skipulagsuppdrætti með svartri skástrikun, en láta grunnlitina rautt og gult vera áfram á uppdrættinum og kortinu.

Sveitarstjórn ber ábyrgð á viðhaldi varnarvirkja og að virkni þeirra rýrni ekki. Almannavarnir ríkisins geta breytt mörkum hættusvæða ef gildi varnarvirkja hefur rýrnað.

10. gr. 

 Nýting varinna hættusvæða.

Varin svæði má nýta fyrir byggð, að fengnu samþykki Almannavarna ríkisins.

Meta skal snjóflóðahættu fyrir varin svæði og gilda þá ákvæði 8. gr. um rýmingu þeirra, eftir því sem við á.

11. gr. 

 Ágreiningsefni.

Rísi ágreiningur vegna reglugerðar þessarar sker félagsmálaráðherra úr, að fenginni umsögn Almannavarna ríkisins og viðkomandi sveitarstjórnar.

12. gr. 

 Ákvæði til bráðabirgða.

Í sveitarfélögum þar sem hættumat hefur farið fram, skal það endurskoðað á grundvelli þessarar reglugerðar svo fljótt sem við verður komið.

13. gr. 

 Gildistaka.

Ofangreindar reglur sem settar eru af Almannavörnum ríkisins skv. 3. gr. laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28, 4. júní 1985, sbr. lög nr. 50, 7. mars 1995, staðfestast hér með til að öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð um hættumat vegna snjóflóða, nr. 347, 23. júní 1988.

Félagsmálaráðuneytið, 21. júní 1995.

Páll Pétursson.

Anna G. Björnsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica