Leita
Hreinsa Um leit

Umhverfisráðuneyti

263/1998

Reglugerð um hættumat í iðnaðarstarfsemi - Brottfallin

REGLUGERÐ

um hættumat í iðnaðarstarfsemi.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar eru að stuðla að öryggi á vinnustöðum og vernda almenning og umhverfi gegn stórslysum af iðnaðarstarfsemi.

Markmiðum reglugerðarinnar skal ná með því að rekstraraðili þeirrar starfsemi, þar sem hættuleg efni eru notuð eða kunna að vera notuð og þar sem slys hefði alvarlegar afleiðingar fyrir menn og umhverfi, geri nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir slys og draga úr afleiðingum þeirra. Jafnframt fái starfsmenn í iðnaði þjálfun og upplýsingar til að koma í veg fyrir stórslys og ná tökum á ástandi ef slys verður.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um iðnaðarstarfsemi, búnað og geymslustaði þar sem efni sem tiltekin eru í I. viðauka eru geymd eða notuð við eðlilega starfsemi eða þar sem þau kunna að myndast við röskun á eðlilegri starfsemi.

Reglugerðin gildir ekki um:

 1.            Starfsemi sem fyrst og fremst hefur í för með sér hættu vegna jónandi geislunar.

 2.            Herstöðvar.

 3.            Námugröft eða annars konar námuvinnslu.

 4.            Flutning hættulegra efna utan starfsstöðvar.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:

 1.            Alvarleg hætta: hætta þar sem:

a)             lífi manna er stefnt í voða eða reikna má með alvarlegum eða varanlegum skaða á heilsu manna hvort sem er í nánasta umhverfi eða á stærra svæði.

b)            umhverfi getur skaðast, notkun og nýting breyst eða takmarkast eða almannaheill hlotið skaða af. Hér er sérstaklega átt við dýralíf, gróður, jarðveg, vatn og andrúmsloft, svo og menningarverðmæti.

 2.            Hugsanleg hætta: þegar líkur eru á að tiltekinn atburður geti gerst á tilteknum tíma undir ákveðnum kringumstæðum.

 3.            Hætta: eiginleiki efnis eða aðstæður í starfsstöð sem geta valdið slysi.

 4.            Hættuleg efni: efni eða blanda af efnum sem eru á listanum í I. viðauka sem óunnið efni, unnið (sem lokaafurð eða milliefni), aukaafurð, hvarfefni eða leifar. Einnig gildir þetta ef ætla má að fyrrgreind efni myndist við stórslys.

 5.            Iðnaðarstarfsemi: hvers konar starfsemi sem fer fram í starfsstöð þar sem er eða kann að vera unnið í uppsettum búnaði, lausum eða fasttengdum, með hættuleg efni sem geta valdið stórslysi. Einnig flutningur á hættulegum efnum innan starfsstöðvar svo og geymsla hættulegra efna sem tengjast starfseminni í starfsstöðinni og uppsettum búnaði.

 6.            Neyðarráðstafanir: áætlun rekstraraðila iðnaðarstarfsemi þar sem fram kemur hvernig bregðast skuli við stórslysum.

 7.            Rekstraraðili: sá einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á iðnaðarstarfsemi sem tilkynnt hefur verið um.

 8.            Stórslys: atvik á borð við umtalsverða efnaútlausn, eldsvoða eða sprengingu sem stafar af stjórnlausri atburðarás meðan á iðnaðarstarfsemi stendur og stofnar mönnum og/eða umhverfi inni í starfstöðinni eða fyrir utan hana í alvarlega hættu, samstundis eða síðar, og þar sem eitt eða fleiri hættuleg efni koma við sögu.

 9.            Uppsettur búnaður: vinnu- eða framleiðslutæki, byggingar, lagnir og leiðslur, vélar, verkfæri og annað sem nauðsynlegt er í iðnaðarstarfsemi til að framleiða og meðhöndla hættuleg efni efnafræðilega, eðlisfræðilega og líffræðilega.

10.           Varúðarráðstafanir: áætlanir sem samdar eru af rekstraraðila iðnaðarstarfsemi þar sem kemur fram hvernig hann hyggst koma í veg fyrir stórslys, hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja öryggi starfsmanna og umhverfis, til hvaða neyðarráðstafana skuli grípa þegar stórslys verða og hvernig samskiptum hlutaðeigandi aðila skal háttað, komi til stórslyss.

11.           Öryggisráðstafanir: ráðstafanir sem hafa að geyma upplýsingar til starfsmanna um þjálfun og búnað og verklag til að tryggja öryggi þeirra.

II. KAFLI

4. gr.

Almennar skyldur.

Rekstraraðili iðnaðarstarfsemi skal gera allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir slys og draga úr afleiðingum þess ef það verður. Rekstraraðili skal hvenær sem er geta sannað fyrir Vinnueftirliti ríkisins, sbr. 15. gr., að viðeigandi skilyrðum hafi verið fullnægt og nauðsynlegar öryggisráðstafanir vegna hættu á stórslysi hafi verið gerðar.

5. gr.

Tilkynningaskylda.

Rekstraraðili iðnaðarstarfsemi skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins hvort unnið sé með eða geymd séu eitt eða fleiri þeirra efna sem talin eru upp í I. viðauka í því magni sem tilgreint er í fyrsta og öðrum dálki, s.s. efni sem eru geymd eða notuð í tengslum við viðkomandi starfsemi, framleiðsluafurðir, aukaafurðir eða afganga.

Nýja iðnaðarstarfsemi þarf að tilkynna með hæfilegum fyrirvara áður en hún hefst.

Starfandi iðnaðarstarfsemi þarf að tilkynna innan árs frá gildistöku þessarar reglugerðar.

                Tilkynningaskyldar upplýsingar samkvæmt 1. mgr. skulu innihalda:

a)             Heiti og heimilisfang fyrirtækis/starfsstöðvar.

 b)           Nafn yfirmanns/forstjóra sem ber ábyrgð á starfseminni.

 c)            Nafn öryggisvarðar/öryggistrúnaðarmanns og starfssvið/starfsheiti.

 d)           Nöfn annarra starfsmanna sem sjá um öryggismál.

 e)            Nægjanlegar upplýsingar til að bera kennsl á þau hættulegu efni eða efnasambönd sem unnið er með.

 f)            Magn þeirra efna sem unnið er með og á hvaða formi þau finnast.

 g)           Lýsingu á starfsemi eða væntanlegri starfsemi starfsstöðvar eða geymsluaðstöðu.

 h)           Þætti sem geta valdið stórslysi eða aukið á afleiðingar stórslyss.

Ef verulegar breytingar verða á efnismagni eða framleiðsluferli starfsstöðvar miðað við fyrri upplýsingar eða ef starfstöð leggur niður starfsemi ber rekstraraðila að tilkynna allar slíkar breytingar.

III. KAFLI

6. gr.

Stefnumarkandi skjal og keðjuverkandi áhrif.

Rekstraraðilar þeirrar iðnaðarstarfsemi sem hefur efnismagn samkvæmt fyrri dálki í töflum sem eru í I. og II. hluta I. viðauka skal vinna stefnumarkandi skjal samkvæmt 4. tölulið 7. gr. þar sem fram kemur hvernig ráðgert er að koma í veg fyrir stórslys. Um þetta efnismagn gilda ekki önnur ákvæði 7. gr.

Rekstraraðila er skylt að hafa tiltækt stefnumarkandi skjal hvenær sem er m.a. til að uppfylla ákvæði 4. gr.

Rekstraraðili iðnaðarstarfsemi sem hefur efnismagn samkvæmt seinni dálki í töflum sem eru í I. og II. hluta I. viðauka skal gera hættumat í samræmi við ákvæði 7. gr.

Þegar gert er stefnumarkandi skjal samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar og hættumat samkvæmt 7. gr. skal tekið mið af nærliggjandi starfsemi þ.e. hvort hún geti aukið líkur á stórslysi eða valdið keðjuverkandi áhrifum vegna staðsetningar eða nálægðar á geymslum sem hafa að geyma hættuleg efni eða starfsemi þar sem slík efni eru til staðar.

Til að þetta sé mögulegt skulu nærliggjandi fyrirtæki hafa samvinnu og samráð um nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir stórslys og draga úr afleiðingum þess fyrir menn og umhverfi ef það verður.

7. gr.

Hættumat.

Rekstraraðili iðnaðarstarfsemi sem hefur efnismagn samkvæmt seinni dálki í töflum sem eru í I. og II. hluta I. viðauka skal gera hættumat þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram:

 1.            Upplýsingar um efnin:

a)             Efnafræðiheiti.

-               CAS-númer.

-               Nafn samkvæmt IUPAC flokkunarkerfinu.

-               Önnur nöfn.

-               Reynsluformúla.

-               Samsetning efnisins.

-               Hreinleikastig.

-               Helstu óhreinindi og hundraðshlutar.

-               Greiningar- og ákvörðunaraðferðir sem tiltækar eru í starfsstöðinni. Lýsing á aðferðum sem notaðar eru og vísanir í fræðirit.

-               Aðferðir og varúðarráðstafanir í sambandi við meðhöndlun, geymslu og eldhættu sem framleiðandi gerir kröfur um.

-               Neyðarráðstafanir sem framleiðandi viðhefur ef efni breiðist út af slysni.

-               Aðferðir sem framleiðandi getur gripið til í þeim tilgangi að gera efni skaðlaus.

b)            Á hvaða stigi starfseminnar er unnið eða kann að vera unnið með efnin.

c)             Magn efnanna (stærðargráða) sem er að jafnaði í starfsstöðinni en einnig áætlað hámarksmagn.

d)            Efna- og eðlisfræðileg hegðun efnis við venjuleg notkunarskilyrði í framleiðslukerfinu.

e)             Þær myndir sem efnin geta birst í eða tekið á sig ef óvenjulegar en fyrirsjáanlegar aðstæður skapast.

f)             Önnur hættuleg efni sem geta haft áhrif á hugsanlega hættu sem viðkomandi starfsemi hefði í för með sér.

 2.            Upplýsingar um starfsstöðvarnar:

a)             Staðsetning starfsstöðvanna, ríkjandi veðurskilyrði og hætta sem kann að leiða af staðháttum.

b)            Hámarksfjöldi starfsfólks þar sem starfsemi fer fram, sér í lagi þess sem er berskjaldaður gagnvart hættunni.

c)             Almenn lýsing á tæknilegu ferli.

d)            Lýsing á þeim deildum starfsstöðvarinnar sem eru mikilvægar frá öryggissjónarmiði, orsakir hættunnar og þær aðstæður sem valdið geta stórslysi ásamt lýsingu á fyrirbyggjandi aðgerðum sem fyrirhugaðar eru.

e)             Ráðstafanir til að tæknilegur búnaður, sem nauðsynlegur er til að starfsstöðin sé starfrækt á öruggan hátt og til að bregðast við bilunum sem upp koma, séu ætíð tiltækar.

f)             Hvernig þjálfun starfsmanna er háttað.

 3.            Mat á hugsanlegri hættu fyrir fólk og umhverfi ef stórslys ætti sér stað og hversu víðtæk hún getur orðið.

 4.            Stefnumarkandi skjal til að koma í veg fyrir stórslys þar sem eftirfarandi kemur fram:

a)             Með hvaða hætti og eftir hvaða leiðum rekstraraðili hyggst hafa stjórn á stórslysi.

b)            Meginmarkmið allra aðgerða til að koma í veg fyrir og bregðast við stórslysum.

c)             Skilgreining og mat á hættu á stórslysum. Í þessu mati þarf einnig að taka mið af annarri starfsemi í grennd við starfsstöðina sem getur magnað upp stórslys eða valdið stórslysi.

d)            Allar aðgerðir til að koma í veg fyrir og bregðast við stórslysi.

e)             Allar aðgerðir til að draga úr þeim afleiðingum sem stórslys kann að hafa fyrir fólk og umhverfi.

f)             Skipulag áætlana til að fyrrnefnd atriði verði skilvirk þ.m.t. hlutverk og ábyrgð starfsfólks í þeirri framkvæmd, þjálfun þess, ráðning og sérhæfing.

g)            Mat á skilvirkni og regluleg endurskoðun áðurnefndra atriða.

 5.            Upplýsingar um stöðu mála ef stórslys á sér stað:

a)             Neyðaráætlanir sem tiltækar eru innan starfsstöðvarinnar þegar glímt er við stórslys þ.á m. upplýsingar um öryggisbúnað, viðvörunarkerfi og hjálpartæki, samskipti og samstarf við lögreglu, sjúkralið, slökkvilið, björgunarsveitir, almannavarnanefndir, Hollustuvernd ríkisins og Vinnueftirlit ríkisins.

b)            Allar upplýsingar sem Almannavarnir ríkisins og almannavarnanefndir þurfa á að halda til að undirbúa neyðaráætlanir til að nota utan starfsstöðvarinnar.

c)             Nafn einstaklings og fulltrúa hans eða þess lögaðila sem ábyrgur er fyrir öryggismálum og hefur vald til að setja neyðaráætlanir af stað og til að gera Almannavörnum ríkisins viðvart.

d)            Samantekt á liðum a, b og c í flæðiriti þar sem sýnd eru samskipti og ráðstafanir sem gripið er til ef stórslys á sér stað.

e)             Neyðaráætlanir þarf að prófa og endurskoða með vissu millibili til að þjálfa starfsfólk, sníða af vankanta og taka mið af nýrri tækniþekkingu á sviði öryggismála og þekkingu er varðar hættumat.

8. gr.

Hættumat lagt inn til eftirlitsaðila.

Leggja skal hættumat inn til eftirlitsaðila innan eftirfarandi tímamarka:

 1.            Ný starfsemi: Nokkru áður en framkvæmdir hefjast.

 2.            Starfandi fyrirtæki/starfsstöð sem ekki hefur áður fallið undir samsvarandi reglugerð nr. 549/1995 um hættumat í iðnaðarstarfsemi: Innan þriggja ára frá gildistöku þessarar reglugerðar.

 3.            Aðrir: Innan tveggja ára frá gildistöku þessarar reglugerðar.

9. gr.

Endurskoðun hættumats.

Endurskoða skal hættumat og uppfæra upplýsingar á fimm ára fresti eða oftar ef breytingar verða á efnismagni, framleiðsluferli, búnaði eða öðru sem getur haft afgerandi áhrif á hættu á stórslysi.

10. gr.

Tilkynning um stórslys.

Ef stórslys á sér stað í iðnaðarstarfsemi er rekstraraðila skylt að tilkynna það þegar slökkviliði og lögreglu. Lögregla skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins, Hollustuvernd ríkisins og Almannavörnum ríkisins um slysið. Afhenda skal upplýsingar um aðstæður við slysið, hættuleg efni sem um er að ræða, gögn sem tiltæk eru til að meta áhrif slyssins á menn og umhverfi og neyðarráðstafanir sem gripið er til um leið og þær liggja fyrir.

Veita skal eftirlitsaðila upplýsingar um þær ráðstafanir sem fyrirhugaðar eru til að draga úr áhrifum slyssins til lengri eða skemmri tíma og að koma í veg fyrir að slíkt slys endurtaki sig.

11. gr.

Stjórnvaldsráðstafanir í framhaldi af stórslysi.

Eftirlitsaðili skal sjá til þess í samráði við samráðsnefnd, sbr. 15. gr., að gerðar verði neyðarráðstafanir og aðrar ráðstafanir til lengri eða skemmri tíma sem kunna að reynast nauðsynlegar og að safnað verði saman þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að ljúka megi rannsókn á slysum og fram koma í II. viðauka og gera tillögur eða setja reglur í framhaldi af því.

Eftirlitsaðili skal tilkynna umhverfisráðuneytinu um stórslys eins fljótt og hægt er og láta því í té þessar upplýsingar. Umhverfisráðuneytið metur þessar upplýsingar síðan samkvæmt III. viðauka.

12. gr.

Grenndarkynning og aðgangur almennings að upplýsingum.

Rekstraraðilum sem falla undir 7. gr. ber að tryggja að einstaklingar og lögaðilar sem stórslys getur bitnað á fái óumbeðið viðhlítandi upplýsingar um öryggisráðstafanir og hvernig bregðast skuli við ef slys verður. Endurskoða skal þessar upplýsingar og uppfæra samhliða endurskoðun hættumats, sbr. 9. gr. Almenningur skal einnig hafa aðgang að þessum upplýsingum. Upplýsingar þessar skulu innihalda atriði sem tiltekin eru í IV. viðauka.

Almenningur skal hafa aðgang að innsendu hættumati hjá eftirlitsaðila með ákveðnum fyrirvörum. Rekstraraðilum er heimilt að fara fram á við eftirlitsaðila að ákveðnir hlutar hættumats, s.s. iðnaðarleyndarmál séu ekki til sýnis.

13. gr.

Rekstrarstöðvun ef yfirvofandi hætta skapast.

Óheimilt er að halda áfram starfsemi starfsstöðvar eða uppsetts búnaðar hennar að öllu leyti eða að hluta ef áframhaldandi starfsemi eða notkun hefur í för með sér yfirvofandi hættu á stórslysi.

14. gr.

Landnýting.

Til að stuðla að því að þau markmið sem sett eru í þessari reglugerð náist þarf að taka mið af stórslysahættu þegar landnýting er skipulögð. Þetta á einkum við þegar:

 a)            velja á heppilegan stað fyrir nýja starfsstöð sem getur valdið stórslysi,

 b)           endurbæta/stækka þarf starfsstöð sem getur valdið stórslysi,

 c)            velja á flutningsleiðir.

Við skipulag landsvæða þarf að taka mið af stórslysahættu þannig að sem minnst hætta sé fyrir menn og umhverfi auk þess sem fullnægjandi vegalengd skal vera á milli starfsstöðvar sem fellur undir þessa reglugerð og staða sem eru einstakir frá náttúrunnar hendi.

IV. KAFLI

Eftirlit, mat, þvingunarúrræði og gildistaka.

15. gr.

Eftirlit.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar í samræmi við reglugerð sem félagsmálaráðherra setur.

Vinnueftirlit ríkisins leggur mat á hvort hættumat eða stefnumarkandi skjal rekstraraðila sé fullnægjandi.

Starfa skal sérstök samráðsnefnd um stórslysavarnir í iðnaði sem félagsmálaráðherra skipar.

16. gr.

Þvingunarúrræði.

Um valdsvið, þvingunarúrræði, málsmeðferð, úrskurði og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ásamt síðari breytingum, eftir því sem við á.

Um mál sem kunna að rísa út af brotum á reglugerð þessari fer að hætti opinberra mála.

17. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið hvað þátt Vinnueftirlits ríkisins varðar, sbr. lög nr. 46/1980. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 549/1995 um hættumat í iðnaðarstarfsemi, með breytingum nr. 309/1997. Reglugerðin er enn fremur sett með hliðsjón af XX. viðauka EES samningsins (tilskipun ráðsins nr. 96/82/EB). Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 20. apríl 1998.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

I. VIÐAUKI

Tilvist efna í starfsstöð sem er skilgreind samkvæmt reglugerð þessari.

Viðauki þessi gildir um geymslu hættulegra efna og/eða blöndun á hverjum þeim stað, landsvæði, byggingu og í starfsstöð, sem telst einangrað eða innan stofnunar, og er svæði sem notað er til geymslu.

Magntölur sem settar eru fram hér að neðan gilda um hverja geymslu eða hóp geymslna sem tilheyra sama framleiðanda ef fjarlægð milli þeirra er ekki nægjanleg til að fyrirbyggja hættu á stórslysum við hugsanlegar aðstæður.

Tölurnar eiga við hámarksmagn í geymslu á hverjum tíma.

Taka skal tillit til keðjuverkandi áhrifa samkvæmt ákvæðum 6. gr.

I. hluti

Tilgreind efni.

Hættuleg efni:

Flokkar efna og efnablandna

Magn (tonn) ³ (sbr. 6. gr.)

Magn (tonn) ³ (sbr. 7. gr.)

Alkýlblý

5

50

Ammóníumnítrat1)

350

2500

Ammóníumnítrat í formi áburðar2)

1250

5000

Arsenik tríhýdríð (arsín)

0,2

1

Arsenpentoxíð, arsen (V) sýra og salt

1

2

Arsentríoxíð, arsen (III) sýra og salt

 

0,1

Asetýlen               

5

50

Brennisteinsdíklóríð

1

1

Brennisteinstríoxíð

15

75

Bróm

20

100

Eldsneyti, véla- (_Automotive petrol and other petroleum spirits")

5000

50000

Etýlen oxíð

5

50

Etýlenímín            

10

20

Flúoríð

10

20

Formaldehýð (formalín) (styrkur > 90%)

5

50

Fosfór tríhýdríð (fosfín)

0,2

1

Jarðgas og fljótandi gas

50

200

Karbónýl díklóríð (fosgen)

0,3

0,75

Klór

10

25

Metanól

500

5000

4,4-Metýlenbis (2-klóranilín)

 

0,01

Metýlísósýanat

 

0,15

Nikkelmálmur ásamt oxíðum, karbónötum og súlfíðum í duftformi

 

1

Pólýklórdíbensófúrans og pólýklórdíbensódíoxín               

 

0,001

Própýlen oxíð

5

50

Súrefni  

200

2000

Tólúen díísósýanat

10

100

Vetni

5

50

Vetnisklóríð (fljótandi gas)

25

250

Krabbameinsvaldandi efni:

 

 

4-Amínódífenýl

0,001

0,001

Bensidín og/eða sölt

0,001

0,001

Bisklórmetýleter

0,001

0,001

Dímetýlkarbamoyl klór

0,001

0,001

Dímetýlnítrósamín

0,001

0,001

Hexametýlfosfórtríamíð

0,001

0,001

Klórmetýl metýleter

0,001

0,001

2-Naftýlamín og/eða sölt

0,001

0,001

1,3 Própansultón 4-nítródífenýl

0,001

0,001

                                               

1) Þetta gildir fyrir ammóníumnítrat og blöndur þess þar sem þyngdarhlutfall köfnunarefnis úr ammóníumnítratinu er hærra en 28% og um vatnslausn ammóníumnítrats þar sem þyngdarhlutfall ammóníumnítratsins er hærra en 90%.

2) Þetta gildir um hreinan ammóníumnítratáburð sem samræmist tilskipun nr. 80/876/EBE og um blandaðan áburð þar sem þyngdarhlutfall köfnunarefnis úr ammóníumnítratinu er hærra en 28% (blandaður áburður inniheldur ammóníumnítrat ásamt fosfati og/eða kalíumkarbónati).

 

II. hluti

Flokkar efna og efnasamsetninga sem ekki eru sérstaklega nefnd í I. hluta.

Leggja skal saman magn efna og efnablandna1) í sama flokki. Séu fleiri en einn flokkur tilgreindir í sama lið skal leggja saman magn allra efna og efnablandna í þeim flokki sem þar eru tilgreind.

Flokkar efna og efnablandna2)

Magn (tonn) ³ (sbr. 6. gr.)

Magn (tonn) ³ (sbr. 7. gr.)

1. Efni og efnablöndur sem flokkuð eru sem _mjög eitruð"

5

20

2. Efni og efnablöndur flokkuð sem mjög eiturvirk", eiturvirk"3), oxandi" og sprengifim" (sjá III. hluta, liði 1-5)

50

200

3. Sprengiefni (sjá III. hluta, lið 6.a.)

50

200

4. Sprengiefni (sjá III. hluta, lið 6.b.)

10

50

5. Eldfim efni og efnablöndur sem falla undir viðmiðun í III. hluta 3.a.   

5000

50000

6. Mjög eldfim efni eða efnablöndur, sem falla undir viðmiðun í III. hluta 3.b.1.

50

200

7. Mjög eldfimir vökvar (efni og efnasambönd) sem falla undir viðmiðun í III. hluta 3.b.2.

5000

50000

8. Gífurlega eldfim efni eða efnasambönd sem falla undir viðmiðun í III. hluta 3.c.

10

50

9. Efni sem eru skaðleg umhverfinu

 

 

9a. R50, mjög eitrað fyrir vatnalífverur

200

500

9b. R51, eitrað fyrir vatnalífverur

R53, getur valdið óhagstæðum langtímaáhrifum á vistfræði vatna

 

500

 

2000

10. Efni og efnablöndur sem eru skaðlegar umhverfinu aðrar en þær sem falla undir 9. lið

 

 

10a. R14, hvarfast kröftuglega við vatn

100

500

10b. R29, við snertingu við vatn gefur það frá sér eitraðar gufur.        

50

200

 

1) Efnablöndur eru blöndur eða lausnir tveggja eða fleiri efna (sbr. tilskipun nr. 79/831/EBE).

2) Flokkar efna og efnablandna eru þeir sem skilgreindir eru í eftirtöldum tilskipunum með áorðnum breytingum:

-               Tilskipun ráðsins nr. 67/548/EBE frá 27. júní 1967 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um flokkun, pökkun og merkingu hættulegra efna.

-               Tilskipun ráðsins nr. 73/173/EBE frá 4. júní 1973 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkja um flokkun, pökkun og merkingu hættulegra efnablandna (leysiefna).

-               Tilskipun ráðsins ráðsins nr. 77/72/EBE frá 7. nóvember 1977 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkja um flokkun, pökkun og merkingar á málningu, lakki, prentsvertu, lími og svipuðum vörum.

-               Tilskipun ráðsins nr. 78/631/EBE frá 26. júní 1978 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi flokkun, pökkun og merkingu varnings sem inniheldur eiturefni eða hættuleg efni (plöntulyf, örgresis- og útrýmingarefni).

-               Tilskipun ráðsins nr. 88/379/EBE frá 7. júní 1988 um samræmingu á ákvæðum í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi flokkun, pökkun og merkingu á hættulegum efnablöndum.

3) Þetta á við ef ástand efnanna eða efnablandnanna er þannig að þau hafa eiginleika sem geta valdið hættu á alvarlegu slysi.

III. hluti

Viðmiðanir.

1)             Baneitruð efni:

-               Efni sem samsvara fyrstu línunni í töflunni hér að neðan,

-               Efni sem samsvara annarri línunni í töflunni hér að neðan og geta skapað stórslysahættu vegna eðlis- og efnafræðilegra eiginleika sem jafnast á við þá hættu sem efni í fyrstu línu valda

LD 50 (um munn) 1) mg/kg líkamsþyngd

LD 50 (um húð) 2) mg/kg líkamsþyngd

LC 50 3) mg/l (innöndun)

1 LD 50 £ 5

LD 50 £ 10

LC 50 £ 0,1

2 5 < LD 50 £ 25

10 < LD 50 £ 50

0,1 < LC 50 £ 0,5

                                                                                                               

2)             Önnur eitruð efni:

                Efni, með eðlis- og efnafræðilega eiginleika sem geta skapað stórslysahættu og sem eftirfarandi tölugildi um bráð eituráhrif eiga við um

LD 50 (um munn) 1) mg/kg líkamsþyngd

LD 50 (um húð) 2) mg/kg líkamsþyngd

LC 50 3) mg/l (innöndun)

25 < LD 50 £ 200

50 < LD 50 £ 400

0,5 < LC 50 £ 2

                                                                                               

3)             Eldfim, mjög eldfim og gífurlega eldfim efni og efnablöndur.

a) -          Efni og efnablöndur með kveikjumark meira eða jafnt og 21°C og minna eða jafnt og 55°C.

b) -          Mjög eldfimir vökvar:

1. -           Efni og efnablöndur sem geta hitnað og að lokum kviknað í við snertingu við loft án utanaðkomandi orku,

-               efni sem hafa kveikjumark lægra en 55°C og eru í vökvafasa undir þrýstingi, þar sem sérstakar vinnsluaðstæður, s.s. hár hiti eða þrýstingur, geta valdið hættu á stórslysi.

2. -           Efni og efnablöndur sem hafa kveikjumark lægra en 21°C og flokkast ekki sem gífurlega eldfim.

c) -          Gífurlega eldfimar lofttegundir og vökvar.

1. -           Efni og efnablöndur á vökvaformi sem hafa kveikjumark lægra en 0°C og suðumark við normal þrýsting lægra eða jafnt og 35°C.

2. -           Loftkennd efni og efnablöndur sem eru eldfim þegar þau komast í snertingu við loft við þann hita og þrýsting sem er í umhverfinu hvort sem þau eru í loft- eða vökvafasa undir þrýstingi (fyrir utan jarðgas og fljótandi gas sem nefnt er í I. hluta I. viðauka).

3. -           Efni og efnablöndur sem haldið er við hita sem er hærri en suðumark þeirra.

4)             Sprengifim efni:

                Efni sem geta sprungið þegar þau komast í snertingu við eld eða eru viðkvæmari fyrir höggum eða núningi en dínítróbensen.

5)             Oxandi efni:

                Efni sem orsaka mjög útvermin efnahvörf ef þau komast í snertingu við önnur efni, einkum eldfim efni.

6)             Sprengiefni:

a) i)         Efni eða blöndur sem hætta er á að springi við högg, núning, eld eða á annan tendrandi hátt.

ii)             Flugeldaefni sem er efni eða blanda af efnum hannað til að mynda hita, ljós,           hljóð, gas eða reyk eða sambland af þessum þáttum sem fæst án sprengingar en með útvermnu efnahvarfi sem viðheldur sér sjálft.

iii)            Sprengiefni, flugeldaefni eða tilreidd blanda sem er sett í þar til gerðar umbúðir.

b)            Efni eða blanda af efnum sem myndar mjög mikla hættu á sprengingu við núning, eld eða annan tendrunarhátt.

 

1) LD 50 um munn, rottur.

2) LD 50 um húð, rottur eða kanínur.

3) LC 50 með innöndun (fjórar stundir), rottur.

II. VIÐAUKI

Upplýsingar sem aðildarríkin skulu láta framkvæmdastjórninni í té.

TILKYNNING UM STÓRSLYS.

Aðildarríki

Yfirvald sem falið er að annast skýrslugerð

Póstfang

1.             Almennar upplýsingar:

                Hvenær slysið átti sér stað, dag- og tímasetning.

                Hvar slysið átti sér stað.

                Póstfang.

                Tegund iðnaðar.

2.             Tegund slyss:

                Sprenging / eldsvoði / útlausn hættulegra efna.

                Efni sem sleppur út.

3.             Lýsing á aðstæðum á slysstað.

4.             Neyðarráðstafanir sem gripið er til.

5.             Orsakir slyssins:

                Þekktar.

                Óþekktar.

                Upplýsingarnar skulu gefnar eins fljótt og auðið er.

6.             Eðli og umfang tjóns.

                a) Innan starfsstöðvarinnar

                - slys      ............... dauðaslys

                                ............... slasaðir

                                ............... orðið fyrir eituráhrifum

                - fjöldi hættustaddra

                - eignatjón

                - hættan ekki liðin hjá

                - hættan liðin hjá

                b) Utan starfsstöðvarinnar

                - slys      ............... dauðaslys

                                ............... slasaðir

                                ............... orðið fyrir eituráhrifum

                - fjöldi fólks í hættu

                - eignatjón

                - hættan ekki liðin hjá

                - hættan liðin hjá

 

7.             Ráðstafanir til skemmri og lengri tíma, einkum þær sem ætlað er að koma í veg fyrir að svipuð stórslys endurtaki sig (skulu lagðar fram eftir því sem upplýsingar berast).

III. VIÐAUKI

Viðmiðanir á því hvenær eigi að tilkynna um stórslys samkvæmt 11. gr.

(II. viðauka).

I.              Slys sem fyrsti liður nær yfir eða hefur áhrif eins og lýst er í einum eða fleiri liðum af 2, 3, 4 eða 5.

1.             Efni: Sérhver eldur, sprenging eða efnisútlát sem verður af völdum slyss sem nemur að minnsta kosti 5% af efnismagni sem gefið er upp í viðauka I.

2.             Slys á fólki og skemmdir á byggingum.

                Slys af völdum hættulegra efna sem hefur eftirfarandi afleiðingar:

-               Dauða.

-               Slasaðir innan starfsstöðvar hafi verið 6 eða fleiri og verið á spítala í að minnsta kosti 24 stundir.

-               Slasaðir utan starfsstöðvar hafi verið 1 eða fleiri og verið á spítala í að minnsta kosti 24 stundir.

-               Híbýli utan starfsstöðvar eru skemmd og ónothæf eftir slys.

-               Rýmingu eða einangrun fólks í meira en 2 klst., fjöldi fólks margfaldaður með klukkustundum sé að minnsta kosti 500.

-               Vatnsleysi, rafmagnsleysi eða símasambandsleysi í meira en 2 klst., fjöldi fólks margfaldaður með klukkustundum sé að minnsta kosti 1000.

3.             Umhverfisskemmdir sem hafa orðið strax:

-               Varanlegar eða langtíma skemmdir á búsvæði:

-               0,5 hekturum eða meira af verndarsvæði eða öðru umhverfi sem er verndað með lögum,

-               10 hekturum eða meira af dreifðara búsvæði, þar á meðal ræktuðu landi.

-               Varanlegar eða langtíma skemmdir á ferskvatni eða sjávarbúsvæði:

-               10 km eða meira af ám eða skurðum,

-               1 hektara af vatni eða tjörn,

-               2 hekturum eða meira af óseyri,

-               2 hekturum eða meira af strandlengju eða opnu hafi.

-               Verulegar skemmdir á neðanjarðarvatnsbólum:

-               1 hektara eða meira.

4.             Skemmdir á mannvirkjum:

-               Skemmdir á starfsstöð sem nema a.m.k. 2 milljónum ECU.

-               Skemmdir á mannvirkjum utan starfsstöðvar sem nemur a.m.k. 0,5 milljónum ECU.

II.            Slys eða yfirvofandi hætta á slysi sem hægt hefði verið að fyrirbyggja og sem viðkomandi yfirvöld telja út frá tæknilegu sjónarmiði að mikilvægt sé að tilkynna til að fyrirbyggja að slíkt gerist annars staðar.

 

IV. VIÐAUKI

Atriði sem kynna skal almenningi samkvæmt 12. gr. reglugerðar þessarar.

a)             Nafn fyrirtækis og staðsetning svæðis.

b)            Tilgreining á þeim sem veitt hefur upplýsingar þannig að fram komi hver staða hans er.

c)             Staðfesting á því að svæði sé háð þeim reglum og stjórnsýslufyrirmælum sem koma tilskipuninni til framkvæmda og að hættumat samkvæmt 7. gr. eða að minnsta kosti þær upplýsingar sem kveðið er á um í 5. gr. hafi verið veittar hinu lögbæra yfirvaldi.

d)            Lýsing í almennum orðum á þeirri starfsemi sem fram fer á svæðinu.

e)             Almenn heiti þeirra efna og efnablandna sem notuð eru á svæðinu og valdið geta stórslysahættu, en tegundarheiti eða almenn hættuflokksgreining þeirra ef um er að ræða geymslu sem II. hluti I. viðauka gildir um, svo og tilgreining á helstu hættueiginleikum.

f)             Almennar upplýsingar um hvaða stórslysahætta getur skapast þar á meðal um hugsanleg áhrif á íbúa og umhverfi.

g)            Fullnægjandi upplýsingar um hvernig farið yrði að því að vara íbúa við slysi og láta þá fylgjast með gangi mála.

h)            Fullnægjandi upplýsingar um hvað viðkomandi íbúum ber að gera og hvernig þeir skulu hegða sér ef slys verður.

i)              Staðfesting á því að fyrirtæki sé skylt að gera viðeigandi ráðstafanir á svæðinu, þar á meðal með því að stofna til tengsla við almannavarnanefnd, með tilliti til hugsanlegs slyss og takmörkunar á áhrifum þess.

j)              Tilvísun til áætlunar um viðbúnað sem gerð hefur verið með tilliti til áhrifa slyss utan svæðisins og hvatning til fólks um að fylgja öllum fyrirmælum eða óskum yfirvalda ef slys verður.

k)             Nánari upplýsingar um hvar unnt sé að afla frekari upplýsinga með fyrirvara um þær leyndarkröfur sem gerðar eru í landslögum.

 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica