Félagsmálaráðuneyti

405/1999

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 254/1993, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um breyting á reglugerð nr. 254/1993, um vörugjald af ökutækjum,

með síðari breytingum.

1 gr.

Við 2. tölul. 22. gr. reglugerðarinnar bætist nýr stafliður, f-liður er orðast svo:

Sérsmíðaðar bifreiðar til keppni í rallakstri, sem skráðar eru sem slíkar, ökutæki sem ekki eru skráningarskyld og sérsmíðuð eru til nota í kvartmílukeppni og torfærugrindur til nota í torfærukeppni. Skilyrði fyrir niðurfellingu vörugjalds er að ökutæki sé ætlað til nota í aksturskeppnum sem haldnar eru í samræmi við reglur um akstursíþróttir og aksturskeppni og haldnar eru á ábyrgð og samkvæmt reglum skipulagsbundinna samtaka sem hafa akstursíþróttir á verkefnaskrá sinni og hlotið hafa til þess viðurkenningu dómsmálaráðuneytisins.

2. gr.

Við 24. gr. reglugerðarinnar bætist svohljóðandi málsgrein:

reglum Eftirfarandi reglur gilda um ökutæki, samkvæmt f-lið 22. gr.

1. Tollstjóri metur það hvort ökutæki samkvæmt f-lið 22. gr., sé sérsmíðað ökutæki til keppni í viðkomandi keppnisgrein. Við mat á því skal m.a. litið til þess hvort viðkomandi ökutæki uppfylli þær kröfur sem skipulagsbundin samtök, sem hafa akstursíþróttir á verkefnaskrá sinni og hlotið hafa til þess viðurkenningu dómsmálaráðuneytisins, gera til keppnisbifreiða samkvæmt f-lið 22. gr. Varðandi sérsmíðaðar bifreiðar til keppni í rallakstri skal jafnframt litið til þess hvort bifreiðin uppfylli kröfur sem gerðar eru varðandi skráningu samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja.

2. Leggja skal fram vottorð frá framleiðanda bifreiðarinnar og rökstudda yfirlýsingu skipulagsbundinna samtaka sem hafa akstursíþróttir á verkefnaskrá sinni og hlotið hafa til þess viðurkenningu dómsmálaráðuneytisins, um að bifreið samkvæmt f-lið 22. gr. sé sérsmíðuð keppnisbifreið til aksturskeppni í viðkomandi keppnisgrein. Varðandi ökutæki sem ekki eru skráningarskyld skal leggja fram vottorð frá skráningarstofu ökutækja um að ökutækið sé ekki skráningarskylt. Eigandi bifreiðar skal bera kostnað af öflun vottorðanna.

3. Sérsmíðuð bifreið til rallaksturs skal skráð sem slík í ökutækjaskrá, samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja. Skráningarnúmer skulu vera í samræmi við ákvæði sömu reglugerðar.

4. Kvöð skal þinglýst á sérsmíðaðar bifreiðar til rallaksturskeppni þar sem fram koma þær takmarkanir sem gilda um notkun þeirra samkvæmt þessari reglugerð.

5. Ökutækjum samkvæmt f-lið 2. tölul. 22. gr. er óheimilt að aka á vegum. Þó er heimilt að aka sérsmíðuðum rallbifreiðum á vegum vegna þátttöku í rallaksturskeppnum samkvæmt um akstursíþróttir og aksturskeppni og til æfingaaksturs samkvæmt sömu reglum.

3. gr.

1. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Sá sem notið hefur eftirgjafar skal greiða til ríkissjóðs eftirgefið vörugjald með verðbótum að frádreginni fyrningu sé viðkomandi ökutæki selt eða tekið til annarrar notkunar en lá til grundvallar eftirgjöfinni:

1. Innan sjö ára frá skráningardegi ökutækis þegar um er að ræða eftirgjöf samkvæmt f-lið 2. tölul. 22. gr.

2. Innan fimm ára frá skráningardegi ökutækis þegar um er að ræða eftirgjöf samkvæmt a-d liðar 2. tölul. 22. gr. og 2.-3. og 5. tölul. 23. gr.

3. Innan fjögurra ára frá skráningardegi ökutækis þegar um er að ræða eftirgjöf samkvæmt e-lið 2. tölul. 22. gr. og 1. tölul. 23. gr.

4. Innan þriggja ára frá skráningardegi ökutækis þegar um er að ræða eftirgjöf samkvæmt 4. tölul. 23. gr.

5. Innan tveggja ára frá skráningardegi ökutækis þegar um er að ræða eftirgjöf samkvæmt 6. tölul. 23. gr.

4. gr.

3. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Fyrning skal vera 1/84 hluti verðbættrar fjárhæðar fyrir hvern mánuð frá skráningu ökutækis vegna eftirgjafar samkvæmt f-lið 2. tölul. 22. gr., 1/60 hluti verðbættrar fjárhæðar vegna eftirgjafar samkvæmt a-d lið 2. tölul. 22. gr., 2.-3. og 5. tölul. 23. gr., 1/48 hluti verðbættrar fjárhæðar vegna eftirgjafar samkvæmt e-lið 2. tölul. 22. gr. og 1. tölul. 23. gr., 1/36 hluti verðbættrar fjárhæðar vegna eftirgjafar samkvæmt 4. tölul. 23. gr. en 1/24 hluti verðbættrar fjárhæðar vegna eftirgjafar samkvæmt 6. tölul. 23. gr.

5. gr.

Reglugerðin er sett samkvæmt heimild í 28. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 7. júní 1999.

F. h. r.

Árni Kolbeinsson.

Maríanna Jónasdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica