Félagsmálaráðuneyti

151/2004

Reglugerð um breytingu á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs, nr. 458/1999, sbr. reglugerðir nr. 1000/2001 og nr. 333/2003. - Brottfallin

1. gr.

2. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Lán til byggingar eða kaupa á sambýlum fyrir fatlaða.


2. gr.

III. kafli reglugerðarinnar, sem hefur fyrirsögninaLán til byggingar eða kaupa á sambýlum fyrir fatlaða, orðast svo:
a. (10. gr.)

Tilgangur.

Lán skv. 2. tölul. 2. gr. er heimilt að veita einstaklingum, félögum, sveitarfélögum og félagasamtökum sem fengið hafa starfsleyfi félagsmálaráðherra fyrir rekstur sambýlis, sbr. 10. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, með síðari breytingum, til að byggja eða kaupa sambýli fyrir fatlaða.


b. (11. gr.)

Lánsfjárhæð og veðrými.

Við ákvörðun lánsfjárhæðar skal taka tillit til fjármagns frá Framkvæmdasjóði fatlaðra, úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum þannig að lán frá Íbúðalánasjóði og annað fjármagn frá opinberum aðilum verði samanlagt aldrei hærra en 90% af kaupverði eða byggingarkostnaði.

Veðrými Íbúðalánasjóðs miðast við allt að 90% af byggingarkostnaði eða kaupverði. Miða skal við 90% af brunabótamati ef það er lægra.


c. (12. gr.)

Umsóknir.

Umsækjendur um lán skulu senda umsóknir sínar til Íbúðalánasjóðs og leggja fram þær upplýsingar sem sjóðurinn telur nauðsynlegar til undirbúnings afgreiðslu þeirra, þar með talda staðfestingu félagsmálaráðherra á starfsleyfi.

Lán samkvæmt þessum kafla skulu því aðeins veitt að fyrir liggi rökstuddar upplýsingar um þörf fyrir framkvæmdir, studdar gögnum frá hlutaðeigandi stjórnvaldi um málefni fatlaðra.


d. (13. gr.)

Lánstími og útborgun láns.

Lán samkvæmt þessum kafla koma til greiðslu þegar framkvæmdum er lokið eða samkvæmt kauptilboði.

Lánstími skal vera allt að 25 ár.


e. (14. gr.)

Uppgreiðsla.

Sé rekstri húsnæðis, sem lánað hefur verið til samkvæmt þessum kafla, hætt eða það tekið undir annan rekstur, skal áhvílandi lán Íbúðalánasjóðs greitt upp. Þinglýsa skal kvöð þess efnis á eignina samhliða þinglýsingu lánsins.

Tilkynna skal Íbúðalánasjóði um breytingar skv. 1. mgr. án ástæðulausrar tafar.


3. gr.

39. gr. reglugerðarinnar, með síðari breytingum, orðast svo:


Eigið framlag og afgreiðsla lánsumsókna.

Umsækjendur skulu sýna fram á það, við lánsumsókn hjá Íbúðalánasjóði, að þeir hafi fjárhagslegt bolmagn til að greiða þann hluta af byggingarkostnaði eða kaupverði íbúðar sem ekki fæst lánað til skv. 41. gr. Því til staðfestingar skal leggja fram ábyrgð af hálfu fjármálastofnunar eða annað sem Íbúðalánasjóður metur gilt.

Íbúðalánasjóður aðgætir hvort umsókn samræmist reglum sjóðsins, ákvæðum reglugerðar þessarar svo og ákvæðum laga um húsnæðismál. Íbúðalánasjóður tilkynnir síðan umsækjanda um afgreiðslu sína á umsókn hans.

Íbúðalánasjóður hefur heimild til að afturkalla veitt lánsvilyrði ef verulegar breytingar verða á upphaflegum forsendum sem lágu til grundvallar lánsvilyrðum sjóðsins, svo sem þegar framkvæmdir dragast mjög á langinn eða ef verulegar breytingar verða á eignarhaldi félags sem fengið hefur lánsvilyrði.


4. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 16. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, öðlast þegar gildi.


Félagsmálaráðuneytinu, 13. febrúar 2004.

Árni Magnússon.
Óskar Páll Óskarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica