Félagsmálaráðuneyti

48/2003

Reglugerð um störf Jafnréttisráðs og skrifstofuhald. - Brottfallin

I. KAFLI
Gildissvið og hlutverk.
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um störf og skrifstofuhald Jafnréttisráðs.


2. gr.
Hlutverk.

Jafnréttisráð er stjórnvöldum til ráðgjafar í vinnumarkaðsmálum og eftir atvikum á öðrum sviðum samfélagsins. Með störfum sínum er Jafnréttisráði ætlað að skapa grundvöll að markvissri umræðu og umfjöllun í jafnréttismálum þannig að stjórnvöldum sé á hverjum tíma ljós staða kvenna og karla á vinnumarkaði og hvort þörf sé sérstakra aðgerða á ákveðnum sviðum samfélagsins.


II. KAFLI
Jafnréttisráð.
3. gr.
Starfsáætlun.

Eftir hverjar alþingiskosningar semur Jafnréttisráð sér starfsáætlun til loka skipunartíma síns. Áætlunin, sem ráðið endurmetur árlega, skal hafa að geyma megináherslur í starfsemi þess hverju sinni og einstök viðfangsefni sem ráðið hyggst vinna að á skipunartíma sínum.

Jafnréttisráð kynnir félagsmálaráðherra starfsáætlunina og ákveður í samráði við hann hvernig hún skuli að öðru leyti kynnt.


4. gr.
Verkefni.

Meginviðfangsefni Jafnréttisráðs eru á sviði vinnumarkaðsmála. Jafnréttisráð skal móta tillögur til stjórnvalda um aðgerðir til að jafna stöðu og rétt kvenna og karla á vinnumarkaðinum. Ráðið getur einnig gert tillögur um úrbætur í jafnréttismálum á öðrum sviðum samfélagsins.

Helstu verkefni ráðsins eru að:

  1. gefa umsögn um tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum áður en félagsmálaráðherra leggur hana fyrir Alþingi,
  2. afla upplýsinga og standa fyrir sjálfstæðum rannsóknum og athugunum á stöðu kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði,
  3. miðla athugunum sínum og rannsóknum til aðila vinnumarkaðarins og til þeirra sem hafa með vinnumarkaðs- og jafnréttismál að gera,
  4. halda ráðstefnur eða málþing þar sem markmiðið er að efla umræður um jafnréttismál og auka víðsýni og þekkingu á málaflokknum, og
  5. veita árlega í samstarfi við félagsmálaráðherra sérstaka jafnréttisviðurkenningu þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða samtökum sem hafa sýnt sérstaka og virðingarverða framtakssemi á sviði jafnréttismála.


5. gr.
Samstarfsaðilar og skrifstofuhald.

Jafnréttisráð starfar með Jafnréttisstofu, þeim aðilum sem tilnefna fulltrúa í ráðið og öðrum aðilum eftir því sem aðstæður krefjast hverju sinni.

Jafnréttisráð hefur starfsaðstöðu hjá Jafnréttisstofu. Ráðið getur eftir því sem fjárveitingar leyfa gert samning við Jafnréttisstofu um að starfsmenn hennar sinni einnig störfum fyrir ráðið eða ráði til sín starfsfólk til að vinna að einstökum verkefnum.


6. gr.
Upplýsingar um störf ráðsins.

Jafnréttisráð skal í lok hvers árs taka saman greinargerð um störf sín á árinu. Við lok hvers kjörtímabils tekur ráðið saman skýrslu um störf sín.

Jafnréttisráð skal senda félagsmálaráðherra árlegar greinargerðir sínar og skýrslu.


III. KAFLI
Gildistaka.
7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 7. gr. og 30. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, öðlast þegar gildi.


Félagsmálaráðuneytinu, 16. janúar 2003.

Páll Pétursson.
Guðrún A. Þorsteinsdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica