Félagsmálaráðuneyti

47/2003

Reglugerð um starfsemi Jafnréttisstofu.

I. KAFLI
Gildissvið og hlutverk.
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um starfsemi Jafnréttisstofu.


2. gr.
Hlutverk.

Hlutverk Jafnréttisstofu er að stuðla að því að markmið laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla náist ásamt því að hafa eftirlit með framkvæmd laganna.


II. KAFLI
Eftirlit með framkvæmd laganna.
3. gr.
Eftirlit.

Jafnréttisstofa skal hafa eftirlit með framkvæmd laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Þegar ætla má að ákvæði laganna hafi verið brotin skal framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu senda rökstudd tilmæli til hlutaðeigandi þar sem hvatt er til að ákvæði laganna verði virt.

Jafnréttisstofa skal veita ráðgjöf við úrlausn málsins.


4. gr.
Álitum kærunefndar jafnréttismála fylgt eftir.

Þegar liggur fyrir álit kærunefndar jafnréttismála þar sem nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi verið brotin skal framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu að fenginni beiðni frá kæranda senda áskorun til kærða um að fundin verði lausn í samræmi við álit nefndarinnar.


5. gr.
Mál fyrir kærunefnd jafnréttismála.

Framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu er heimilt þegar sérstaklega stendur á að óska eftir því við kærunefnd jafnréttismála að nefndin taki erindi til umfjöllunar hafi Jafnréttisstofu borist staðfestar upplýsingar um ætlað brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.


III. KAFLI
Jafnréttisfulltrúar og jafnréttisnefndir sveitarfélaga.
6. gr.
Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta.

Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu skal boða jafnréttisfulltrúa ráðuneyta saman til fundar eins oft og þurfa þykir en þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

Starfsmenn Jafnréttisstofu skulu vera jafnréttisfulltrúum ráðuneyta til ráðgjafar um störf þeirra á sviði jafnréttismála, meðal annars um samþættingu jafnréttissjónarmiða á verksviði viðkomandi ráðuneytis.


7. gr.
Árleg greinargerð jafnréttisfulltrúa.

Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu skal árlega óska eftir greinargerð um jafnréttisstarf hvers ráðuneytis. Í greinargerðinni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um aðferðir við samþættingu jafnréttissjónarmiða á verksviði viðkomandi ráðuneytis og þeirra stofnana sem undir ráðuneytið heyra, mat á áhrifum samþættingar, upplýsingar um hlutfall kvenna og karla í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum viðkomandi ráðuneytis og hlutfall kvenna og karla er starfa hjá ráðuneytunum og þeim stofnunum sem undir það heyra.

Jafnréttisstofa skal veita umsögn sína um sérhverja greinargerð til leiðbeiningar um frekari þróun í átt til jafnréttis og hvernig skuli viðhalda jafnrétti á verksviði hvers ráðuneytis.


8. gr.
Jafnréttisnefndir sveitarfélaga.

Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu skal árlega boða fulltrúa jafnréttisnefnda sveitarfélaga til fundar þar sem farið er yfir framgang mála á þeim sviðum er varða jafnrétti kvenna og karla hjá sveitarfélögunum.

Starfsmenn Jafnréttisstofu skulu vera jafnréttisnefndum sveitarfélaga til ráðgjafar um málefni er varða jafnrétti kvenna og karla, þar á meðal um samþættingu jafnréttissjónarmiða við ákvörðunartöku hjá sveitarfélaginu og sérstakar aðgerðir sem ætlaðar eru til að tryggja jafnrétti kynjanna innan sveitarfélagsins.


IV. KAFLI
Heimild til málshöfðunar.
9. gr.
Málshöfðunarheimild.

Jafnréttisstofa hefur heimild til að höfða mál fyrir íslenskum dómstólum til viðurkenningar á rétti kæranda á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að uppfylltum skilyrðum, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og 10. gr. reglugerðar þessarar.

Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu metur, að höfðu samráði við kæranda og með hliðsjón af umsögn kærunefndar jafnréttismála, hvort skilyrði málshöfðunar, sbr. 11. gr., svo og skilyrði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og reglugerðar þessarar sé fullnægt.


10. gr.
Takmörkun á heimild til málshöfðunar.

Jafnréttisstofu er einungis heimilt að höfða viðurkenningarmál þegar:

  1. ætla má að kæruefni hafi almennt fordæmisgildi á sviði jafnréttis kynjanna,
  2. mikilvægt er að fá túlkun dómstóla á lagahugtökum til að greiða fyrir framkvæmd laganna.


11. gr.
Skilyrði málshöfðunar.

Álit kærunefndar jafnréttismála skal liggja fyrir um kæruefnið áður en mál er höfðað þar sem nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi verið brotin.

Áður en mál er höfðað skal Jafnréttisstofa ganga úr skugga um að kærði hafi ekki farið að tilmælum kærunefndar jafnréttismála um úrbætur í hlutaðeigandi máli, þrátt fyrir áskorun framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu þar um, sbr. 4. gr.


12. gr.
Undirbúningur að ákvörðun um málshöfðun.

Jafnréttisstofa skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um málshöfðun er tekin svo unnt sé að meta hvort skilyrði málshöfðunar séu uppfyllt.


13. gr.
Kostnaður.

Kostnaður af málshöfðun skv. 5. mgr. 3. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og IV. kafla reglugerðar þessarar greiðist af Jafnréttisstofu.


V. KAFLI
Mismunun.
14. gr.
Bann við mismunun.

Hvers kyns mismunun eftir kynferði, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil.


15. gr.
Bein mismunun.

Bein mismunun er hvers kyns aðgreining, útilokun eða takmörkun sem byggð er á kynferði sem hefur þau áhrif eða markmið að hindra eða koma í veg fyrir að annað kynið fái viðurkennd, geti notið eða framfylgt mannréttindum og grundvallarfrelsi á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, menningarmála, borgaralegra mála eða á sérhverju öðru sviði.


16. gr.
Óbein mismunun.

Óbein mismunun er fyrir hendi þegar hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun kemur hlutfallslega verr við annað kynið nema slíkt sé viðeigandi, nauðsynlegt eða réttlætanlegt vegna hlutlægra þátta óháð kyni.


VI. KAFLI
Gildistaka.
17. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 5. mgr. 3. gr. og 30. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, öðlast þegar gildi. Með setningu hennar er einnig verið að innleiða tilskipun Evrópusambandsins nr. 97/80/EB, um sönnunarbyrði í málum er varða mismunun vegna kynferðis, sem vísað er til í 21. lið a XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 43/1999.


Félagsmálaráðuneytinu, 16. janúar 2003.

Páll Pétursson.
Guðrún A. Þorsteinsdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica