Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

730/2001

Reglugerð um fráveitu í Kópavogsbæ.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um fráveitu í lögsagnarumdæmi Kópavogs.

2. gr.

Kópavogsbær starfrækir fráveitu í bæjarfélaginu.

Bæjarstjórn ákveður framkvæmdir við fráveituna og veitir árlega fé á fjárhagsáætlun til framkvæmda, reksturs og viðhalds sem bæjarsjóður kostar.

Tæknideild bæjarins fer með umsjón, hönnun, framkvæmdir og rekstur fráveitu bæjarins í umboði bæjarstjórnar og undir yfirumsjón bæjarverkfræðings.

3. gr.

Fráveitan veitir fráveituvatni um fráveitulagnir frá byggð til viðtaka.

Einföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni saman í eina fráveitulögn og kallast það blandkerfi, en tvöföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni í tveimur aðskildum fráveitulögnum í tvískiptu kerfi.

Bæjarsjóður á allar holræsalagnir fráveitunnar, stofnræsi, götuholræsi, ofanvatnsræsi í götum og opnum svæðum og götufráræsi að fráræsum húseigna. Enn fremur allan fráveitubúnað, brunna, niðurföll, léttivirki, dælustöðvar, hreinsistöðvar, þrýstilagnir, útræsi og útrásir.

4. gr.

Þar sem fráveita bæjarins nær til skal húseigendum séð fyrir götufráræsi frá götuholræsi eða ræsum að lóðamörkum húseigna. Þar sem fráveitulögn liggur um lóðir skal séð fyrir tengigrein inn á lögnina eða tengigreinum þegar um tvískipt kerfi er að ræða.

Þegar um fjölbýlis- eða raðhúsalóðir er að ræða er heimilt að leggja kvöð á lóðirnar um sameiginleg fráræsi til tengingar við götufráræsi á einum stað.

Tæknideild bæjarins ákveður legu götufráræsa og tengigreina.

5. gr.

Húseigendum sem eiga fasteignir við vegi eða opin svæði, þar sem fráveita bæjarins liggur, er skylt að leggja á sinn kostnað fráræsi frá eignum sínum og tengja þau við fráveituna, þ.e. götufráræsi eða tengigreinar inni á lóð. Þegar fráveitukerfið er tvískipt skulu húseigendur halda skólpi og ofanvatni aðskildu í tvöfaldri fráræsalögn og tengja hvora lögn fyrir sig í samsvarandi lagnir í tvískiptri fráveitu bæjarins. Ræsivatn skal leiða í ofanvatnslagnir.

6. gr.

Þegar ekki er unnt að ná nægilegum halla á fráræsi húseignar að fráveitu bæjarins skal húseigandi leiða fráveituvatn frá húseigninni að safnbrunni með sjálfvirkum dælubúnaði sem dælir fráveituvatninu upp í fráveitulögn bæjarins eða að brunni á þannig stað að hægt sé að veita fráveituvatninu frá honum eftir sjálfstreymisleiðslu í fráveitu bæjarins.

7. gr.

Þar sem fráveita bæjarins nær ekki til skulu húseigendur leiða fráveituvatn frá ræsum húseigna um rotþrær og siturleiðslur að viðtaka.

Þegar fráveita bæjarins hefur verið lögð skulu húseigendur kosta og leggja fráræsi húseigna og tengja þau við hina nýju fráveitu.

8. gr.

Þegar tengja á fráræsi húseigna við fráveitu bæjarins eða veita fráveituvatni frá þeim um rotþró, sé annars ekki kostur, skal það gert samkvæmt teikningum samþykktum af byggingarfulltrúa. Verkið skal unnið af löggiltum pípulagningameistara.

Þegar um rotþrær er að ræða skulu fylgja teikningar er sýni gerð þeirra og staðarval og siturleiðslur að viðtaka, auk teikninga af fráveitulögnum húsa og lóða.

Rotþró skal valinn þannig staður að auðvelt sé að komast að henni með tæki til hreinsunar.

9. gr.

Teikningar skulu fylgja almennum reglum um hönnun fráveitulagna í húsum, svo og öðrum reglum sem um þær kunna að verða settar, sbr. byggingarreglugerð og byggingarskilmála.

10. gr.

Byggingarfulltrúi bæjarins skal hafa eftirlit með því að fráveitulagnir frá húseignum séu lagðar samkvæmt samþykktum teikningum og reglum. Áður en lagnir eru huldar skal byggingarfulltrúi einnig taka út og viðurkenna fráræsi frá húseignum og tengingar þeirra við fráveitu bæjarins eða rotþrær. Með vísan til reglugerðar um fráveitur og skólp nr. 798/1999 skal byggingarfulltrúi, þegar ástæður þykja til, hafa samráð við heilbrigðisnefnd.

11. gr.

Leigutökum lóða og eigendum lands er skylt að hlíta því að lagnir fráveitu bæjarins séu lagðar um lóðir þeirra eða lönd og að fram fari á þeim nauðsynlegt viðhald. Kópavogsbæ er skylt, í viðhaldsframkvæmdum, að halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um og færa allt til fyrra horfs að aðgerðum loknum eins og við verður komið.

12. gr.

Hverjum þeim sem á fasteign í Kópavogi, á lóð eða leigir lóð í bænum við götu eða opið svæði, þar sem fráveituleiðslur Kópavogsbæjar liggja eða leiðir fráveituvatn í fráveitukerfi bæjarins ber að greiða árlegt fráveitugjald til bæjarsjóðs Kópavogs. Gjaldinu skal varið til þess að standa straum af kostnaði við fráveitu bæjarins, þ.e. nýframkvæmdir, rekstur og viðhald, svo og kostnaði vegna fébóta fyrir fráveitumannvirki á eignarlandi, afskrifta og framlaga í sjóð vegna fyrirsjáanlegra síðari framkvæmda og endurbóta.

Eigendur fasteigna sem ekki eiga þess kost að tengja fráræsi húseigna sinna við fráveitu bæjarins eru undanþegnir fráveitugjaldi.

13. gr.

Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera fasteignamat húsa, mannvirkja, lóða og landa nema annað verði ákveðið með reglugerð. Fráveitugjald skal miðast við ákveðinn hundraðshluta af álagningarstofni til fasteignaskatts samkvæmt gjaldskrá sem bæjarstjórn setur og ráðuneytið staðfestir.

14. gr.

Heimilt er bæjarstjórn að lækka eða fella niður fráveitugjald til elli- og örorkulífeyrisþega og annarra tekjulítilla gjaldenda skv. 2. mgr. 87. gr. vatnalaga, sbr. lög nr. 137/1995.

15. gr.

Gjalddagar fráveitugjalds skulu vera þeir sömu og bæjarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu þess hagað á sama hátt og innheimtu fasteignagjalda.

Skráður eigandi fasteignar ber ábyrgð á greiðslu fráveitugjalds.

16. gr.

Fráveitugjald má innheimta með lögtaki og er það tryggt með lögveðsrétti í viðkomandi eign næstu tvö ár eftir gjalddaga, með forgöngurétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.

17. gr.

Brot á reglugerð þessari varðar sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum. Mál varðandi brot á reglugerð þessari skal farið með að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi, sem sett er af bæjarstjórn Kópavogsbæjar skv. X. kafla vatnalaga, nr. 15/1923, staðfestist hér með til að öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um holræsagerð í Kópavogi, nr. 19/1955.

Félagsmálaráðuneytinu, 20. september 2001.

F. h. r.
Berglind Ásgeirsdóttir.

Guðjón Bragason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.