Félagsmálaráðuneyti

895/2000

Reglugerð um holræsi í Djúpavogshreppi

1. gr.

Þegar Djúpavogshreppur hefur látið leggja holræsi í veg, götu eða annað opið svæði eða þar sem sveitarfélagið hefur tekið að sér viðhald og endurnýjun holræsa er þeim húseigendum, er þar eiga húseignir að eða í námunda við og til holræsa geta náð, skylt að leggja á sinn kostnað holræsi frá húsinu er flytji allt skólp frá því út í aðalræsið. Regnvatn af húsum og lóðum skal einnig, ef unnt er, leiða í ræsið eða í sérstakt holræsi fyrir ofanjarðarvatn, ef gert er, samkvæmt fyrirmælum byggingarfulltrúa. Vanræki einhver að láta gera nýtt holræsi eða endurnýja eldra, innan hæfilegs frests sem byggingarfulltrúi ákveður, getur sveitarfélagið látið vinna verkið á kostnað húseiganda.

 

2. gr.

Djúpavogshreppur lætur leggja holræsastúta út frá aðalræsi í nýjum götum. Skulu stútar þessir ná út fyrir götu að lóðarmörkum húsa. Heimlagnir og viðhald þeirra eru á kostnað húseiganda. Við raðhús eða fjölbýlishús skal um holræsastúta fara eftir nánari skilmálum um lóðaúthlutun.

 

3. gr.

Sveitarstjóri og byggingarfulltrúi, undir yfirstjórn sveitarstjórnar, fara með stjórn framkvæmda er holræsakerfi sveitarfélagsins varðar. Heimilt er sveitarstjóra að fela sérstökum umsjónarmanni yfirumsjón holræsiskerfisins. Áður en húseigandi byrjar að leggja holræsi sitt skal fá samþykki umsjónarmanns þar til. Skal húseigandi leggja fram teikningar af frárennsliskerfi sínu ef krafist verður. Skylt er húseiganda að hlýða fyrirmælum umsjónarmanns á öllu því er að tilhögun og lagningu ræsanna lýtur, enda hafi starfsmenn sveitarfélagsins ávallt eftirlit með því að vel og örugglega sé frá öllu gengið.

 

4. gr.

Allt efni sem notað er til holræsagerðar skal standast kröfur byggingarreglugerðar en auk þess getur byggingarnefnd sett reglur um sérstaka hreinsibrunna á holræsakerfi húseiganda þar sem ástæða þykir til.

 

5. gr.

Bannað er að láta renna í holræsakerfið sýrur, olíur eða önnur efni sem valdið geta skemmdum á holræsakerfinu eða varanlegri mengun, samanber mengunarvarnareglugerð.

 

6. gr.

Kostnaður við aðalholræsakerfið greiðist úr sveitarsjóði en til að standast þann kostnað er húseigendum, sem hús eiga við veg, götu eða svæði þar sem holræsi er lagt í, skylt að greiða árlega holræsagjald sem nemur 0,20% af hinu opinbera fasteignamati húss og lóðar eins og það er reiknað á hverjum tíma. Undanþágu frá greiðslu hins almenna fasteignaskatts skapar ekki undanþágu frá greiðslu holræsagjalds.

 

7. gr.

Holræsagjaldið greiðist af húseiganda og er hann einn ábyrgur fyrir greiðslu þess gagnvart sveitarsjóði. Kröfur sem sveitarsjóður kann að öðlast samkvæmt reglugerð þessari má taka lögtaki á kostnað gjaldanda og eru gjöld þessi tryggð með lögveði í húseigninni í næstu 2 ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði. Gjalddagar holræsagjalda eru hinir sömu og annarra fasteignagjalda ár hvert.

 

8. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

 

Reglugerð þessi sem samin er og samþykkt af sveitarstjórn Djúpavogshrepps staðfestist hér með samkvæmt vatnalögum nr. 15/1923 til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um holræsi í Búlandshreppi nr. 558/1987.

 

Félagsmálaráðuneytinu, 30. nóvember 2000.

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson.

Guðjón Bragason.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica