Félagsmálaráðuneyti

231/2001

Reglugerð um útgáfu húsbréfa á árinu 2001 fyrir Íbúðalánasjóð.

1. gr.

Félagsmálaráðherra hefur ákveðið, á grundvelli laga um húsnæðismál nr. 44/1998, að Íbúðalánasjóður gefi út 1. og 2. flokk húsbréfa 2001.

Húsbréf beggja flokkanna skulu rafrænt eignarskráð hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf. og er grunneining flokkanna kr. 1. Vextir í 1. og 2. flokki 2001 eru 4,75%á ári. Lánstími bréfa í 1. flokki skal vera 25 ár og í 2. flokki 40 ár.

Samanlögð fjárhæð samþykktra skuldabréfaskipta úr 1. og 2. flokki 2001 ásamt 1. og 2. flokki 1998 skal ekki fara umfram 26.700 milljónir króna á árinu 2001 m.v. reiknað markaðsvirði húsbréfanna.

Reiknað markaðsvirði skal ákvarðað þannig að mánaðarlega verði fundið sennilegt nafnverð þeirra húsbréfa, sem skipta á fyrir fasteignaveðbréf og skal það ákvarðast með hliðsjón af meðaltali reiknaðs verðs húsbréfa í viðkomandi mánuði. Þannig fundið reiknað nafnverð húsbréfa skal síðan reikna til markaðsvirðis miðað við meðalviðskiptaverð viðkomandi flokks á Verðbréfaþingi Íslands. Hafi engin viðskipti átt sér stað með viðkomandi húsbréfaflokk í þeim mánuði, sem útreikningar ná til, skal reikna meðalviðskiptaverð út frá ávöxtunarkröfu sambærilegs húsbréfaflokks á Verðbréfaþinginu.


2. gr.

Húsbréf eru greiðsla Íbúðalánasjóðs við kaup sjóðsins á fasteignaveðbréfum.


3. gr.

Húsbréfin skulu rafrænt eignarskráð hjá Verðbréfaskráningu Íslands hf. og skulu vera skráð þar á nafni og kennitölu eigenda þeirra. Meðferð húsbréfa sem rafbréfa skal vera í samræmi við lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa nr. 131/1997 með síðari breytingum.


4. gr.

Húsbréf eru verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs skv. lögum um vísitölu neysluverðs nr. 12/1995 og vaxtalögum nr. 25/1987, með síðari breytingum. Grunnvísitala flokkanna er vísitala marsmánaðar 2001.


5. gr.

Íbúðalánasjóður greiðir verðbætur á höfuðstól, vexti og vaxtavexti húsbréfa skv. breytingum á vísitölu neysluverðs frá útgáfudegi bréfanna, 15. mars 2001 til gjalddaga. Höfuðstóll, verðbætur, vextir og vaxtavextir greiðast eftir á í einu lagi. Nafnvextir eru óbreytanlegir allan tímann og reiknast frá útgáfudegi 15. mars 2001.


6. gr.

Íbúðalánasjóður innleysir og endurgreiðir húsbréf flokkanna að fullu skv. útdrætti á föstum gjalddögum, sem eru 15. mars, 15. júní, 15. september og 15. desember ár hvert. Fyrsti gjalddagi er 15. september 2001. Húsbréfaflokkunum skal lokað eigi síðar en 15. júní 2003. Dregin verða út húsbréf úr gildum óinnleystum húsbréfum, sem afgreidd hafa verið daginn fyrir gjalddaga. Í hverjum útdrætti er heimilt að draga út húsbréf fyrir þá fjárhæð, sem svarar næst til endurgreiðslu jafngreiðsluláns með þeim vöxtum sem um flokkana gilda, lánstíma sem eftir er og eftirstöðvum.

Verði húsbréf ekki dregin út, greiðast þau að fullu á lokagjalddaga. Lokagjalddagi 1. flokks er 15. mars 2026 og 2. flokks 15. mars 2041. Húsbréf verða ekki innleyst að hluta.


7. gr.

Útdráttur fer fram hjá Raunvísindastofnun Háskólans að viðstöddum fulltrúa Íbúðalánasjóðs undir umsjón lögbókanda.


8. gr.

Allar kröfur á grundvelli húsbréfa fyrnast sé þeim ekki lýst hjá Íbúðalánasjóði innan 10 ára frá gjalddaga, hvort sem um útdrátt á föstum gjalddaga eða lokagjalddaga er að ræða. Gjaldfallnar endurgreiðslur húsbréfa bera ekki vexti eða verðbætur eftir gjalddaga.


9. gr.

Skattskylda eða skattfrelsi húsbréfa, vaxta og verðbóta af þeim, fer samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981, með síðari breytingum.


10. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 22. gr. og 29. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998 öðlast þegar gildi.


Félagsmálaráðuneytinu, 22. mars 2001.

Páll Pétursson.
Ingi Valur Jóhannsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica