Félagsmálaráðuneyti

210/2001

Reglugerð um holræsi í Breiðdalshreppi. - Brottfallin

Felld brott með samþykkt nr. 347/2005
1. gr.

Þegar Breiðdalshreppur hefur látið leggja holræsi í veg, götu eða annað opið svæði, eða þar sem hreppurinn hefur tekið að sér viðhald og endurnýjun holræsa, er þeim húseigendum er þar eiga húseignir að eða í námunda við og til holræsa geta náð skylt að leggja á sinn kostnað holræsi frá húsinu er flytji allt skólp frá því út í aðalræsið. Regnvatn af húsum og lóðum skal einnig, ef unnt er, leiða í ræsið eða í sérstakt holræsi fyrir ofanjarðarvatn, ef gert er, samkvæmt fyrirmælum byggingarfulltrúa. Vanræki einhver að láta gera nýtt holræsi eða endurnýja eldra, innan hæfilegs frests sem byggingarfulltrúi ákveður, getur hreppurinn látið vinna verkið á kostnað húseiganda.


2. gr.

Breiðdalshreppur lætur leggja holræsastúta út frá aðalræsi í nýjum götum. Skulu stútar þessir ná út fyrir götu að lóðarmörkum húsa. Heimlagnir og viðhald þeirra eru á kostnað húseiganda. Við raðhús eða fjölbýlishús skal um holræsastúta fara eftir nánari skilmálum um lóðaúthlutun.


3. gr.

Sveitarstjóri og byggingarfulltrúi, undir yfirstjórn hreppsnefndar, fara með stjórn framkvæmda er holræsakerfi hreppsins varðar. Heimilt er sveitarstjóra að fela sérstökum umsjónarmanni yfirstjórn holræsakerfisins. Áður en húseigandi byrjar að leggja holræsi sitt skal fá samþykki umsjónarmanns þar til. Skal húseigandi leggja fram teikningar af frárennsliskerfi sínu, ef krafist verður. Skylt er húseiganda að hlýða fyrirmælum umsjónarmanns á öllu því er að tilhögun og lagningu ræsanna lýtur, enda hafi starfsmenn hreppsins ávallt eftirlit með því að vel og örugglega sé frá öllu gengið.


4. gr.

Allt efni sem notað er til holræsagerðar skal standast kröfur byggingarsamþykktar, en auk þess getur byggingarnefnd sett reglur um sérstaka hreinsibrunna á holræsakerfi húseiganda þar sem ástæða þykir til.


5. gr.

Bannað er að láta renna í holræsakerfið sýrur, olíur eða önnur efni sem valdið geta skemmdum á holræsakerfinu eða varanlegri mengun.


6. gr.

Kostnaður við aðalholræsakerfið, þar með taldar rotþrær, greiðist úr sveitarsjóði. Hverjum þeim sem á hús eða húshluta á Breiðdalsvík eða leigir lóð í sveitarfélaginu við götu eða opið svæði sem holræsi hefur verið lagt í ber að greiða árlegt holræsagjald til sveitarsjóðs. Gildir einu hvort holræsið er leitt á haf út eða tengt rotþró.

Upphæð holræsagjaldsins skal vera 0,15% af fasteignamati allra húsa og lóða samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976, með síðari breytingum. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki holræsagjald.


7. gr.

Holræsagjald greiðist af hús- og íbúðareiganda, lóðareiganda ef um eignarlóð er að ræða en af leigutaka ef um leigulóð er að ræða og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Holræsagjaldið má taka lögtaki og má gera lögtak í hinni skattskyldu eign án tillits til eigendaskipta. Nýtur holræsagjaldið lögveðsréttar í lóð og mannvirkjum næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.

Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður holræsagjald tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega.

Gjalddagar holræsagjalds eru þeir sömu og gjalddagar fasteignaskatta og greiðist holræsagjaldið með fasteignasköttum.


8. gr.

Brot gegn reglugerð þessari geta varðað sektum eða varðhaldi. Með brot skal farið að hætti laga um meðferð opinberra mála.


Reglugerð þessi sem samin er og samþykkt af sveitarstjórn Breiðdalshrepps staðfestist hér með samkvæmt X. kafla vatnalaga nr. 15/1923 til þess að öðlast gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um holræsi í Breiðdalshreppi nr. 302/1984.


Félagsmálaráðuneytinu, 28. febrúar 2001.

F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson.
Guðjón Bragason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica