Félagsmálaráðuneyti

635/1994

Reglugerð um gatnagerðargjöld í Keflavík-Njarðvík-Höfnum. - Brottfallin1. gr.

Af öllum nýbyggingum svo og stækkunum eldri húsa, hvort sem er á eignar- eða leigulóð í Keflavík-Njarðvík-Höfnum, skal greiða gatnagerðargjald til bæjarsjóðs samkvæmt reglugerð þessari.

2. gr.

Af hverjum rúmmetra húss greiðist ákveðinn hundraðshluti byggingarkostnaðar pr. rúmmetra, eins og hann er hverju sinni á vísitöluhúsinu samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands, að frádregnum kostnaði við gatnagerð pr. rúmmetra. Hundraðshluti byggingar­kostnaðar ákvarðast eftir hústegundum svo sem hér segir:

Einbýlishús ..................................................................................... 7,0 %

Rað- og sambýlishús (mest 4 íbúðir) .............................................. 4,5 %

Fjölbýlishús (5 íbúðir eða fleiri) ..................................................... 2,5 %

Verslunar- og skrifstofuhús ............................................................. 2,5 %

Iðnaðar-, atvinnu- og geymsluhús ................................................... 2,5 %

Annað húsnæði ............................................................................... 2,5 %

Rúmmál húss reiknast frá neðstu grunnplötu. Bílgeymslur og önnur útihús skal telja með við útreikning á rúmmáli húsa.

Af viðbyggingum íbúðarhúsa í eldri hverfum skal greiða 50% af venjulegu rúmmetra­gjaldi.

Af endurbyggingu þaka íbúðarhúsa, án aukningar á nýtingu, skal greiða 15% af venjulegu gjaldi.

Af gluggalausu kjallararými íbúðarhúsa, sem myndast þegar hagkvæmara er að grafa út grunn en fylla hann upp, skal greiða 25% af venjulegu rúmmetragjaldi, enda sé aðeins gengt í það rými innan frá. Af sameiginlegum bílageymslum sem byggðar eru samkvæmt skipulags-skilmálum og koma í stað bifreiðastæða skal greiða 25% af rúmmetragjaldi þeirra húsa er þær þjóna.

Í iðnaðarhúsnæði sem vegna starfsemi sinnar þarf meira en 5,5 m lofthæð skal hámarks-lofthæð að jafnaði reiknast 5,5 m við útreikning rúmmetragjalds.

Gjald skal miða við stærð húss samkvæmt samþykktum uppdráttum. Nú er ekki fyrir­liggjandi samþykktur uppdráttur og skal þá miða við eftirfarandi lágmarksstærðir fyrir hverja íbúð í húsi:

Einbýlishús ..................................................................................... 500 m3

Rað- og sambýlishús (mest 4 íbúðir), hver íbúð ............................. 400 m3

Fjölbýlishús (5 íbúðir eða fleiri), hver íbúð .................................... 300 m3

Í atvinnuhúsnæði skal við útreikning rúmmáls til gatnagerðargjalds miðað við lofthæð 3,5 m nema uppdráttur sýni annað. Áætla skal nýtingarhlutfall lóðar 0,3 - 0,5 eftir nánari ákvörðun byggingarnefndar hverju sinni, ef það er ekki bundið að öðru leyti í samþykktu deiliskipulagi. Framangreindar reglur gilda ef hús er stækkað, að því er til stækkunarinnar tekur.

3. gr.

Bæjarráði er heimilt að hækka eða lækka gatnagerðargjald, útreiknað skv. 2. gr., um allt að 35% vegna breytilegs kostnaðar við undirbyggingu og frágang gatna eftir hverfum, m.a. vegna kostnaðar við land, jarðvegsdýpt, stærð lóðar við götu, þversnið lóðafrágangs o.fl.

4. gr.

Ef lóðarhafi rífur gamalt hús og byggir stærra hús á sömu lóð skal gjald skv. 2. gr. vera rúmmetragjald nýja hússins að frádregnum rúmmetrum þess húss, sem fjarlægt er. Sama gildir ef hús brennur og byggt er að nýju á sömu lóð. Bæjarráði er heimilt að víkja frá ákvæði þessarar greinar.

5. gr.

Greiða skal 50% áætlaðs gatnagerðargjalds innan eins mánaðar frá lóðarveitingu og eftirstöðvar þegar byggingarleyfi er veitt.

Bæjarráð getur veitt sérstakan greiðslufrest á gatnagerðargjaldi tengdu veitingu byggingarleyfis, samkvæmt sérstökum greiðslusamningi sem kveður á um skilmála og greiðslukjör.

6. gr.

Sé gatnagerðargjald ekki greitt í samræmi við ákvæði S. gr. fellur lóðarúthlutun sjálfkrafa úr gildi og getur bæjarráð þá úthlutað lóðinni á ný.

7. gr.

Ef lóðarhafi ætlar að byggja á lóð í áföngum getur bæjarráð heimilað að greitt verði gatnagerðargjald af fyrirhuguðum mannvirkjum samkvæmt áfangaskiptingu, en þá skal endanlegt gatnagerðargjald vera rúmmetragjald, sem í gildi er þegar byggingarleyfi hvers áfanga er útgefið. Umsækjandi skal taka það sérstaklega fram í umsókn um úthlutun lóðar, að hann hyggist reisa fyrirhugaða byggingu í áföngum.

8. gr.

Óski lóðarhafi að skila lóð,á hann rétt á endurgreiðslu á greiddu gatnagerðargjaldi miðað við gildandi reglugerð hverju sinni að frádregnum 5%, sem bæjarsjóður heldur eftir. Heimilt er að fresta endurgreiðslu uns lóðin hefur verið veitt að nýju, þó ekki lengur en 6 mánuði frá því lóðinni var skilað. Sama gildir ef lóð er tekin af lóðarhafa vegna vanefnda hans á skilmálum.

9. gr.

Bæjarráði er heimilt að fella niður gatnagerðargjald bygginga á vegum Sambands sveitar- félaga á Suðurnesjum, fyrirtækja þeirra, svo og líknarfélaga og annarra sambærilegra félaga.

Bæjarráð getur ákveðið gatnagerðargjald sérstaklega í þeim tilvikum er byggingar falla ekki undir ákvæði reglugerðar þessarar.

10. gr.

Gatnagerðargjaldi fylgir lögveð í fasteign þeirri sem lagt er á og gengur það ásamt vöxtum og kostnaði fyrir öllum veðkröfum, sem á eigninni hvíla og tekur einnig til vátryggingarfjár hennar.

Reglugerð þessi sem samin er og samþykkt af bæjarstjórn Keflavíkur-Njarðvíkur­Hafna (sveitarfélags þess sem til varð við sameiningu Keflavíkurkaupstaðar, Njarðvíkurkaupstaðar og Hafnahrepps), staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 51/1974 um gatnagerðargjöld, sbr. lög nr. 31/1975, til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglugerðir nr. 187/1988 um gatnagerðargjöld í Njarðvíkurkaupstað og nr. 97/1987 um gatnagerðargjöld í Keflavíkur-kaupstað, sbr. reglugerð nr 150/1994.

Félagsmálaráðuneytið, 7. desember 1994.

F. h. r

Húnbogi Þorsteinsson

Sesselja Árnadóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica