Félagsmálaráðuneyti

233/1996

Reglugerð um leyfi til að gera eignaskiptayfirlýsingar.

I. KAFLI
Prófnefnd.
1. gr.

Félagsmálaráðherra skal skipa prófnefnd eignaskiptayfirlýsinga, í reglugerð þessari eftirleiðis nefnd prófnefnd, sem standa skal fyrir námskeiði og prófi, samkvæmt ákvæðum 7. mgr. 16. gr. a, laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. 2. gr. laga nr. 136/1995. Nefnist próf þetta eignaskiptayfirlýsingapróf.

Í prófnefnd skulu eiga sæti þrír menn, sem skipaðir eru til fjögurra ára í senn. Skal a.m.k. einn prófnefndarmaður vera lögfræðingur og annar sérfróður um byggingarmálefni.

Varamenn skal skipa með sama hætti.

2. gr.

Prófnefnd heldur gerðabók. Í hana skal færa ákvarðanir nefndarinnar og niðurstöður prófa.

II. KAFLI
Námskeið.
3. gr.

Prófnefnd skal á hæfilegum fresti stofna til námskeiða til undirbúnings fyrir þá sem þreyta vilja eignaskiptayfirlýsingapróf.

Prófnefnd ákveður nánar hvar og hvenær námskeið skuli haldin.

Prófnefnd skal auglýsa námskeið opinberlega með hæfilegum fyrirvara. Þrátt fyrir auglýsingu um námskeið er eigi skylt að efna til þess nema næg þátttaka fáist að mati prófnefndar. Að jafnaði skal ekki halda námskeið nema þátttakendur verði tíu hið fæsta.

4. gr.

Kennslugreinar og námsefni skal miðast við að þátttakendur öðlist staðgóða þekkingu á fjöleignarhúsalöggjöfinni, byggingarlöggjöfinni, lögum um skráningu og mat fasteigna, þinglýsingalögum og annarri löggjöf er máli skiptir, ÍST 50 um flatarmál og rúmmál bygginga, skráningarreglum Fasteignamats ríkisins og byggingarfulltrúa, frágangi teikninga og lóðauppdrátta og kunnáttu í að beita gildandi útreikningsreglum og aðferðum.

Prófnefnd ákveður nánar kennslugreinar, tímafjölda í einstökum kennslugreinum og námsefni. Prófnefnd skal semja kennsluáætlun sem félagsmálaráðherra staðfestir.

5. gr.

Prófnefnd ræður kennara til að annast kennslu á námskeiðum, en félagsmálaráðherra ákveður ráðningarkjör.

Prófnefnd er heimilt, að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið, að standa fyrir gerð og útgáfu sérstaks námsefnis vegna námskeiðahaldsins.

6. gr.

Þátttakendur skulu greiða námskeiðsgjald til að standa straum af kostnaði við námskeið og próf. Námskeiðsgjald skal greitt þegar skráning á námskeið fer fram.

Fjárhæð námskeiðsgjalds skal ákveðin af félagsmálaráðherra hverju sinni, að fenginni tillögu prófnefndar.

Námskeiðsgjald er endurkræft verði ekki af námskeiði, eða ef sá sem innritast hefur, fellur frá þátttöku áður en námskeið hefst.

III. KAFLI
Próf.
7. gr.

Námskeiði lýkur með eignaskiptayfirlýsingaprófi. Próf getur falist í úrlausn raunhæfra verkefna.

8. gr.

Prófgreinar skulu miðast við kennslugreinar og námsefni á námskeiði skv. II. kafla. Prófnefnd ákveður nánar úr hvaða námsefni prófað er.

9. gr.

Prófnefnd stendur fyrir prófum og ákveður hvar og hvenær próf skuli haldin.

Próf skulu að jafnaði vera skrifleg. Prófmaður skal hafa a.m.k. 4 klst. til að vinna að úrlausn sinni. Prófnefnd ákveður nánar próftíma fyrir hvert próf.

10. gr.

Kennari, sem annast hefur kennslu á námskeiði skv. II. kafla, semur, fer yfir og gefur einkunnir vegna prófverkefnis í viðkomandi grein, sbr. þó 8. gr.

Prófmaður á rétt á að fá útskýringar kennara á mati úrlausnar sinnar, ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji prófmaður, sem ekki hefur staðist próf, þá eigi una mati kennarans, getur hann skotið því til endurmats prófnefndar. Mat prófnefndar á úrlausn eða staðfesting á einkunn kennara er endanleg.

Einkunnir skulu gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0 til 10. Til þess að standast próf þarf prófmaður að hljóta einkunnina 7,0. Standist prófmaður ekki próf getur hann sótt um að endurtaka það einu sinni, enda hafi umsókn borist prófnefnd innan 45 daga frá því að einkunnir voru birtar. Einnig er prófmanni heimilt að þreyta próf næst þegar reglulegt próf er haldið, án þess að sækja námskeið, þó ekki oftar en einu sinni.

Prófnefnd skal staðfesta með skírteini að prófmaður hafi staðist eignaskiptayfirlýsingapróf.

IV. KAFLI
Lagaheimild og gildistaka.
11. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 7. mgr. 16. gr. a. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. 2. gr. laga nr. 136/1995, öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytinu, 9. apríl 1996.

Páll Pétursson.
Berglind Ásgeirsdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica