Félagsmálaráðuneyti

71/2001

Reglugerð um holræsi og holræsagjöld í Hólmavíkurhreppi.

1. gr.

Hólmavíkurhreppur hefur einn heimild til að ákveða hver leggur holræsi í Hólmavíkurhreppi.


2. gr.

Þar sem hreppsnefnd hefur látið leggja holræsi í götu, veg eða opið svæði, er hverjum húseiganda sem á lóð þar að skylt að leggja á sinn kostnað ræsi frá húsinu sem flytji skólp þaðan út að aðalræsi. Einnig er húseiganda skylt að halda við heimæð sinni. Regnvatn af húsi eða lóð skal, að svo miklu leyti sem unnt er, leitt í húsræsið. Ef húseigandi vanrækir að leggja holræsi innan hæfilegs frests sem hreppsnefnd tiltekur skal verkið unnið á hans kostnað.

Greiða skal 7.700 kr. í tengigjald.


3. gr.

Áður en húseigandi byrjar að leggja holræsi skal hann leggja fram uppdrátt af holræsalögn innanhúss og í grunni er sýni legu, halla og stærð, gerð og annað því viðkomandi.

Aðeins pípulagningameistara, verkstjóra hreppsins, eða öðrum sem hreppsnefnd hefur samþykkt, skal heimilt að leggja holræsalagnir. Engar lagnir má hylja fyrr en byggingafulltrúi hefur samþykkt þær.


4. gr.

Allt efni sem notað er til holræsagerðar skal standast þær kröfur sem gerðar eru í byggingasamþykkt en auk þess getur hreppsnefnd sett reglur um holræsaefni, t.d. ef um nýjungar á því sviði er að ræða. Hreppsnefnd getur gert kröfur um sérstaka hreinsibrunna á holræsakerfi þar sem ástæða þykir til.


5. gr.

Bannað er að láta renna í holræsakerfið sýrur, sterkan lút, olíur, kvikasilfur eða önnur efni sem geta valdið skemmdum á holræsakerfinu eða varanlegri mengun.


6. gr.

Hverjum þeim sem á hús eða húshluta í Hólmavíkurhreppi eða leigir lóð í sveitarfélaginu við götu eða opið svæði sem holræsi hefur verið lagt í ber að greiða árlegt holræsagjald til sveitarsjóðs.

Upphæð holræsagjaldsins skal vera 0,20% af fasteignamati allra húsa og lóða samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976, með síðari breytingum. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki holræsagjald.


7. gr.

Holræsagjald greiðist af hús- og íbúðareiganda, lóðareiganda ef um eignarlóð er að ræða, en af leigutaka ef um leigulóð er að ræða og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Holræsagjaldið má taka lögtaki og má gera lögtak í hinni skattskyldu eign án tillits til eigendaskipta. Nýtur holræsagjaldið lögveðréttar í lóð og mannvirkjum næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.


8. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal fara að hætti opinberra mála.


9. gr.

Framantalin gjöld skv. 2. og 6. gr. eru miðuð við byggingarvísitölu sem var 245,8 stig 1. desember 2000 og breytast einu sinni á ári til samræmis við byggingarvísitöluna eins og hún er 1. desember ár hvert.

Gjalddagar holræsagjalds eru þeir sömu og gjalddagar fasteignaskatts og greiðist holræsagjaldið með fasteignaskatti.

Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af sveitarstjórn Hólmavíkurhrepps, staðfestist hér með skv. X. kafla vatnalaga nr. 15/1923 til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um holræsi í Hólmavíkurhreppi nr. 72/1977.


Félagsmálaráðuneytinu, 23. janúar 2001.


F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson.
Guðjón Bragason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica