Félagsmálaráðuneyti

474/1998

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 271/1995 um meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga.

1. gr.

1. gr. reglugerðarinnar breytist svo:

 a)            Í stað orðanna _sbr. 1. mgr. 22. gr." kemur: sbr. 2. mgr. 22. gr. og 5. mgr. 51. gr.

 b)           Í stað orðanna _12-16 ára" kemur: 12-18 ára.

2. gr.

2. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Meðferðarstöðin skal veita eftirfarandi þjónustu:

 a)            Skammtímavistun í neyðar- og bráðatilvikum á lokaðri deild. Með því er átt við vistun vegna óupplýstra afbrota eða stjórnleysis sökum ölvunar og annarrar vímuefnaneyslu og aðra bráðnauðsynlega vistun á meðan úrræði í máli unglings eru undirbúin á grundvelli laga um vernd barna og ungmenna. Hámarksvistunartími á lokaðri deild skal vera 14 dagar. Meginmarkmið með vistun á lokaðri deild er gæsla og í vistuninni felst að réttindi unglingsins eru takmörkuð. Vistun á lokaðri deild skal að jafnaði vera í afmörkuðum hluta meðferðarstöðvarinnar sem þó er heimilt að nýta með öðrum hætti ef þannig stendur á.

 b)           Sérhæfða meðferð, þar með talda vímuefnameðferð, með vistun í allt að fjóra mánuði á meðferðardeild. Gert er ráð fyrir að samhliða meðferðarstarfi fari fram greining á vanda unglingsins og að jafnframt sé gerð áætlun um frekari ráðstafanir í samráði við viðkomandi barnaverndarnefnd og forsjáraðila.

 c)            Vistun unglings sem þegar er vistaður á öðrum meðferðarheimilum sem rekin eru skv. 5. mgr. 51. gr. laga um vernd barna og ungmenna. Gert er ráð fyrir vistun unglinga á meðferðardeild ef þörf þykir að endurmeta meðferð unglingsins. Gert er ráð fyrir vistun unglinga á lokaðri deild eftir strok eða stjórnleysi sem ekki er unnt að stöðva með öðrum hætti og má í slíku tilviki færa ungling af meðferðardeild yfir á lokaða deild.

Meðferð unglings skal ætíð endurskipulögð í kjölfar vistunar skv. ákvæðum þessa liðs.

 d)           Eftirmeðferð að aflokinni vistun, að jafnaði í allt að 6 mánuði. Megináhersla skal lögð á hópmeðferð þar sem fylgt er eftir því sem áunnist hefur í meðferð unglingsins. Sérstaka áherslu skal leggja á vinnu með fjölskyldum unglinganna eftir því sem við á þannig að hjálparúrræði í nánasta umhverfi unglingsins séu virkjuð sem mest.

3. gr.

3. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Meðferðarstöðin hefur aðsetur á höfuðborgarsvæðinu, en þjónar öllu landinu.

Óheimilt er að vista ungling skv. a-lið 2. gr. nema samkvæmt ósk barnaverndarnefndar þar sem hann er dvalfastur, sbr. 8. gr. laga um vernd barna og ungmenna. Þó getur lögregla vistað ungling skv. a-lið 2. gr., enda tilkynni hún vistun tafarlaust til forsjáraðila unglingsins og viðkomandi barnaverndarnefndar sem þá tekur við ábyrgð á vistuninni. Meðferðarstöðin skal jafnframt tilkynna Barnaverndarstofu um allar vistanir skv. a-lið 2. gr.

Óheimilt er að vista ungling skv. b-lið 2. gr. nema að ósk barnaverndarnefndar þar sem hann er dvalfastur. Barnaverndarnefnd skal senda umsókn um vistun til Barnaverndarstofu sem tekur ákvörðun um vistun.

Forstöðumaður meðferðarheimilis og/eða barnaverndarnefnd skal senda ósk um vistun unglings á meðferðardeild skv. c-lið 2. gr. til Barnaverndarstofu sem tekur ákvörðun um vistun. Forstöðumaður meðferðarheimilis skal senda ósk um vistun á lokaðri deild skv. c-lið 2. gr. beint til meðferðarstöðvarinnar, leita samþykkis viðkomandi barnaverndarnefndar vegna slíkrar ráðstöfunar hið fyrsta og tilkynna vistun til Barnaverndarstofu.

Vistun unglinga á meðferðarstöðinni er á ábyrgð viðkomandi barnaverndarnefndar. Barnaverndarnefnd aflar samþykkis forsjáraðila fyrir vistun, kveður upp úrskurð eftir atvikum og tekur tillit til sjónarmiða unglings ef vistun er gegn vilja hans í samræmi við ákvæði 2. mgr. 22. gr. laga um vernd barna og ungmenna. Þá tekur viðkomandi barnaverndarnefnd ákvörðun um umgengni og önnur samskipti unglings við nákomna meðan á vistun stendur. Barnaverndarnefnd skal leita umsagnar meðferðarstöðvarinnar áður en ákvörðun er tekin.

Vistun lýkur þegar hámarksvistunartíma er náð eða fyrr ef barnaverndarnefnd telur að grundvöllur fyrir vistun sé ekki lengur fyrir hendi, að höfðu samráði við forstöðumann meðferðarstöðvarinnar.

Meðferðarstöðin skal að lokinni vistun senda hlutaðeigandi barnaverndarnefnd svo og Barnaverndarstofu skýrslu um dvöl unglingsins og hagi hans, ásamt tillögum um áframhaldandi aðstoð og meðferð ef þörf er á því.

4. gr.

4. gr. reglugerðarinnar breytist svo:

 a)            1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Forstjóri Barnaverndarstofu ræður forstöðumann meðferðarstöðvarinnar.

 b)           2. mgr. orðast svo: Forstöðumaður skal hafa háskólamenntun í sálfræði, félagsráðgjöf, uppeldisfræði eða hliðstæðu námi með viðbótarmenntun. Hann skal ennfremur að jafnaði hafa reynslu af meðferðarstarfi og/eða reynslu eða menntun í stjórnunarstörfum.

5. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Forstöðumaður ræður deildarstjóra meðferðarstöðvarinnar og skulu þeir hafa sérmenntun í uppeldisfræði, sálfræði, félagsráðgjöf eða aðra sambærilega menntun. Deildarstjórar hafa yfirumsjón með faglegu starfi innan sinnar deildar. Forstöðumaður ræður jafnramt annað starfsfólk, þar með talda sálfræðinga, félagsráðgjafa og aðra sérfræðinga.

Allir ráðningarsamningar eru háðir staðfestingu Barnaverndarstofu.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 5. mgr. 51. gr. laga um vernd barna og ungmenna, öðlast gildi þegar í stað.

Félagsmálaráðuneytinu, 20. júlí 1998.

Páll Pétursson.

Húnbogi Þorsteinsson.

               

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica