Félagsmálaráðuneyti

336/1988

Reglugerð um B-gatnagerðargjöld í Skeggjastaðahreppi.Þátttaka lóðhafa í kostnaði við að gera gangstétt og bundið slitlag á götu.

1. gr.

Sveitastjórn er heimilt að leggja á B-gatnagerðargjald á hús, nýbyggingar og stækkun eldri húsa sem standa á lóð sem skráð er við götu sem lögð hefur verið bundnu slitlagi.

2. gr.

Af hverjum rúmmetra húss greiðist ákveðinn hundraðshluti byggingarkostnaðar pr. rúmmetra eins og hann er hverju sinni á vísitöluhúsinu skv. útreikningi Hagstofu Íslands, svo sem hér segir:

Einbýlishús, með eða án tvíbýlisaðstöðu ........................................ 2,0%

Raðhús og tvíbýlishús....................................................................... 1,4%

Fjölbýlishús ...................................................................................... 1,0%

Verslunar- og skrifstofubyggingar ................................................... 2,0%

Opinherar byggingar ........................................................................ 2,0%

Önnur hús og byggingar ................................................................... 1,0%

Lágmarksgjald af húseign skal miða við 200 rúmmetra þó hús sé minna.

3. gr.

Gatnagerðargjöld skv. 2. gr. miðast við byggingarkostnað vísitöluhússins á þeim tíma, sem lokaframkvæmdir við lagningu bundins slitlags fara fram. Nú verður hús byggt við þegar fullgerða götu og skal þá miðað við byggingarkostnað, þegar teikning er samþykkt í byggingarnefnd.

Gatnagerðargjald skv. 2. gr. fellur í gjalddaga einum mánuði eftir að framkvæmdum við tiltekna götu eða götukafla, öðrum en lagningu gangstéttar, er lokið eða einum mánuði eftir samþykkt teikningar ef um hús við fullgerða götu er að ræða. Heimilt er gjaldanda að greiða 80% gjaldsins með skuldabréfi sem greiðist með jöfnum árlegum afborgunum á næstu fjórum árum, enda séu lánskjör skuldabréfsins hin sömu þ.e., vextir og verðtrygging, og eru á lánum Byggðasjóðs á hverjum tíma.

Heimilt er gjaldanda að halda eftir 10% gjaldsins uns gangstétt hefur verið lögð.

4. gr.

Heimilt er sveitarstjórn að veita afslátt eða fella niður gatnagerðargjöld af fasteignum þeirra eigenda, sem náð hafa 67 ára aldri og þeirra sem eiga við langvarandi sjúkdóma eða örorku að stríða.

Verði fasteign, sem afslátt hefur fengið eða niðurfellingu á gatnagerðargjaldi seld, skal sveitarstjórn heimilt að leggja á gjaldið eins og það var þegar álagning fór fram með áorðnum breytingum skv. vísitölu enda sé kvöðinni þinglýst á viðkomandi fasteign.

5. gr.

Gatnagerðargjaldi fylgir lögveð í fasteign þeirri, sem það er lagt á og gengur það ásamt vöxtum, verðtryggingu og dráttarvöxtum fyrir öllum veðkröfum, sem á eigninni hvíla og tekur einnig til vátryggingarfjár hennar. Heimilt er að taka gjöld þessi lögtaki samkvæmt lögum nr. 29/1985.

Hreppsnefnd sker úr um meiriháttar ágreining sem rísa kann um álagningu samkvæmt reglugerð þessari.

Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af hreppsnefnd Skeggjastaðahrepps í N-­Múlasýslu staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 51/1974 um gatnagerðargjöld sbr. lög nr. 31/1975, til þess að öðlast gildi þegar í stað.

Félagsmálaráðuneytið, 27. júní 1988.

F. h. r.

Hallgrímur Dalberg.

Húnbogi Þorsteinsson


Þetta vefsvæði byggir á Eplica