Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

198/2000

Reglugerð um holræsi og holræsagjöld á Hellu í Rangárvallahreppi.

I. KAFLI Um holræsi.

1. gr.

Hreppsnefnd Rangárvallahrepps hefur ein heimild til að láta leggja holræsi um Hellu. Allar framkvæmdir sem varða holræsakerfi Hellu, svo sem viðhald, endurbætur, viðauka og umsjón annast hreppsnefnd eða þeir menn sem hreppsnefnd felur það undir hennar umsjón.

2. gr.

Hreppsnefnd lætur leggja holræsi svo að hver lóðarhafi nái til þeirra í götu, vegi eða opnu svæði er lóð hans telst til. Skylt er lóðareigendum og húsráðendum að gera samkvæmt reglugerð á sinn kostnað holræsi er flytji frá húsum og lóðum skolp allt út í aðalræsi. Allar lagnir svo og frágangur skulu vera í samræmi við gildandi staðla og reglugerðir á hverjum tíma. Nú hefur hreppsnefnd ekki látið leggja holræsi samkvæmt framansögðu og skal þá lóðarhafi á sinn kostnað leiða skolp gegnum rotþró af nægjanlegri stærð og samkvæmt ákvæðum laga og reglugerða sem um það gilda.

3. gr.

Þar sem lagðar hafa verið aðskildar lagnir fyrir skolp og yfirborðsvatn skal lóðarhafi einnig leggja aðskildar lagnir að aðalræsum og tengja. Þar sem engin lögn er fyrir hendi eða lögð hefur verið sameiginleg lögn fyrir skolp og yfirborðsvatn skal lóðarhafi gera svelg og tengja yfirborðsvatn af húsi sínu og lóð þangað. Nú lætur hreppsnefnd leggja sérstaka lögn fyrir yfirborðsvatn og er þá lóðarhafa skylt að tengja yfirborðsvatn sitt þangað.

4. gr.

Ekki er heimilt að veita frárennsli er valdið getur skemmdum á holræsakerfinu eða truflað rekstur þess út í göturæsi. Þetta getur átt við um eiturmengað, olíumengað, prótínríkt, fituríkt eða blóðblandað fráveituvatn. Þar sem hætta er á að skolp innihaldi ofangreind efni ber húseiganda skylda til að fjarlægja þau eða gera óskaðleg áður en því er veitt út í holræsakerfið, sbr. ákvæði mengunarvarnareglugerðar.

5. gr.

Við nýbyggingar og breytingar á ræsum í lóð er lóðarhafa skylt að leggja fram til samþykktar uppdrátt í tvíriti er sýni legu, halla, stærð og gerð ræsa. Sá sem uppdrátt gerir skal undirrita hann með eigin hendi og ber hann ábyrgð á að hann sé í samræmi við gildandi reglugerðir og staðla. Þegar byggingarfulltrúi hefur samþykkt uppdrátt stimplar hann og áritar bæði eintökin. Annað eintakið skal varðveitt í skjalasafni byggingarfulltrúa. Hitt eintakið skal liggja fyrir á byggingarstað. Ekki má hefja framkvæmdir við lagnir fyrr en samþykktur uppdráttur liggur fyrir. Samþykkt byggingarfulltrúa rýrir á engan hátt ábyrgð þess sem uppdráttinn gerir.

6. gr.

Byggingarfulltrúi skal hafa eftirlit með því að lagnir séu í samræmi við samþykktan uppdrátt og reglugerð þessa. Ekki má hylja frárennslislagnir fyrr en þær hafa verið viðurkenndar af byggingarfulltrúa.

II. KAFLI Um holræsagjald.

7. gr.

Hverjum þeim sem á hús eða húshluta eða leigir lóð á Hellu og nágrenni þar sem holræsi hefur verið lagt ber að greiða árlega holræsagjald til sveitarsjóðs Rangárvallahrepps.

Upphæð holræsagjalds skal vera 0,15% af fasteignamati húsa og lóða, sbr. lög um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki holræsagjald.

Hreppsnefnd er heimilt að veita afslátt eða fella niður holræsagjald að hluta eða öllu leyti samkvæmt ákvörðun hennar hverju sinni.

8. gr.

Holræsagjald greiðist af hús- og íbúðareiganda, lóðareiganda ef um eignarlóð er að ræða, en af leigutaka ef um leigulóð er að ræða og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Gjaldið hefur lögtaksrétt og er tryggt með lögveðrétti í lóð og mannvirkjum næstu 2 ár eftir gjalddaga þess með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.

9. gr.

Um gjalddaga og innheimtu holræsagjalda fer með sama hætti og um fasteignaskatt enda skulu gjöld þessi innheimt sameiginlega.

Ákvæði til bráðabirgða.

Vegna átaks í úrbótum á fráveitumálum Hellu og nágrennis er hreppsnefnd heimilt að leggja á tímabundið framkvæmdagjald 0,10% af fasteignamati húsa og lóða á árunum 2000-2006.

Reglugerð þessi sem samin er og samþykkt af hreppsnefnd Rangárvallahrepps staðfestist hér með samkvæmt X. kafla vatnalaga nr. 15/1923 til að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um holræsi í Hellukauptúni í Rangárvallasýslu nr. 534/1979.

Félagsmálaráðuneytinu, 14. mars 2000.

F. h. r.

Berglind Ásgeirsdóttir.

Sesselja Árnadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.