Félagsmálaráðuneyti

122/1994

Reglugerð fyrir Bjargráðasjóð Íslands - Brottfallin

REGLUGERÐ

fyrir Bjargráðasjóð.

I. KAFLI

Sjóðurinn og varnarþing hans.

1. gr.

Bjargráðasjóður er sjálfstæð stofnun, sameign ríkisins, sveitarfélaganna og Stéttarsambands bænda. Eignaraðilar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins umfram árleg, óafturkræf framlög sín til hans.

2. gr.

Heimili og varnarþing Bjargráðasjóðs er í Reykjavík.

II. KAFLI

Stjórn Bjargráðasjóðs.

3. gr.

Stjórn Bjargráðasjóðs er skipuð fimm mönnum, ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins, sem er formaður stjórnarinnar, fiskimálastjóra, formanni Búnaðarfélags Íslands, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og formanni Stéttarsambands bænda. Sé einhver stjórnarmanna forfallaður, tekur varamaður hans í viðkomandi starfi sæti í stjórninni.

4. gr.

Stjórn Bjargráðasjóðs hefur á hendi stjórn sjóðsins og tekur ákvarðanir um afgreiðslu á umsóknum um fyrirgreiðslu úr deildum hans, styrk- og lánveitingar.

5. gr.

Stjórn Bjargráðasjóðs ræður framkvæmdastjóra og annað starfslið sjóðsins og ákveður kaup þess og kjör í samræmi við launakerfi opinberra starfsmanna.

Stjórn Bjargráðasjóðs er heimilt að semja við Lánasjóð sveitarfélaga eða aðra stofnun, sem henta þykir, um sameiginlega framkvæmdastjórn, skrifstofuhald og rekstur sjóðsins. Fer þá um ráðningu og kjör starfsfólks eftir samstarfssamningi þeirra stofnana.

III. KAFLI

Verksvið framkvæmdastjóra.

6. gr.

Framkvæmdastjóri ber, í umboði stjórnarinnar, ábyrgð á fjárreiðum, reikningshaldi og uppgjöri sjóðsins og annast það, svo og daglega afgreiðslu á vegum sjóðsins ásamt öðru starfsliði hans.

7. gr.

Framkvæmdastjóri kemur fram sem fyrirsvarsmaður sjóðsins. Framkvæmdastjóri boðar stjórnarfundi og undirbýr mál fyrir fundi.

Framkvæmdastjóri getur, í samráði við sjóðsstjórn, sett öðru starfsfólki sjóðsins erindisbréf.

8. gr.

Kaup og kjör framkvæmdastjóra og annars starfsfólks sjóðsins skal vera í samræmi við launakerfi opinberra starfsmanna.

Starfsfólk sjóðsins hefur skyldur og réttindi opinberra starfsmanna.

IV. KAFLI

Tekjur sjóðsins og skipulag.

9. gr.

Árlegar tekjur Bjargráðasjóðs eru:

a.             Framlög sveitarfélaga, sem nema skulu 81,31 kr. fyrir hvern íbúa sveitarfélags miðað við 1. desember undanfarið ár. Fjárhæð þessi er miðuð við framfærsluvísitölu 164.1 stig frá 1. janúar 1993 og skal síðan breytast árlega miðað við framfærsluvísitölu 1. janúar ár hvert.

b.             Ákveðinn hundraðshluti af söluvörum landbúnaðarins samkvæmt ákvörðun Alþingis.

c.             Framlag ríkissjóðs samkvæmt ákvörðun Alþingis.

d.             Vextir af fé sjóðsins.

10. gr.

Bjargráðasjóður starfar í tveimur aðgreindum deildum, er nefnast almenn deild og búnaðardeild. Tekjur sjóðsins skiptast þannig á milli deilda:

a.             Í almennu deild sjóðsins renna 75% af framlögum sveitarfélaga og jafnhá fjárhæð af framlagi ríkissjóðs, svo og vaxtatekjur sjóðsins.

b.             Í búnaðardeild rennur árlegt framlag af söluvörum landbúnaðarins, 25% af framlögum sveitarfélaga og sá hluti af framlagi ríkissjóðs, sem ekki rennur til almennu deildar sjóðsins.

11. gr.

Framlög sveitarfélaga skulu greidd til Bjargráðasjóðs fyrir 1. desember ár hvert.

Þar sem við á greiðir félagsmálaráðuneytið framlög sveitarfélaga með því að draga þau frá úthlutun til þeirra úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Framlag ríkisins greiðist með jöfnum, mánaðarlegum greiðslum.

Framleiðsluráð landbúnaðarins innheimtir búvörugjald og greiðir Bjargráðasjóði hluta hans af gjaldinu, eftir því sem það innheimtist.

V KAFLI

Deildaskipting.

12. gr.

Bókhaldi almennu deildar og búnaðardeildar Bjargráðasjóðs skal halda aðgreindu. Rekstrarkostnaður sjóðsins greiðist úr almennu deild hans.

13. gr.

Hlutverk deilda Bjargráðasjóðs er sem hér segir:

1.             Hlutverk almennu deildar sjóðsins er að veita einstaklingum, félögum og sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiriháttar tjón á fasteignum og lausafé af völdum náttúruhamfara, að svo miklu leyti sem ekki er unnt að tryggja gegn slíkum tjónum á almennum tryggingamarkaði eða fá þau bætt með öðrum hætti, enda verði gáleysi eiganda eigi um kennt.

Stjórn sjóðsins metur hverju sinni hvað teljist til meiriháttar tjóns.

2.             Hlutverk búnaðardeildar er að veita einstaklingum eða sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til:

a. að bæta meiriháttar tjón vegna búfjárdauða af völdum sjúkdóma eða af slysum;

b. að kaupa eða afla fóðurs á annan hátt vegna meiriháttar grasbrests af völdum kulda, kals, þurrka eða óþurrka til að afstýra óeðlilega mikilli förgun búfjár;

c. að bæta meiriháttar uppskerubrest á garðávöxtum;

d. að veita fjárhagsaðstoð vegna meiriháttar afurðatjóns á búfé. Skilyrði er að gáleysi eiganda verði eigi um kennt.

Stjórn sjóðsins metur hverju sinni hvað teljist til meiriháttar tjóns.

VI. KAFLI

Fjárhagsaðstoð.

14. gr.

Fjárhagsaðstoð beggja deilda sjóðsins er fyrst og fremst fólgin í veitingu styrkja eftir nánari reglum, sem sjóðsstjórn setur. Stjórn sjóðsins er jafnframt heimilt að veita lán til aðstoðar og ákveður hún kjör þeirra, lánstíma, vexti og hvort þau skuli bundin verðtryggingu.

Stjórn sjóðsins ákveður með tilliti til ráðstöfunarfjár hverju sinni bótahlutfall sjóðsins í heildartjóni og eigináhættu tjónþola.

15. gr.

Árlegar tekjur almennu deildar sjóðsins skiptast í eftirtalda tvo ráðstöfunarflokka:

1. Framlög sveitarfélaga og helmingur vaxtatekna.

2. Framlag ríkissjóðs og helmingur vaxtatekna.

Rekstrarkostnaður sjóðsins greiðist hlutfallslega miðað við heildartekjur hvors flokks skv. 1. mgr. Óheimilt er þó að nota meira en 50% vaxtatekna hvors flokks skv. 1. mgr. til að greiða reksturskostnað sjóðsins.

16. gr.

Eftirtalin tjón bætast af framlögum sveitarfélaga og helmingi vaxtatekna eftir því sem ráðstöfunarfé hrekkur til árlega sbr. 1. tl. 13. gr.:

I. Tjón á fasteignum. þ.m.t. girðingar og tún er tengjast landbúnaði.

II. Tjón á fasteignum einstaklinga og félaga.

III. Tjón á fasteignum og landsvæðum sveitarfélaga.

Með fasteignum í flokki I-III er átt við fasteignir skv. skilgreiningu laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 91/1989, sbr. lög um Fasteignamat ríkisins nr. 94/1976.

Ráðstöfunarfé samkvæmt 1. mgr. skal skipt með jöfnum hætti á milli tjónaflokkanna þriggja. Heimilt er stjórn Bjargráðasjóðs að flytja ráðstöfunarfé á milli flokka, fullnýtist ráðstöfunarfé viðkomandi flokks ekki.

17. gr.

Eftirtalin tjón bætast af framlögum sveitarfélaga og helmingi vaxtatekna eftir því sem ráðstöfunarfé hrekkur til árlega sbr. 1. tl. 13. gr.:

I. Tjón á lausafé.

II. Önnur tjón á fasteignum, sem bótaskyld eru og ekki eru upp talin í 16. gr.

Ráðstöfunarfé samkvæmt 1. mgr. skal skipt með jöfnum hætti á milli ráðstöfunarflokkanna tveggja. Heimilt er stjórn Bjargráðasjóðs að flytja ráðstöfunarfé á milli flokka, fullnýtist ráðstöfunarfé viðkomandi flokks ekki.

18. gr.

Af samanlögðu árlegu ráðstöfunarfé búnaðardeildar skal, eftir því sem ráðstöfunarfé deildarinnar hrekkur til, veita fjárhagsaðstoð, sbr. 2. tl. 13. gr. til:

I. Að bæta meiriháttar tjón vegna búfjárdauða af völdum sjúkdóma eða af slysum.

II. Að kaupa eða afla fóðurs á annan hátt vegna meiriháttar grasbrests af völdum kulda, kals, þurrka eða óþurrka til að afstýra óeðlilega mikilli förgun búfjár.

III. Að bæta meiriháttar uppskerubrest á garðávöxtum.

IV Að veita fjárhagsaðstoð vegna meiriháttar afurðatjóns á búfé.

Stjórn Bjargráðasjóðs er heimilt að takmarka fjárhagsaðstoð til einstakra búgreina við hlutfallsleg framlög greinarinnar til sjóðsins.

Skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð úr búnaðardeild er að tjónþoli hafi gefið Framleiðsluráði landbúnaðarins fullnægjandi upplýsingar um framleiðslumagn og sjóðagjöld áður en tjón varð og taka bætur mið af því.

Stjórn Bjargráðasjóðs er heimilt að flytja ráðstöfunarfé á milli flokka fullnýtist ráðstöfunarfé viðkomandi flokks ekki.

19. gr.

Stjórn Bjargráðasjóðs er heimilt að lána fé á milli deilda sjóðsins án vaxta, ef fé annarrar hvorrar deildar sjóðsins hrekkur eigi til að veita þá aðstoð, sem nauðsyn krefur samkvæmt lögunum og að mati sjóðsstjórnar.

20. gr.

Stjórn Bjargráðasjóðs getur, ef um er að tefla almenn bótaskyld tjón í einu byggðarlagi eða fleirum, skipað nefnd til þess að rannsaka tjónin og gera tillögur til sjóðsstjórnar um aðstoð vegna þeirra. Kostnaður vegna slíkra nefndarstarfa greiðist úr þeirri deild sjóðsins, sem veitir aðstoð vegna tjónanna.

21. gr.

Lán sem veitt eru einstaklingum eða félögum skulu tryggð með ábyrgð, sem stjórn sjóðsins metur gilda.

Lán til sveitarfélaga skulu tryggð með framlagi til þeirra úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Verði vanskil á láni sveitarfélags, er ráðherra heimilt að inna greiðslu af hendi til Bjargráðasjóðs af Jöfnunarsjóðsframlagi til sveitarfélagsins. Sama gildir um vanskil sveitarfélags sem ábyrgðaraðila, enda hafi sveitarfélag sannanlega áður verið krafið um greiðslu án árangurs.

VI. KAFLI

Umsóknir.

22. gr.

Umsókn um aðstoð úr Bjargráðasjóði skal hafa borist sjóðnum innan árs, frá því að tjón varð. Umsókn skal vera skrifleg.

Umsókn skulu fylgja svo glöggar skýrslur, sem unnt er um tjónið. Jafnframt skulu fylgja umsókn vottorð eftir því sem við á, svo sem héraðsráðunautar dýralæknis, dómkvaddra matsmanna, oddvita eða hreppstjóra. Stjórn Bjargráðasjóðs getur krafist fyllri gagna, ef ástæða þykir til, frá umsækjanda eða öðrum þeim aðilum, sem slíkar upplýsingar geta veitt.

Stjórn Bjargráðasjóðs getur frestað afgreiðslu eða synjað umsóknum um lán eða styrki, ef ekki eru lögð fram þau gögn sem sjóðsstjórn krefst, eða hún telur tjón ekki nægilega upplýst.

23. gr.

Umsóknir um bætur úr almennu deild sjóðsins skulu að jafnaði afgreiddar tvisvar á ári.

Umsóknir um bætur úr búnaðardeild sjóðsins skulu afgreiddar eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Innan tveggja mánaða frá lokum framleiðslu- og sölutímabils skulu allar óafgreiddar umsóknir um afurðatjónsbætur úr búnaðardeild sjóðsins afgreiddar.

Tjónabætur úr báðum deildum sjóðsins skulu að jafnaði taka mið af árlegu ráðstöfunarfé þeirra á því ári sem umsókn berst.

Heimilt er stjórn Bjargráðasjóðs, ef ástæða þykir til, að víkja frá framangreindum viðmiðunum við sérstakar og óvenjulegar aðstæður, sem ekki þola bið að mati stjórnar sjóðsins.

VII. KAFLI

Eigið fé sjóðsins.

24. gr.

Fé Bjargráðasjóðs, sem ekki hefur verið ráðstafað samkvæmt reglugerð þessari, skal ávaxtað í Lánasjóði sveitarfélaga eða banka með ríkisábyrgð samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar sjóðsins.

25. gr.

Eigið fé Bjargráðasjóðs skal standa óskert svo sem kostur er. Vaxtatekjur, án verðbóta, skulu taldar til ráðstöfunartekna sjóðsins á ári hverju.

26. gr.

Við sérstakar og óvenjulegar aðstæður er stjórn sjóðsins heimilt að nota hluta af eigin fé sjóðsins til styrk- eða lánveitinga.

Eigið fé almennu deildar sjóðsins má þó aldrei verða minna en þrefalt framlag sveitarfélaganna til deildarinnar (75% framlagsins) miðað við næsta almanaksár á undan.

Eigið fé búnaðardeildarinnar má á sama hátt ekki verða minna en sem nemur 5O% af framlagi söluvara landbúnaðarins miðað við næsta almanaksár á undan.

VIII. KAFLI

Reikningar og endurskoðun.

27. gr.

Ársreikningar sjóðsins skulu vera fullgerðir fyrir febrúarlok ár hvert. Sjóðsstjórn felur löggiltum endurskoðanda að endurskoða reikninga sjóðsins, og skal endurskoðun að jafnaði lokið fyrir 30. apríl ár hvert.

28. gr.

Að endurskoðun lokinni skv. 27. gr. skal birta reikninga sjóðsins í B-deild Stjórnartíðinda.

Reglugerð þessi, sem samin er af stjórn Bjargráðasjóðs, staðfestist hér með samkvæmt lögum nr. 51 26. maí 1972 um Bjargráðasjóð með síðari breytingum, til þess að öðlast gildi þegar í stað.

Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 58 18. apríl 1967 fyrir Bjargráðasjóð Íslands.

Félagsmálaráðuneytið, 21. febrúar 1994.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Húnbogi Þorsteinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica