Félagsmálaráðuneyti

56/2001

Reglugerð um fráveitu, holræsi og holræsagjöld í Höfðahreppi.

I. KAFLI
Um fráveituna.
1. gr.

Höfðahreppur starfrækir fráveitu í sveitarfélaginu og sveitarsjóður kostar rekstur fráveitunnar og framkvæmdir við hana. Sveitarstjórn ákveður framkvæmdir við fráveituna og veitir árlega fé á fjárhagsáætlun sveitarsjóðs til reksturs og framkvæmda við hana.


2. gr.

Fráveitan sem byggir á holræsakerfi og búnaði í eigu Höfðahrepps veitir fráveituvatni frá byggð til viðtaka. Fráveituvatn getur verið húsaskólp, iðnaðarskólp, ofanvatn og ræsisvatn.

Sveitarsjóður á allar holræsalagnir fráveitu, útrásir, stofnræsi, götuholræsi, ofanvatnsræsi af götum og opnum svæðum og götufráræsi að fráræsum húseigna. Enn fremur allan fráveitubúnað, brunna, niðurföll, dælustöðvar og hreinsistöðvar.


3. gr.

Þar sem fráveita sveitarfélagsins nær til skal húseigendum séð fyrir götufráræsi frá götuholræsi að lóðamörkum húseigna. Þar sem fráveitan liggur um lóðir skal séð fyrir tengigrein á holræsalögn.


4. gr.

Húseigendum sem eiga húseignir við vegi eða opin svæði þar sem fráveita sveitarfélagsins liggur er skylt að leggja á sinn kostnað holræsi frá húseignum sínum og tengja þau við fráveituna. Húseigendum er óheimilt að leggja sjálfir fráveitu frá húseignum sínum til viðtaka nema með samþykki sveitarstjórnar.


5. gr.

Þar sem fráveitulagnir sveitarfélagsins ná ekki til skulu húseigendur leiða fráveituvatn um rotþrær og siturleiðslur til viðtaka. Höfðahreppur kostar kaup, niðursetningu og frágang rotþróa og siturlagna ef um íbúðarhús er að ræða. Er litið á þann búnað sem hluta af fráveitukerfinu. Eigendur gripahúsa geta sótt um undanþágu til að leggja eigin holræsi eða koma upp rotþróm.


6. gr.

Byggingaeftirlit sveitarfélagsins skal hafa eftirlit með því að fráveitulagnir frá húseignum séu lagðar samkvæmt samþykktum teikningum. Áður en lagnir eru huldar skal einnig taka út og viðurkenna holræsi frá húseignum og tengingar þeirra við fráveitu sveitarfélagsins eða rotþrær.


7. gr.

Eigendum fasteigna er skylt að hlíta því að lagnir fráveitu sveitarfélagsins séu lagðar um lóðir þeirra eða lönd og fram fari á þeim nauðsynlegt viðhald. Höfðahreppi er skylt að halda raski í lágmarki, ganga snyrtilega um og færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið.


8. gr.

Húseigendum er skylt að halda vel við fráveitulögnum húseigna sinna og sjá um hreinsun þeirra og gæta þess að þau stíflist ekki. Fráveitulögn frá fasteign að tengingu við fráveitukerfi sveitarfélagsins er eign fasteignareiganda og skal hann kosta allt viðhald og hreinsun hennar. Óheimilt er að láta í fráveitu sveitarfélagsins hvers kyns olíur, bensín, lífræn leysiefni eða annað sem skemmt getur eða truflað rekstur fráveitukerfisins. Um mengunarvarnir fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum.


II. KAFLI
Um holræsagjald.
9. gr.

Hverjum sem á hús eða húshluta í Höfðahreppi eða leigir lóð í sveitarfélaginu við götu eða opið svæði sem holræsi hefur verið lagt í ber að greiða árlegt holræsagjald til sveitarsjóðs.

Upphæð holræsagjaldsins skal vera 0,15% af fasteignamati lóðar og mannvirkja samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976, með síðari breytingum. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki holræsagjald.


10. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að innheimta sérstakt tengigjald af þeim eigendum fasteigna sem tengjast fráveitu sveitarfélagsins eða rotþró í eigu sveitarfélagsins. Tengigjald fyrir hverja fasteign skal vera 10.500 kr. og tekur breytingum miðað við byggingavísitölu (grunnvísitala er 239,4 stig).


11. gr.

Holræsagjald greiðist af eiganda fasteignar og ber hann ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Holræsagjaldið má taka lögtaki og má gera lögtak í hinni skattskyldu eign án tillits til eigendaskipta. Holræsagjaldið nýtur lögveðsréttar í lóð og mannvirkjum næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.


12. gr.

Gjalddagar holræsagjalds skulu vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimt með fasteignagjöldum.


13. gr.

Með vísan til heimildar í 2. mgr. 87. gr. vatnalaga, sbr. lög nr. 137/1995, er sveitarstjórn heimilt að fella niður eða lækka holræsagjöld til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega samkvæmt nánari reglum sem sveitarstjórn setur um lækkanir fasteignagjalda.


14. gr.

Brot á reglugerð þessari, sem gildir um fráveitu, holræsi og holræsagjöld í Höfðahreppi, varðar sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum. Mál varðandi brot á reglugerð þessari skal fara með að hætti opinberra mála.


Reglugerð þessi sem samin er og samþykkt af hreppsnefnd Höfðahrepps staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um holræsi og holræsagjöld í Höfðahreppi, Skagaströnd nr. 223/1986.


Félagsmálaráðuneytinu, 9. janúar 2001.

F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson.
Guðjón Bragason.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica