Reglugerð þessi gildir um hönnun og uppsetningu sjálfvirkra slökkvikerfa í byggingar, svonefndra úðakerfa (vatnsúðakerfa, sprinklerkerfa) sem nota vatn sem slökkvimiðil.
Reglugerðin tekur ekki til froðukerfa, sem nota vatn með íblönduðum froðuefnum sem slökkvimiðil.
Markmiðið með reglugerðinni er að tryggja, eftir því sem unnt er, að úðakerfi sé þannig hannað, uppsett og viðhaldið að yfirgnæfandi líkur séu á að það uppgötvi og slökkvi eld á byrjunarstigi eða haldi honum í skefjum þar til slökkvistarf getur hafist.
3.1. Úðakerfi skulu sett upp þar sem þess er krafist í lögum og reglugerðum um brunavarnir og brunamál eða í gildandi reglum og orðsendingum Brunamálastofnunar ríkisins um brunavarnir í byggingum.
3.2. Auk þess sem segir í gr. 3.1. geta slökkviliðsstjóri og byggingarfulltrúi eða Brunamálastofnun ríkisins krafist úðakefis í byggingu við eftirfarandi aðstæður:
Meginreglan er sú að slökkviliðsstjóri og byggingarfulltrúi meta þörfina fyrir uppsetningu úðakerfis en geta síðan vísað málinu til Brunamálastofnunar ríkisins til frekari athugunar og samþykktar. Einnig getur stofnunin kallað eftir málinu sérstaklega.
3.3. Slökkviliðsstjóri skal sjá til þess að Brunamálastofnun ríkisins sé tilkynnt um öll úðakerfi sem upp eru sett í hans umdæmi.
Þar til Evrópustaðall um hönnun og uppsetningu úðakerfa liggur fyrir gilda eftirfarandi erlendir staðlar og reglur, eins og þær eru á hverjum tíma, um tæknilega hönnun og efnislega uppsetningu úðakerfa í byggingar:
- RULES FOR AUTOMATIC SPRINKLER INSTALLATIONS (Reglur um sjálfvirk úðakerfi). Reglur þessar samanstanda af breskum staðli, BS 5306 : Part 2 : 1990 (Fire extinguishing installations and aquipment on premises / Specification for sprinkler systems), útgefnum af bresku staðlastofnuninni (British Standard Institution) og tilheyrandi tæknilegum orðsendingum (LPC Technical Bulletins) útgefnum af The Loss Prevention Council í Englandi.
- Reglur samtaka brunatryggingafélaganna í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, ásamt fylgiritum sem reglurnar byggja á eða vísa til í hverju landi fyrir sig.
- Aðrar viðurkenndar erlendar reglur sem Brunamálastofnun ríkisins samþykkir hverju sinni.
Um hönnun úðakerfa gagnvart jarðskjálftum skal farið eftir íslenskum staðli, ÍST 13, og stuðst við bandarískan staðal sem fram kemur í kafla 4-5.4.3. (Protection of Piping against Damage where Subject to Earthquakes) í NFPA 13 (Standards for the Installation of Sprinkler Systems, 1991 Edition).
Sjálfvirkt úðakerfi sem upp er sett samkvæmt 3. kafla reglugerðar þessarar, skal boðtengja við slökkvistöð eða aðra viðurkennda öryggismiðstöð. Þar sem aðstæður hindra slíka boðtengingu ber að gera aðrar þær ráðstafanir sem Brunamálastofnun ríkisins metur fullnægjandi.
Hönnuðir skulu ávallt leitast við að vinna eftir ákveðnum staðli í hverju verki en blanda þeim ekki saman. Ef víkja þarf frá ákvæðum staðla um hönnun og uppsetningu úðakerfa skal fá til þess samþykki Brunamálastofnunar ríkisins.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál ber sveitarfélögum að sjá um að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað, t.d. úðakerfi í meiriháttar byggingum.
Byggingarnefnd getur ekki heimilað byggingu mannvirkis, nema ákvæðum 5. gr. laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál sé fullnægt. Ef engu að síður er óskað eftir að staðsetja byggingu á stað, þar sem ekki er unnt að fullnægja settum skilyrðum í lögum, má heimila það að því tilskildu að lögð sé fram lausn varðandi brunavarnir sem Brunamálastofnun ríkisins samþykkir.
Áður en hönnuður úðakerfis hefst handa við gerð lokauppdrátta skal hann leita samþykkis Brunamálastofnunar ríkisins fyrir þeirri áhættuflokkun sem hann hyggst leggja til grundvallar hönnuninni. Ber honum að leggja fram yfirlitsteikningu ásamt greinargerð sem sýnir brunaálag, notkun byggingar og skiptingu hennar í brunahólf, öflun vatns fyrir kerfið og nálæga brunahana eða aðra tilhögun á vatnsöflun fyrir slökkviliðið.
Úðakerfi sem er í notkun við gildistöku reglugerðar þessarar skal laga að ákvæðum hennar eftir því sem kostur er, svo að tryggt sé að kerfið sé virkt og hæfi viðkomandi áhættu. Slökkviliðsstjóra ber að fylgja slíkum málum eftir í samráði við Brunamálastofnun ríkisins.
Nú er úðakerfi í byggingu og notkun hennar eða hún sjálf breytist og skal þá gera sérstaka úttekt á kerfinu og gera á því þær endurbætur sem nauðsynlegar eru vegna breytinganna.
Öll ný úðakerfi sem upp eru sett samkvæmt 3. kafla reglugerðar þessarar skulu tekin út og samþykkt. Leggja skal fyrir byggingarfulltrúa fullnaðaruppdrætti af kerfinu ásamt útreikningum og greinargerð um forsendur hönnunar.
Þegar lokið er við nýtt úðakerfi, breytingu á úðakerfi eða viðbót við úðakerfi í byggingu skal það tilkynnt byggingarfulltrúa og eftirfarandi skilyrði eru sett um samþykkt kerfisins:
- Að aðili sem öðlast hefur til þess sérstaka viðurkenningu Brunamálastofnunar ríkisins annist úttekt á kerfinu.
- Að kerfið sé sett upp undir umsjón og á ábyrgð iðnmeistara sem öðlast hefur sérstaka viðurkenningu Brunamálastofnunar ríkisins til að setja upp sjálfvirk úðakerfi.
- Að fyrir liggi eftirlitssamningur við viðurkenndan þjónustuaðila. Sjá jafnframt 9. kafla reglugerðar þessarar.
Eftir lokaúttekt skal gefa út vottorð þess efnis að kerfið sé í samræmi við samþykktar teikningar og að það sé virkt og fullnægjandi fyrir viðkomandi áhættu og aðstæður. Eiganda úðakerfis ber að greiða allan nauðsynlegan kostnað við úttekt og samþykkt kerfisins.
Eftirlit, prófun og viðhald úðakerfa skal vera í samræmi við reglur og leiðbeiningar um eftirlit, prófun og viðhald sjálfvirkra úðakerfa, sem Brunamálastofnun ríkisins gefur út.
Hönnuður úðakerfis skal gæta þess sérstaklega að umbúnaður og aðstaða til prófunar á virkni kerfis sé fullnægjandi og í samræmi við fyrirmæli Brunamálastofnunar ríkisins á hverjum tíma.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 30. gr. laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál og öðlast þegar gildi.
Félagsmálaráðuneytið, 6. maí 1994.
Jóhanna Sigurðardóttir .
Sesselja Árnadóttir.