Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

394/1976

Reglugerð um holræsi og holræsagjöld í Neshreppi utan Ennis.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Hreppsnefnd Neshrepps utan Ennis tekur ákvörðun samkvæmt skipulagi um lagningu holræsa, aðalæða og götuæða.

2. gr.

Þar sem holræsi hefur verið lagt í veg, götu eða annað opið svæði, eða þar sem hreppurinn hefur tekið að sér viðhald og endurnýjun holræsa, er þeim húseigendum, er þar eiga húseignir að eða í námunda við, skylt að leggja á sinn kostnað ræsi frá húsinu er flytji allt skólp frá því út í aðalræsið. Sé um óeðlilega vegalengd að ræða, skal sveitarsjóður leggja til rör frá lóðarmörkum, en húseigandi greiði kostnað við lögn.

3. gr.

Öll framkvæmdastörf, sem holræsakerfi sveitarfélagsins varða, svo sem nýlagnir, viðhald og endurbætur skulu unnin af aðila er hreppsnefnd felur þau. Er óheimilt að leggja ræsi í aðalræsið, nema að fengnu leyfi þessa aðila og undir umsjón hans, er mönnum og skylt að hlíta í öllu fyrirmælum hans, um gerð og lögn ræsisins og annað þess háttar, er máli skiptir í sambandi við það.

4. gr.

Kostnaður við holræsagerð hreppsins greiðist úr sveitarsjóði. Til þess að standa straum af kostnaði skal hver húseigandi greiða sveitarsjóði tengigjald, er hann tengir hús sitt holræsakerfi hreppsins. Tengigjald þetta ákveður hreppsnefnd árlega. Tengigjald skal greitt eða um það samið áður en tengingin við aðalræsið er leyfð.

Þá skal og hver húseigandi greiða árlegt holræsagjald í sveitarsjóð, er nemi 0.1% af fasteignamati húss og lóðar þó aldrei lægra en kr. 2 000.00.

Heimilt er hreppsnefnd að hækka eða lækka gjöld skv. þessari grein um allt að 50 af hundraði, án sérstaks samþykkis ráðuneytis.

5. gr.

Húseigendum ber að greiða holræsagjaldið og bera þeir einir ábyrgð á greiðslu þess. Gjaldið hefur lögtaksrétt og er tryggt með lögveði í fasteigninni næstu tvö ár eftir gjalddaga, með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði að aðfararveði. Gjalddagi holræsagjalda er 15. janúar ár hvert.

6. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varðar sektum allt að kr. 10 000.00 nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af hreppsnefnd Neshrepps utan Ennis, staðfestist hér með samkvæmt vatnalögum nr. 15 20. júní 1923 til þess að öðlast gildi þegar í stað.

Félagsmálaráðuneytið, 4. nóvember 1976.

F. h. r. Hallgrímur Dalberg.

Skúli Sigurðsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.