Félagsmálaráðuneyti

33/1995

Reglugerð um lífeyrissjóðsgreiðslur Ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota. - Brottfallin

Reglugerð

um lífeyrissjóðsgreiðslur Ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota.

1. gr.

Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota ábyrgist kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs um vangoldin lífeyrissjóðsgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag að uppfylltum skilyrðum III. kafla laga nr. 53/1993. Ábyrgðin takmarkast þó við lágmark 4. gr. 1. nr. 55/1980.

2. gr.

Ábyrgð sjóðsins á iðgjaldakröfum lífeyrissjóðs er háð því skilyrði að eðlilega hafi verið staðið að innheimtutilraunum af hálfu lífeyrissjóðs og lífeyrissjóðurinn hafi tvisvar ár hvert, 1. mars og 1. september, sent sjóðfélögum yfirlit yfir greidd iðgjöld vegna þeirra. Yfirliti þessu skal fylgja áskorun til sjóðfélaga að gera án tafar athugasemdir ef vanhöld sýnast á iðgjaldaskilum. Komi athugasemd ekki fram skv. 8. gr. laga nr. 53/1993 er viðkomandi lífeyrissjóður einungis ábyrgur fyrir réttindum á grundvelli iðgjalda þessara að því marki sem þau fást greidd, enda hafi lífeyrissjóðnum ekki verið kunnugt um iðgjaldakröfuna.

3. gr.

Eðlilegar innheimtutilraunir teljast því aðeins hafa farið fram að iðgjöld skv. innsendum skilagreinum, sem verið hafa í vanskilum í þrjá mánuði frá eindaga verði tekin til formlegrar innheimtu innan 15 daga frá útsendri lokaaðvörun lífeyrissjóðsins sem send hefur verið við lok þriggja mánaða vanskila og innheimtuaðili sjóðsins skal sýna fram á með sannanlegum hætti að málinu hafi verið framhaldið með eðlilegum hraða.

4. gr.

Iðgjöld í vanskilum sem sanna má með skilagrein byggðri á innsendum launaseðlum skulu innheimt með sama hætti og skilagrein vinnuveitanda. Lokaaðvörun til vinnuveitanda skal send innan 90 daga frá dagsetningu reglulegs yfirlits. Um innheimtu fer að öðru leyti eins og í 3. gr.

5. gr.

Hafi lífeyrissjóður hafið innheimtu á grundvelli áætlunar byggðri á síðustu skilagrein vinnuveitanda, og sú áætlun er síðar staðfest að hluta eða að öllu með launaseðlum launþega eða á annan hátt sem sjóðsstjórn metur fullnægjandi skal um ábyrgð fara eins og greinir í 2. gr.

6. gr.

Heimilt er Ábyrgðasjóði launa að viðurkenna kröfu grundvallaða á launaseðlum þó ekki hafi verið gætt þeirra fresta sem að framan greinir, ef sérstaklega hefur staðið á, svo sem að viðkomandi lífeyrissjóður hafi ekki í tæka tíð getað sent sjóðfélaga lögboðið yfirlit eða hafið innheimtu á grundvelli áætlunar, þar eð honum hafi ekki verið kunnugt um launagreiðandann og tilvist iðgjaldskröfunnar.

7. gr.

Reglugerð þessi sem sett er á grundvelli 8. gr. laga nr. 53/1993 um Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytið, 6. janúar 1995.

Rannveig Guðmundsdóttir.

Berglind Ásgeirsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica