Félagsmálaráðuneyti

555/1994

Reglugerð um búsetu fatlaðra. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um búsetu fatlaðra.

1. gr.

Fatlaðir skulu eiga kost á að búa þannig sem best hentar hverjum og einum miðað við óskir hins fatlaða, aðstæður og þörf á þjónustu.

Búseta fatlaðra skal vera í almennri íbúðabyggð.

Um er að ræða eftirfarandi kosti, lögum samkvæmt:

A. Félagslegar íbúðir.

B. Verndaðar íbúðir

C. Sambýli.

D. Vistheimili.

E. Áfangastaði.

F. Heimili fyrir börn.

Heimili og stofnanir skv. C-F lið eru háð starfsleyfi félagsmálaráðuneytis séu þau rekin af sveitarfélögum, félagasamtökum eða sjálfseignarstofnunum.

2. gr.

Svæðisskrifstofur, í samvinnu við sveitarfélög eða félagasamtök, skulu stuðla að því að félagslegar íbúðir standi fötluðum til boða. Í því skyni skal svæðisskrifstofa gera áætlun um þörfina í samráði við húsnæðisnefnd viðkomandi sveitarfélags. Með félagslegum íbúðum er átt við íbúðir sem veitt eru lán til úr Byggingarsjóði verkamanna skv. lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Íbúðirnar eru á vegum sveitarfélaga, félagasamtaka eða sjálfseignarstofnana.

Heimilt er að veita fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til félagslegra íbúða, sbr. reglugerð um Stjórnarnefnd málefna fatlaðra nr. 204/ 1994.

Verndaðar íbúðir

3. gr.

Með vernduðum íbúðum er átt við íbúðir sem byggðar eru saman í húsi og skipulögð sérstök þjónusta fyrir húsið í heild sinni. Þar getur verið um að ræða húsvörslu, mötuneyti, sameiginlegt eldhús, sameiginlegt tómstundarými o.fl.

4. gr.

Verndaðar íbúðir geta verið á vegum sveitarfélaga, félagasamtaka eða sjálfseignarstofnana.

Íbúðirnar geta jöfnum höndum verið félagslegar íbúðir sem og íbúðir á almennum markaði í eigu ofangreindra aðila.

Verndaðar íbúðir eru leigðar hinum fötluðu. Eigandi ber ábyrgð á kostnaði við rekstur sameignar, en er heimilt að taka sérstakt gjald af leigutaka fyrir þá þjónustu sem þar er veitt.

Sambýli.

5. gr.

Sambýli eru heimili fámennra hópa fatlaðra, 16 ára og eldri, sem þarfnast að jafnaði nærveru starfsmanns.

Eigi skulu vera fleiri en 5-6 íbúar á hverju sambýli og skulu þeir hver um sig eiga kost á einkarými ásamt snyrtiaðstöðu ef kostur er.

Á sambýlum skal fjöldi starfsmanna ráðast af mati á þjónustuþörf íbúanna.

6. gr.

Stofnkostnaður sambýla er greiddur úr Framkvæmdasjóði fatlaðra, sbr. 1.-3. tölul. 40. gr. laga um málefni fatlaðra.

Launakostnaður starfsmanna greiðist úr ríkissjóði. Jafnframt greiðir ríkissjóður fæðisfé starfsmanna og rennur það í heimilissjóð sambýlisins, sbr. 3. mgr.

Annar rekstrarkostnaður greiðist af íbúum sambýlisins þannig að íbúarnir leggja að hámarki 75% af samanlögðum örorkulífeyri og tekjutryggingu eða jafngildi þess í sérstakan heimilissjóð. Heimilissjóðurinn skal standa undir sameiginlegum útgjöldum íbúanna, svo sem fæðiskostnaði, rafmagns- og hitakostnaði, opinberum gjöldum, kaupum á heimilistryggingu, afnotagjöldum af síma, sjónvarpi og útvarpi, svo og eðlilegu viðhaldi húsbúnaðar. Jafnframt skal heimilissjóðurinn standa undir kostnaði af viðhaldi á læsingum, vatnskrönum, raftenglum og öðru smálegu.

Vistheimili.

7. gr.

Með vistheimili er átt við sólarhringsstofnanir fyrir fatlaða á öllum aldri þar sem hinir fötluðu eiga heimili og fá nauðsynlega þjónustu.

Rekstrarkostnaður greiðist allur úr ríkissjóði og fá heimilismenn vasapeninga skv. lögum um almannatryggingar.

Áfangastaðir.

8. gr.

Með áfangastað er átt við dvalarstað fyrir fatlaða þar sem þeim er gefinn kostur á að búa tímabundið eftir að þeir hafa dvalið á stofnun og til að undirbúa sjálfstætt líf.

Um stofn- og rekstrarkostnað gilda sömu reglur og um sambýli, sbr. 3. mgr. 6. gr.

Heimili fyrir börn.

9. gr.

Börn á aldrinum 0-16 ára sem vegna fötlunar sinnar geta ekki búið í foreldrahúsum skulu eiga kost á búsetu á sérstökum heimilum fyrir börn. Skilyrði slíkrar vistunar er að hún sé í þágu barns og að ósk aðstandenda og að leitað hafi verið allra leiða til að styðja og styrkja fjölskyldu barns til að annast það. Umönnun og uppeldi, sem veitt er á heimilinu, skal fara fram í samráði við forráðamenn barns eftir því sem kostur er.

Um stofnkostnað gilda sömu reglur og um vistheimili, einnig um rekstrarkostnað eftir því sem við á.

Þjónusta við fatlaða.

10. gr.

Þjónusta við fatlaða skal ávallt veitt með þeim hætti að hún efli sjálfstæði þeirra og færni.

11. gr.

Fatlaðir sem búa sjálfstætt í íbúð eða í verndaðri íbúð eiga rétt á utanaðkomandi aðstoð:

A. Heimaþjónustu skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Hversu mikil þjónusta er veitt fer eftir mati á þjónustuþörf annars vegar og reglum viðkomandi sveitarfélags hins vegar.

B. Frekari liðveislu skv. lögum um málefni fatlaðra. Hversu mikil þjónusta er veitt fer eftir mati á þörf, röðun í forgang á svæðinu og því fjármagni sem veitt er til málaflokksins af hálfu ríkisins.

Jafnframt geta fatlaðir átt rétt á almennri liðveislu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags.

Um heimahjúkrun vísast til laga um heilbrigðisþjónustu. Aðstoð tengist einstaklingum og þörf þeirra á hverjum tíma.

12. gr.

Á sambýlum og vistheimilum skal fötluðum veitt sú þjónusta sem nauðsynleg er til að efla sjálfstæði þeirra og færni. Skal íbúunum veitt leiðsögn eftir þörfum og kappkostað að hafa þá með í ráðum um allt er varðar einkahagi þeirra og heimilishagi.

Íbúar á áfangastað fá félagslega hæfingu, stuðning og ráðgjöf.

Heimili fyrir börn skulu tryggja börnum þroskavænleg uppeldisskilyrði og nauðsynlega umönnun. Leitast skal við að þau fái notið þjálfunar og tómstunda utan heimilis svo sem frekast er kostur.

Rekstur á stofnunum og heimilum fatlaðra.

13. gr.

Framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu, eða starfsmaður í umboði hans, ber ábyrgð á starfsemi heimila og stofnana skv. C-F lið 1. gr., þ.e. starfsmannahaldi, innra starfi og samskiptum við aðra aðila, svo sem aðstandendur, vinnustaði, skóla og dagvist.

Framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu, eða starfsmaður í umboði hans, ber ábyrgð á vörslu einkafjármuna íbúanna og sameiginlegra sjóða þeirra á heimilum og stofnunum skv. C-F lið 1. gr.

Framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu skal fela tilteknum starfsmanni sambýla og áfangastaða að halda bókhald um fjárframlag íbúa til rekstrar heimilisins og er ábyrgur gagnvart íbúum eða umboðsmönnum þeirra um meðferð rekstrarfjármuna. Félagsmálaráðuneytið setur nánari reglur um bókhald þessara heimila.

Ákvæði 1.-3. mgr. eiga einnig við um heimili og stofnanir sem reknar eru af öðrum aðila en ríkinu eftir því sem við á.

Ákvörðun um búsetu og þjónustu.

14. gr.

Umsókn um búsetu í verndaðri íbúð, sambýli, vistheimili, heimili fyrir börn og áfangastað skal send til viðkomandi svæðisskrifstofu. Umsókn er því aðeins gild að hún komi frá hinum fatlaða eða forráðamanni hans.

Svæðisskrifstofa skal sjá um að þörf hins fatlaða fyrir þjónustu sé metin áður en ákveðið er um búsetu. Skal við matið haft samráð við greiningar- og ráðgjafaraðila.

Sé viðkomandi búsetuúrræði á vegum svæðisskrifstofu tekur svæðisskrifstofa ákvörðun um vistun í samráði við hinn fatlaða og væntanlegt sambýlisfólk hans.

Sé búsetuúrræði á vegum annars aðila en svæðisskrifstofu, þ.e. sveitarfélags, félagasamtaka eða sjálfseignarstofnunar, skal leita samþykkis þess aðila áður en ákvörðun um vistun er tekin í samráði við hinn fatlaða og væntanlegt sambýlisfólk hans.

15. gr.

Verði ágreiningur um afgreiðslu umsóknar um vistun skv. 14. gr. skal málið sent svæðisráði sem fjallar um það mál.

16. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er er samkvæmt lögum nr. 59/ 1992 um málefni fatlaðra, öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt er úr gildi fallin reglugerð fyrir sambýli nr. 541/1988.

Félagsmálaráðuneytið, 11. október 1994.

Guðmundur Árni Stefánsson.

Þorgerður Benediktsdóttir.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica