Félagsmálaráðuneyti

81/2001

Reglugerð um holræsagjald í Ísafjarðarbæ. - Brottfallin

1. gr.

Hverjum þeim sem á hús eða húshluta í Ísafjarðarbæ eða leigir lóð í sveitarfélaginu við götu eða opið svæði sem holræsi hefur verið lagt í ber að greiða árlegt holræsagjald til sveitarsjóðs.

Upphæð holræsagjaldsins skal vera 0,16% af fasteignamati allra húsa og lóða samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976, með síðari breytingum. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki holræsagjald.


2. gr.

Holræsagjald greiðist af hús- og íbúðareiganda, lóðareiganda ef um eignarlóð er að ræða en af leigutaka ef um leigulóð er að ræða og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Holræsagjaldið nýtur aðfararheimildar skv. 4. tl. 87. gr. laga nr. 15/1923, sbr. 10. tl. 1. mgr. laga um aðför nr. 90/1989, og má gera aðför í hinni skattskyldu eign án tillits til eigendaskipta. Holræsagjaldið nýtur lögveðréttar í lóð og mannvirkjum næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.


3. gr.

Bæjarstjórn getur samþykkt að fella niður eða lækka holræsagjald hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum samkvæmt heimild í 5. mgr. 87. gr. vatnalaga, sbr. lög nr. 137/1995.


4. gr.

Gjalddagar holræsagjalds eru þeir sömu og gjalddagar fasteignaskatta og greiðist holræsagjaldið með fasteignasköttum.


Reglugerð þessi, sem samin er og samþykkt af bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar skv. X. kafla vatnalaga nr. 15/1923, staðfestist hér með til þess að öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um holræsagjald í Ísafjarðarbæ nr. 39/1997, sbr. reglugerð nr. 10/1998.

Félagsmálaráðuneytinu, 23. janúar 2001.

F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson.
Guðjón Bragason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica